Guðrún Guðlaugsdóttir fæddist í Gegnishólaparti í Gaulverjabæjarhreppi 15. ágúst 1924. Hún lést á Landspítalanum 30. október 2021. Foreldrar hennar voru Guðbjörg Friðfinnsdóttir, f. 13. júlí 1906, d. 11. apríl 1930, og Guðlaugur Pálsson, kaupmaður á Eyrarbakka, f. 20. febrúar 1896, d. 16. desember 1993. Systkini Guðrúnar samfeðra: Ingveldur, f. 1928, d. 2017, Jónas, f. 1929, d. 2019, Haukur, f. 1931, Páll, f. 1939, Steinunn, f. 1942, Guðleif, f. 1945.

Guðrún giftist 1947 Guðjóni Gunnarssyni vélvirkja, f. 31. desember 1924, d. 18. mars 1950. Foreldrar hans voru Jóhanna Malmquist og Gunnar I.H. Júlíusson. Seinni maður Guðrúnar frá 14. janúar 1956 var Magnús Vilhjálmsson, húsa- og skipasmiður, f. 14. janúar 1926, d. 16. janúar 2012.  Foreldrar hans voru Bergsteinunn Bergsteinsdóttir, f. 4. september 1888, d. 9. apríl 1985, og Vilhjálmur Guðmundsson, f. 24. september 1876, d. 24. febrúar 1962. Dóttir þeirra er Guðbjörg Magnúsdóttir kennari, hennar maður er Árni Jakob Larsson rithöfundur.

Guðrún fluttist frá Eyrarbakka til Reykjavíkur tveggja ára gömul. Móðir hennar fékk berkla og dvaldist langdvölum á Vífilsstaðaspítala og lést þar þegar Guðrún var 6 ára gömul. Hún ólst því upp hjá móðurömmu sinni Guðrúnu Jóhannesdóttur og móðursystrum sínum, þeim Guðrúnu og Pálínu Friðfinnsdætrum. Hún gekk í Miðbæjarskólann og síðar Ingimarsskólann þaðan sem hún lauk gagnfræðaprófi. Síðar lá leiðin í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Guðrún vann í bókbandi í nokkur ár en mestan sinn starfsaldur vann hún á skrifstofu hjá Smjörlíki sf., alls í 34 ár.

Útför Guðrúnar fer fram frá Fossvogskapellu í dag, 15. nóvember 2021, og hefst athöfnin kl. 15.

Guðrún andaðist skömmu fyrir átta að morgni 30. okt. 97 ára gömul. Faðir hennar, Guðlaugur kaupmaður á Eyrarbakka, varð 98 ára gamall. Vatnsmýrarmaðurinn hefur nýlega sagt að sumir hafi viðgerðargen sem útskýri langlífi ákveðinna ætta. Haukur bróðir Guðrúnar varð 90 ára gamall á þessu ári og Jónas bróðir einnig 90 ára gamall í hittifyrra en hann lézt skömmu síðar. Ingveldur systir hennar dó 89 ára að aldri. Systkinin Palli í Svíþjóð, Guðleif og Steinunn eru enn unglömb samanborin við aldursforseta.

Móður sína, Guðbjörgu, missir Guðrún þegar hún er 6 ára að aldri. Móðir hennar dvaldist á Vífilsstöðum í 4 ár áður en hún lézt. Hafði Guðrún ung því lítið af móður sinni að segja en amma hennar Guðrún Jóhannesdóttir gekk henni í móðurstað og síðar Pálína og Guðrún Friðfinnsdætur. Fluttu þær að austan í Vesturbæinn. Guðrún gekk í Miðbæjarskólann, Ingimarsskóla þar sem hún tók gagnfræðapróf og svo í Húsmæðraskólann í Reykjavík. Hún fer að vinna í bókbandi og síðar á skrifstofunni í Smjörlíki hf. Þar vann hún í 34 ár.

Guðrún giftist Guðjóni Gunnarssyni 1947 en hann dó sviplega 3 árum síðar. Jóhanna Malmquist tengdamóðir Guðrúnar og fjölskylda hennar héldu vinfengi við hana alla tíð.

1956 giftist Guðrún Magnúsi Vilhjálmssyni og eignuðust þau dótturina Guðbjörgu. Þau þrjú bjuggu á nokkrum stöðum í Vesturbænum. Keyptu sér íbúð á Háaleitisbraut, reistu hús í Kópavogi en seldu strax. Seinustu árin bjuggu Guðrún og Magnús á Grandavegi 47 VIII. hæð Fjölskyldan ferðaðist vítt og breitt um Ísland og einnig til útlanda. Þær mæðgur fóru saman til nokkurra landa. Á síðari árum ferðuðust hjónin til sólarlanda og ýmissa stórborga.

2012 missir Guðrún Magnús og ákveður að búa áfram á Grandaveginum. Hún var vön að fara sinna ferða en dóttirin fór að fara með henni í búðir, banka og til læknis. Guðrún hafði áhuga á mörgum sjónvarpsþáttum og þegar hún var að ferðast, þá hringdi hún heim til dóttur sinnar til að forvitnast um framvindu þátta. Þær mæðgur hafa haft áhuga á brezku konungsfjölskyldunni bæði uppdiktuðum þáttum og raunverulegum. Guðrún var líka mikill lestrarhestur. Hún las mikið af bókum frá Borgarbókasafninu. Síðustu árin las hún mikið af skáldsögum af skammlistum útgáfufélaga í Evrópu og Bandaríkjunum. Hún kynntist höfundum eins og Hillary Mantel, Chimamanda Ngozi Adichie, Mohsin Hamid, Hannah Kent, Geraldine Brooks og Min Jin Lee. Sögur frá framandi þjóðum áttu hug hennar. Einn lestrarmorgun sat hún á svölunum með glerþaki og gluggum sem sneru út á sjóinn þegar sjófugl kom utan af Faxflóa og tyllti sér á þakbrúnina við svalirnar. Henni varð starsýnt á fuglinn og sagðist rétt hafa þorað að fletta bókinni af ótta við að fæla gestinn burtu. Skarfurinn kom á hverjum morgni í viku og undu þau bæði við sitt. Guðrún hafði stundum orð á því hve umferð gangandi fólks og hjóla hefði aukizt á stígnum meðfram sjónum. Sjólag, litbrigði og skýjafar varð að umræðuefni. Jökullinn á sínum stað, fjallgarðurinn í góðu skyggni á Snæfellsnesinu. Akrafjallið. Skarðsheiðin. Þá var nýbyggingin við hliðina farin að taka toll af Esjunni. Og hún fylgdist með byggingarkrananum og framkvæmdum af athygli.

Guðrún var fíngerð kona, lágvaxin og skýr í hugsun. Það sem hún ákvað að gera, framkvæmdi hún. Stundum fór hún í búðir til að skila hlutum sem

hún hafði keypt. Ef Guðrúnu fannst ekki tekið undir beiðni hennar, átti hún til að segja: Ég ætla að bíða. Ef stóll var í búðinni, þá fékk hún sér sæti. Segja verður verzlunarstjórum til hróss að þeir sinntu erindum konu á virðulegum aldri að lokum. Þó undir gætu legið heyrnartæki upp á hálfa milljón.

Náið samband var milli Guðrúnar og dóttur sem reyndist henni stoð og stytta. Þú þarft ekki, sagði Guðrún við dóttur sína, að hafa neinar áhyggjur af mér. Ég bjarga mér. Þakka þér fyrir allt. Í síðustu heimkomu Guðrúnar af Landspítalanum sat hún í lágu framsætinu á bíl dótturinnar og var að reyna að stíga út á bílaplanið, þegar hún fór að hlæja. Ég get ekki með nokkru móti staðið sjálf á fætur. Á tíræðisaldrinum verður glíma Guðrúnar við Elli kerlingu snörp. Hún fer í gólfið nokkrum sinnum og brotnar verst síðast. Henni lærðist ekki alveg að skiljast aldrei við öryggishnapp eða fallhnappinn. Oftast. Ég er óþekk, sagði Guðrún, þegar hún iðraðist sárlega.

Guðrún lézt á Landspítalanum. Guðbjörg sat við rúm móður sinnar á kveðjustundinni. Guðrún ýmist mókti eða svaf meðan Guðbjörg talaði við hana. Stundum opnaði Guðrún augun en lokaði þeim aftur. Guðbjörg hélt um hönd móður sinnar þegar hún dó.

Árni Jakob Larsson.