Hjörtur Einarsson fæddist í Reykjavík 20. september 1965. Hann lést af slysförum 10. nóvember 2021.

Útför hans fór fram 7. desember 2021.

Meira á www.mbl.is/andlat

Elsku pabbi, 10. nóvember var erfiðasti dagur sem ég hef upplifað og endurlifi ég þennan dag aftur og aftur í hausnum á mér því þetta er enn svo óraunverulegt að stóri flotti pabbi minn sé farinn frá okkur, þú áttir ekki að fara á þennan hátt. Fritz prestur, vinur þinn, kom hingað til að tilkynna mér það að þú hefðir lent í hræðilegu slysi á leiðinni heim úr vinnu. Veröldin mín hrundi, ég gat ekki andað, þessar fréttir voru svo sárar og gat ég ekki trúað þessu. Kasólétt átti ég erfitt með að meðtaka þetta, hvernig má það vera að maðurinn sem var sá allra spenntasti sem ég hef hitt á lífsleiðinni að verða afi væri farinn? Spenningurinn og montið var svo mikið hjá þér, ég gat hreinlega ekki beðið eftir að þið mynduð hittast í fyrsta skiptið, en nei plönin voru greinilega önnur. Ég missi eina af mínum mikilvægustu manneskjum í lífinu og viku seinna, á kistulagningardegi þínum, tek ég á móti mikilvægustu manneskju í lífi mínu, ég vildi svo heitt að þessi skipti hefðu ekki verið, því þú hefðir orðið besti og skemmtilegasti afinn enda búinn að bíða lengi eftir þessu hlutverki.
Ég hef átt erfitt með að halda áfram með lífið án þín, ég get ekki hugsað mér lífið án þín, mér finnst þetta svo sárt og hrikalega ósanngjarnt. En ég veit það elsku pabbi að þú myndir vilja ég myndi minnast þín með gleði og veita litla ljósinu mínu allt það besta, sem ég er að gera og reyni einn dag í einu að halda áfram og halda minningu þinni á lofti, en það er erfitt, þetta skarð er bara svo rosalega stórt. En þessi litli sólargeisli mun sko fá að heyra allt um afa sinn og verður minningu þinni haldið hátt á lofti á okkar heimili og hann fær að heyra allar góðu sögurnar um afa sinn. Það er búið að sitja svo rosalega í mér að þið hafið ekki fengið að hittast, því ég var svo rosalega spennt fyrir fyrsta hittingi ykkar, að sjá svipinn á afanum og það er svo sárt að fá ekki að upplifa það.

Frá því ég man eftir mér hef ég alltaf verið rosalega mikil pabbastelpa, við áttum alltaf rosalega fallegt og einlægt samband, sem einkenndist af ást og vináttu. Mamma sá alfarið um að vera manneskjan sem sá um agann en þú varst aðeins slakari og lést allt eftir einkadóttur þinni. Þakklát fyrir ykkur bæði, fékk bæði aga og vináttu sem var svo dýrmætt.

Ég gæti skrifað heila ritgerð um minningar okkar, því þær eru sko ansi margar og góðar. Ég held ótrúlega fast í þá stóru gjöf sem þú gafst mér í fæðingargjöf sem er tónlistarsmekkur þinn og hef ég hann alltaf til að minnast þín. Plötuveggurinn sem ég er með heima sem þú varst svo skotinn í er fullur af okkar plötum, enda fá þær að rúlla á fóninum á meðan ég hugsa til þín.
Það sem mér finnst svo sárt og ósanngjarnt er hvað þú varst kominn á ótrúlega góðan stað og varst svo hamingjusamur og spenntur fyrir framtíðinni og komandi tímum, þetta var alls ekki þinn tími að fara.

Það lýsir þér svo vel hvað þú skildir eftir mikinn kærleik í hjörtum margra og hversu mörgum þótti ótrúlega vænt um þig, því þannig varstu, þú vildir öllum svo vel, varst svo mikill kærleiksbangsi og varst svo fullur af kærleiksvisku, þú vildir allt fyrir alla gera og varst alltaf til í að hjálpa öðrum þrátt fyrir að þú værir kannski sjálfur að ströggla. Þú hafðir alveg þína djöfla að draga en það skilgreindi þig aldrei því þú varst bara svo fáránlega frábær og ég var alltaf svo rosalega montin og stolt af þér.

Þú lifðir fyrir heilbrigðan lífsstíl, hollt mataræði og hreyfingu, já í raun lifðir fyrir World Class, það var aldrei séns að fara að æfa annars staðar. Ég er svo þakklát fyrir að þú gafst mér þá gjöf að fá áhuga á því í gegnum þig enda stóðum við þrjú saman, ég, þú og mamma, á sviði á páskamóti í fitness, ég keppti þrisvar sinnum og alltaf komst þú með mér því þú vildir að við myndum gera þetta saman og varst minn stærsti stuðningur og stærsti aðdáandi. Ég mun halda fast í þetta og reyna koma mér aftur af stað, því þetta skipti þig rosa máli og þá skiptir þetta mig máli.

Ég er líka ótrúlega þakklát þú hafir fengið að kynnast Elvari mínum og þið voruð að byggja upp svo fallegt vinasamband. Tíminn sem við áttum saman í sumar var svo ótrúlega dýrmætur og ég er þakklát fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, með þér, Rakel og Einari.

Ég er einnig rosalega þakklát fyrir að þú og mamma voruð búin að ná sambandi aftur og þótti þér alltaf svo rosalega vænt um hana og talaðir mikið um hana við mig. Þetta er svo vont, því í grunninn vorum þetta alltaf við þrjú á móti heiminum þótt þið væruð skilin.

Ég sakna svo rosalega að heyra í þér, því við töluðum svo rosalega mikið saman, þú hringdir í mig nánast daglega bara til að heyra í mér en svo gátum við átt klukkustunda samtöl um allt og ekkert því við höfðum svo gaman af því að tala saman. Þú varst alltaf svo duglegur að segja mér þú elskaðir mig og værir stoltur af mér og ég til baka á þig, það er rosalega dýrmætt þegar svona gerist, því það vantaði ekki að við vissum þetta. Þú hefur alltaf gefið mér svo mikla ást yfir mína ævi og alltaf verið duglegur að segja mér hvað þú elskir mig mikið og það er eitthvað sem ég fæ að ganga inn í lífið með.

Elsku besti pabbi minn, það er sagt að maður læri að lifa með þessum missi en vá hvað er erfitt að trúa því og sjá það akkúrat núna. Ég get ekki hugsað mér lífið án þín, langar ekki að lifa því án þín og kann það svo sannarlega ekki, hvernig heldur maður áfram þegar svona stór manneskja í lífi manns fer svona skyndilega, ég veit það ekki, á næsta leiti eru jólin, hvernig getur maður haldið þau hátíðleg, ég get ekki hugsað mér jólin og fæ bara kvíða þegar ég hugsa um þau. Þú, Rakel og Einar ætluðuð að eyða áramótunum með okkur sem gerir áramótin rosalega erfið að hugsa um og kvíði ég þeim alveg rosalega því þú verður ekki hérna með okkur, þetta átti að vera svo yndisleg stund hjá okkur en núna mun ég taka á móti nýju ári með sorg í hjarta. En elsku pabbi, ég mun reyna að læra að halda áfram fyrir litla ljósið mitt, afastrákinn þinn.

Þetta er svo mikil lygasaga að þú myndir ekki trúa þessu ef ég sæti hjá þér og væri að segja þér þessa sögu. Tíunda nóvember kveður þú okkur, þú ert kistulagður í hádeginu 17. nóvember en um kvöldmatarleytið var litli prinsinn mættur, greinilegt að þið hafið mæst þarna á leiðinni og ákveðið þetta. Þegar ég kem heim af fæðingardeildinni enda ég í 10 daga einangrun með Covid. Já þetta er ekki grín hvað er á mann lagt en það gaf okkur samt tíma að tengja við litla kút.

Þú varst alltaf svo viss um að hann myndi líkjast þér og væri með nefið þitt, eftir að þú sást 3D-sónarinn, það er sko óhætt að segja að þegar hann mætti þá var hann alveg rosalega líkur afa sínum, sem er svo fallegt.

Ég gæti skrifað endalaust því ég hef svo margt að segja og erfitt að setja punktinn því mér finnst ég aldrei búin að tala við þig, en ég mun heldur aldrei hætta að tala við þig því þú verður alltaf með mér í hjarta mínu. Mig langar að skrifa svo margar minningar en ég veit ef ég fer að reyna að skrifa þær þá get ég ekki hætt að skrifa, þannig að ég held fast í þær og hugsa hlýtt til þeirra. Ég tala við myndina af þér með kertaljós á hverju kvöldi og því mun ég halda áfram.

Elsku pabbi, takk fyrir allt, þú varst einn skemmtilegasti maður sem ég hef nokkurn tímann kynnst og mun kynnast, ég sakna þín meira en orð fá lýst og elska þig heitar en allt. Ég mun aldrei gleyma því sem við áttum og mun leita í huggun í tónlist okkar og okkar óteljandi minningar og segi litla stráknum frá afa sínum þannig að honum líði eins og þú værir alltaf með okkur. Elsku pabbi, ég kveð þig með trega og sé þig aftur þegar minn tími kemur, þú ert fallegasti engillinn og ég veit að þú munt vaka yfir okkur.


Sofðu rótt elsku pabbi, elska þig.


Þín dóttir

Guðbjörg (Búbbólína).