Karl Bjarnason múrari fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 16. nóvember 1940. Hann lést á heimili sínu í Hafnarfirði 3. nóvember 2021.

Foreldrar hans voru Bjarni Guðmundur Friðriksson sjómaður, f. 31. júlí 1896 á Flateyri í Önundarfirði, d. 5. nóvember 1975, og Sigurborg Sumarlína Jónsdóttir húsmóðir, f. 23. apríl 1903 á Gelti í Súgandafirði, d. 6. apríl 1991. Karl var tólfti í röð sextán systkina. Látin eru óskírður drengur, Elísabet, Bergþóra, Ása, Friðrik, Þórhallur, Andrés, Karl eldri, Sigríður, Eyjólfur og Anna. Á lífi eru Páll, Arnbjörg, Borghildur og Hermann.

Hinn 28. desember 1963 giftist Karl Hildi Þorsteinsdóttur, f. 3. júlí 1944, frá Góustöðum á Ísafirði. Börn þeirra eru: 1) Auður, f. 4. maí 1962. Maður hennar er Erling Pétur Erlingsson, f. 29. apríl 1964. Börn þeirra eru Erling Karl, f. 1. desember 1987, maki hans er Hildur Björk Pálsdóttir, f. 5. mars 1993, Atli Freyr, f. 6. júní 1989 og Hildur, f. 27. júní 1998. 2) Þorsteinn Sveinn, f. 21. maí 1963. Kona hans er Úlfhildur Jónasdóttir, f. 13. október 1963. Stjúpsonur er Hrafn Ingason, f. 22. september 1988, sonur er Hlynur, f. 15. ágúst 2001. 3) Svanhildur, f. 28. desember 1966. Maður hennar er Anton Magnússon, f. 19. mars 1966. Stjúpdóttir er Rakel Ósk, f. 9. júlí 1991 og synir eru Breki Már, f. 29. júlí 2003 og Dagur Örn, fæddur 19. janúar 2009. 4) Lilja Guðríður, f. 31. mars 1975. Maður hennar er Jónas Þór Oddsson, f. 3. október 1977. Börn þeirra eru Magni Snær, f. 9. mars 2003, Sunna Katrín, f. 4. júlí 2006 og Karl Oddur, f. 28. október 2011.

Jarðsett verður 17. nóvember 2021 klukkan 13.
Streymt verður frá athöfninni:

https://youtu.be/OTFOB0wi338

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku besti pabbi, það er svo ótrúlega sárt að þurfa að kveðja, sárt að sakna og svo mikið sem við hefðum viljað segja.

Frá því við vorum smákrakkar höfum við heyrt óteljandi sinnum frá fólki hversu góður og hlýr maður pabbi okkar var. Eruð þið krakkarnir hans Kalla, vitið þið að hann pabbi ykkar er alveg einstakur maður? Það var alveg rétt, þú varst alveg einstakur, sama hvernig á það er litið, þú varst alinn upp á einum afskekktasta vita landsins, Galtarvita, í mjög stórum systkinahópi. Enn þann dag í dag er eingöngu hægt að komast að Galtarvita sjóleiðina eða gangandi yfir fjallið Gölt. Æskusögur þínar voru því sannkallaðar ævintýrasögur, dragandi kú yfir Göltinn, gangandi 10 ára gamall yfir fjall til að fara í sveit í Skálavík og veiðandi silunga með höndunum einum saman.

Það eina sem pabbi talaði um með eftirsjá var skortur á skólagöngu því hann byrjaði ekki í grunnskóla fyrr en fjölskyldan flutti frá Galtarvita til Suðureyrar þegar pabbi var 11 ára gamall. Pabbi lagði því alla tíð áherslu á menntun við okkur systkinin. Þrátt fyrir litla grunnskólagöngu tókst pabba engu að síður að klára múriðn í Iðnskólanum í Reykjavík. Pabbi kynntist mömmu 1961 á balli í Súgandafirði og byrjuðu þau búskap sinn á Suðureyri. Áhugi pabba á múriðn varð hins vegar til þess að þau fluttu til Reykjavíkur 1967. Að náminu loknu fór pabbi síðan að vinna við uppbyggingu Norðurbæjarins í Hafnarfirði og sú vinna leiddi til þess að unga fjölskyldan fluttist í Hafnarfjörðinn 1972. Múriðnin hefur því að mörgu leyti verið örlagavaldur í lífi fjölskyldu okkar. Pabbi og mamma bjuggu síðan alla tíð í Hafnarfirði og þrjú af okkur systkinunum búa þar enn og það fjórða hefur eingöngu lagt í að flytja til Garðabæjar.
Það eru 60 ár síðan pabbi og mamma kynntust, á dánardegi pabba voru komin 59 ár síðan þau settu upp hringana. Allan þennan tíma hafa þau verið ótrúlega samheldin hjón, enda hefur mamma alltaf dekrað við hann Kalla sinn.
Þó svo að pabbi hafi unnið mikið alla tíð voru áhugamálin mörg og það sem við minnumst hans helst fyrir. Pabbi var alla tíð mikill íþróttamaður, keppti í frjálsíþróttum á yngri árum, bridds, badminton og svo tók golfið við árið 1974, fyrst í Öndverðarnesi og svo einnig í golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði árið 1980. Golf var á þeim tíma ekki jafn vinsæl íþrótt og hún er í dag og fengum við systkinin oft athugasemdir frá vinum okkar um hvaða furðulega íþrótt þetta væri nú sem foreldrar okkar væru að eltast við út um allt land! En í golfinu fundu mamma og pabbi sameiginlegt áhugamál sem átt hefur hug þeirra alla síðustu fimm áratugina. Tvö af okkur systkinunum höfum svo fylgt þeim eftir á golfvöllinn og það er fátt meira gefandi en að geta stundað áhugamál með foreldrum sínum.
Þrátt fyrir mörg íþróttaafrekin hefur pabbi alltaf verið ótrúlega hógvær og rólegur maður sem skiptir mjög sjaldan skapi. Þrátt fyrir rólega yfirbragðið, var hann með eindæmum hnyttinn í tilsvörum og með ótrúlega mikið keppnisskap. Keppnisskapið birtist annars vegar í íþróttaiðkuninni þar sem nokkur vel valinn fúkyrði fengu að fjúka þegar illa gekk á golfvellinum eða hjá uppáhaldsliðinu í sjónvarpinu, hins vegar birtist keppnisskapið einnig í ótrúlegri vandvirkni í vinnu og pabbi var margrómaður fyrir hæfileika sína í flísalögnum.
Pabbi hafði ótrúlega góða nærveru, því þrátt fyrir rólega og á stundum hlédræga fasið laðaðist fólk að honum úr öllum áttum, fjölskylda, vinnufélagar, Súgfirðingarnir, golffélagar, badmintonfélagar, briddsfélagar og svo mætti lengi telja. Meira að segja gæludýr okkar systkinanna sáu ekki sólina fyrir honum.
Pabbi fór ekki í neitt manngreinarálit og tók öllu fólki opnum örmum. Pabba var annt um fólkið sitt umfram allt, alltaf áhugasamur um hvað börnin og barnabörin væru að gera, alltaf pínu áhyggjufullur líka yfir hvort ekki væri allt í lagi með alla. Hann hafði lag á að sjá jákvæðu hliðina á málunum og hvetja okkur systkinin áfram á sinn rólega hátt.
Það er svo sárt að fá ekki meiri tíma með þér og svo erfitt að trúa því að þessi hola sem nú er í hjarta okkar sé komin til að vera. Við vitum samt að þú hefðir viljað að við héldum áfram að lifa og njóta lífsins, hugsa um hana mömmu og okkar nánustu og sjá fegurðina í litlu hlutunum.
Við huggum okkur við það að allt fólkið þitt hefur örugglega tekið vel á móti þér í sumarlandinu, þar sem þú spilar örugglega golf með Seve Ballesteros og færð þér svo heitt súkkulaði og jólaköku þegar 18 holurnar eru búnar.
Við sjáumst síðar elsku pabbi, góða nótt og sofðu rótt.

Auður (Auja), Þorsteinn (Steini), Svanhildur (Svana) og Lilja.