Svanhildur Svansdóttir fæddist 25. mars 1947 í Reykjavík. Hún lést á hjartadeild Landspítalans fimmtudaginn 2. desember.
Foreldrar hennar voru Svanur Steindórsson, f. 10.11. 1918, d. 8.12. 1989, og Hulda Karlsdóttir, f. 2.10. 1918, d. 1.12. 1980. Eftirlifandi bróðir Svanhildar er Þórir, f. 16.5. 1944, giftur Matthildi Þórarinsdóttur, f. 30.11. 1943.
Svanhildur giftist Svani Þorsteinssyni, f. 2.10. 1947, hinn 14.10. 1972. Foreldrar hans voru Þorsteinn Ólafsson, f. 24.6. 1896, d. 13.4. 1967, og Gíslný Jóhannsdóttir, f. 3.7. 1911, d. 14.1. 1993.
Börn Svanhildar og Svans eru: 1) Hulda Björk, f. 6.12. 1973, gift Sævari Rafni Guðmundssyni, f. 20.3. 1972. Börn þeirra eru Hafdís Ýr, f. 29.5. 2001, Dagur Freyr, f. 29.5. 2001, og Ægir Þór, f. 26.11. 2011. 2) Gísli Svanur, f. 4.11. 1975, giftur Sigríði Björk Halldórsdóttur, f. 3.2. 1976. Börn þeirra eru Brynjar Daði, f. 21.10. 2001, Svandís Helga, f. 24.7. 2004, og Telma Sóley, f. 9.1. 2009. 3) Erla, f. 5.12. 1979, gift Gunnari Má Jóhannssyni, f. 13.6. 1976. Börn þeirra eru Fálki Víðar, f. 27.7. 2011, og Ugla Sif, f. 1.2. 2015.

Svanhildur ólst upp á Ásvallagötunni og gekk í Melaskóla og Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Hún stundaði einnig nám við Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Eftir að skólagöngu lauk hóf hún störf sem læknaritari á Landakoti og vann við það í yfir 40 ár á hinum ýmsu stöðum, að síðustu hjá röntgendeild Domus Medica.

Hún kynntist manni sínum árið 1971 og giftust þau ári síðar. Svanhildur átti viðburðaríkt líf með Svani, manni sínum. Bjuggu þau á ýmsum stöðum ásamt börnum sínum, bæði á Hornafirði, Bakkafirði og í Bandaríkjunum, en komu sér að endanum fyrir í Kópavogi þar sem þau bjuggu í yfir 20 ár.

Utan fjölskyldu og vinnu naut hún þess að dansa, syngja og spila á píanó. Svanhildur var virk í kórastarfi alla sína ævi og gladdi aðra með tónlistargáfu sinni og næmu tóneyra. Eftir að hún lauk störfum sinnti hún barnabörnum sínum.

Útförin verður frá Lindakirkju í dag, 14. desember 2021, klukkan 13.

Vegna aðstæðna í samfélaginu verða einungis nánustu aðstandendur og þeir sem er boðið viðstaddir útförina.

Hlekkir á streymi:

https://www.lindakirkja.is/

https://www.mbl.is/andlat

Elsku mamma mín, ég trúi því vart að ég sé sest niður að skrifa lokakveðjuna mína til þín. Ég hélt að við fengjum meiri tíma saman en eins mikið og mig langaði að hafa þig hjá okkur lengur þá finn ég huggun í því að þú hefur fengið hvíldina þína sem þú þráðir. Núna líður þér vel hjá ömmu Huldu og Eddu þinni.
Það eru svo margar yndislegar minningar sem fljúga um hugann og svo margt sem ég get þakkað þér fyrir, elsku mamma. Fyrstu minningarnar mínar eru frá Ásvallagötunni þar sem þú ólst upp ásamt Tóta frænda. Á góðviðrisdögum hittist öll stórfjölskyldan þar og naut samveru í litla bakgarðinum. Þér þótti alltaf vænt um Ásvallagötuna þrátt fyrir að æskuárin þar hafi ekki alltaf verið þér auðveld. Þar bjugguð þið pabbi fyrsta árið mitt og hugsuðuð um Þórbjörgu ömmu þína af alúð og natni. Þú varst einmitt alltaf svo umhyggjusöm og umhugað um að öllum liði vel, það var eitt það besta við þig mamma mín.
Þegar við krakkarnir vorum lítil og við fluttum í Dúfnahólana þá varst þú svo dugleg að fara með okkur út að leika og það eru dýrmætar minningar sem ég bý að. Allar ævintýraferðirnar á róló með þér og í strætó um allan bæ til að fara með okkur út að leika eru mér ógleymanlegar. Seinna varstu líka dugleg að gera þetta fyrir barnabörnin þín og þú fékkst meira að segja gælunafnið amma róló.
Þér var líka umhugað um að kynna leikhúsið fyrir okkur krökkunum og ég var ekki gömul þegar þú fórst með mig á Kardimommubæinn í Þjóðleikhúsinu sem mér fannst alveg stórkostleg upplifun.
Þú varst nánast alltaf heimavinnandi með okkur krakkana þegar við vorum lítil og vannst aldrei meira en hálfan daginn. Meðan pabbi var á sjónum sinntir þú okkur krökkunum og heimilinu af myndarskap og lagðir mikinn metnað í að halda öllu hreinu og snyrtilegu. Börnin mín gera grín að því að ég hafi erft það frá þér að vera svona mikill snyrtipinni.
Mér fannst alltaf svo gott að koma heim úr skólanum og vita að þú varst þar og þetta hafði þau áhrif á mig að ég ákvað að þetta vildi ég líka gera þegar ég eignaðist börn. Ég vildi veita þeim það sama og þú veittir mér og okkur.
Þú komst mér á bragðið í tónlistinni, kynntir hana fyrir mér og hvattir mig alltaf til dáða þar og seinna krakkana mína líka. Þú elskaðir að spila á píanóið og það var ósjaldan sem maður sofnaði við fallega sönginn þinn og ljúfa píanótóna. Ég á eftir að sakna þess svo mikið að heyra þig spila mamma mín. Ég veit að tónlistin færði þér svo mikla gleði. Þú hafðir líka svo gaman af því að dansa og öll fengum við að njóta þess, bæði ég og börnin mín. Alltaf var til dæmis dansað við jólatréð og þú ýmist dansaðir með eða spilaðir á píanóið og söngst fyrir okkur krakkana. Seinna fannst þér afskaplega gaman að fá að gera slíkt hið sama fyrir barnabörnin þín. Við Ægir munum halda áfram að dansa svo lengi sem við getum til að heiðra minningu þína.
Þú varst svo einstaklega gestrisin og lagðir þig mikið fram um að taka vel á móti öllum alltaf. Það brást ekki þegar við Sævar komum til Reykjavíkur með krakkana að þú varst búin að henda í skonsur með rækjusalati, pönnukökur eða annað góðgæti. Það var alveg sama hvaða tíma sólarhringsins við komum á alltaf var eitthvað ljúffengt á boðstólum. Þú varst svo iðin við baksturinn að þú fékkst meira að segja gælunafnið amma pönnukaka. Reyndar varstu líka kölluð amma pakki því þú færðir krökkunum alltaf pakka þegar þú komst austur til okkar eða þegar við komum í Jörfalindina. Það þurfti ekkert tilefni til að þú vildir gleðja barnabörnin þín og færa þeim eitthvað sniðugt. Gjafirnar þínar voru líka svo hugulsamar og skemmtilegar.
Þú vildir alltaf gleðja aðra og það eru til svo margar skemmtilegar vísur sem þú samdir við hin ólíklegustu tilefni til að gleðja fólk. Ef þú fórst í skemmtiferð með pabba og vinnufélögunum þá samdir þú vísu um alla ferðafélagana og jafnvel texta við lag sem sunginn var við góðar undirtektir. Þú samdir líka mikið um okkur í fjölskyldunni og þegar einhver átti afmæli eða var að útskrifast samdir þú alltaf vísu og last hana upphátt fyrir okkur. Þetta voru svo fyndnar vísur sem þú samdir á þinn einstaka hátt. Sérstaklega er mér minnisstæð vísan sem þú samdir um hana Hafdísi okkar þegar hún útskrifaðist, þá var nú mikið hlegið. Það sem mér þykir vænt um að eiga þessar vísur núna. Börnin mín búa að því að hafa átt yndislega ömmu sem þótti vænt um þau og þeim þótti og þykir svo vænt um líka. Alltaf varstu til í að lesa fyrir þau þegar þau gistu hjá þér og ekki fannst þér leiðinlegt að fá að syngja þau í svefn. Það er einmitt ein af dýrmætustu minningum mínum úr æsku þegar þú söngst fyrir mig á kvöldin. Þú hafðir svo fallega og ljúfa söngrödd og það var svo róandi að hlusta á þig. Nú fá englarnir að njóta fallega söngsins þín, mamma mín.
Við áttum margt sameiginlegt, elsku mamma, þótt við værum nú ekki alltaf sammála, ég veit að þú varst stolt af mér og það er gott að vita. Ég var líka stolt af þér því þú hafðir svo marga hæfileika þótt þú ættir stundum erfitt með að sjá þá sjálf. Þú hafðir mikla tónlistargáfu og gast spilað nánast hvað sem var eftir eyranu sem er nú meira en margir geta. Þú varst oft svo fyndin og áttir til að mismæla þig svo skemmtilega en það besta var hvað þú gast alltaf hlegið að sjálfri þér. Ein eftirminnilegasta sagan af því er að mínu mati þegar þú varst að fræða hana Gundu, sem var skiptinemi hjá henni Erlu systur, um íslensku jólasveinana og sagðir svo snilldarlega: Did you know that if you put your skú in the glugg the julesvenner will kom and put dót in your skú? Það sem við erum búin að hlæja að þessu og þú varst alveg í kasti yfir þessu sjálf. Eins tókst þú upp á ótrúlegustu hlutum eins og að sofa með kökukefli undir koddanum ef ske kynni að innbrotsþjófar myndu brjótast inn. Við gerðum náttúrulega stólpagrín að þessu uppátæki og spurðum hvort ekki væri nú betra að hafa öflugra vopn við höndina og hvort þú ætlaðir kannski að baka fyrir þjófana. Þú hlóst eins og venjulega manna mest að þessu en áfram var kökukeflið samt undir koddanum.
Þótt þú hafir lifað góðu og viðburðaríku lífi, elsku mamma, þá kvaldi kvíðinn þig alla þína ævi og varð til þess að þú þróaðir með þér þunglyndi og áfengisvanda seinustu árin. Ég átti svo erfitt með veikindin þín, mamma mín. Það var svo sárt að sjá hvað þér leið illa oft og tíðum og geta ekkert gert. Ég þráði ekkert heitar en að geta hjálpað þér og reyndi mikið til þess en sama hversu mikið ég reyndi þá hafði ég ekki lausnina sem þú þurftir. Þú ein hafðir það vald í hendi þér. Við hin stóðum bjargarlaus hjá en reyndum að styðja þig eins og við gátum og sýna hvað við elskuðum þig heitt.
Ég verð að viðurkenna að það er skrýtin tilfinning að skrifa þessi orð og mjög óraunverulegt að þú sért farin frá okkur. Þú munt alltaf lifa í hjartanu mínu, ég mun sakna þín óendanlega mikið og hugsa til þín á hverjum degi.

Hvíldu í friði elsku mamma mín, takk fyrir allt. Takk fyrir allar sögurnar, sönginn og hlýjuna en mest af öllu takk fyrir að vera mamma mín. Ég elska þig svo mikið.

Nú kveð ég þig í hinsta sinn,

hugsa til þín með hlýju.
Þó tárin renni um vanga minn,

ég veit við sjáumst að nýju.



Í hjarta mér ætíð munt eiga stað,

elsku mamma mín.

Ég elska þig og þakka fyrir það

að ég var dóttir þín.

(Hulda Björk)

Þín

Hulda Björk.