Ósk Kristjánsdóttir fæddist í Reykjavík 16. desember 1962. Hún lést á sjúkrahúsinu í Thisted 12. ágúst 2021.

Foreldrar hennar voru: Kristján L. Júlíusson, f. 30. júlí 1933, d. 6. ágúst 2013, og Sigurbjörg Jóhannesdóttir, f. 20. febrúar 1932, d. 19. maí 2020.


Ósk var næstyngst í fjögurra systkina hópi en þau eru: Adolf Örn, f. 6. september 1952; Grétar, f. 8. maí 1955, og Rut, f. 5. júní 1965.

Eftirlifandi eiginmaður Óskar er Guðmundur Vilhjálmsson, f. 1. mars 1961.
Ósk átti soninn 1) Anton Örn Ørsted Rögnvaldsson, f. 20. desember 1981, með Rögnvaldi Hreiðarssyni. Börn Antons: Konný Ósk Önnudóttir, f. 3. des. 2001, móðir Anna Jóna Úlfarsdóttir. Nataníel Örn Örsted Antonsson, f. 29. des. 2005, móðir Rakel Dan Petrudóttir. Maki Antons er Karina Bechmann Olesen f.14. des. 1982. 2) Hector Breki Geirsson, f. 9. október 1985, maki Synne-Louise Langeid Terjesen f. 31. maí 1990. Börn þeirra: Ásta Selilja Langeid Hectorsdóttir, f. 2. mars 2013. Alva Selilja Langeid Hectorsdóttir, f. 2. apríl 2014. Börn Óskar og Guðmundar: 3) Guðný Lára, f. 27. sept. 1989, maki Kristian Vang Thomsen, f. 28. júní 1985. Börn þeirra: Hjalte Amby Kristiansson, f. 28. júní 2011. Toke Amby Kristiansson, f. 22. okt  2013. 4) Hafþór Sindri, f. 24. sept. 1991, maki Sarah Wissing Laursen, f. 24. júní 1989. Börn þeirra: Aya Wissing Hafthorsdottir, f. 9. jan. 2016. Asgeir Wissing Hafthorsson, f. 14. ágúst 2018.


Bálför hefur farið fram.

Í dag hefði Ósk systir mín orðið 59 ára hefði hún lifað hefði krabbinn ekki fundið og tekið hana.
16.12. '62. Hún var afar stolt af þessum degi sínum og því að vera bogmaður, ekki bogamaður eins og sumir segja, og hún hikaði ekki við að leiðrétta þá vitleysu hjá fólki. Bogmaður skyldi það vera.

Þegar við vorum yngri var lagið "Oh what a night" í sérstöku uppáhaldi og þá helst laglínan; "...late desember back in '63", hún tók hana til sín og var þess fullviss um að verið væri að upphefja þann dag sem hún fæddist. Skítt með innihald textans og þá staðreynd að sungið var um árið 1963 en ekki '62, hvað er eitt ár til eða frá þegar maður er ungur og lífið blasir við? Það skiptir hins vegar mun meira máli núna. Við hefðum öll, ekki síst Ósk sjálf, viljað fá í það minnsta eitt ár í viðbót. En því er ekki að skipta, hún er farin í sitt hinsta ferðalag en Ósk lést eftir stutta og snarpa viðureign við krabbamein aðeins 58 ára. Bálför Óskar fór fram við fallega athöfn undir berum himni í Thy Lejeren þ. 20. ágúst sl.
Við Ósk vorum yngstar af fjórum systkinum, ég litla barnið, hún tveimur og hálfu ári eldri og tveir eldri bræður; Adolf og Grétar, og brúaði Ósk bilið milli mín, litla barnsins og töluvert eldri bræðra. Ósk gætti mín af alúð frá fyrstu kynnum, við vorum afar nánar sem börn og fram eftir aldri. Hún var frökk og uppátækjasöm og ég feimna barnið naut oft góðs af, lærði margt, sumt kannski of snemma en margt kom sér vel. Ekki síst þegar maður flytur í nýtt hverfi í uppbyggingu sem var Breiðholtið, fær lykil um hálsinn eins og þá tíðkaðist. Foreldrar nýskildir svo móðirin þarf að vinna meira en æskilegt er ungum börnum en faðirinn í vinnu í nærumhverfinu í Breiðholtskjöri. Það varð til þess að Ósk tengdist pabba sterkum böndum og fannst gott að eiga hauk í horni mitt á milli heimilis og skóla. Ósk vann svo við hlið pabba um hríð í Breiðholtskjöri.
Ósk var mikill töffari, kannski meira af nauðsyn en vilja, var sjálfstæð og átti stóran vinahóp í Breiðholti sem hélt tengslum alla tíð og henni þótti ofurvænt um enda margir frábærir einstaklingar.
Ósk var vön að gera það sem hún vildi og lét fáa segja sér fyrir verkum og hún var móður okkar ekki alltaf auðveldur unglingur, sérstaklega þegar sjálfstæðisbarátta hennar stóð sem hæst en voru mjög góðar vinkonur þess á milli og var þá mikið hlegið saman.
Ég skildi ekki allar hennar ákvarðanir í lífinu en þær voru hennar að taka. Flutningur með eiginmanni og fjórum ungum börnum til Danmerkur fyrir 26 árum kom mér á óvart, að sjá á eftir systur og trúnaðarvini og litlum frændsystkinum sem ég leit að miklu leyti á sem mín eigin var erfitt. Ég átti þá von á mínu fyrsta barni og hefði ég kosið að hafa systur mína við hlið mér í því ferli.
Þrátt fyrir sterk tengsl við Ísland tengdist Ósk dönsku samfélagi strax og tók mikinn þátt í því. Hún átti án alls efa stóran þátt í hugarfarsbreytingu og áliti samborgara sinna í Thy til íbúa leirsins (Lejeren), sannkallaðrar hippakommúnu þar sem íbúar lifa off the grid úti í skógi og eru sjálfum sér nægir með flest. Friðelskandi samfélag þar sem Ósk og fjölskylda vöndu komur sínar og öðluðust vinskap og virðingu fyrir. Sum barna Óskar búa eða hafa búið í leirnum ásamt fjölskyldum sínum og fór bálför Óskar þar fram. Ein sú allra fallegasta útför sem undirrituð hefur verið (fjar)-viðstödd.

Undir haust árið 2020 greinist Ósk með krabbamein sem þá hafði dreift sér en Ósk hafði glímt við heilsubrest lengi og ítrekað leitað til lækna vegna þess en ekki var hluttekningin hinum megin borðsins sem skyldi og því fór sem fór. Undir það síðasta setti Ósk alla sína orku í samverustundir með sínum nánustu. Svo veik var hún á þeim tímapunkti að læknar skildu ekki á hverju hún gekk. Við sem þekktum Ósk vitum það vel, það var lífsviljinn sem hún gekk á.

Snemma morguns 12. ágúst lést Ósk á sjúkrahúsinu í Thisted frá eiginmanni, fjórum börnum sínum, tengdabörnum og barnabörnum. Þau voru henni allt.
Hvíldu í friði elsku systir, hvar svo sem þú munt hvíla. Ég mun minnast þín og sakna þar til sálir okkar og foreldra okkar rekast saman á ný.


Þín systir







Rut.