Sigrún Sigurdríf Halldórsdóttir fæddist á sjúkrahúsinu á Ísafirði 9. september 1930. Hún lést á Öldrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 30. nóvember 2021.
Foreldrar hennar voru Halldór Guðmundsson, f. 1885, d. 1968, og Sigrún Jensdóttir, f. 1892, d. 1972, á Eiríksstöðum í Súðavík. Hálfsystir, samfeðra, var Elísabet, f. 1910, d. 1937. Alsystkini: Jens Þorkell, f. 1922, d. 1992, Guðrún Ólafía, f. 1925, d. 2012, Karólína Steinunn, f. 1927, d. 2009, Anna Þorbjörg, f. 1929, d. 2014, Óskar Haraldur, f. 1932, d. 1944, og Guðmundur Magnús, f. 1932, d. 1977.
Sigrún giftist Hálfdáni Sveinbjörnssyni, f. 1924, d. 1954, haustið 1949. Synir þeirra eru þrír: 1) Daði, f. 1950, kvæntur Ráðhildi Stefánsdóttur og eiga þau fimm börn auk þess sem Ráðhildur átti tvö börn fyrir sem ólust upp hjá þeim. Barnabörnin eru 11. 2) Rúnar, f. 1951, kvæntur Ingu Helgu Björnsdóttur, þau eignuðust soninn Björn, f. 1975, d. 1995, og annan dreng til sem á eina dóttur. 3) Kristján, f. 1953, kvæntur Jóhönnu S. Hansen, þau eiga þrjú börn og sex barnabörn.
Sigrún eignaðist son með Braga Helgasyni, f. 1933, d. 1915: 4) Brynjar, f. 1955, kvæntur Önnu Þorbjörgu Ingólfsdóttur, þau eiga þrjú börn og tvö barnabörn. Í apríl 1961 giftist Sigrún Jónatan Ólafssyni, f. 1925, d. 2019, og eignuðust þau þrjú börn: 5) Sigurdríf, f. 1960, gift Birni J. Sighvatz, þau eiga tvö börn og þrjú barnabörn. 6) Ólafía, f. 1963, gift Hauki Konráðssyni og eiga þau eina dóttur. 7) Rögnvaldur, f. 1966, kvæntur Ásdísi Reykdal Jónsdóttur, þau eiga tvo syni og eitt barnabarn. Að auki á Rögnvaldur tvær stjúpdætur frá fyrri sambúð.
Þegar Sigrún var hálfs annars árs fór hún í fóstur til Daðínu Hjaltadóttur, f. 1875, d. 1952, í Súðavík sem varð ekkja um líkt leyti. Einnig var á heimilinu sonur Daðínu, Friðrik Friðriksson, f. 1911, d. 1977, sem Sigrún leit alltaf á sem bróður og dætur hans sem bróðurdætur. Það var alla tíð einstaklega kært með henni og þessum mæðginum og kallaði hún Daðínu alla tíð mömmu. Húsið sem þau bjuggu í var kallað Stöðin því Daðína var umboðsaðili fyrir póst og síma. Sigrún fór snemma að hjálpa til og sentist um allt þorpið og nágrenni með símskeyti og kvaðningar fyrir símtöl. Þegar hún stálpaðist sat hún vaktina við skiptiborðið og sinnti póstafgreiðslu.
Sigrún var einn vetur í gagnfræðaskóla í Hveragerði og tvo vetur á Akureyri þar sem hún útskrifaðist sem gagnfræðingur vorið 1948. Ári síðar giftust Sigrún og Hálfdán og stofnuðu heimili í Bolungarvík en Hálfdán fórst á sjó árið 1954. Þau Jónatan bjuggu einnig í Bolungarvík, síðast við búskap í Meirihlíð. Árið 1971 tóku þau sig upp og fluttu til Akureyrar. Þar vann Sigrún á skinnasaumastofu SÍS og í Sælgætisgerðinni Lindu þar til hún fór á eftirlaun.
Sigrún tók þátt í kvenfélagsstarfi og leiksýningum, söng í kirkjukór og var virk í starfi sjálfstæðiskvenna. Hún var lengi virk í starfi Sjálfsbjargar á Akureyri.Þau Jónatan bjuggu lengi í Lindasíðu 2. Eftir að Jónatan lést flutti Sigrún á Hlíð þar sem hún lést eftir snörp veikindi.
Útför hennar verður gerð frá Glerárkirkju í dag, 10. desember 2021, klukkan 13. Streymt verður frá athöfninni á facebooksíðunni Jarðarfarir í Glerárkirkju – beinar útsendingar.
Hlekkur á streymi:
Rúna var heppin. Hún fór í fóstur vorið 1932, þá hálfs annars árs, um hálfu ári áður en tvíburarnir fæddust. Hún slapp alveg við að þvælast á milli heimila. Sú sem tók Rúnu í fóstur hét (Engilbertína) Daðína Hjaltadóttir (1875-1952), var borin og barnfædd í Súðavík og bjó þar allan sinn aldur. Hún var gift Friðriki Guðjónssyni sem var skólastjóri og barnakennari í plássinu. Hann var um 20 árum eldri en Daðína og lést sama ár og Rúna kom inn á heimilið. Þau hjón höfðu eignast fjögur börn en voru á þessum tímapunkti búin að missa tvö elstu börnin sín úr veikindum, þá rétt myndug, bæði ógift og barnlaus. Þriðja barn þeirra hjóna, Emilía, fór að heiman áður en Rúna fór að muna sig. Hún giftist síðar og settist að í Hveragerði. Yngsta barn þeirra hjóna var Friðrik (1911-1977) og má segja að hann hafi ásamt móður sinni alið Rúnu upp og komið henni til manns. Þá var einnig viðloðandi heimilið stúlka lítið eitt eldri en Rúna, frá barnmörgu heimili, og hét hún Júlíanna. Rúna varð mjög hænd að þessu fólki sem reyndist henni sérlega vel og kallaði Daðínu alla tíð mömmu og leit á Friðrik, sem gjarna var kallaður Frissi, sem stóra bróður sinn. Daðína virðist almennt hafa látið sig varða málefni lítilmagnans í samfélaginu í þorpinu og reynt að rétta fólki hjálparhönd þar sem því varð við komið. Húsið sem þetta fólk bjó í var kallað Stöðin sem helgast af því að Daðína var umboðsaðili fyrir Póst og síma. Stöðin var með stöndugri heimilum á þess tíma mælikvarða. Blóðsystkinum sínum kynntist Rúna lítið fyrr en hún fór að stálpast. Daðína ýtti ávallt undir að Rúna hitti systkini sín hvenær sem færi gafst. Föður sinn þekkti Rúna frá fyrstu tíð en hann hafði aðsetur inni á Langeyri rétt innan við þorpið. Hann var alltaf velkominn á Stöðina og var oft boðið í mat þar. Rúna sagðist aldrei hafa heyrt styggðaryrði í garð föður síns á Stöðinni en hann var vissulega umdeildur maður vegna afskipta sinna af verkalýðsmálum. Rúna var 14 ára þegar annar tvíburinn lést úr berklum. Í kjölfarið átti faðir hennar erfitt, hann syrgði son sinn og kom hún stundum að honum grátandi þegar hún mætti til hans til að þrífa hjá honum. Þetta kom illa við óharðnaðan unglinginn og þegar hún bar sig upp við Daðínu mömmu var hún hvött til að fara sem oftast til gamla mannsins og vera sem mest samvistum við hann. Móðir Rúnu þvældist á milli staða í vist meðan hún eitthvað gat vegna veikinda og var misvel komið fram við hana. Hún átti við andleg veikindi að stríða sem almennt mætti ekki skilningi í samfélaginu og ýtti undir að misvel var komið fram við hana. Börnunum var stundum sendur tónninn vegna veikinda móðurinnar, einkum voru það eldri systkini Rúnu sem fengu að finna fyrir því. Rúna var svo á unglingsaldri þegar móður hennar var komið fyrir á sjúkrahúsi í Stykkishólmi og var hún þar til æviloka. Rúna fór snemma að hjálpa til á Stöðinni eins og sjálfsagt þótti þá og sentist um allt þorpið og næsta nágrenni með símskeyti og kvaðningar fyrir símtöl. Hún komst snemma upp á lag með að nota reiðhjólið hans Frissa í lengri ferðir, hún hjólaði undir stöng á karlmannshjólinu. Þegar hún stálpaðist sat hún vaktina við skiptiborð símans og sinnti póstafgreiðslu um leið. Hún fór oft með Frissa á skektunni hans út á Djúp bæði til að leggja net og vitja þeirra. Þar kom að Frissi náði sér í konu sem gekk að sjálfsögðu inn í heimilið á Stöðinni. Hún hét Kristín og var alltaf kölluð Dídí. Rúna var í fyrstu afbrýðisöm en það rjátlaðist fljótt af henni enda Dídí einstaklega ljúf manneskja sem smellpassaði inn í heimilislífið á Stöðinni. Aukin heldur voru Dídí og Rúna þremenningar. Þær náðu fljótt sáttum og Rúna elskaði litlu frænkur sínar tvær sem voru 10 og 12 árum yngri en hún og kallaði þær alla tíð stelpurnar sínar. Systurnar litu upp til þessarar stóru frænku sem þær kölluðu Únnu. Yngsta dóttir Dídíar og Frissa er hins vegar fædd á sama tíma og Rúna er að eiga sín fyrstu börn.
Ári eftir fermingu fer Sigrún til Emilíu fóstursystur sinnar í Hveragerði í einn vetur og síðan er hún tvo vetur hjá móðursystur sinni, Önnu Þorbjörgu, á Akureyri og útskrifast sem gagnfræðingur vorið 1948. Þessa móðursystur kölluðu Rúna og hennar systkini alltaf Frænku. Heimili Frænku var eins og félagsmiðstöð. Það var mikill gestagangur fólks sem dvaldi þar mislengi. Margir komu langt að. Frænka vildi hlúa að systurbörnum sínum og reyna að greiða götu þeirra sem best hún gat. Þau dvöldu flest hjá henni um lengri eða skemmri tíma og hún varð þeim einhvers konar akkeri eða kjölfesta sem þau höfðu sameiginlega.
Rúmu ári eftir þessa útskrift, haustið 1949, giftist Rúna Hálfdáni Sveinbjörnssyni, f. 1924, d. 1954, frá Uppsölum í Seyðisfirði, næsta firði innan við Álftafjörð sem Súðavík stendur við. Þau langaði að setja upp sitt heimili í Súðavík en honum bauðst svo gott pláss á báti úti í Bolungarvík að þau ákváðu að flytja þangað. En þeim var ekki ætlað að kemba hærurnar saman. Í mars 1954, þegar þrír drengir voru fæddir, fórst Hálfdán er hann tók út af bát. Elsti drengurinn varð fjögurra ára í sama mánuði og faðir þeirra fórst, sá næsti var rúmlega tveggja ára og sá yngsti níu mánaða gamall. Tveimur árum áður lést Daðína mamma og í byrjun sumars 1954 lést Frænka, Allar helstu grunnstoðir í baklandi Rúnu voru farnar og hún aðeins 23 ára og sex mánaða gömul. Íbúð sem þau Hálfdán höfðu nýlega fest kaup hafði hún ekki fjárhagslegt bolmagn til að halda í og varð því að selja ofan af sér. Hennar ósk var að snúa aftur til Súðavíkur en hún gat ekki fengið neitt húsnæði þar. Eini möguleikinn sem hún hafði var að flytja með drengina inn á tengdaföður sinn sem var búinn að vera ekkill í þrjú ár, fara sjálf út að vinna og Sveini afi myndi gæta drengjanna frá morgni til kvölds. Þetta var eina leiðin sem hún hafði til að geta haldið drengjunum hjá sér. Rúna var hársbreidd frá því að vera í sömu sporum og hennar foreldrar voru þegar þeirra heimili var leyst upp og börnunum tvístrað. Lífið fór ekki ljúfum höndum um þessa ungu móður sem fékk litlar sem engar bætur þar sem hún var ung og hraust. Hún átti bara að geta unnið fyrir sér sjálf. Viðhorf samfélagsins á þessum tíma voru þau að það þýddi ekkert að velta sér upp úr því sem orðið væri, hún yrði bara að halda áfram með líf sitt og umfram allt litlu drengirnir hennar máttu ekki sjá hana gráta. Hún varð bara að keyra sig áfram á hnefanum og það var það sem hún illu heilli gerði. Slík var vanþekkingin á andlegu áfalli og mannlegri þörf að vinna úr sorgum þá. Hún hafði Sveina afa og mörg systkini Hálfdáns í kringum sig sem voru með börn á sama reki og drengirnir hennar. Þetta fólk var allt mjög gott við Rúnu og drengina. En harm sinn bar hún í hljóði og keyrði sig áfram á hnefanum. Ári síðar eignast Rúna fjórða drenginn en ekkert meira varð úr sambandi við þann barnsföður. Næstu árin einkenndust af þrotlausri vinnu í kaupfélaginu og mjólkurbúðinni. Hún söng í kirkjukórnum og reyndi almennt að taka þátt í mannlífi staðarins. Til allrar hamingju voru drengirnir hraustir og þroskuðust eðlilega.
Í lok sjötta áratugarins verður breyting á högum hennar. Hún kynnist öðrum manni, Jónatani, sem alltaf var kallaður Tani, og stofnar til hjúskapar með honum um leið og þau létu skíra frumburð sinn þ. 1. apríl 1961. Þau byggðu sér hús sem þau fluttu inn í nánast hrátt með fimm börn haustið 1961. Tveimur árum síðar bættist önnur stúlka við. Vorið 1965 flytja þau fram í dal, í Meirihlíð, um km fjarlægð frá þorpinu, og hefja hefðbundinn sveitabúskap. Annað haustið þar, eða 1966, bætist sjöunda barnið í hópinn, drengur, sem er þá yngstur. Þá voru tveir elstu drengirnir komnir yfir fermingu og sá þriðji fermdist vorið eftir. Heimilið var þungt og þessi umskipti urðu til þess að Tani og Rúna sukku enn dýpra í skuldafenið. Á endanum var svo komið að heilsan þoldi ekki allt baslið og þau brugðu búi 1971 og fluttu til Akureyrar um sumarið. Elsta systir Rúnu hafði flutt þangað af Árskógssandi fjórum árum áður með sína fjölskyldu og einnig bjó einkadóttir Frænku þar með sína fjölskyldu.
Þetta voru mikil umskipti. Yngri börnin höfðu aldrei farið í svona langt ferðalag og aðeins einn af eldri drengjunum flutti með þeim til að byrja með. Fyrstu tvo mánuðina á Akureyri bjó fjölskyldan inni á systur Rúnu áður en þau fengu sitt húsnæði afhent. Þetta var sannkallað fjölskylduhús hjá Ollu, systur Rúnu, því dóttir hennar bjó ásamt maka og börnum á neðri hæðinni, önnur dóttir Ollu var uppi í risi með barn á fyrsta ári ásamt þremur systkinum sínum og yngsta dóttir Ollu, þá fjögurra ára, var hjá foreldrum sínum á miðhæðinni. Hjá dótturinni á neðri hæðinni voru börnin flutt inn í svefnherbergi foreldranna og Tana og Rúnu komið fyrir í barnaherberginu með þrjú börn í einni flatsæng. Þetta hefur klárlega verið erfiður tími, börnin tætt og rótlaus og kveikurinn stuttur. Það hefur örugglega reynt mikið á samkomulag þeirra fullorðnu. Þegar kom fram á haustið fluttu Rúna og Tani svo inn í gamalt hús sem var kallað Smiðjan með sinn hóp. Tani vann á verksmiðjunum en Rúna var heimavinnandi. Heimilið var farið að léttast þannig að Rúna gat ekki lengur drekkt sér í vinnu en alltaf bar hún sinn harm í hljóði eins og henni hafði verið uppálagt. Smám saman tíndust eldri strákarnir norður og stofnuðu sínar fjölskyldur. Eftir fjögur ár í gömlu Smiðjunni í innbænum, haustið 1975, fluttu þau út í þorp í nýtt raðhús og nú voru bara tvö yngstu börnin undir fermingu. Eldri strákarnir voru allir komnir með fjölskyldur, þrír búsettir á Akureyri og einn í Borgarfirði. Árið 1976 fer Rúna að vinna á Mokka, skinnasaumastofu SÍS, fyrst hálfan daginn en nokkrum árum síðar er hún farin að vinna þar allan daginn. Rúna og Tani eru bæði virk í starfi Sjálfstæðisflokksins, Tani syngur með karlakór Akureyrar og Rúna fylgir sínum manni eftir í félagsstarfi þar líkt og hinar eiginkonurnar. Þegar þau flytja úr raðhúsinu haustið 1983 er yngsti drengurinn sá eini sem er enn í foreldrahúsum nokkur ár enn. Þá flytja þau á brekkuna. Rúna er enn að vinna á Mokka en Tani er orðinn næturvörður á Hótel Varðborg. Það er farið að halla ansi mikið undan hjá SÍS-verksmiðjunum og þar kemur að Mokka er lokað. Þá fær Rúna vinnu hjá sælgætisgerðinni Lindu. Þau eru bæði orðin þreytt eftir margra ára erfiði og heilsuleysi fer að segja til sín. Tani varð hjartasjúklingur, Rúna átti nokkrar stórar kviðaðgerðir að baki, það var búið að gera á henni aðgerðir vegna brjóskeyðingar í þumalfingursliðum og bakið fór versnandi en hún hafði verið bakveik frá unglingsaldri. Þar kom að þau hættu að vinna og urðu lífeyrisþegar. Þau fóru að taka þátt í starfi félags aldraðra á Akureyri og var Tani mun virkari þar en Rúna en hún fylgdi honum þó eftir. Eftir að hafa búið á tveimur stöðum á brekkunni keyptu þau íbúð í blokk fyrir 60 ára og eldri í Lindasíðu 2 árið 1996. Rúna var þá farin að vera reglubundið í sjúkraþjálfun á Bjargi í kjölfar bakaðgerða og var farin að kynnast starfi Sjálfsbjargar. Tani var nú farinn að hafa tíma fyrir það sem honum fannst svo skemmtilegt, að spila félagsvist og brids. Rúna hafði hins vegar alltaf ímugust á spilum. Tani sótti m.a. reglubundna félagsvist á vegum Sjálfsbjargar en Rúna mætti í kaffipásuna og sá svo um uppvaskið. Hún hlaut nafnbótina uppþvottavélin út á þetta. Það var stutt hjá þeim að fara, innangengt hjá þeim úr blokkinni upp á Bjarg. Ný öld gekk í garð og smám saman fór að halla meira á þau bæði í baráttunni við elli kerlingu. Hægt og bítandi urðu þau meira upp á aðra komin. Um langt árabil fóru þau alltaf inn á Bauta um kaffileytið og fengu sér kaffi. Venjulega fengu kúnnar 1-2 súkkulaðimola með bollanum sínum en þau fengu alltaf fulla undirskál af súkkulaðimolum með sínum kaffibollum og ómælda ábót á kaffið, sem þau fengu á betra verði en flestir aðrir. Hafið þið þökk fyrir sem sáuð um Bautann á þessum árum. Á laugardögum var svo farið og verslað í matinn og sest niður á kaffihúsinu þar en á sunnudögum var keyrt fram í Vín.
Elsti sonurinn og hans kona, Daði og Ráðhildur, eiga miklar þakkir skildar fyrir hvernig þau hafa hlúð að Tana og Rúnu um langt árabil. Það eru þau sem gerðu gömlu hjónunum kleift að halda sinni mannlegu reisn og stöndum við hin í ævarandi þakkarskuld við þau hjón, en Daði er sá eini af barnahópnum sem hefur verið búsettur á Akureyri síðan um aldamót.
Tani og Rúna náðu bæði tíræðisaldri. Hann féll frá fyrir rúmum tveimur árum en núna hefur Rúna líka kvatt þennan heim. Þau eru vel að hvíldinni komin og ég óska þeim góðrar ferðar í blómabrekkur sumarlandsins þar sem systkini þeirra, foreldrar og svo ótal margt annað samferðafólk bíður þeirra.
Ólafía Jónatansdóttir.