Guðmundur Gíslason húsasmíðameistari fæddist í Reykjavík 15. september 1958. Hann lést á Landspítalanum 29. október 2021.
Foreldrar hans voru Eyrún Þorleifsdóttir, f. 14. október 1926, d. 27. september 2002, og Gísli Guðmundsson, f. 2. júlí 1931, d. 8. júní 2010. Systkini Guðmundar eru: 1)Þorleifur, f. 26. nóvember 1951, maki Ásdís Jónsdóttir, 2) Stefanía Vigdís, f. 16. júlí 1956, maki Magnús Ingimundarson, 3) Guðrún Torfhildur, f. 10. nóvember 1959, maki Magnús Atli Guðmundsson, 4)Guðbjörg Þórey, f. 2. ágúst 1961.
Guðmundur giftist hinn 17. desember 1995 Hafrúnu Hrönn Káradóttur, f. 27. júní 1963. Foreldrar hennar eru Kári Friðriksson, f. 29. desember 1934 og Kolbrún Þorsteinsdóttir, f. 26. ágúst 1936. Systkini Hafrúnar eru: 1) Jóhann Rúnar, f. 27. mars 1953, maki Guðrún Magnúsdóttir, 2) Gunnar Hermóður, f. 3. júní 1954, maki Ingveldur Tryggvadóttir, þau eru bæði látin, 3) Margrét, f. 29. september 1958, maki Sveinn Kristbjörn Sveinsson, 4) Halla Steina, f. 3. janúar 1961, maki Friðrik Björnsson.
Börn Guðmundar og Hafrúnar eru: 1) Eyrún, f. 12. október 1994, maki Revazi Shaverdashvili, f. 5. október 1983, og 2) Jakobína, f. 19. apríl 2000, maki Bjarki Grettisson, f. 19. apríl 1997. Hafrún átti fyrir börnin: 1) Kolbrún Agnes, f. 13. janúar 1981, börn hennar eru: a) Karen Dögg, f. 22. október 2001, maki Thomas Kennedy, f. 20. mars 1998, barn þeirra er Elvar Alex, f. 21. mars 2019, b) Viktoría Helga, f. 7. júlí 2009. 2) Þorsteinn Smári, börn hans eru: a) Dagmar Ósk, f. 10. febrúar 2016, og b) Óliver Smári, f. 28. janúar 2018.
Guðmundur ólst upp í Bústaðahverfinu og fór svo í iðnnám að loknum grunnskóla þar sem hann lærði húsasmíði og lauk svo meistaraprófi í húsasmíði 1984. Hann vann alla sína tíð hjá Reykjavíkurborg frá 16 ára aldri allt til dánardags þar sem hann byrjaði sem nemi í húsasmíði og endaði sem fasteignastjóri.
Guðmundur fluttist með foreldrum sínum í Breiðholtið 1978 og bjó í Breiðholtinu það sem eftir var. Hann keypti sína fyrstu íbúð 1987 í Krummahólum 6 og bjó þar þegar hann kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni. Eftir að þau stofnuðu fjölskyldu fluttust þau í Fífusel þar sem þau bjuggu í 23 ár. Vorið 2020 fluttu þau í Krummahóla 6.
Útför Guðmundar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 15. nóvember 2021, klukkan 13
Mig langar að kveðja hann Gumma bróður í nokkrum orðum. Við Gummi vorum
afskaplega ólík á allan hátt. Hann var hægur og rólegur en það er varla
hægt að segja það um mig. Þegar við vorum börn þá slógumst við og rifumst
eins og hundur og köttur enda gat Gummi verið afskaplega stríðinn. Hann var
líka mjög forvitinn og reif allt í sundur sem hann gat og oftast tókst
honum að koma þessu saman aftur þó stundum kæmi fyrir að eftir stæði ein
eða tvær skrúfur. Þegar við vorum 2 og 3 ára þá vorum við að rífast um
hamar og endaði það með því að Gummi lamdi mig með honum í höfuðið. Ég er
ennþá með skallablett eftir þetta en hann sagði alltaf að ég ætti að þakka
honum fyrir því hann hafi losað um leiðslurnar í höfðinu á mér og því hafi
ég átt svona gott með að læra. Síðar lærði hann að nota hamarinn og varð
menntaður húsasmíðameistari.
Þegar ég var komin með fjölskyldu þá var hann alltaf partur af henni. Hann
fór mikið á skytterí í gamla daga og mér fannst ekkert tiltökumál að börnin
mín sem voru þá 5 og 8 ára færu með honum að veiða. Maður vissi alltaf að
þau væru í góðum höndum. Ætli þetta myndi ekki flokkast sem barnaverndarmál
í dag.
Eftir að Gummi kynntist Hafrúnu og eignaðist sjálfur fjölskyldu þá
breyttist ekkert mikið, við vorum bara aðeins fleiri. Í upphafi voru þetta
gönguferðir og tjaldútilegur, næst fengum við okkur tjaldvagn og að lokum
fellihýsi. Árlega var farið á Stóra-Hof ef ytri aðstæður komu ekki í veg
fyrir það. Fjölskylduferðalagið á hverju ári og síðan hin ýmsu ferðalög um
landið. Eins var alltaf farið norður í land til að heimsækja Önnu Siggu
vinkonu.
Þeir sem þekktu Gumma vita að hann var mjög sérlundaður þegar kom að mat.
Alltaf stríddum við hvort öðru með þetta, mitt kjöt getur næstum flúið af
diskinum en hans varð að vera steindautt, enginn litur mátti sjást og helst
átti kjötið að detta af beinunum. Sama var með meðlætið, eingöngu kartöflur
og brún sósa. Einu sinni fyrir næstum 40 árum þá ætlaði ég að plata hann.
Ég bjó til bearnaise-sósu úr pakka, sigtaði dillið úr og setti matarlit í
sósuna. Hann borðaði sósuna, ekki mikið af henni en sagði ekkert. Eftir að
hann komst að því að ég hafði reynt að plata hann þá kom hann alltaf með
sósubréf með sér og bjó til sína eigin sósu þegar ég bauð honum í
mat.
Á hverju ári erum við með bollukaffi þar sem flestir í fjölskyldunni mæta.
Gummi hefur alltaf séð um að gera deigið, Hafrún setur á plötur og ég sé um
ofninn. Um jólin steikjum við laufabrauð og þá sker Hafrún og allir hinir
út, ég steiki laufabrauðið og Gummi pressar það og gengur frá. Matarboðin á
gamlárskvöld eru Pollýönnuboð og alltaf kemur Gummi með vel eldað lambalæri
eða hrygg og býr svo til sósuna sína og leggur á borðið. Núna er spurning
hvernig þetta á allt að ganga upp þegar hann er ekki lengur til staðar.
Eitt er víst að hann myndi ekki vilja að þessar hefðir féllu niður enda
naut hann þessa samverustunda eins og við hin.
Ég, Gummi og Dísa systir eigum saman sumarbústað og á síðustu árum hefur
útilegunum fækkað en stundunum í bústaðnum fjölgað. Gummi elskaði að vera
uppi í bústað með fjarstýrðu módelin sín. Einnig elskaði hann að fara í
gönguferðir inn í dal og bara njóta friðsældarinnar og slappa af. Þar sem
Gummi var lærður smiður þá var lítið gert uppí bústað nema hann sæi um
verkið en við hin vorum handlangarar hjá honum. Síðasta sumar fórum við í
að stækka pallinn og vorum við Gummi flestar helgar frá því í maí fram á
haust að vinna í honum. Núna er gott að geta litið til baka og skoðað
myndir frá sumrinu og rifjað upp þennan yndislega tíma.
Takk Gummi fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Þín verður sárt
saknað.
Elsku Hafrún, Eyrún og Jakobína. Hugur minn er hjá ykkur á þessum erfiða tíma.
Guðrún Torfhildur (Gunna systir).