Reynir Benediktsson fæddist 5. janúar 1946 í Reykjavík. Hann lést á sjúkrahúsi í Alicante á Spáni 11. nóvember 2021.
Foreldrar hans voru Benedikt Kristinsson, f. 17. sept. 1906, d. 18. maí 1986 og Anna Elín Guðmundsdóttir, f. 27. ágúst 1917, d. 22. ágúst 1993. Systkini Reynis eru Ragnheiður Benediktsdóttir, f. 8. desember 1936, Þorbjörg Lára Benediktsdóttir, f. 12. desember 1941, Sigurður Hjörtur Benediktsson, f. 31. ágúst 1943, d. 1. september 1998, Stella Sigríður Benediktsdóttir, f. 16. apríl 1950 og Jóhannes Viðar Bjarnason, f. 9. ágúst 1955.
Reynir kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Jóhönnu Gunnarsdóttur, f. 19. ágúst 1946, þann 21. ágúst 1969.
Synir þeirra eru Rúnar Reynisson hljóðtæknimaður, f. 26. júní 1965. Einar Ingi Reynisson stýrimaður, f. 20. janúar 1975. Benedikt Reynisson kynningarfulltrúi, f. 5. ágúst 1977, sambýliskona hans er Rósa María Óskarsdóttir. Gunnar Reynisson húsasmiður, f. 10. janúar 1979, eiginkona hans er Sigríður Kristín Kristþórsdóttir. Barnabörn þeirra eru: Kristþór Reynir og Ása Margrét Gunnarsbörn, Konráð Ari, Reynir Erling og Óskar Glói Benediktssynir.
Reynir ólst upp í Laugarneshverfinu í Reykjavík og gekk í Laugarnesskóla. Ungur að aldri var hann sendur í sveit austur fyrir Stokkseyri sem og á Hafranes í Reyðarfirði. þar sem umhyggja hans fyrir dýrum kom glöggt í ljós. Hann var snemma mjög efnilegur íþróttamaður og skaraði hann fram úr í handknattleik, setti Íslandsmet í skriðsundi ungur að aldri og var einnig mjög lipur á skautasvellinu.
Hann byrjaði ungur að stunda sjómennsku sem háseti á hinum ýmsu togurum og fiskiskipum í Reykjavík og síðar á Rifi á Snæfellsnesi. Þangað flutti hann ásamt verðandi eiginkonu sinni í ársbyrjun 1966 og nokkurra mánaða syni þeirra og hófu þau búskap sinn á Hellissandi 19. nóvember sama ár og bjuggu þar um tuttugu ára skeið ásamt sonum sínum fjórum.
Reynir hlaut stýrimannsréttindi veturinn 1973 og starfaði sem stýrimaður og skipstjóri til ársins 1996 frá Rifi og frá Hafnarfirði. Hann átti og gerði út sína eigin báta nokkrum sinnum á sinni sjómannstíð og var virkur í félagsstörfum og stéttabaráttu. Hann var um tíma formaður Verkalýðsfélagsins Aftureldingar á Hellissandi ásamt því að vera í Sjómannadagsráðinu þar. Hann var lengi varaformaður Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Öldunnar og sat sem varamaður í stjórn Félags skipstjórnarmanna. Reynir sinnti ýmsum störfum í landi að lokinni skipstjórnartíð sinni og varði tíma sínum að mestu með eiginkonu og afkomendum sínum.
Útför Reynis fer fram 2. desember 2021.
Alveg frá því að ég man eftir mér hef ég verið montinn að fá að eiga Reyni Ben sem pabba minn. Hann var þannig persóna að það var auðvelt að vera stoltur af honum, hann var harðduglegur, áreiðanlegur og alltaf til staðar.
Hugur minn reikar til æskuára þegar við bjuggum á Hellissandi, þar sem faðir minn var farsæll og virtur skipstjóri. Ég á góðar minningar úr æsku er ég fékk að fara með pabba á sjó á Saxhamar, þrátt fyrir að vera með magakveisur í öll skiptin. Byrjað var klukkan fjögur að nóttu, náð í áhöfnina á bláa Land Rover-num, og þegar á miðin var komið man ég hvað mér þótti mér gaman að fylgjast með pabba stjórna tækjum, gefa fyrirmæli og gera það sem pabbi kunni best, að fiska. Ég man hvað mér þótti það merkilegt að pabbi væri með sjónvarpstæki í brúnni sem byrjaði langt á undan hefðbundinni sjónvarpsútsendingu, þar sem áhöfn hans var að greiða fisk úr neti. Mér varð flökurt við að horfa á þessa beinu útsendingu, ældi og skreið svo upp í kojuna hans pabba. Hann vitjaði mín reglulega þar sem ég lá grænn í framan í kojunni með kaupfélagspokann tilbúinn. Þegar í land var komið var ég spurður á bryggjunni hvort ég hafi verið sjóveikur? Áður en ég gat svarað greip pabbi fram í: Nei drengurinn, hann fann ekki fyrir því.
Því hefur oft verið fleygt fram að pabbi hafi átt 9 líf og get ég heilshugar tekið undir það. Sem dæmi var pabbi um borð í mb. Gunnari Hámundarsyni þegar hann sökk út af Langanesi 10. september 1962. Forlögin sáu til þess að Gunnar móðurafi minn, sem þá var skipstjóri á Kristjáni Hálfdáns, kom pabba og áhöfn til bjargar. Á þessum tímapunkti hafði pabbi ekki grun um að skipstjórinn á Kristjáni Hálfdáns ætti gullfallega dóttur sem hann ætti eftir að hitta tæpu ári frá viðburði þessum og verða stóra ástin í lífi hans. Er það sú kona sem mér hefur hlotnast sá heiður að fá að kalla mömmu.
25. febrúar 1980 þegar faðir minn var á Saxhamri, þá skolaði honum með brotsjó út úr stýrishúsinu og fyrir borð. Fyrir einstaka mildi tókst honum að grípa í borðstokkinn á fluginu og hékk utan á síðu skipsins, uns honum tókst að vega sig aftur um borð.
Var það þekkt í flotanum hvað pabbi átti gott með að leggja tölur á minnið og geymdi hann snurvoða bleiðurnar sínar í hausnum á sér. Var hann þó tilbúinn að miðla þekkingu sinni til þeirra skipstjóra sem til hans leituðu. Ég man þegar pabbi frétti af því að eitt ágætisfyrirtæki fór að reyna að hagnast af því að selja þessar upplýsingar á tölvuformi. Hann var ekkert mikið að velta sér uppúr því að menn væru að eigna sér heiður hans, hann vissi betur, og var það nóg fyrir hann.
Pabbi vildi aldrei neitt umstang í kringum sig. Hann vildi t.d. ekki vera heiðraður á sjómannadaginn og bikarinn sem hann fékk til eignar eftir að hafa unnið stakkasundið þrjú ár í röð notaði hann sem skrúfubox í bílskúrnum.
Pabbi var maður fárra orða en það sem hann sagði var fullt af visku. Ef það var eitthvað sem honum mislíkaði í gjörðum fólks og gat ekki umborið, þá sagði hann þeim það beint út, sama hver átti í hlut. Hann lagði það ekki í vana að baktala, eða blóta neinum, nema þá kannski pólitíkusum í fréttatíma sjónvarps, og það sem hann gat blótað við sjónvarpstækið og ég tala nú ekki um þá sem voru að braska með kvótann.
Faðir minn var með sterka réttlætiskennd og mikill baráttujaxl. Hann var alla tíð á móti kvótakerfinu og fór ekkert leynt með það. Hann reyndi þó aldrei að móta mínar skoðanir, þó dró hann mig á stofnfund Frjálslynda flokksins sem haldinn var í gömlu Rúgbrauðsgerðinni í nóvember 1998, þar sem helsta baráttumál þeirra var að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þann sama vetur fór pabbi með mig á fund hjá Skipstjóra- og stýrimannafélagi Öldunnar, þar sem hann sat í stjórn. Þar sem ég var nú í Stýrimannaskólanum fannst honum brýnt að ég skyldi láta þessi málefni mig varða.
Faðir minn hann gerði aldrei mikið úr veikindum sínum og vildi sem minnst fara út í þá sálma. Manni batnar ekki við að aumka sjálfan sig. Ég ætla mér ekki að fara djúpt í sjúkrasögu föður míns. Mamma varð vör við að eitthvað væri að angra kallinn og spurði hvað væri að angra hann? Þá fékkst það út úr honum að hann væri búinn að missa sjónina á öðru auganu og hafði það gerst einhverjum dögum áður. Það skipti svo sem ekki miklu máli að pabba fannst þar sem hann sá ágætlega með hinu auganu.
Þótt að það hafi gengið á ýmsu, þá var svarið iðulega, þú þarft ekkert að vera hanga hérna yfir mér elskan, farðu bara og sinntu þínu.
Þeir sem til föður míns þekktu, þá notaði hann iðurlega orðið elskan. Hann var ekki mikið fyrir að tjá tilfinningar sínar í orðum, heldur sýndi þær í verki og naut ég góðs af því. Hann nærðist á því að hjálpa þeim sem stóðu honum næst.
Hann var dugnaðarforkur og harðjaxl, allt fram á seinasta dag.
Þú hefur verið mín stærsta fyrirmynd og verður alltaf.
Farðu í friði, elsku pabbi minn.
Þinn sonur,
Einar Ingi.