Sigurjón Helgason fæddist í Ólafsvík 14. mars 1947. Hann lést á Landspítalanum 14. desember 2021.
Foreldrar hans voru Kristín Þórunn Kristinsdóttir, f. 6.9. 1921, d. 26.3. 1955, og Helgi Salómonsson, f. 25.10. 1915, d. 22.7. 1981. Alsystkini Sigurjóns eru: Ragnheiður, f. 24. mars 1943, Erlingur, f. 21. maí 1944, Kristinn, f. 2. janúar 1950, Svavar, f. 12. ágúst 1951, og Kristín, f. 24. desember 1954. Samfeðra systkini eru: Alda, f. 26. desember 1958, Bylgja, f. 28. október 1960, d. 13. nóvember 2014, og Bára, f. 7. júlí 1962, d. 12. maí 2004
Sigurjón giftist Sigrúnu Guðlaugsdóttur, f. 19.3. 1950, d. 1.12. 2015, 5. ágúst 1969. Foreldrar hennar eru Guðrún Guðnadóttir, f. 9.12. 1931, og Guðlaugur Árnason, f. 9.6. 1927, d. 27.9. 2021. Sambýliskona Sigurjóns síðustu árin var Svandís Ríkharðsdóttir, f. 22.10. 1957.
Börn Sigrúnar og Sigurjóns eru:

1. Guðlaugur Helgi, sviðstjóri hjá Reykjanesbæ, f. 8.11. 1969. Kvæntur Önnu Maríu Sigurðardóttur kennslustjóra hjá Keili, f. 9.9. 1974. Börn þeirra eru Ívar Gauti, f. 27.10. 1995, Sigurður Salómon, f. 18.6. 1998, og Fannar Berg , f. 4.11. 2010. 2. Kristinn Þór, forritari hjá LS Retail, f. 23.2. 1972. Maki Jóhanna Bogadóttir þjálfunarstjóri, f. 26.3. 1981. Börn Kristins af fyrri samböndum eru Steinunn Helga, f. 2.7. 1991, móðir Aðalheiður Steinunn Sigurðardóttir, Sigurjón Þór, f. 14.4. 2004, og Kristín Þórunn, f. 21.4. 2005, móðir Þórhildur Sandra Davíðsdóttir. Gerður Freyja, f. 6.4. 2015, móðir Ingveldur Geirsdóttir (d. 26.4. 2019) sem átti fyrir Ásgeir Skarphéðin Andrason, f. 15.3.2008. 3. Sævar, flugvirki hjá Icelandair, f. 12.7.1978. Kvæntur Guðbjörgu R. Jóhannesdóttur, lektor við Listaháskóla Íslands, f. 2.1.1980. 4. Elvar Þór, vélamaður, f. 23.2. 1988. Sambýliskona Árný Inda Indriðadóttir háskólanemi, f. 30.9. 1991. Saman eiga þau Karítas Sigrúnu, f. 28.7. 2017. Fyrir átti Svandís Ríkharð Óskar Guðnason, f. 13.3. 1985. Kvæntur Valdísi Unnarsdóttur, f. 8.8. 1987. Saman eiga þau Svandísi, f. 19.4. 2014.
Sigurjón hóf snemma sjómennsku frá Ólafsvík, auk þess að fara á fraktskipi þar sem hann sigldi suður til Afríku meðal annars. Lengst af var Sigurjón verktaki í Keflavík eða frá því að hann fékk vinnuvél í stað launa árið 1974. Sigurjón byggði upp stórt verktakafyrirtæki sem þjónustaði meðal annars Hitaveitu Suðurnesja með flestar jarðvegsframkvæmdir. Eftir að sjálfstæðum atvinnurekstri lauk árið 1999 hóf hann störf sem verkefnastjóri hjá Íslenskum aðalverktökum ehf. til 71 árs aldurs. Það stöðvaði hann þó ekki frá því að vinna, því hann tók að sér garðyrkjustörf þar til veikindi gerðu honum erfitt fyrir síðastliðið vor.
Sigurjón verður jarðsunginn í Keflavíkurkirkju í dag, 21. desember 2021, kl. 13. (Hraðpróf er skylda.)

Þegar ég var 13 ára sendi pabbi mig oftast upp í klukkuturninn í kirkjugarðinum við útfarir. Þarna sat ég á priki og átti að hringja gamalli skipsbjöllu í þrígang á meðan syrgjandi aðstandendur gengu með ástvin að sínum síðasta dvalarstað. Ég var oftast frekar kátur og hafði gaman af flestu í lífinu svo mikið að mér þótti ekki við hæfi að vera þarna að hringja bjöllu brosandi út að eyrum. Þá hugsaði ég hvernig mér myndi líða ef pabbi, sem stóð tignarlegur í jakkafötum að taka á móti líkfylgdinni, væri þessi ástvinur í kistunni. Tilfinningaríkari bjölluhljómur heyrist ekki en þarna þar sem ég sló til spottanum með tárin í augunum.
Pabbi hefur alla tíð verið sú skærasta og besta fyrirmynd sem ég hef nokkru sinni getað átt. Réttsýnn á alla, vildi öllum vel, hugsaði alltaf um alla í kringum sig og setti sjálfan sig alltaf í síðasta sæti. Alltaf að passa stóra hópinn sinn. Honum var alla tíð umhugað um að öllum liði vel, hvort sem það var innan fjölskyldunnar eða framlenging hennar sem til teljast allir sem unnu hjá honum. Enn þann dag í dag finn ég fjölskyldutengingu við alla sem unnu hjá honum, öll einskonar frændsystkin.
Það var aldrei leiðinlegt í kringum pabba. Hvort sem það var úti í skurði, í vinnuskúr, á ættarmótum eða við eldhúsborðið á Heiðarbrautinni. Hann gat alltaf gripið í gítarinn eða nikkuna og tekið lagasyrpu og það var svo til útilokað að hrífast ekki með og bresta í söng með. Laglausasta fólk fékk alltaf sína söngstund þegar pabbi var nálægt með hljóðfæri. Pabbi spilaði og söng, mamma studdi hann í söng og allir í nágrenninu tóku undir. Þannig man ég flestar samkomur með pabba. Þegar hljóðfærið skorti þá var bara skellt í gamansögu það var aldrei leiðinlegt þar sem pabbi var.
Einu sinni hélt ég því fram að hann hefði hlaupið á vatni. Þá kom gat á gúmmíbát sem við bræðurnir vorum í í Seltjörn pabbi stökk útbyrðis með bandspotta og hljóp á vatni með okkur í land. Í dag finnst mér líklegast að þetta hafi allt verið leikið hjá honum til að gera sem mest gaman úr þessu fyrir okkur bræðurna sem sátum stjarfir í bátnum og fögnuðum ógurlega þegar í land var komið. Þegar hann svo reif heila símaskrá til helminga eftir að ég hafði verið að tala um þetta mikla afrek hjá Jóni Páli í sjónvarpinu var ég endanlega sannfærður um að pabbi minn væri ofurhetja. Hann bjargaði öllum þeim sálum sem á þurftu að halda. Ég er ekki undanskilinn frá þeim sem hann bjargaði oft dregið mig í land.
Ef pabbi sagði manni að gera eitthvað í vinnunni sem manni fannst vera erfitt, eða mikið álag, gat maður verið viss um að hann var ekki að biðja um neitt sem hann gæti ekki eða vildi gera sjálfur. Hann fór alltaf fremstur, setti allt í verkið og á eftir komum við hin að reyna að halda í við hann. Hann verður alltaf í huga mér þegar mig langar að kvarta yfir einhverju verkefni eða aðstöðu þá snarþagna ég og þakka fyrir allt það góða sem ég á og hef, eins og hann gerði. Hann bjó líka yfir þeim galdri, gagnvart mér í það minnsta, að þurfa ekki orð. Það dugði honum að stara í augun á mér, og um leið vissi ég hvað ég átti að gera. Hvort sem það var að gera eitthvað, skammast mín eða vera stoltur af einhverju.
Þegar pabbi sá um útfarir lagði hann mikla áherslu á að kantar grafarinnar væru snyrtilegir og helst sléttir. Eitt sinn þegar ég er um fjórtán ára að snyrta gröf, og fannst mér ég hafa staðið mig ágætlega, þá stökk hann ofan í gröfina til að laga smá ójöfnu sem mér yfirsást. Það fór ekki betur en svo að hann fór í lás í bakinu og lagðist þarna í opinni gröf. Það verður að viðurkennast að það kom aðeins á mig að sjá pabba liggja þarna. En hann var ekkert að vorkenna sjálfum sér þar sem hann lá þarna sagði mér að hoppa í traktorsgröfuna og setja skófluna niður til hans og hífa hann upp. Upp fór hann og harkaði þetta af sér en ekki án þess að senda mig niður í gröfina aftur til að laga botninn aftur eftir hans tilsögn.
Pabbi kom alltaf, eins og siður var þá, heim í hádegismat. Eftir vel útilátinn mat átti hann það oftast til að leggjast í forlátan stól með brúnu leðuráklæði og dotta yfir fréttum hádegisins. Það þýddi lítið að stara á símann í þá daga. Ég heyri enn marrið, finn enn hitann, skynja enn andardráttinn þegar ég lagðist löturhægt ofan á bringuna á honum til að vekja hann ekki. Lagði vinstra eyrað á brjóstkassann á honum og lagðist til dvalar. Þessar mínútur, sem mér fannst vera klukkutímar eru mér afar dýrmætar í dag.
Það eru of margar sögur sem hægt er að segja af honum pabba mínum frá þessum árum sem teljast vil verktakaáranna. Það eru líka til betri sögumenn en ég og betur til þess fallnir að koma þeim á prent. Hér stoppa ég í bili að minnsta kosti með þennan kafla.
Mamma dó 1. des. 2015 og var það mikið áfall fyrir pabba og okkur öll. Pabbi átti afar erfitt með að komast yfir það eða halda áfram að leyfa lífinu að vaxa í kringum sorgina. 2017 hittir pabbi Svandísi sem var afar dýrmætt. Það var þá sem hann gat umvafið sorgina með gleði og ást og haldið áfram. Það var honum samt ekki auðvelt að segja frá því að hann væri kominn með ástkonu. Hann hringdi í mig þar sem ég var í bústað og var afar vandræðalegur og hikandi þegar hann sagði mér að hann hefði hitt konu, sko bara svona vinkonu eða bara svona manneskju sem hann gæti talað við og mögulega ferðast með eða bara að það er svo leiðinlegt að vera einn í flugi sko ... það var þarna sem ég stoppaði hann, enda við það að missa meðvitund því ekki skynjaði ég að hann væri eitthvað að anda á meðan hann stressaðist meira og meira upp við þessa frásögn eða beiðni ekki viss.
Með Svandísi var ekki fyllt í eitthvert tómarúm sem mamma skildi eftir, mamma var enn með sinn stað í stóra hjartanu hans pabba. Með Svandísi stækkaði hjartað hans pabba þar sem hún fékk sinn varanlega stað. Stærð hjartans er ekki meitluð í stein. Eftir að pabbi komst yfir það að skammast sín fyrir að fara í annað samband sem ekkill ljómaði hann í hvert skipti sem minnst var á Svandísi. Börnin mín eignuðust aukaömmu og ég eignaðist aukamömmu það eru verðmæti í því fyrir alla. Það gerðist líka með Svandísi að pabbi varð opnari og mýkri maður. Þau mættu reglulega í kaffi til mín á sunnudagsmorgnum. Hér var pabbi mættur til að ræða málin, básúna yfir veðrinu, fussa yfir einhverju en mest að fylgjast með barnabörnunum þroskast og leika við þau. Gerður ljómaði alltaf þegar afi Siggi og amma Svandís komu í heimsókn. Pabbi hafði einstaklega gaman af barnabörnunum sínum lagði mikla alúð við það að vita hvort öllum liði ekki vel í sínu lífi. Hvar í heiminum sem þau lifa því.
Elsku pabbi minn, þín verður sárt saknað af öllum. Hugur minn er hjá Svandísi og barnabörnunum sem fá ekki meira af þér. Augun þín sem sögðu mér svo margt eru lokuð en minningin er það sterk að þau lifa áfram með mér.
Það er viðeigandi að útförin fari fram á myrkasta degi dimmasta ársins.

Kristinn Þór Sigurjónsson.