Þótt kjarnorkuslysinu í Tsjernóbíl hafi verið slegið upp í fréttum á sínum tíma kom ekki í ljós fyrr en síðar hversu alvarlegt það var og hve litlu munaði að mun verra hlytist af. Ein ástæðan fyrir því að athygli hefur aftur beinst að slysinu eru leiknir þættir, sem hétu einfaldlega Tsjernobyl og margir sáu og höfðu sérstaka skírskotun hér á landi vegna margverðlaunaðrar tónlistar Hildar Guðnadóttur.
Ein heimildin, sem þættirnir eru byggðir á, er bókin Tsjernobyl-bænin eftir Svetlönu Aleksíevítsj. Sú bók er nú komin út í íslenskri þýðingu og hún er hrollvekjandi lesning.
Aleksíevítsj lýsir Tsjernobyl sem „[m]ikilvægasta atburði tuttugustu aldar, burséð frá þeim hræðilegu stríðum og byltingum sem hennar verður minnst fyrir“. Tsjernobyl sé „sögulegt upphaf nýrra tíma“ sem „storkaði viðteknum hugmyndum mannsins um sjálfan sig og heiminn í senn“ og rústaði „tímaskyn okkar“. Geislavirku kjarnategundirnar, sem dreifðust eftir slysið, verði áfram til, jafnvel um þúsundir ára: „Með hliðsjón af einni mannsævi eru þær eilífar.“
Aleksíevítsj er blaðamaður frá Hvítarús eins og Hvíta-Rússland er kallað í bókinni. Frásagnarstíll hennar er sérstakur. Fyrir Tsjernobyl-bænina tók hún aragrúa viðtala. Þau birtir hún síðan hvert á eftir öðru, yfirleitt eins og eintal. Höfundurinn sést vart nema þegar hún „tekur sjálfa sig tali um sagnfræði sem lendir á milli þilja“ og þaðan eru tilvitnanirnar hér fyrir ofan teknar.
Ein áhrifaríkasta og átakanlegasta frásögnin í bókinni kemur þegar í upphafi og hún mun líka hafa verið notuð í þáttunum. Ljúdmíla Ígnatenko var eiginkona slökkviliðsmanns, sem var með þeim fyrstu á vettvang og lést af völdum geislunarinnar. Farið var með hann á sjúkrahús í Moskvu ásamt fleirum og hún elti og leitaði hann uppi. Það átti að meina henni að hitta mann sinn, en hún lét sig ekki þótt hún legði sig í lífshættu við að vera nálægt honum. Ígnatenko bar barn undir belti. Barnið dó fjórum dögum eftir fæðingu og segir Ígnatenko að fóstrið hafi dregið í sig geislunina og bjargað lífi hennar.
Þar er einnig sagt frá sjálfboðaliðunum, sem fórnuðu sér til að opna loku á kafi í vatni til að hægt væri að þurrka vatnið upp undir kjarnakljúfnum og koma í veg fyrir að það kæmist í tæri við úran og grafít því þá hefði orðið sprenging, sem „hefði ekki aðeins þurrkað út allt líf í Kíev og Minsk heldur hefði stór hluti Evrópu orðið óbyggilegur“.
Tsjernobyl-bænin er frásögn af hetjuskap og lygum, yfirhylmingu, viðvaningshætti, vanmætti, sársauka og doða.
Ungir menn voru kvaddir til að hreinsa upp og lögðu í hann í anda þeirra, sem börðust í seinni heimsstyrjöld, föðurlandsstríðinu mikla, og litu niður til þeirra, sem veigruðu sér við að fara vegna geislunarinnar. Þessir menn áttu margir hræðileg örlög í vændum vegna geislunarinnar. „Við vorum að berjast við kjarnorku með kústskafti,“ sagði einn viðmælandinn.
Reynt var að bregðast við slysinu, fólk var flutt á brott og svæðin næst Tsjernobyl rýmd en yfirvöld höfðu einfaldlega ekki bolmagn til að vernda almenning með fullnægjandi hætti og þar við bættist óttinn við að spyrðist umfang geislavirkninnar og hættunnar út yrði það vatn á áróðursmyllu andstæðinga Sovétríkjanna.
Fyrir vikið varð til eins konar tómarúm í kringum Tsjernobyl. Aleksíevítsj hefur lýst því að það hafi verið auðveldara að vinna og skrifa Tsjernobyl-bænina en aðrar bækur hennar vegna þess að viðmælendur hennar töluðu frá eigin brjósti. Það var ekki til nein opinber útgáfa af því sem gerðist, engin stöðluð frásögn stjórnvalda til að smitast inn í frásögn viðmælenda hennar. Það var bara eyða.
Tsjernobyl-bænin kom út árið 1997 og vakti þá þegar athygli. Það var hins vegar ekki fyrr en hún hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2015 að skrif hennar fengu þá athygli, sem þau áttu skilið. Það á ekki bara við um bók hennar um Tsjernobyl, heldur bækur hennar um síðustu vitni seinni heimsstyrjaldar, lífsreynslu sovéskra hermanna sem börðust í Afganistan og lífið á rústum sósíalismans eftir hrun Sovétríkjanna.
Bók Aleksíevítsj er frábærlega þýdd. Gunnar Þorri Pétursson vinnur verkið af alúð og þekkingu. Víða eru neðanmálsgreinar til að setja textann í samhengi og þær bæta miklu við. Honum tekst meira að segja að koma þeim gálgahúmor að, sem fram kemur hjá mörgum viðmælendum í bókinni, eins og í frásögn manns af geislavirkri máltíð „beint frá Tsjernóbýli“.
Tsjernobyl-bænin er eins og púsluspil þar sem hvert viðtal, hver vitnisburður, fyllir upp í og bætir við uns verður til heildarmynd af þeim hryllingi, sem átti sér stað í Tsjernobyl 26. apríl 1986 og mun teygja ósýnilegar, geislavirkar krumlur sínar inn í ókomna tíð.
Karl Blöndal