Gunnar Jóhannsson fæddist á Möðruvöllum í Eyjafirði 20. apríl 1935. Hann andaðist á hjúkrunarheimilinu Hlíð 25. október 2021.

Foreldrar hans voru Jóhann Valdemarsson, bóndi á Möðruvöllum í Eyjafirði og síðar bóksali á Akureyri, f. 22.6. 1911, d. 3.9 2004, og Helga Magnea Kristinsdóttur frá Samkomugerði í Eyjafirði, f. 13.2. 1911, d. 18.1. 1965.

Gunnar giftist 1.12. 1959 Heiðdísi Norðfjörð, sjúkraliða og rithöfundi. Foreldrar Heiðdísar voru Jón Aðalsteinn Norðfjörð, bæjargjaldkeri og leikari, f. 30.10. 1904, d. 22.3. 1957, og Anna Guðrún Helgadóttir, f. 24.7. 1920, d. 15.6. 2000. Síðar giftist faðir hennar Jóhönnu Ingvarsdóttur kjólameistara, f.10.6. 1911, d. 30.12. 2008, sem gekk Heiðdísi í móðurstað og ættleiddi hana. Synir Heiðdísar og Gunnars eru: 1) Gunnar Gunnarsson Norðfjörð, tónlistarmaður og organisti Fríkirkjunnar í Reykjavík, f. 26.7. 1961. Kona hans er Gréta Matthíasdóttir, forstöðumaður náms- og starfsráðgjafar hjá Háskólanum í Reykjavík, og eru börn þeirra Heiðdís Norðfjörð, f. 1983, Birta, f. 1987, og Katrín Sól, f. 2001. Þau eiga þrjú barnabörn. 2) Jón Norðfjörð rekstrarstjóri, f. 19.3. 1966. Kona hans er Ragnheiður Björg Svavarsdóttir og eru börn þeirra Jón Heiðar, f. 1991, Svavar Árni, f. 2005, Eva María, f. 2010, og Helga Lind, f. 2017. Þau eiga eitt barnabarn. 3) Jóhann Valdemar Norðfjörð framkvæmdastjóri, f. 18.8. 1971. Sambýliskona hans er Linda Björk Rögnvaldsdóttir viðskiptafræðingur, f. 1989, og eru börn þeirra Gunnar Ögri, f. 2000, og Nína Rut, f. 2018.

Systkini Gunnars eru: Gerður, f. 20.2. 1933, d. 2.4. 2019, María Kristín, f. 1.12. 1939, Guðrún, f. 14.5. 1944, og Jóhann, f. 24.8. 1950.

Gunnar lærði bifvélavirkjun á Bifreiðaverkstæði BSA; tók sveinspróf 2.11. 1957 en vann eftir námið í um þrjú ár í bókabúð föður síns, Bókaverzlun Jóhanns Valdemarssonar. Eftir það fór hann að vinna sjálfstætt sem bifvélavirki og hlaut meistarabréf í iðninni 17.1. 1962. Gunnar var góður verkmaður og áhugamaður um blóma- og trjárækt. Hann hafði alla tíð mikið yndi af bókum og átti veglegt safn bóka, einkum þjóðsagna. Hluti safnsins er nú varðveittur á Landsbókasafni í Þjóðarbókhlöðu.

Útförin fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 12. nóvember 2021, klukkan 13.00.

Elsku afi minn!

Í annað sinn á þessu ári hellast yfir mig minningar úr Hraungerðinu, litaðar af sorg og söknuði, en ennfremur hlýju og þakklæti fyrir hversu dásamlega æsku ég átti hjá ykkur ömmu.

Nú ertu farinn til hennar og það er ljúfsár huggun að vita að þið eruð aftur saman.



Þú hafðir þig aldrei mikið í frammi og fórst þér að engu óðslega, en hafðir óendanlega hlýja og styrka nærveru. Eins og þýður og traustur bassatónn, strokinn með boga, sem öll hljómsveitin getur stutt sig við. Nú er þessi tónn þagnaður og þögnin er hávær.



Það var svo gott að koma til ykkar ömmu. Ég gat gengið að því vísu að ég fyndi þig annaðhvort inni í eldhúsi með kaffi í bolla eða inni í stofu í uppáhaldsstólnum þínum með bók í hendi. Líkt og amma, þá breiddirðu alltaf út faðminn þegar þú sást mig koma og sagðir: Þarna ertu, lambadrottningin mín! Og ég skreið í fangið þitt svo þú gætir tekið utan um mig og útskýrt fyrir mér í hundraðasta skipti hvað lambadrottning þýðir. Fyrsta lambið á vorin heitir lambadrottning eða lambakóngur, og þú varst fyrsta lambið okkar ömmu, sagðir þú.

Svona var ég alltaf heiðursgestur hjá ykkur. Alltaf svo velkomin. Alltaf svo elskuð.



Það var svo gaman að fá að brasa með þér í allskonar verkefnum, og ég lærði svo margt af þér. Þú kenndir mér vísur og ljóð. Ég fékk að bauka með þér í garðinum eða á verkstæðinu, og svo auðvitað skreppa með þér í búðina. Ég held að þú hafir ekki í eitt skipti sagt nei við mig þegar ég bað þig að kaupa eitthvað spennandi í búðinni í Hrísalundi.

Þú skammaðir mig heldur aldrei, ekki einu sinni þegar ég stríddi þér. Eins og þegar ég var að hjálpa þér að taka upp kartöflur eitt haustið. Þú varst svo stoltur af kartöflunum þínum. Varst með margar tegundir og bókhald um nöfnin á þeim. En mér fannst hundleiðinlegt að róta í moldinni og langaði bara aftur heim í Hraungerði, svo að ég, fjögurra ára, fyllti kartöfluföturnar af mold og setti nokkrar kartöflur efst. Ég sá fyrir mér að þú færir fyrr heim ef föturnar litu út fyrir að vera fullar. Ég fékk ósk mína uppfyllta. Þú keyrðir mig heim til ömmu svo að þú gætir klárað að taka upp í friði.

En þú áttir til að stríða mér á móti. Þú skrökvaðir einu sinni að mér að hákarlsbitinn, sem ég var búin að betla af þér og þú tálgaðir niður í litlar flísar með vasahníf, væri sennilega eitraður. Ég sá reyndar við þér og rétti þér bitann aftur og bað þig þá að smakka hann fyrst. Sem skýringu gaf ég að ef annað okkar ætti að drepast af þessum hákarli, þá væri það bara sanngjarnt að ég fengi að lifa aðeins lengur en til 5 ára aldurs. Þetta fannst þér ótrúlega fyndið og rifjaðir gjarnan upp síðar, þegar við sátum að spjalli yfir kaffibolla.



Þú kenndir mér auðvitað að keyra bíl. Gíra, bakka í stæði, keyra bæði innanbæjar og úti á þjóðvegum. Mæla olíu og skipta um dekk. Kvöld eftir kvöld fórum við að malarnámunum við Bægisáreyrar og þar fékk ég að æfa mig að keyra rauða BX-inn þinn. Þú útskýrðir fyrir mér allt sem ég gæti mögulega verið spurð um í munnlega ökuprófinu, svo vel, að þegar ég átti að segja prófdómaranum frá því hvernig maður skiptir um dekk, þá stoppaði hann mig á lið númer tvö (sem var að passa að snúa framhjólunum á þann veg að ef bíllinn dettur af tjakknum þá rennur hann ekki í veg fyrir umferð) og sagði: Ég nenni ekki að hlusta á þetta, þú veist augljóslega hvað þú ert að gera!



Minningarnar eru óteljandi. En sennilega þykir mér vænst um að hafa flutt aftur norður í þessi rúm tvö ár sem ég var í VMA og hafa fengið tækifæri til þess að upplifa hversdagsleika með ykkur ömmu aftur. Ég er svo þakklát fyrir að hafa getað komið til ykkar í Hraungerðið þegar ég var í hádegishléi og hitt ykkur og spjallað við ykkur í smástund, oft í viku. Og að þið skylduð vera nálægt þegar Jón Gunnar minn kom í heiminn.

Að fá að rifja upp með ykkur þessar hlýju æskuminningar og búa til nýjar sem munu fylgja mér alla ævi. Þið eruð svo stór hluti af því hver ég er.



Elsku afi minn!

Hérna megin ríkir þessi þrúgandi þögn, en ég er þess fullviss að í sumarlandinu hljómi tónlistin ykkar ömmu áfram. Góða ferð yfir í ljósið.

Þín sonardóttir,

Heiðdís Norðfjörð yngri.