Magnús Gunnar Sigurjónsson fæddist á Velli í Hvolhreppi 27. nóvember 1932. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 14. desember 2021. Magnús var sonur hjónanna Sigurjóns Þorkels Gunnarssonar frá Velli og Signýjar Vilhelmínu Magnúsdóttur frá Hlíðarási í Vestmannaeyjum. Bróðir Magnúsar var Guðni Hörður Sigurjónsson, f. 30.8. 1934, d. 18.11. 1974. Systir Magnúsar er Jónína Guðbjörg Sigurjónsdóttir, f. 1.5. 1949.
18. ágúst 1955 giftist Magnús, Viktoríu Þorvaldsdóttur úr Reykjavik. Börn þeirra voru sjö:
Margrét, Sigurjón, d. 1975, Þorvaldur, d. 2018, Vilhjálmur, Gunnar, Bjarni og Signý.
Tengdasynirnir eru tveir: Einar Björn Steinsmóðsson og Arnar Þór Diego, og tengdadæturnar tvær: Guðrún Rut Erlingsdóttir og Kristín Þuríður Sigurðardóttir.
Vegna aðstæðna verður minningarathöfninni streymt kl. 18 þann 21. desember 2021.
Hlekkur á streymi:
https://www.mbl.is/andlat.

Fyrstu ár ævi sinnar bjó Magnús á Velli í Hvolhreppi. Og einnig bjó fjölskyldan í Vestmannaeyjum um tíma. Sigurjón faðir Magnúsar byggði sér nýbýli úr jörð Vallar sem hét Bakkavöllur, þar bjó Magnús fram undir tvítugt. Magnús stundaði nám í Hvolsskóla og að því loknu hjá séra Arngrími i Odda á Rangárvöllum og síðan lá leiðin í Héraðskólann á Laugarvatni eins og algengt var i þá daga.

Eftir skólagönguna vann Magnús ýmis störf. Hann sinnti bústörfum á búi foreldra sinna, vann sem bílstjóri um tíma en réð sig upp úr tvítugu til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, og vann þar á spítala hersins.

22 ára kynnist hann Viktoríu sem þá var kaupakona á Eyvindarmúla í Fljótshlíð og felldu þau hugi saman.

Hinn 18.8. 1955 giftust Viktoría og Magnús, þau voru þá búsett í Reykjavík. Viktoría var í foreldrahúsum í Nóatúni 24 en Magnús vann á Keflavíkurflugvelli og kom heim í fríum. Á þessum tíma var elsta dóttirin Margrét fædd.

Hugur þeirra stóð til að búa i Reykjavík áfram og ætlaði Magnús að útvega litlu fjölskyldunni húsnæði en alvarleg veikindi föður hans verða til þess að þau snúa til baka í sveitina og Magnús tekur við búi foreldra sinna. Hann hafði þó aldrei hugsað sér að verða bóndi, Hörður bróðir hans var húsasmiður og vildi vinna við það og Jónína systir hans var aðeins barn á þessum tíma, þannig að það kom í hlut Magnúsar að taka við búinu.

Byggt var við hús foreldra hans á Bakkavelli en þangað til bjuggu ungu hjónin á Hvolsvelli. Þau flytja svo í glænýja efri hæð á Bakkavelli, en skömmu síðar lést Sigurjón faðir Magnúsar. Eftir skamman tíma í búskapnum ákveður Magnús ásamt bróður sínum Herði að stofna byggingarfyrirtæki og hætta búskap. Þeir reka fyrirtækið í nokkur ár. Byggja ýmsar byggingar þar á meðal votheysturna i Árnes- og Rangárvallasýslu. Fjórum árum eftir andlát föður hans fellur móðir hans frá. Skömmu síðar hefst nýr kafli í lífi Magnúsar og Viktoríu, hann fer út í verslunarrekstur og rekur verslunina Hagkjör á Hvolsvelli um árabil. Verslunin var eins og Costco þess tíma; þar fékkst matvara, fatnaður, snyrtivörur, raftæki, gjafavörur, fóðurbætir, áburður, dekk, bensín, olía og svo mætti lengi telja. Einnig gerði Magnús út flutningabíl og kjörbíl sem keyrði um sveitirnar með varning heim á sveitabæina þar sem bændur og búalið gátu keypt ýmsar nauðsynjar og var kjörbíllinn afar vinsæll. Eftir ýmsar hremmingar á síðasta ári verslunarrekstursins gengur verslunin ekki lengur og fer hann að vinna í Vatnsfelli sem eftirlitsmaður með virkjunarmannvirkjunum í tvö ár. Seinna árið fer Viktoría með honum í Vatnsfell ásamt fjórum yngstu sonunum. Þar stunduðu drengirnir heimanám og undi fjölskyldan sér vel i óbyggðum. Margrét og Sigurjón voru þá komin í gagnfræðaskóla og voru seinna árið hjá Ingibjörgu og Ingvari í austurbænum á Velli. Magnús og Viktoría minntust þess oft hve hjálpsamir nágrannarnir í Vallakróknum voru og þegar á bjátaði stóð fólkið saman.

Eftir árin í Vatnsfelli flytja hjónin með allan barnaskarann, sem þá voru orðin sex og hið yngsta á leiðinni, til Reykjavíkur. Á þeim tíma vann Magnús hjá Breiðholti hf. í byggingarvinnu og við lagningu línu yfir Hellisheiði og á virkjanasvæði Þjórsár.

Magnús og Viktoría sóttu um lóð í Seljahverfi og fengu en þar sem mikil húsnæðisekla var í Reykjavík og óvíst um leiguhúsnæði þar til byggingin yrði tilbúin verður úr að fjölskyldan flytur til Stokkseyrar.

Á sex mánaða tímabili dynja stór áföll yfir fjölskylduna. Jóhannes bróðir Viktoríu lætur lífið á voveiflegan hátt aðeins 28 ára gamall. Skömmu síðar fellur Hörður bróðir Magnúsar frá á besta aldri en hann hafði barist við sykursýki frá unga aldri. Um páskana 1975 dynur enn eitt stóráfallið yfir þegar Sigurjón sonur þeirra hjóna lætur lífið í alvarlegu slysi aðeins tæplega átján ára gamall. Eins og gefur að skilja marka þessi áföll djúpa sorg í lífi fjölskyldunnar. En sumarið 1975 fæðist fyrsta barnabarn hjónanna og er eins og lítill sólargeisli í allri sorginni.

Næstu árin vinnur Magnús ýmis störf á Stokkseyri með það að markmiði að geta verið sem næst heimilinu. Hann fer í róðra, vinnur í byggingarvinnu og sem vörubílstjóri, gerist húsvörður í skólanum og félagsheimilinu, sér um opið hús eldri borgara og skólagarðana i nokkur sumur. Stofnar fyrirtækið Stjörnuplast ásamt vini sínum og nágranna.

1985 byrja Magnús og Viktoría að rækta ýmsar víðitegundir í tilraunaskyni, byggja lítið gróðurhús og hefja ræktun sumarblóma og matjurta fyrir Stokkseyrarhrepp. 1992 stofna þau formlega Gróðrarstöðina Heiðarblóma á Stokkseyri og byrja nú að rækta markvisst sumarblóm, tré og runna. Jafnframt tekur Magnús að sér ýmis garðyrkjustörf í nágrenninu svo sem tætingu matjurtargarða, gróðursetningu skjólbelta, moldarvinnslu og fleira.

Árið 2005 ræðst Magnús i að gera upp húsið Ásbyrgi á Stokkseyri, byggir nýja hæð og breytir því í gistiheimili með dyggri aðstoð barna sinna og tengdabarna. Og árið 2007 er brotið blað í sögu Stokkseyrar þegar Gistiheimilið Kvöldstjarnan er opnað, en þá hafði ekki verið gisting þar í áratugi.

Haustið 2006 greinist Viktoría með krabbamein og lést eftir stutt veikindi í maí 2007, 70 ára gömul.

Lát Viktoríu var mikið áfall í fjölskyldunni en með samheldni fjölskyldunnar og af sinni annáluðu þrautseigju og bjartsýni hélt Magnús ótrauður áfram. Hann bar harm sinn í hljóði.

Í byrjun sumars 2018 veikist Þorvaldur snögglega og lést eftir stutt veikindi á gjörgæslu. Enn á ný er mikill harmur kveðinn að fjölskyldunni. Síðustu árin finnur Magnús ró sína og gleði aftur á sumrin innan um gróðurinn.

Magnús hafði mörg áhugamál, hann hafði yndi af tónlist og söng, samdi lög og ljóð, lék í leikritum á sínum yngri árum. Hann spilaði á harmoniku og orgel, einnig hafði Magnús gaman af stang- og netaveiði og öllu því sem tilheyrði náttúrunni.

Hann hafði mikinn áhuga á ræktun og var að vissu leyti frumkvöðull á því sviði á Stokkseyri. Og síðustu árin þegar kraftarnir minnkuðu var hans líf og yndi að fylgjast með í Heiðarblóma, sitja þar í blíðunni og ræða við kúnnana, gefa þeim góð ráð og oft spurði hann þá hvaðan þeir væru og komst þá að einhverjum tengslum og oft skyldleika. En Magnús hafði mikinn áhuga á ættfræði.

Mesta tilhlökkunarefni Magnúsar á sumrin var sumarhátíðin, þá komu ýmsir vinir hans, spiluðu á hljóðfæri og sungu. Á sumarhátíðina komu einnig fjölskyldumeðlimir, ættingjar og vinir, og var þá oft glatt á hjalla.

Magnús var vinmargur frumkvöðull, athafnamaður sem hafði sterkar skoðanir, mikinn lífsvilja, var jákvæður og æðrulaus, hann vildi hvergi annars staðar eyða síðustu árunum en í sínu elskaða umhverfi og nálægt sínu fólki.

Það gleður okkur fjölskylduna nú að leiðarlokum að Magnús hafi getað eytt síðustu árum sínum á heimaslóðum þrátt fyrir erfið veikindi. Síðustu tvær vikurnar bjó Magnús á Sólvöllum á Eyrarbakka og var þá loksins sáttur við að flytja.

Fyrir hönd fjölskyldunnar,

Margrét.