Gunnar Valdimarsson fæddist í Vatnsfjarðarseli í Reykjafjarðarhreppi 22. nóvember 1923. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði 11. desember 2021.

Foreldrar hans voru Björg Þórðardóttir frá Kaldrananesi í Strandasýslu f. 28.6. 1890, og Sigurgeir Valdimar Steinsson frá Hálshúsum í Vatnsfjarðarsveit, f. 6.8. 1878.

Gunnar var næstyngstur fjögurra systkina. Þau eru Hrólfur, f. 1917, Hans Aðalsteinn, f. 1918, og Ingibjörg Steinunn, f. 1928, sem lifir bræður sína.

Gunnar kvæntist 29. október 1960 Þorgerði Kristínu Hermannsdóttur frá Miðvík í Aðalvík, f. 3. apríl 1934, d. 7. október 2015. Foreldrar hennar voru Hermann Árnason og Sigurlaug Herdís Friðriksdóttir.

Börn þeirra eru: 1) Hermann Sigurlaugur, f. 23.1. 1961, kvæntur Þorgerði Helgu Kristjánsdóttur. Synir þeirra eru Haukur Árni og Rúnar Jón. 2) Valdimar Sigurður, f. 23.1. 1961, kvæntur Lindu Kristínu Gunnarsdóttur, sonur Kristínar er Þorkell. 3) Bergsteinn, f. 2.3. 1964, kvæntur Kristínu Ósk Jónasdóttur. Börn Bergsteins eru Særún Lind og Helgi Snær, sonur Kristínar er Hannes Hólm. 4) Gunnar Þorgeir, f. 6.11. 1967, kvæntur Hrund Hjaltested. Dóttir þeirra er Sóldís Inga, börn Gunnars eru Alma Dögg og Sturla Páll, sonur Hrundar er Halldór Viðar. Þorgerður átti dóttur fyrir, Herdísi Halldórsdóttur, f. 30.12. 1953. Börn Herdísar eru Ragnar Jón, Ólöf Mjöll og Halldór Kristinn.

Gunnar ólst upp í Vatnsfjarðarseli hjá foreldrum og systkinum. Árið 1945 taka þeir bræður, Gunnar og Hrólfur, við búinu af foreldrum sínum. Árið 1949 fluttu þeir ásamt foreldrum og systur í Hörgshlíð í sömu sveit og bjuggu þar til ársins 1952. Þá hófu þeir búskap í Heydal og bjuggu þar til ársins 1987.  Eiginkona Gunnars, Þorgerður, flutti í Heydal 1960.

Gunnar gekk í Bændaskólann á Hvanneyri og lauk þaðan búfræðinámi. Hann var iðinn við að sinna félagsstörfum í sveitinni, sat í hreppsnefnd, var í ungmennafélagi og skólanefnd.

Eftir að Gunnar og Þorgerður fluttu á Ísafjörð vann hann ýmis störf, m.a. við fiskvinnslu, loðdýrarækt, í grunnskóla og félagsmiðstöð.

Útför Gunnars Valdimarssonar fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 18. desember 2021, klukkan 11.00.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Sorgin og gleðin eru systur. Enda þótt okkar kæri föðurbróðir hafi verið orðinn saddur lífdaga og við samgleðjumst honum að hafa fengið kærkomna hvíld, söknum við hans og syrgjum hann. Gunnar fæddist og ólst upp á afskekktu fjallabýli, Vatnsfjarðarseli, þar voru kröpp kjör, en með elju og útsjónarsemi, tókst foreldrum hans að hafa öll börnin sín hjá sér. Ekki var alltaf mikið til að skammta, en erfiðast hefur þó verið þegar engin mjólk var til, en þá var Gunnar á fyrsta ári. Kýrin bar á útmánuðum, var því reynt að treina sauðmjólkina og ærin Móða var mjólkuð fram á jólaföstu. Í Selinu er sumarfallegt, en snjóþungir gátu veturnir verið og ekki var auðvelt með aðdrætti. Það var oft til bjargar í litla bænum að hægt var að ná í silung í Selvötnin og fjallagrösin voru kraftafæða. Eftir að börnin komust á legg varð þó heldur léttara fyrir fæti, enda voru bræðurnir fljótt eftirsóttir í vinnu utan heimilis. Það erfitt fyrir okkur, sem búum við ört vaxandi tækni, að gera okkur í hugarlund aðstæður og verklag það er viðgekkst í landinu fram yfir miðja tuttugustu öldina, allt miðaðist við handafl og hestöfl. Útsjónarsemi og handlagni kom sér vel og af því var til nóg í Selinu. Gunnar var vinnumaður í Þúfum um tíma og bóndasonurinn þar hvatti hann til að sækja sér búfræðingsmenntun og studdi hann við umsókn um nám á Hvanneyri. Það var því haustið 1947 að Gunnar fór í búnaðarskólann á Hvanneyri. Á Hvanneyri var gott að vera og þar voru bundin vináttubönd, er entust ævina út. Þau systkinin frá Seli voru mjög samrýnd og náin. Það var því eðlilegt að við systur fyndum að við áttum hauk í horni, þar sem Gunnar var. Ljúfar eru minningar úr æsku, þegar ekki var mikið um mannaferðir og gestakomur, voru það eins og hátíðisdagar, þegar Gunnar kom í heimsókn. Gunnar átti oft erindi út á sveit, þar sem hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum, bæði fyrir sveitarfélagið, búnaðarfélagið og Ungmennafélagið Vísi. Alltaf gaf hann sér tíma til að koma við hjá Hanna bróður sínum í Miðhúsum. Gunnar hafði m.a. með höndum hundahreinsun, sem þá fór fram öðruvísi en í dag. Aðgerðin tók á þriðja dægur og voru hundarnir beinlínis baðaðir. Eitt haustið, sem oftar kom Gunnar út á sveit, þessara erinda. Björg og Ása fengu þá að fara niður í Vatnsfjörð með pabba, þegar athöfnin átti sér stað. Gunnar kallaði þær hundadoktora og gaf þeim aura fyrir embættið. Ekki var laust við að Þóra fyndi til öfundar, en það stóð ekki lengi, einhvern tímann yrði hún kannski hundadoktor. Á haustin rak Kaupfélag Ísfirðinga sláturhús í Vatnsfirði. Í rúmar tvær vikur komu allflestir bændur hreppsins sér fyrir í Ungmennafélagshúsinu og unnu að slátrun í sláturhúsinu á Hjalltanganum. Þetta var njög mikilvægur hlekkur í samfélaginu, bæði sem félagsskapur og tekjuöflun. Gunnar var alltaf fláningsmaður og þótti öflugur og laginn við það starf. Við systur fylltumst stolti þegar við heyrðum að Gunnari var hælt, enda naut hann þar sannmælis. Eftir að við vorum orðnar fullorðnar og búsettar hér úti í plássum, nutum við þess að fá góða gesti, þegar þau Heydalshjón komu í kaupstað. Eftir að þau brugðu búi og settust að á Ísafirði, kíktu þau oft í kaffi til okkar, enda var Dedda einstaklega félagslynd og þurfti á upplyftingu að halda í sínu veikindastríði, en hún fékk helftarlömun 1968 og þá kom fyrir alvöru í ljós, hve vel hún var gift. Þegar Gunnar og Dedda voru flutt á Hlíf, íbúðir fyrir aldraða á Ísafirði, fann pabbi okkar, sem þar bjó einnig, það glöggt að hann átti traustan bróður, umhyggjan og tillitsemin var einstök.

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.

Gunnar frændi gat sér góðan orðstír hvarvetna.

Góður Guð blessi minningu þessa dánumanns.

Systurnar frá Miðhúsum,

Þóra Hansdóttir.