Björgvin F. Magnússon fæddist í Reykjavík 29. september 1923. Hann lést 13. desember 2021.

Hann var sonur hjónanna Magnúsar Guðbjörnssonar póstfulltrúa og Guðbjargar Sigurveigar Magnúsdóttur. Móðir Björgvins lést þegar hann var fjögurra ára gamall og hann ólst upp hjá afa sínum og ömmu, Magnúsi Vigfússyni og Sólveigu Jónsdóttur á Kirkjubóli við Laugarnesveg.

Björgvin lauk stúdentsprófi frá MR 1946, embættisprófi í guðfræði frá HÍ, lauk síðan kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands og lærði þar að auki námsráðgjöf og sérkennslu í San Francisco-háskóla. Hans ævistarf var skólastjórnun skátaskólans á Úlfljótsvatni og heimavistarskólans á Jaðri, þar sem hann ól upp margar kynslóðir.

Hann var skáti með stórum staf og í raun hinn eini sanni höfðingi íslenskra skáta og sannarlega einn elsti starfandi skáti í heiminum. Björgvin var einnig skólastjóri Gilwell-skátaháskólans á Úlfljótsvatni árum saman og átti hann alla tíð djúpar rætur á þeim stað.

Björgvin var sæmdur hinni íslensku fálkaorðu fyrir störf að uppeldis- og skólamálum og var einnig sæmdur Silfurúlfinum, æðsta heiðursmerki skáta.

Eiginkona Björgvins til 30 ára var Margrét Kristinsdóttir, sjúkraliði og nuddari, sem lést árið 2013. Dóttir þeirra er Edda leikkona og börn hennar eru Eva Dögg, Margrét Ýrr, Björgvin Franz og Róbert Ólíver og eiga þau samtals 13 afkomendur. Sambýliskona Björgvins var Sigrún Sigurjónsdóttir, en hún lést árið 2011.

Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 22. desember 2021, klukkan 15.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Faðir minn, Björgvin Magnússon, var kærleikurinn. Ég veit satt að segja ekki hvernig maður kveður besta föður sem nokkur getur átt. Hvernig minnist maður manns sem hefur gefið svo fallegar og mikilvægar gjafir að þær móta allt lífið. Hvernig lýsir maður gleðigjafa sem hefur snert svona ótrúlega mörg hjörtu á lífsleiðinni. Mig brestur orð. Eitt get ég þó sagt að mitt líf og hæfni mín til að mæta og leysa úr þeim verkefnum sem mér hafa verið færð væri sannarlega vanmáttugri ef ég hefði ekki verið elskuð og nærð svona einstaklega fallega og endalaust af þessum ljósbera honum föður mínum. Gjöfin að fá að vera dóttir hans Björgvins Magnússonar er eitthvað sem ég reyni ekki að lýsa með orðum.

Hér er brot af kveðjunum sem mér hafa borist frá þeim risastóra hópi fólks sem elskaði þennan mann. Falleg lesning og nærandi fyrir hjartað. Nemendur hans, samstarfsfólk, skátar, börn og fullorðnir minnast hans á ýmsan hátt og kveðjurnar innibera flestar lýsingarorð í hástigi: Bestur, flottastur, skemmtilegastur, gull af manni, höfðingi, meistari, fyrirmynd, leiðtogi, snillingur, engill, verndari, kærleiksbúnt, gleðigjafi, stuðbolti, ljósberi, ólseigur nagli, töffari dauðans, silkimjúkur sálufélagi í sárum og sigrum, ósigrandi klettur. Þessum skilaboðum hefur rignt inn í pósthólfið mitt og áfram berast mér álíka litskrúðugar kveðjur. Pabbi minn besti, mildin uppmáluð. Hann hækkaði aldrei róminn, skammaði engan, hreytti aldrei í neinn, hrósaði öllu sem vel var gert, hvatti til dáða, var þolinmóður og æðrulaus, fylgdist með öllu sínu fólki og hafði einlægan brennandi áhuga á velferð þeirra sem hann umgekkst. Ég get ekki fullþakkað þá gæfu lífs míns sem bar nafnið Björgvin Magnússon. Þessi sérstaklega hlýi faðmur og fallega bros. Hann elskaði að vera með mér og fjölskyldunni og vildi alltaf vita nákvæmlega hvað við höfðum verið að bardúsa. Elskaði að rekja úr okkur garnirnar og segja okkur sögur. Við töluðum mjög mikið saman saman við feðginin og oft hófust samtölin svona Hvernig hefur þú það elsku pabbi minn? spurði ég. Ég gæti ekki haft það betra, sagði gullmolinn hlýlega. Lífið í hans augum var einstök gjöf og hún gæti ekki hafa verið betri. Þessi spræki hressi jaxl var svo óheppinn að lærbrotna fyrir tveimur árum á leið úr vinnunni, já vel á minnst hann var enn að vinna 96 ára gamall, en hann sá auðvitað strax einhverja ljósa punkta, eins og t.d. að hann gæti notað jólafríið til að ná sér svo hann gæti mætt á nýju ári galvaskur út í lífið. Þegar það var ljóst að hann væri ekki að hendast á fætur eins og unglingur og myndi dvelja um hríð á umönnunarheimili þá réð hann sér ekki fyrir kæti að fá að vera á Lundi á Hellu. Hjúkrunarheimili á heimsmælikvarða. Þetta gæti ekki verið betra, sagði gleðipinninn þegar hann var kominn á sjúkrastofu þar sem dásamlega nærgætið fyrirmyndarfólk annaðist hann. Á hverjum degi fékk ég að heyra hvað hann væri rosalega þakklátur og hamingjusamur á Lundi. Og þegar hann fékk þar undurfallega svítu til umráða og gat raðað í kringum sig uppáhaldsmununum sínum þá sagði hann daglega: Þetta gæti ekki verið betra Edda mín þetta er eins og að vera á fimm stjörnu hóteli! Hann elskaði okkur skilyrðislaust, mig, börnin mín fjögur og þeirra börn, og við elskuðum hann endalaust. Litlu börnin vissu ekkert betra en að vera í fanginu á fallega og glæsilega afa sem umvafði þau kærleiksorku. Að hlusta á hann segja frá lífinu og alls konar spennandi hlutum fannst þeim frábært. Hann hafði dáleiðandi áhrif á mann þegar hann byrjaði að tala og ekki síður þegar hann var að stússa eitthvað og blístraði afar róandi lagleysur. Alltaf flottur, alltaf smart og með nýjustu rakspírana. Að vera í kring um hann var dálítið eins og að vera í djúpslökun. Krílunum í fjölskyldunni fannst ekki lítið spennandi að þessi geggjaði afi væri einn elsti starfandi skáti í heimi. Og hann hafði lifað heila heimsstyrjöld, fengið æðstu orður, vissi allt, mundi allt og skildi allt. Nú er hann farinn til að færa birtu í aðra heima og við þökkum þá gjöf að hafa fengið að njóta hans svona lengi og sáröfundum alla himins engla af því að fá að vera í samvistum við hann á meðan við hér á jörðinni hrósum happi yfir að hafa notið leiðsagnar og ástar Björgvins Magnússonar.

Hvíl í friði einstaka sál. Þín dóttir

Edda.