Magnhildur Magnúsdóttir fæddist á Brennistöðum í Eiðaþinghá 5. september 1926. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Dyngju 29. október 2021. Foreldrar hennar voru Guðbjörg Sigríður Sigbjörnsdóttir f. 12.4. 1890, d. 12.11. 1968, og Jón Magnús Þórarinsson, f. 15.12. 1880, d. 9.12. 1954, bændur á Brennistöðum. Systkini hennar Anna María, f. 6. febr. 1912, d. 25.11. 1963, Ingibjörg, f. 8. okt. 1914, d. 19.8. 1950, Margrét, f. 13. maí 1918, d. 23.11. 1995, Sigbjörn, f. 21. maí 1919, d. 19.3. 1993, Soffía, f. 2. okt. 1920, d. 25.5. 1988, Þórunn, f. 1. apríl 1924, d. 3.4. 2016, Svanhvít, f. 15. apríl 1925, d. 8.9. 2003, Magnhildur, f. 5. sept. 1926, d. 29.10. 2021, Arnþór Reynir, f. 28. des. 1931.
Magnhildur giftist Kristjáni Ólasyni klæðskera 5. apríl 1950, þau byrjuðu sinn búskap á loftinu í Kaupfélagshúsinu á Reyðarfirði við hliðina á saumastofu KHB þar sem Kristján starfaði. Síðan byggðu þau hús á Búðareyrinni sem þau nefndu Hvol, þar bjuggu þau þar til þau slitu samvistum 1964 og Kristján flutti á Akureyri.
Magnhildur bjó í Hvoli til 2005 er hún veiktist og flutti í sitt fæðingarhérað. Þau eignuðust tvö börn Guðbjörgu Torfhildi , f. 10.11. 1950, d .2.4. 2020, og Magnús, f, 22.1. 1953, maki hans er Guðrún María Þórðardóttir, eiga þau fjögur börn, Svein Elmar, f. 12.3. 1978, Kristján Orra, f. 18.6. 1982, Hafliða Bjarka, f. 28.4. 1985, og Magnhildi Ósk, f. 1.12. 1991.
Magnhildur lauk Alþýðuskólaprófi frá Eiðum 1947 og Húsmæðraskólaprófi frá Laugalandi í Eyjafirði 1949.
Hún var verkamaður og húsmóðir, starfaði hjá Landsíma Íslands nokkur ár, en lengstum hjá KHB í frystihúsi.
Útför Magnhildar fer fram frá Egilsstaðakirkju í dg, 13. nóvember 2021, klukkan 14.
Útförinni verður streymt:
https://egilsstadaprestakall.com/
Hlekk á streymi má finna á:
https://www.mbl.is/andlat
Þá er nú komið að því, sem ég sem barn vildi að aldrei gerðist, að þú
kveddir þessa tilveru, en svona er lífið. Margs er að minnast, hvað þú
varst góð og ósérhlífin, vannst myrkranna á milli til að sjá fyrir okkur
Bobbu meðan við gerðum ekkert gagn í þeim efnum, hvað lífið var skemmtilegt
við leik frá morgni til kvölds, alltaf sól og blíða, við Bjarni vinur minn
alltaf niðri á Kaupfélagsbryggju að veiða sem okkur var þó stranglega
bannað, þú með stöðugar áhyggjur af að við færum okkur að voða eða fremdum
einhver prakkarastrik, sem við vorum ekki alveg saklausir af, ekki fannst
ykkur Stúllu gaman að því þá, en ekkert þótti ykkur skemmtilegra en að
rifja þessi afglöp okkar upp.
Skilnaður ykkar pabba var þér mjög erfiður og er það í eina skiptið sem ég
sá þig bugaða og vil ekki hugsa þá hugsun til enda hvað hefði orðið ef
góðmennin í Dvergasteini hefðu ekki tekið okkur upp á arma sína.
En svo fór smám saman að sjá til sólar hjá okkur og við fluttum aftur í
Hvol. Þinn aðalstarfsvettvangur var hjá KHB í frystihúsi og
sláturhúsi.
Ég man hvað þú varst glöð þegar þú fékkst vinnu á Símstöðinni sem
talsímavörður og grunar mig að Mæja vinkona þín hafi þar átt hlut að
máli.
Þegar ég lauk unglingaprófi var í fyrsta sinn boðið upp á miðskóla á
Reyðarfirði, en mig langaði að fara í Eiða sem varð svo raunin, ég fann að
þú varst ekki sátt en samt stappaðirðu í mig stálinu, þá sennilega sem
gömul Eiðasál. Þú varst iðulega með hugann á þínum fæðingarstað,
Brennistöðum, en þar rákuð þið systur sumarbúðir í ykkar sumarfríum í Gamla
bænum í allmörg sumur, eftir að hafa lesið minningargrein um afa þinn,
Þórarin Jónsson, þá skildi ég hve römm sú taug var.
Svo kom áfallið síðla sumars 2005, heilablóðfall, misstir málið, lamaðist
alveg hægra megin, ekki datt mér í hug að þú myndir rísa upp aftur, en með
seiglunni tókst þér að ná nokkurri heilsu og byrjuð búskap á Egilsstöðum í
mars 2006 til 2016 er þú færðir þig yfir á Hjúkrunarheimilið Dyngju, þar
sem þú undir hag þínum vel, og verður starfsfólki þar seint fullþakkað
fyrir ást og umhyggju í þinn garð.
Annað áfall varð þér þungbært en þú barst þann harm í hljóði, er Bobba
systir dó í apríl 2020, voru aðstæður þannig að þú áttir ekki kost á að
vera við útför hennar vegna faraldursins sem nú geisar, heldur voruð þið
nöfnur múnderaðar upp í geimfarabúninga til að sitja saman fyrir framan
sjónvarp þá stund er útförin varði, stóðst svo uppáklædd í
herbergisglugganum þínum er líkfylgdin staldraði við á bílastæðinu og
kvaddir dóttur þína í síðasta sinn, en enginn heyrði þig kvarta.
Ég vildi að ég gæti státað af því að vera lítið brot af því sem þú hafðir
til brunns að bera.
Eitt var þér þó kærara en allt annað í þessari veröld og voru það
ömmubörnin þín, þau voru þér allt og þú þeim allt.
Vertu nú sæl mamma mín og ég bið að heilsa öllum þarna hinum megin, það
veit ég að það hafa verið fagnaðarfundir þar, hugsa til þín á hverjum degi,
og eins biður Nunna fyrir kveðjur og þakkir fyrir allt.
Að endingu fljóta hér með vinarorð í bundnu máli sem ort voru til afa þíns
og ömmu á Brennistöðum að þeim látnum, höfundur Kristján Jónsson frá Hrjót.
Mér finnst svo margt í þér skína þar í gegn.
Þeir sem ryðja braut og byggja
brú á milli hugar túna.
Ei að sínum högum hyggja
hafa jafnan hvílu búna.
Hann sem leysti hvers manns vanda
hýsti sérhvern vegfaranda.
Höndin hans var greið og gjöful
göfugmennska er jafnan þögul.
Þótt við stöndum hrygg í huga,
hér á þessum stað,
látum ekkert yfirbuga,
umhugsun um það,
hvað hér var af höndum leyst
í hálfa öld og meir.
Hvaða hjálp og hvaða huggun.
Hjálp sem aldrei deyr.
Sjáið ekki sólarmerkið
sett af drottins hönd?
Upp af hennar lága leiði
lýsa fjall og strönd.
Heyrið ekki engla óminn
ymja um loftin blá?
Heyrið ekki sigursöngva
sjálfum drottni hjá?
Það er gleði okkar allra
að eiga minning þá.
Allt hið göfga sem það sigrar
settu marki að ná.
Hún sér hafði haslað völl
Í hjarta sjerhvers manns.
Hún sem hafði lifað lengst
í ljósi kærleikans.
Þinn sonur,
Magnús Kristjánsson.