Ingrid María Paulsen fæddist 4. nóvember 1936 í smábænum Döbern í austurhluta Þýskalands. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 21. nóvember 2021.
Móðir hennar var Helene Engel, f. 11.7. 1903, d. 29.5. 1937, og faðir dr. Jes Paulsen, f. 27.8. 1897, d. 23.10. 1983.
Fjölskyldan fluttist til Hamborgar þar sem Ingrid ólst upp. 1939 giftist faðir hennar á ný, Margarethe Gawert, sem gekk henni í móðurstað.
Ingrid lauk stúdentsprófi frá verslunarskóla Hamborgar 1956 og um svipað leyti kynnist hún Barða Árnasyni, f. 25.2. 1932, d. 16.1. 2016. Hún flyst með honum til Íslands í ágúst 1957 og þau stofna fjölskyldu saman. Þau reistu sér raðhús á Móaflöt 25 í Garðabæ þar sem fjölskyldan bjó frá 1967.
Ingrid starfaði fyrstu árin á Íslandi sem einkaritari hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga og síðar hjá SÍF, Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda.
Synir hennar og Barða eru: 1) Birgir Martin, f. 3.2. 1961, giftur Marinu Shulminu, f. 9.10. 1968. Börn þeirra eru Tamara, f. 3.12. 2001, og Jakob, f. 19.1. 2005. 2) Heimir, f. 28.1. 1963, giftur Sigríði Jónsdóttur, f. 8.5. 1965. Dætur þeirra eru Kolka, f. 3.4. 1998, og Urður, f. 17.10. 2001.
Ingrid hóf nám í þýsku og íslensku í Háskóla Íslands 1975 og lauk þaðan BA- gráðu, síðar kennsluréttindanámi og hlaut stöðu sem þýskukennari við Kvennaskólann í Reykjavík 1981, sem hún gegndi fram að starfslokum 67 ára.
Hún lauk einnig námi frá Leiðsögumannaskólanum og starfaði við leiðsögn erlendra ferðamanna í fjölda sumra. Hún var í vinnuhópi um samningu kennslubókarinnar Þýska fyrir þig sem var notuð við þýskukennslu í mörgum framhaldsskólum.
Ingrid hafði mikinn áhuga á menningarmálum, sótti málverkasýningar og tónleika og fjölda námskeiða um myndlist, tónlist og bókmenntir. Hún hafði mikið yndi af söng og söng með kirkjukór Garðabæjar og kór eldri borgara. Hún ferðaðist nokkuð erlendis, bæði með Barða og einnig ein síns liðs.
Hún bjó á Bollagötu 7 frá 1998 til 2018, en fluttist þá í íbúð á Hrafnistu.
Útför hennar hefur farið fram í kyrrþey.
Þá er hún elsku yndislega móðir mín, Ingrid María Paulsen, farin í sitt
síðasta ferðalag. Seinasta saltkorn móður minnar fann sína leið niður
stundaglasið.
Ingrid var afar hlý, ástrík og yndisleg kona. Ákveðin, falleg og mikill
karakter. Þessi hlýja, góða móðir sem kom til mín og gaf mér kjark og þor
þegar á reyndi og studdi mig gegnum vanmátt og efa þegar drengurinn var
lítill í sér.
Dugnaður og kraftur mömmu var oft ótrúlegur. Hún var afar fróðleiksþyrst
kona og leitaði sér þekkingar hvar sem hana var að finna. Hún var með
BA-próf í íslensku og þýsku frá Háskóla Íslands, lærði spænsku í
endurmenntun Háskólans ásamt ýmsum námskeiðum þar um menningu, listir og
sögu. Mamma kláraði einnig kennslu- og uppeldisfræði í Háskólanum og tók
leiðsögumannspróf 1981.
Hún kenndi þýsku um helgar hjá þýska sendiráðinu á Íslandi 1971-1975. Hún
aðstoðaði Baldur Ingólfsson heitinn við að koma út kennslubókunum Þýska,
Þýsk málfræði og Þýskir leskaflar og æfingar fyrir framhaldsskólanema.
Hún samdi og gaf út ásamt öðrum kennslubókina Þýska fyrir þig sem var
gefin út 2001. Hún var þýskukennari og síðar yfirkennari við Kvennaskólann
í Reykjavík í mörg ár.
Mamma hélt vel í þýskan uppruna sinn og ég fann sterkt fyrir stolti hennar
þar.
Líf Ingridar var þó ekki alltaf dans á rósum. Samhentar hendur sem leiðast
geta átt það til að slitna hvor frá annarri. Áföll og erfiður geðsjúkdómur
leitaði hart á mömmu yfir langt tímabil ævi hennar sem dró úr henni
eðlislæga gleði og þrótt. Það var aðdáunarvert hvernig hún leitaði allra
leiða og barðist gegn þessum ágenga sjúkdómi í tugi ára, hefðbundið,
óhefðbundið, stundum bein, stundum bogin. Stundum á fjórum fótum með
viljann einan að vopni þegar aðferðir læknisfræðinnar og pillur skiluðu
litlu.
Mamma leitaði allt sitt líf inn í veröld fegurðar, kyrrðar og friðar
klassískrar tónlistar þar sem Beethoven, Bach, Berwald, Chopin, Grieg,
Haydn, Mozart og fleiri klassískir snillingar spunnu galdur sinn í eyru
henni. Tónlistin talaði alltaf sterkt til hennar eins og töframáttur.
Tónlist var skjól mömmu og fylling.
Hún elskaði að syngja. Þegar ég sat sem lítill drengur á grjóthörðum
kirkjubekk Garðakirkju á jólunum og tíminn var sem eilífð beið ég alltaf
eftir því að söngrödd mömmu svifi yfir kórinn og í fang séra Braga
Friðrikssonar, prests og mannvinar.
Seinna söng mamma með Söngfuglum og einnig bættist við í söngflóru mömmu
Kór eldri borgara meðan hún gat. Oft fór hún á æfingar á viljanum
einum.
Mamma lagði hart að mér sem krakka að fara í Lúðrasveit Garðahrepps því
þar er falinn fjársjóður. Hæmjér, sagði hún alltaf við mig, du musst
Geduld haben mein Schatz! Á þeim tíma var þetta alger pína fyrir mig. En
mamma vissi betur, vissi að þetta myndi kenna mér þolinmæði og inngang inn
í fegurð. Það tók mig langa stund að finna þennan fjársjóð en hann hefur
dugað mér vel sem veganesti í að njóta og spila alls konar tónlist. Mamma
unni myndlist. Hún kom sér upp vísi að bókasafni um efnið og leitaði uppi
myndlistarsöfn hvar sem þau var að finna. Nú flettum við Systa, Kolka og
Urður gegnum þessar listabækur og dáumst að fegurðinni.
Það er svo sárt að missa þig.
Mér líður stórkostlega, sagðir þú þó við mig fyrir stuttu þegar
stundaglasið var að tæmast. Alles ist gut, mein kleiner Liebling!
Ég veit innst inni að þú vildir fá að fara. Fara í ferðalag með
Boeing-þotu til Jes Paulsens, pabba þíns, og Helenu Engel, móður
þinnar.
Dauðinn lætur sig engu varða,
aldur kyn eða stétt.
Dauðinn hefur engar skoðanir,
boðar hvergi fagnaðarerindið.
Dauðinn getur ekki skilið, né fyrirgefið,
Dauðinn er utan vallar.
(Þorsteinn Gísli Þorsteinsson, 1981)
Elskulega gjöfula mamma Ingrid, ég þakka þér af öllu mínu hjarta.
Gott ist grosser dann unser Herz.
Heimir Barðason.