Fjölnir Geir Bragason húðflúrlistamaður, Fjölnir tattú, fæddist í Reykjavík 5. febrúar 1965, sonur hjónanna Kolbrúnar Benediktsdóttur leikskólakennara, f. 2. september 1942, og Braga Ásgeirssonar myndlistarmanns, f. 28. maí
1931, d. 25. mars 2016. Fjölnir lést 11. desember 2021.

Bróðir Fjölnis samfeðra er Bragi Agnar (Brian), f. 21. mars 1960, systir Fjölnis sammæðra er Júlía Valsdóttir, f. 26. nóvember 1963, börn hennar eru Júlía Rós, Sara Dís og Róbert Valur. Systkini Fjölnis eru Ásgeir Reynar Bragason, f. 22. júlí 1966, unnusta hans er Helga María, Símon Jóhann Bragason, f. 14. júlí 1970, börn hans eru Sóldís Rós, Veronica Alexandra, Rafael Róbert og Soffía Gabríela, Kolbrá Þyri Bragadóttir, f. 18. júlí 1971, börn hennar eru Bragi Haukur, Frigg og Askur Ari.
Synir Fjölnis eru Atli Freyr Fjölnisson, f. 30. júní 1989, móðir hans er Agla Soffía Egilsdóttir, f. 25. júní 1972. Börn Atla Freys eru Fjölnir Myrkvi, f. 21. febrúar 2011, Ísabel Dimma og Indíana Nótt, fæddar 30. desember 2013. Móðir þeirra er Selma Hrund Kristbjarnardóttir. Fáfnir Fjölnisson, f. 9. desember 1995, móðir hans er Þóra Björk Ólafsdóttir, f. 17. júní 1973. Fenrir Flóki Fjölnisson, f. 16. feb. 2013, móðir hans er Kristín Lilja Gunnsteinsdóttir, f. 4. mars 1990, d. 14. júlí 2020. Uppeldisforeldrar Flóka með Fjölni eru Sólveig Ásgeirsdóttir og Bogi Bragason, amma og afi Flóka.
Fjölnir gekk í Breiðagerðisskóla, Réttarholtsskóla og Hlíðaskóla og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1990. Fjölnir hóf nám við höggmyndalist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, ásamt því að sinna fleiri listgreinum. Hann útskrifaðist með BA-gráðu úr Listaháskólanum árið 2000, þar sem lokaritgerðin fjallaði um húðflúr. Fjölnir fór að læra til húðflúrs hjá Jóni Páli Halldórssyni árið 1995 og starfaði sem húðflúrlistamaður allt frá því. Hann vann lengst af á JP Tattoo og svo síðar á Íslenzku húðflúrstofunni.
Fjölnir gat sér gott orð sem hugmyndaríkur og vandvirkur flúrari, sem átti verulegan þátt í að ryðja þeirri listgrein braut hér á landi og afla húðflúri mun almennari vinsælda en þar til hafði tíðkast. Fjölnir var glæsilegur maður á velli, sem vakti athygli hvar sem hann fór; um margt óvenjulegur í fasi og útliti, áberandi í samkvæmislífi borgarinnar á yngri árum, vinsæll og vinmargur. Hann var fjölfróður og skemmtilegur viðræðu um nánast hvað sem var, íhugull en skjótur til svars og átti auðvelt með að tvinna saman gaman og alvöru. Fjölnir var mjög stoltur afi og pabbi og studdi einnig systkinabörn sín.
Fjölnir tók þátt í stofnunFOTatt Fest-hátíðarinnar í Færeyjum árið 2012 ásamt PáliSch. Thorsteinssyni, en í sumar hélt hanntattú-blót á Langaholti á Snæfellsnesi og fyrsta ISTatt Fest-hátíðin var haldin í Iðnó nú í október. Nýlega lét hann til sín taka ásamt fleirum með áskorun til borgaryfirvalda um rannsókn á starfsemi vöggustofa í Reykjavík á árum áður, en hann hafði í æsku verið vistaður á einni slíkri um hríð. Útför að hætti ásatrúar verður frá Fossvogskirkju í dag, þriðjudaginn 21. desember, kl. 13.00. Gestir þurfa að framvísa neikvæðu hraðprófi sem er ekki eldra er 48klst. við komu.

Í ljósi fjöldatakmarkana og þess hve Fjölnir var vinamargur eru vinir hans hvattir til að safnast saman og fylgjast með útförinni með streymi https://youtu.be/M98ky-QMc0U
Laugardagurinn 15. júlí 1995 rann upp bjartur og sólríkur, sveipaður geislum sumarsólar auk þess sem sól skein í heiði í sinni rúmlega tvítugs manns er lagði leið sína úr Garðabænum niður á Lækjartorg þar sem húðflúrstofan JP Tattoo var þá til húsa, vígi Jóns Páls Halldórssonar er á komandi árum átti eftir að verða einn kunnasti húðflúrlistamaður þjóðarinnar.

Garðbæingurinn gestkomandi iðaði í skinninu, bókstaflega, fyrsta húðflúrið var að verða að raunveruleika, þröskuldurinn hái milli þess er unnendur húðlistarinnar kalla blekjómfrú, eða ink virgin á erlendum tungum, og þess nýja tilverustigs hinna innvígðu sem hlýtt hafa á ómþýtt suð nálarinnar og reynt ljúfsáran sviðann í hörundinu sannarlega er þar sá eldurinn heitastur er á sjálfum brennur.

Það var þarna á stofunni hjá Jóni Páli þennan sumardag ársins 1995 sem fundum okkar Fjölnis Geirs Bragasonar bar fyrst saman, heljarmennisins með gullhjartað sem nú hefur kvatt samferðamenn sína sviplega svo gapandi skarð er fyrir skildi. Auðvitað hafði undirritaður séð þessu síðhærða hálftrölli, sem skar sig kirfilega úr allri mergð, bregða fyrir í næturlífinu, Fjölnir Geir Bragason var jafn samofinn 101 Reykjavík og borgarskáldið Tómas Guðmundsson eða Jóhannes Kjarval, svo höggvið sé nær myndlistinni, þótt Fjölnir hafi líklega aldrei beinlínis verið búsettur á Hótel Borg eins og listmálarinn.

Fjölnir var stórskemmtilegur maður og viðræðugóður, víðlesinn og margfróður um ótrúlegustu kima mannlegs lífs og dauða. Verður mér lengi í minnum teiti nokkur í Gnoðarvogi sumarið 2006, reyndar nokkuð liðið á morgun eins og verða vildi á þeim árum, þar sem Fjölnir kynnti nýjustu rannsóknir sínar á Kóraninum í löngum fyrirlestri og varpaði fram ýmsum áleitnum spurningum og túlkunaratriðum, viðstöddum til gagns og allnokkurs gamans.

Milli þess er hann kastaði fram fróðleik sínum stökk honum brosgletta og má segja að sjaldan hafi hin myndræna lýsing skáldsins á Gljúfrasteini á bóndanum frá Rein sprottið eins ljóslifandi fram: Jón Hreggviðsson hló með glampa í auganu og það leiftraði á hvítar tennurnar í svörtu skegginu.

Minnugur var Fjölnir með afbrigðum, jafnvel svo jaðra þætti við fjölkynngi, sköpunarsögu einstakra húðflúra mundi hann svo undrum sætti. Annað skiptið, er hann var viðstaddur kafla í blekvæðingu undirritaðs, var 4. september 1996, þegar téður Jón Páll dró sjálfan Miðgarðsorm á upphandlegg mér. Mikið eljuverk er reyndi í senn þolrif listamanns sem þiggjanda.

Fjórum árum síðar, sumarið 2000, sat ég til borðs með Fjölni og fleiri góðum sveinum einhvers staðar úti á galeiðunni og voru húðflúr til umræðu. Einhver við borðið spurði hvenær þetta tiltekna verk hefði verið sett á mig, dagsetning sem ég sjálfur mundi auðvitað mætavel. Fjölnir var hins vegar á undan og svaraði september '96 án þess að hugsa sig um eina andrá. Toppstykkið ávallt á við skæðustu ofurtölvu á þeim bænum.

Nú, þegar komið er að leiðarlokum hérna megin, rifjast upp fyrir mér þegar Bragi Ásgeirsson, faðir Fjölnis, kunnur listmálari og listrýnir Morgunblaðsins um áratugi, lést fyrir fimm árum. Leitaði Fjölnir þá til mín og treysti mér fyrir því verkefni að lesa yfir minningarorð um föður hans, verkefni sem ég taldi mér í senn ljúft og skylt. Ekki óraði mig þá fyrir að einungis hálfum áratug síðar sæti ég yfir öðrum minningarorðum, í það sinnið um Fjölni sjálfan. Má þar með sanni segja að sjaldan verði ósinn eins og uppsprettuna dreymir.

Við Fjölnir áttum spjall á rafrænum óravíddum samfélagsmiðla fyrir skömmu, í nóvember, og ræddum þá nýjar og auðvitað strangari reglur Evrópusambandsins um blek til húðflúrunar með gildistöku 1. janúar. Þóttu Fjölni tíðindin allill og ég kastaði því fram við hann að skilnaði að ég hygðist nú, hvað sem Evrópusambandið segði, leggjast að minnsta kosti einu sinni undir nálina hjá honum áður en dauðans óvissi tími vitraðist mér.

Af því verður ekki hérna megin móðunnar miklu, en leynist framhald handan grafarinnar býður mér í grun að þar mundi blekskáldið svipmikla verkfæri sitt af festu og hvassri einbeitni og glotti við tönn. Minn eftirminnilegi vinur, þú hjartans beztu óskum kvaddur sért, eins og listaskáldið góða kvað.

Atli Steinn Guðmundsson