Þorbjörg Steinólfsdóttir fæddist í Reykjavík 12. maí 1934. Hún lést á Hrafnistu Laugarási 11. nóvember 2021.
Foreldrar hennar voru hjónin Vigdís Magnúsdóttir, f. 26. júní 1900, d. 23. júní 1969, og Steinólfur Benediktsson, f. 1. ágúst 1892, d. 8. júlí 1972. Samfeðra bróðir var Hilmar, f. 17. júlí 1925, d. 7. janúar 2008, uppalinn á Siglufirði.
Þorbjörg giftist 15. apríl 1954 Val Ragnarssyni, f. 10. nóvember 1931, d. 2. janúar 2014, sonur Lilju Oddsdóttur og Ragnars Brynjólfssonar. Börn Þorbjargar og Vals eru Vigdís, gift Bjarna Ásgeirssyni, Ragnhildur, gift Tino Nardini, Lilja, gift Erni E. Gíslasyni, og Steinar Benedikt, kvæntur Kristínu Jóhannsdóttur. Ömmubörnin eru 11 og langömmubörnin 18.
Þorbjörg ólst upp í Reykjavík, Þingholtunum og Skerjafirði. Hún útskrifaðist gagnfræðingur frá Ingimarsskóla og hóf skrifstofustörf í framhaldi af því. Þorbjörg og Valur bjuggu í Laugarneshverfinu, lengst af á Rauðalæk tæp fimmtíu ár og síðustu árin í Jökulgrunni. Hún hóf störf sem móttökuritari árið 1979 á læknastofu og á Læknavaktinni.
Útför Þorbjargar fór fram í kyrrþey í Áskirkju 26. nóvember 2021.

Mamma fæddist að vori, kom sem sólargeisli inn í líf foreldra sinna sem flutt höfðu til Reykjavíkur, afi að austan frá Borgarfirði eystri, amma frá Borgarfirði syðri. Ekki einungis glæddi hún líf þeirra heldur stóð að uppeldi hennar stór samheldinn frændgarður, amma hennar, föðursystkini, skyldmenni og vinir. Fyrstu árin bjuggu þau í Þingholtunum þar sem mamma þekkti hverja götu, hvert húsasund, hvern göngustíg. Síðar fluttu þau í Skerjafjörðinn. Litli Skerjafjörður var þá sem lítið þorp, hún þekkti alla og allir þekktu hana. Húsakostur var ekki stór en nóg rými fyrir alla, næturgesti til lengri eða skemmri tíma, vini og vandamenn sem leituðu til borgarinnar. Með alla þessa ást og umhyggju lagði hún af stað út í lífið. Mamma var mjög félagslynd, var í skátahreyfingunni og stundaði skíði. Mátti aldrei missa af neinu, eignaðist vini og vináttu sem entist út lífið. Um fermingu kynntist hún hálfbróður sínum samfeðra og varð strax náinn systkinakærleikur þeirra á milli.
Um tvítugt stofnaði hún fjölskyldu en áfram bjuggu allir í einum hnapp, mamma, pabbi, amma, afi og eldri börnin sem fæddust eitt af öðru. Við urðum fjögur, stóru stelpurnar fyrst, litlu krakkarnir síðar. Á þessum árum beindist hugurinn að fjölskyldunni, koma okkur á legg, sinna foreldrum og endurgjalda alla þá ást sem hún hlaut í æsku. Bílpróf tók hún snemma og ekki dugði að deila heimilisbílnum með pabba, sjálfstæð kona þurfti eigin bíl og gat þá skutlað öllum frændgarðinum, vinum og vinum þeirra til læknis, tannlæknis, í verslunarferðir, jafnvel út á land og við sátum í aftursætinu. Okkur þótti oft nóg um þetta vesen í henni og sjálfsagt pabba líka en hún hugsaði sjálfstætt, lifði eftir eigin sannfæringu. Auðvitað var mamma mannleg, hefur líklega oft verið þreytt, döpur eða fundið til en aldrei lét hún okkur finna fyrir því né sló hún af í daglegu amstri.
Á Rauðalæknum, þar sem við ólumst upp, eignaðist mamma yndislega nágrannakonu, Sigrúnu, þær ræktuðu einstaka vináttu, deildu sömu kunnáttu og áhuga á matargerð, bakstri, sauma- og prjónaskap, sem og garðinn sem var sá fallegasti að þeirra eigin mati. Tæplega fimmtug fór hún að vinna utan heimilisins og á sama tíma fóru ömmubörnin að fæðast. Hún gaf ekkert eftir, var ætíð til staðar fyrir fjölskylduna. Hún hélt öllum ungunum sínum saman, planaði útilegur, dagsferðir, sumarbústaðaferðir, matarboð og hóaði öllum saman af minnsta tilefni.
Þegar um fór að hægjast, börn og barnabörn orðin sjálfbjarga og sjálfstæð, fór mamma að sinna aftur félagsmálum og sjálfri sér. Þau pabbi voru dugleg að ferðast til útlanda og hún ein til að hlúa að afkomendum sem bjuggu þar. Hún sótti leikhús, óperur og bíó. Mætti á söngæfingar, danstíma, leikfimi, kaffisamsæti og frænkuboð. Síðast en ekki síst ræktaði hún vinskap við æskuvinkonurnar og vinina í Skerjafirðinum. Hún mátti ekki missa af neinu, lífið var ljúft.

Þegar fór að halla að hausti í lífi mömmu, pabbi látinn og hún að hverfa inn í sinn litla heim sýndi hún hversu auðugt það er að hljóta gott og fallegt uppeldi. Allir dagar voru jákvæðir og fallegir, allir í kringum hana góðir og allar minningar yndislegar. Síðustu misserin hjálpuðu hennar bestu æskuvinkonur, Ranna og Stína okkur, svo og Kaja, að hlúa að henni og stytta dagana. Einnig frænka hennar og jafnaldra Svana. Hjartans þakkir fyrir ykkar einstöku vináttu.
Þegar vetur var nýgenginn í garð lokaði mamma augunum sínum, hvíslaði kveðju til hvers okkar og hvarf til allra þeirra sem henni þótti svo undurvænt um og horfnir voru. Af sömu umhyggju og hún bar til ömmubarnanna og leiddi þau út í lífið, báru þau ömmu sína síðasta spölinn, sorgmædd en þó stolt yfir að vera komin af svo sterkri en hljóðlátri konu.

Sofðu rótt, elsku mamma.


Steinar, Lilja, Ragnhildur og Vigdís.