Pétur Jónsson fæddist í Reykjavík 1. maí 1997. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans 20. nóvember síðastliðinn.
Hann var sonur hjónanna Jóns Gauta Jónssonar, f. 8. janúar 1974, og Sigrúnar Magnúsdóttur, f. 26. janúar 1976.
Pétur var elstur þriggja systkina, systkini hans eru Berglind, f. 2003, og Einar, f. 2007.
Hann var ógiftur og barnlaus. Hann ól manninn að mestu leyti í Hafnarfirði, æfði knattspyrnu með FH lengi framan af og gekk í Lækjarskóla og Flensborgarskólann.
Pétur var sjálfs sín herra og stofnaði sitt fyrsta fyrirtæki með vini sínum 18 ára gamall og starfaði hjá eigin fyrirtæki þegar hann lést.
Útför hans verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 9. desember 2021, klukkan 15.
Hlekkir á streymi:
https://www.facebook.com/
groups/utforpetursjonssonar
Jákvætt hugarfar, sigurvilji, metnaður, góðmennska og baráttuþrek eru
þau orð sem koma upp í hugann þegar við hugsum til Péturs.
Pétur var engum líkur. Duglegri og metnaðarfyllri mann var ekki hægt að
finna og lét hann aldrei verk úr hendi falla. Það var líkt og Pétur þyrfti
ekki á svefni að halda. Þegar aðrir voru rétt að vakna var hann búinn að
hugleiða, teygja, lesa, æfa og byrjaður að vinna. Hann átti til að æfa eins
og atvinnumaður og elskaði að setja upp keppnir til að peppa sig og aðra
áfram þar sem hann endaði oftar en ekki sem sigurvegari. Pétur smitaði út
frá sér sínu metnaðarfulla og jákvæða viðhorfi til lífsins og hafði unun af
því að hafa áhrif á og hvetja aðra áfram í lífinu.
Metnaðurinn sneri ekki bara að æfingum heldur að öllum þeim verkefnum sem
Pétur tók sér fyrir hendur í lífinu og þrátt fyrir gagnrýni fór hann alltaf
sínar eigin leiðir. Gott dæmi er frá tímum Flensborgar þegar hann fór að
klæðast leðurbuxum, hanna sína eigin boli og ganga um með glansandi
eyrnalokka á stærð við vínber. Allt var þetta gert til að kæta, gleðja og
hafa gaman af lífinu, en það kunni hann svo sannarlega. Snemma var það
ljóst að hin hefðbundna skólaganga hentaði ekki Pétri. Hans hugsjónir,
gildi, ævintýraþrá og metnaður kallaði á eitthvað miklu stærra og meira.
Frumkvöðlahæfileikarnir og þráin fóru að taka stærri sess og áhugasviðið
víkkaði. Hann fór um víðan völl en loks fann hann sína fjöl sem sneri að
fyrirtækjarekstri og fyrsta fyrirtækið leit dagsins ljós þegar hann var
einungis 18 ára gamall. Þarna blómstraði Pétur og naut sín í botn.
En sama hversu mikið var að gera hjá Pétri, hvort sem það var í vinnunni, á
æfingum eða við að læra nýja hluti, gat hann alltaf fundið tíma fyrir vini
sína. Pétur var sannur vinur og hann var góðmennskan uppmáluð. Hann var
ótrúlega duglegur að rækta sín vinasambönd og átti marga góða vini. Hann
hafði gaman af því að heyra í mönnum hljóðið og var það gert af einlægum
áhuga á því hvernig vinirnir hefðu það.
Pétur var svo sannarlega sálfræðingurinn í hópnum. Ef manni lá eitthvað á
hjarta eða vantaði ráð þá hringdi maður í Pétur sem var alltaf til í að
hjálpa. Það sýndi sig líka hversu góður vinur hann var að þótt hann væri
liggjandi inni á spítala og að ganga í gegnum öll sín veikindi þá var hann
meira en tilbúinn að ræða vandamál annarra.
Pétur var kjarninn í vinahópnum. Hann batt alla saman. Hann var hinn besti
vinur.
Hugarfarið hans og dugnaður var svo sannarlega rannsóknarefni. Hann lét
ekkert stoppa sig, vældi aldrei, kvartaði aldrei og var alltaf með
jákvæðnina í fyrirrúmi. Hann var með frábæra nærveru og smitaði eingöngu
jákvæðni frá sér, eða eins og hann sagði oft: Það kostar 0 kr. að brosa.
Það var alltaf stutt í sprellið hjá Pétri og var hann duglegur að fíflast í
öðrum. Pétur var sérstaklega orðheppinn og maður stóð aldrei uppi sem
sigurvegari á móti Pétri, þar sem hann átti alltaf síðasta, og betra,
orðið.
Pétur var mörgum kostum gæddur. Þessi magnaða, drepfyndna manneskja sem gaf
sínum nánustu mikið traust, einstaka nærveru, var hugrekkið uppmálað, þessi
frábæri og góði hlustandi, skilningsríki og hvetjandi vinur. Til þess að
draga þetta saman þá erum við að kveðja einstakan mann og er heimurinn og
við svo sannarlega fátækari eftir þennan missi.
Við erum ekkert annað en heppin að hafa þekkt Pétur og ætti okkur að líða
vel yfir því að hann snerti okkar hjörtu. Við munum heiðra minningu hans
svo lengi sem við lifum.
Tómarúm er í hjörtum okkar allra er við kveðjum okkar besta vin með ást og
söknuði.
Elsku vinur
Augu mín til himna
Til hvers
á nú að leita
Ég er ekki
að skilja
tilgang lífsins
í heimi án Péturs
Elsku vinur
þú minn besti vinur
Ég hugsa um góða
tíma
Fíflagang með
félögunum líka
Þeir elska þig allir
eins og ég líka
Elsku vinur
Það standa allir við bakið
á þér
Hugsa til þín
alla daga með mér
Heila ævi
við eigum með þér
Kominn lengra
en augað sér
Elsku vinur
Góðir tímar
Vondir tímar
allt önnur sýn
gátum alltaf leitað
til þín
Þungir, blindir
í lífinu ósyndir
Við komumst ekki
af án þín
Elsku Pétur
Mikill söknuður
og sorg ríkir yfir
öllum sem þú
þekktir fyrir
Við elskum þig
Pétur.
Kveðja,
þínir bestu vinir.
Atli, Baldur, Bjarki, Dagur, Ellert, Garðar, Grétar, Hákon, Kári, Sæmundur og Þórður.