Esther Britta Vagnsdóttir fæddist í Reykjavík 10. ágúst 1936. Foreldrar hennar voru Vagn Egill Jónsson hæstaréttarlögmaður, f. 5. júlí 1914, d. 5. apríl 1976, og Laufey Hólm Sigurgarðsdóttir húsmóðir, f. 21. apríl 1911, d. 2. maí 1988. Bróðir hennar, Atli Vagnsson hdl., er fæddur 18. júní 1946.




Árið 1956, hinn 6. október, giftist hún Braga Skarphéðinssyni, f. 24. nóvember 1933, d. 20. október 2007, járnsmíðameistara. Foreldrar hans voru Skarphéðinn Vemundsson, f. 18. ágúst 1911, d. 31, desember 1979, verkamaður, bóndi og sjómaður, og Jórunn Einarsdóttir, f. 23. febrúar 1905, d. 23. september 1978, húsmóðir og iðnverkakona í Reykjavík. Börn þeirra eru:

1) Egill Héðinn, f. 8. mars 1957. Kona: Anna Lára Þorsteinsdóttir, f. 28. júlí 1956. Skildu 2002. Börn: Adda Laufey, f. 1. maí 1978. Maður: Sigurður Hallmann Egilsson, f. 4. júlí 1974. Þeirra börn: Egill Vagn, f. 3. apríl 1998. Ásdís Magnea, f. 25. júní 1999. Skúli Þór, f. 3. febrúar 2004. Kristófer Örn, f. 3. desember 2007. Margrét Dögg, f. 22. febrúar 2010. Sigurður Bjarki Hólm Ödduson, f. 8. mars 2012. Þorsteinn Marinó, f. 2. júní 1987. Kona: Kristjana Mekkín Sævarsdóttir, f. 29. janúar 1993. Barn: Sævar Marinó, f. 19. mars 2018. Skildu 2019. Þorsteinn Bragi, f. 28. nóvember 1985, d. 2. desember 1985.
2) Skúli Þór, f. 13. maí 1959. Kona 1. Bryndís María Davíðsdóttir, f. 7. apríl 1960. Barn: Pascale Elísabet, f. 16. nóvember 1980. Skildu. Kona 2: Natalie Laurette Francoise, f. 6. september 1962. Barn: Davíð Bragi, f. 19. júní 1992. Skildu. Kona 3: Nuanchawee Wijanarong, f. 17. janúar 1968. Börn: Ása María, f. 5. september 1998. Jasmín, f. 7. maí 2004.
3. Snorri Ragnar, f. 25. desember 1963. Sambýliskona og barnsmóðir Margrét Jónína Þorsteinsdóttir, f. 25. febrúar 1967, d. 25. apríl 2021. Börn: Daníel Ágúst, f. 25. júní 1989. Kona: Giada Visalli, f. 5. ágúst 1988. Börn: Dante, f. 5. september 2017. Máni, f. 27. september 2019. Snorri Ágúst, f. 23. desember 1990. Sambýliskona; Sóley Rós Guðmundsdóttir, f. 2. maí 1990. Barn: Bylgja Sól, f. 19. febrúar 2021. Snorri og Margrét slitu sambúð. Seinni sambýliskona og barnsmóðir Snorra Ragnars Bragasonar er Auðbjörg María Ólafsdóttir, f. 12. desember 1971. Börn: María Elísabet, f. 15. desember 2006. Baltasar Bragi, f. 3. október 2008. Haukur Arnar, f. 18. ágúst 2011. Þau slitu sambúð.

Útför hennar fer fram frá Glerárkirkju í dag, 4. janúar 2021, klukkan 13.

Hver dag­ur líður að kvöldi og nótt­in tek­ur við. Bjart­asti sum­ar­dag­ur fel­ur einnig í sér and­stæðuna, viss­una um dimma vetr­ar­nótt­ina sem mun koma. Lífið er enda­laus breyt­ing, því lýk­ur óhjá­kvæmi­lega. Þegar þessi um­skipti lífs og dauða komu til tals minnti mamma á að dauðinn væri aðeins skamm­vinnt ástand; lífið héldi áfram á öðrum til­veru­stig­um. Þetta var meira en trú, þetta var staðföst full­vissa henn­ar.
Í Reykja­vík ólst mamma upp á heim­ili for­eldra sinna þar sem list­ir, einkum tónlist og hannyrðir, voru í há­veg­um hafðar. Gott bóka­safn var á heim­il­inu, enda varð hún ákaf­lega bók­hneigð ung að árum. Nám var henni auðvelt, hún hafði góða hæfi­leika og áhuga á að nema er­lend mál og fleiri fræði.
Þegar hún var tólf ára kom í ljós að hún þurfti að gang­ast und­ir skurðagerð á skjald­kirtli, en slíka aðgerð var ekki unnt að gera á Íslandi á þeim tíma og fór hún til Skods­borg í Dan­mörku til lækn­inga. Eft­ir þessa aðgerð var hún aldrei full­kom­lega heil heilsu og það var ekki fyrr en löngu seinna, eða árið 1974, að Inga Björns­dótt­ir, heim­il­is­lækn­ir okk­ar á Ak­ur­eyri, sá það sem sér­fræðing­um hafði yf­ir­sést, að stærri hluti skjald­kirt­ils­ins hafði verið fjar­lægður en áður var talið og dag­leg inn­taka horm­óna­lyfs væri eina meðferðin sem skilaði ár­angri. Við þetta batnaði henni að fullu og naut hún góðrar heilsu eft­ir það, ef frá er skil­in slit­gigt sem þjáði hana á efri árum, en tals­verðan bata fékk hún eft­ir bæklun­araðgerðir á FSA.
Eft­ir lands­próf sett­ist mamma í Mennta­skól­ann í Reykja­vík og út­skrifaðist stúd­ent þaðan frá mála­deild. Hlé varð á form­legu námi henn­ar og út­skrift um nokk­urt ára­bil, því við bræðurn­ir vor­um rétt að kom­ast á legg og starf móður og hús­móður hafði for­gang. Hún notaði tóm­stund­ir til lestr­ar og til að stækka sjón­deild­ar­hring­inn. Á fyrstu hjóna­bands­ár­um sín­um stundaði hún frönsku­nám af kappi, mest í einka­tím­um hjá Ger­ard Chinotti. Hún las bæk­ur á frönsku sér til ánægju og var vel heima í bók­mennt­um Frakka og Rússa. Hún lærði ung að árum að leika á pí­anó og átti slíkt hljóðfæri mest­alla sína tíð. Hún hafði góða söngrödd og var mik­ill tón­list­araðdá­andi.
Árið 1969 lauk hún prófi frá Kenn­ara­skóla Íslands og kenndi einn vet­ur við Heyrn­leys­ingja­skól­ann. Árið 1972 urðu þátta­skil í lífi fjöl­skyld­unn­ar við að flytja til Ak­ur­eyr­ar. Þetta var heilla­spor. Fyrstu árin bjó fjöl­skyld­an í raðhúsi við Ein­holt eða til 1979, að for­eldr­ar okk­ar eignuðust Mel­gerði 1 við Há­hlíð. Haustið 1972 gerðist mamma kenn­ari við Gler­ár­skóla á Ak­ur­eyri þar sem hún starfaði síðan um ára­bil, eða til 1984. Pabbi og mamma skildu um þetta leyti. Það kem­ur að þeim tíma­punkti í lífi margra að gömlu hlut­verk­un­um lýk­ur og ný taka við. Svo var einnig hér.
Það voru já­kvæð um­skipti að flytja norður, Ak­ur­eyri var á þess­um tíma og næstu árum í mikl­um vexti. Það var því meira en nóg fyr­ir for­eldra okk­ar að starfa. Rétt við Ein­holtið er fal­legt um­hverfi, holt og hól­ar, sjór­inn, Síla­bás, Sand­gerðis­bót, Krossa­nes og marg­ir aðrir staðir sem við kynnt­umst voru upp­sprett­ur margra æv­in­týra. Útiver­an, stang­veiði í sjón­um, lang­ir göngu­túr­ar, stutt ferðalög. Við vor­um líka hepp­in með mjög góða ná­granna í Ein­holti 4. Pabbi og mamma blómstruðu þarna. Mamma fann fljót­lega fólk sem hafði áþekk áhuga­mál og hún sjálf. Hún átti eft­ir að finna sér góðan far­veg í fé­lags­mál­um og skóla­mál­um í nýju um­hverfi. Hún bjó í bæn­um í tólf ár, flutti burt um tíma en átti eft­ir að koma aft­ur og vera á Ak­ur­eyri all­an síðari hluta æv­inn­ar. Í huga henn­ar togaðist mjög á að hún átti góða vini á Ak­ur­eyri, en í Reykja­vík var margt sem heillaði hana, einkum fé­lög og fyr­ir­lestr­ar. Það átti þó ekki fyr­ir henni að liggja að flytja nema tíma­bundið til baka á gaml­ar slóðir í Reykja­vík, þótt stund­um ræddi hún um þann mögu­leika.
Mamma flutti til Reykja­vík­ur 1984, bjó þar nokk­ur ár og starfaði fyrst sem grunn­skóla­kenn­ari og síðar lækna­rit­ari við Borg­ar­spít­al­ann. Á ár­un­um í Reykja­vík sótti hún nám í rúss­nesku og bók­mennta­fræði meðfram kennslu­störf­un­um og einn vet­ur, 1979 til 1980, var hún í heim­speki­deild Há­skóla Íslands við nám í mál­vís­ind­um og bók­mennta­fræði. Sýn­ir þetta áhuga henn­ar á mennt­un og að bæta þekk­ingu sína, en bók­mennta­fræði mat hún mik­ils.
Hún flutti aft­ur til Ak­ur­eyr­ar haustið 1988 og bjó í Mel­gerði 1 sem mamma keypti í annað sinn, en húsið hafði verið selt þegar hún og pabbi skildu. Um­hverfið og út­sýnið frá Mel­gerði 1 er ein­stakt, þar sér yfir fjörðinn og stór­an hluta bæj­ar­ins frá klöpp­un­um. Mamma starfaði sem lækna­rit­ari á heilsu­gæslu­stöðinni um ára­bil á þess­um tíma. Hún tók að sér einka­kennslu í ensku, dönsku og ís­lensku fyr­ir út­lend­inga, starfi sem hún sinnti allt til árs­ins 2016. Þróaði hún náms­efni sem hún bjó sjálf til þar til úr varð heild­stætt kerfi sem hún notaði með góðum ár­angri. Hún var vin­sæll kenn­ari, bæði í grunn­skóla og sem einka­kenn­ari, og minn­ast marg­ir nem­end­ur, er­lend­ir sem inn­lend­ir, henn­ar með hlýj­um hug. Sum­ir nem­end­ur sótti tíma hjá henni árum sam­an og ræktuðu vináttu við hana.
Þegar talað er um vini mömmu á Ak­ur­eyri þá kem­ur Sjöfn Óskars­dótt­ir frá Dverga­steini (f. 25. mars 1937, d. 3. sept­em­ber 2008) upp í hug­ann sem ein besta vin­kona henn­ar. Sjöfn var gam­all ná­granni okk­ar í Ein­holt­inu og var tölu­verður sam­gang­ur milli fjöl­skyld­anna um ára­bil. Það gladdi mömmu og hún mat það mik­ils þegar Sjöfn tók upp gaml­an þráð vináttu eft­ir að hafa búið í Reykja­vík um tíma, en flutti aft­ur norður, og sátu þær oft að spjalli og heim­sóttu hvor aðra reglu­lega. Oft var Bergþóra, dótt­ir Sjafn­ar, með í þess­um heim­sókn­um. Sjöfn féll óvænt og skyndi­lega frá aðeins 71 árs að aldri og saknaði mamma henn­ar mikið, því Sjöfn var ynd­is­leg kona og góður vin­ur.
Önnur góð vin­kona mömmu var Ingi­björg Þor­geirs­dótt­ir kenn­ari frá Höllu­stöðum í Reyk­hóla­sveit, f. 19. ág­úst 1903, d. 28. mars 2003. Ingi­björg var lengi í Guðspeki­fé­lag­inu og hafði m.a. unnið að út­breiðslu fræða Mart­inus­ar á Íslandi og einnig að end­urút­gáfu á ræðum séra Har­ald­ar Ní­els­son­ar. Ingi­björg og mamma áttu það sam­eig­in­legt að skrifa blaðagrein­ar um mál­efni sem þeim þótti til fram­fara horfa. Þær áttu tölu­vert sam­starf um ára­bil, og taldi mamma Ingi­björgu vera með merk­ustu per­són­um sem hún hafði kynnst. Hún skrifaði fal­lega minn­ing­ar­grein um vin­konu sína þegar hún lést.
Eitt af áhuga­efn­um mömmu var að þýða er­lend­ar bæk­ur sem fjölluðu um áhuga­mál henn­ar á ís­lensku. Fyrstu bók­ina, Nýj­ar vídd­ir í mann­legri skynj­un eft­ir dr. Shafica Caragulla, þýddi hún og kom bók­in út árið 1975 hjá bóka­út­gáf­unni Þjóðsögu. Mamma var góður þýðandi og ritaði og þýddi einnig grein­ar í nokk­ur tíma­rit um ára­bil til hliðar við fullt starf. Notaði hún kvöld og helg­ar til þýðing­ar­starfs­ins. Aðrar bæk­ur sem hún þýddi voru þess­ar: Draum­ar: Svör næt­ur­inn­ar við spurn­ing­um morg­undags­ins, eft­ir Mark Thur­st­on, Prent­húsið 1989. Áran - orku­blik manns­ins eft­ir Birgit Stephen­sen. Úlfur Ragn­ars­son lækn­ir veitti fræðilega ráðgjöf. Örn og Örlyg­ur 1990. Eft­ir dauðann - hvað þá? eft­ir Geor­ge W. Meek. Ný­ald­ar­bæk­ur 1991. Lif­andi eft­ir­mynd­ir eft­ir Coral Polge og Kay Hun­ter, Skjaldorg 1993. Viska Tarot­spil­anna eft­ir El­iza­betu Haich. Bræðraút­gáf­an 2016.
Eina frum­samda sögu sem kom út sl. haust skrifaði hún. Bók­in heit­ir Töfra­hatt­arn­ir - saga. Þessa barna­bók skrifaði hún fyr­ir nokkr­um árum. Þor­steinn Ant­ons­son rit­höf­und­ur, gam­all vin­ur henn­ar, hafði út­gáf­una með hönd­um. Útgáfa þess­ar­ar bók­ar er gleðiefni og minn­is­varði um bók­mennt­astarf henn­ar.
Fyr­ir utan þær þýðing­ar sem hér eru upp tald­ar skrifaði mamma og þýddi á þriðja tug greina í ýmis tíma­rit og dag­blöð. Nokkr­ar grein­ar skrifaði hún og þýddi í Les­bók Morg­un­blaðsins, einnig þýddi hún grein­ar í tíma­ritið Úrval. Fjalla þær um ýmis efni, til dæm­is tarot­spil­in, aðrar um líf eft­ir dauðann og önn­ur til­veru­stig, and­leg viðhorf og strauma, þjóðkirkj­una, þjóðfé­lags­mál og margt fleira. Stund­um fór hún á ráðstefn­ur er­lend­is og skrifaði grein­ar um efni þeirra. T.d. um þetta er grein­in: Er líf eft­ir dauðann? sem birt­ist í Morgni, tímariti Sálarrannsóknarfélags Íslands, árið 1998. En mamma ritaði þá grein eft­ir að hafa sótt stóra alþjóðlega ráðstefnu í nóv­em­ber 1997 í Basel í Sviss, þar sem marg­ir þekkt­ir vís­inda­menn fluttu er­indi um fram­halds­lífið og leiðir til að rann­saka það. Á ýms­ar aðrar er­lend­ar ráðstefn­ur fór hún, en ekki verður það talið hér.
Mamma var sístarf­andi að áhuga­mál­um sín­um. Á skrif­borðinu henn­ar var rit­vél, seinna tölva og prent­ari, skrif­blokk­ir, penn­ar og blý­ant­ar. Í hill­un­um voru bæk­urn­ar sem hún hafði þýtt, marg­ar aðrar bæk­ur um ólík­ustu efni, möpp­ur með hand­rit­um og kennslu­efni. Allt var þetta í röð og reglu og vel aðgengi­legt. Að koma inn í vinnu­her­bergi mömmu var eins og að stíga inn í ann­an heim. Dauf­ur ilm­ur af reyk­elsi og blóm­um, litl­ar stytt­ur af ýmsu tagi sem minntu á áhuga­mál henn­ar, ljós­mynd­ir á veggj­um af þeim sem henni þótti vænt um.
Af miklu er að taka þegar lýsa á ævi­starfi mömmu því hún var starf­söm og átti mörg áhuga­mál. Bók­leg­ar mennt­ir, and­leg mál og sál­ar­fræði voru þar fremst í flokki. Bóka­safn átti hún stórt sem bar þess­um áhuga­mál­um gott vitni. Þekk­ing henn­ar í mörgu slíku efni var djúp og víðfeðm, og má segja að hún sótti í fróðleiks­brunn bók­anna alla sína ævi. Ung að árum eignaðist hún og las rit­safn C.G. Jung og bæk­ur Pauls Brunt­ons um jóga, ind­verska og tíbeska dul­speki og aust­ræna heim­speki. Meðal bóka henn­ar voru rit margra helstu and­legra meist­ara og fræðimanna und­an­far­inn­ar ald­ar og eldri. Þessi áhugi henn­ar var brenn­andi og leiddi hana snemma til Guðspeki­fé­lags Íslands þar sem hún sótti fundi og starfaði lengi. Hún gekk í guðspekistúk­una Systkina­bandið á Ak­ur­eyri 1972 og starfaði þar með Jóni Sig­ur­geirs­syni, skóla­stjóra og for­manni stúk­unn­ar, og fleira fólki. Ólöf Friðriks­dótt­ir, hjúkr­un­ar­fræðing­ur og gjald­keri stúk­unn­ar, var góð vin­kona henn­ar. Sum­arskóla Guðspeki­fé­lags­ins sótti hún þegar því varð við komið. Mamma hélt er­indi á fund­um Systkina­bands­ins, sat í stjórn stúk­unn­ar og var formaður í nokk­ur ár. Kirkju sótti hún reglu­lega alla sína ævi. Fyr­ir henni var eng­in mót­sögn í því að fylgja krist­inni trú og að kynna sér og sækja fróðleik til annarra og ólíkra trú­ar­bragða og kenn­inga, því allt sner­ist þetta um að gera gott og þróa manns­sál­ina. Einkum var búdd­ismi of­ar­lega á baugi hjá henni. Fjall­ræða Krists var eft­ir­lætiskafli henn­ar í Nýja testa­ment­inu.
Í mörg ár hafði mamma stórt þýðing­ar­verk­efni með hönd­um. Það hand­rit fjall­ar um líf­efna­tengsl eða líf­efna­fræðileg­an grund­völl alkó­hól­ism­ans. Þetta er þýðing á rit­verki eft­ir banda­rísk­an líf­efna­fræðing sem hef­ur rann­sakað þetta. Af ýms­um or­sök­um kom hand­ritið ekki á prent og féll henni það miður, því mikla vinnu hafði hún í það lagt. Hafði hún vonað að bók­in og sá fróðleik­ur sem þar er að finna yrði þátt­ur í að lækna of­drykkju með rétt­um efn­um sem lík­amann skorti.
Af öðrum fé­lög­um og hreyf­ing­um sem hún tók þátt í má nefna Fé­lag ný­alss­inna. Bæk­ur dr. Helga Pjet­urss átti hún all­ar og sú heim­speki og lífs­sýn sem þar er að finna átti vel við hana. Um skeið var hún formaður Ak­ur­eyr­ar­deild­ar fé­lags­ins. Hjá Am­nesty In­ternati­onal var hún fé­lagi um ára­bil og studdi starfið. Á átt­unda ára­tugn­um sótti hún ár­lega sum­ar­nám­skeið hjá Jötu­systkin­um, hreyf­ingu Þórs Þórodds­son­ar, og ástundaði jógaæf­ing­ar og lífs­stíl þess hóps um langt skeið. Hún hafði áhuga fyr­ir stjörnu­fræði og mögu­leik­an­um á lífi á öðrum hnött­um. Slíkt heillaði hana og ræddi hún oft um þann mögu­leika að íbú­ar annarra stjarn­kerfa hefðu heim­sótt jörðina. Var hún áskrif­andi að er­lend­um tíma­rit­um um þessi og skyld mál­efni. Morg­un­blaðið var eft­ir­læt­is­dag­blað henn­ar. Hún studdi kon­ur og sam­tök kvenna til fram­göngu í mennt­un, þjóðfé­lags­mál­um og öðru því sem vilji þeirra stóð til.
Í viðfangs­efn­um og áhuga­mál­um hafði hún góðan fé­lags­skap af vini sín­um Michael Willcox, sem var gam­all fjöl­skyldu­vin­ur okk­ar. Michael var Breti, fæddur í Southampton í Englandi en uppalinn í Kanada. Hann var vel lesinn og fróður og hafði mikinn áhuga fyrir andlegum málum, einkum dáleiðslu og huglækningum. Þess­ir tveir vin­ir henn­ar, Michael og Ólöf, lét­ust fyr­ir all­mörg­um árum og viss­um við að miss­ir þeirra gekk á viss­an hátt nærri henni, þótt hún talaði sjald­an um. En fátt gladdi hana meira en þegar góðir vin­ir, við syn­irn­ir eða barna­börn­in komu í heim­sókn. Mamma gladd­ist með okk­ur í sigr­um lífs­ins og studdi við okk­ur á erfiðum stund­um þannig að alltaf fór maður glaðari og betri maður af henn­ar fundi. Þá má ekki gleyma Gunn­ari Hjálm­ari Jóns­syni, gít­ar- og tón­list­ar­kenn­ara, en hann var mik­ill vin­ur pabba og mömmu og fjöl­skyld­unn­ar um ára­tuga skeið. Þau heim­sóttu hvort annað um langt ára­bil til að hlusta á tónlist og spjalla.
Hug­ur­inn leit­ar til baka. Mamma í eld­hús­inu í Ein­holti og Mel­gerði að und­ir­búa jól og ára­mót. Klass­ísk tónlist og bök­un­arilm­ur og síðan var sest að kaffi og kök­um á ný­ársnótt. Sum­ar­dag­ar í Mel­gerði með börn­um og barna­börn­um og oft vin­um í heim­sókn. Grillað úti á palli, veit­ing­ar á litl­um borðum í garðinum. Mamma að spila krokk­et í garðinum, eða leika við barna­börn­in. Mamma á hvíta jepp­an­um, keyr­andi óhrædd og furðulega ör­ugg svo framar­lega að göt­ur væru opn­ar að vetr­in­um. Mamma að þýða sínu fyrstu bók í Ein­holt­inu. Mamma að stjórna leik­rit­um og atriðum á árs­hátíð Gler­ár­skóla í gamla Gefj­un­ar­saln­um á Ak­ur­eyri, en margt af því efni sem þar var flutt samdi hún sjálf, meðal ann­ars leik­rit um Helga magra og Þór­unni hyrnu, land­náms­menn í Eyjaf­irði. Mamma á leiðinni á sum­arskóla Guðspeki­fé­lags­ins á Suður­landi á rauða Opel Rekord-skut­bíln­um sín­um, ný­lega búin að fá bíl­próf og eign­ast sinn fyrsta bíl, 38 ára að aldri. Mamma á fund­um hjá Guðspeki­fé­lag­inu í gamla KEA-hús­inu við Hafn­ar­stræti að flytja er­indi sem hún hafði þýtt eða samið, í starfs­manna­saln­um. Mamma í Kletta­borg­inni á góðum dög­um, en líka stund­um einmana því bestu vin­irn­ir voru farn­ir úr þess­um heimi. Mamma í Krist­nesi við end­ur­hæf­ingu, seinna á Hlíð, að mestu þrot­in að kröft­um en oft­ast hress og gladd­ist ætíð við heim­sókn­ir.
Hún gat horft yfir langa og starf­sama ævi þar sem henni tókst að vinna að áhuga­mál­um sín­um og verk­efn­um með ótrú­lega góðum ár­angri. Hún fylgd­ist vel með okk­ur son­un­um og okk­ar börn­um, og barna­börn­um hjálpaði hún með auka­kennslu þegar á þurfti að halda. Í henn­ar huga var ald­ur af­stætt fyr­ir­bæri og hún varð aldrei göm­ul í venju­leg­um skiln­ingi þess orðs. Um­tals­góð var hún og valdi frem­ur að þegja en tala niðrandi um aðra.
Síðustu árin bjó mamma í Kletta­borg 10 á Ak­ur­eyri. Þar er sum­arfag­urt og naut hún þess á marg­an hátt. Íbúðin henn­ar var smekk­leg, mál­verk á veggj­um, göm­ul og vönduð hús­gögn, mörg blóm, plönt­ur og kaktus­ar, öllu smekk­lega fyr­ir komið. Í stof­unni var stóra viðar­borðið þar sem hún kenndi nem­endu­um, þakið bók­um og möpp­um. Sein­ustu árin var heils­an far­in að gefa sig svo mikið að hún þáði nokkra heim­ilisaðstoð, en það var henni þó þvert um geð því hún var ákaf­lega sjálf­stæð. Árið 2020 fór hún á dval­ar­heim­ilið Hlíð þegar hún gat ekki leng­ur búið ein. Það var ekki spor sem hana langaði til að taka, en eng­in önn­ur úrræði voru.
„Ég batt þér minn feg­ursta söngv­asveig, en samt var það dýr­ast sem aldrei var talað“ orti Ein­ar Bene­dikts­son. Þessi ljóðlína á vel við hér. Það er auðvelt að skrá helstu ytri ævi­atriði, en erfitt að skapa heild­stæða mynd af mömmu. Ef ætti að lýsa henni þá var vel­vild, trú, bjart­sýni og fróðleiks­fýsn það sem ein­kenndi hana. Líka víðsýni og rétt­lætis­kennd, hún var til­bú­in til að hlusta á rök­semd­ir þeirra sem ekki voru henni sam­mála. Mamma var oft­ast létt­lynd og í góðu skapi. Hún hafði góða og sak­lausa kímni­gáfu. Hún var næm á til­finn­ing­ar og líðan annarra. Hún trúði á sig­ur sann­leik­ans og rétt­læt­is­ins. Hún var ákaf­lega gjaf­mild, bæði á tíma sinn og hluti sem hún vildi gleðja aðra með. Gjaf­ir henn­ar voru vel vald­ar og sýna mikla um­hyggju. Hug­ur­inn sem fylgdi gjöf­un­um var ein­læg­ur. Lífið var henni ekki alltaf auðvelt, en hin ytri gæði þess skiptu hana minna máli en and­leg verðmæti, þekk­ing og viska. Þetta, ásamt fjöl­skyld­unni, voru mestu verðmæti henn­ar. Í heimi bóka og fræða og tón­list­ar leið henni vel og þar dvaldi hún oft. Við bræðurn­ir þökk­um mömmu fyr­ir allt sem hún var okk­ur, fyr­ir að styðja okk­ur í því sem við gerðum, og fyr­ir að hafa verið ein­stak­lega góð móðir og amma barn­anna okk­ar. Mamma trúði á ljósið og kær­leik­ann og að gera sitt besta. Sá mikli söknuður, sem við upp­lif­um nú, sýn­ir hversu mik­il­vægt hlut­verk henn­ar var og hversu vænt okk­ur þykir um hana.
Það fer vel á því að birta hér ljóð sem hún orti árið 2005, og birt­ist í Les­bók Morg­un­blaðsins 25. júní það ár. Ljóðið er án titils, og hljóðar svo:

Í dag eru sum­arsól­stöður
án sól­ar
því í dag faldi sól­in sig
svo að eng­inn sæi
að hún grét bak við ský­in.

Því að ekk­ert er eins og áður
þegar sól­in var glöð
gerði menn­ina góða
og gaf all­ar sín­ar gjaf­ir
með bless­un Guðs.

Við höf­um sagt sól­inni
að hún sé ekki heil­ög
heim­ur­inn sé ekki heil­ag­ur
Jörðin sé ekki heil­ög.
Höf­um við fyr­ir­gert öllu heil­ögu?

Þannig hef­ur sól­in misst bless­un sína
Jörðin misst bless­un sól­ar­inn­ar
Himn­arn­ir hafa bif­ast
Höf­in brátt líf­vana
Menn­irn­ir heill­um horfn­ir ...

Biðjum Guð að blessa sól­ina,
Biðjum Guð að blessa jörðina
Biðjum Hann að blessa himn­ana og höf­in
Biðjum Hann að blessa hugs­an­ir okk­ar
svo að við get­um lært að blessa lífið.


Far þú í friði mamma mín, og hafðu þökk fyr­ir allt sem þú gerðir, allt sem þú varst og ert okk­ur. Þú lif­ir áfram þrátt fyr­ir tíma­bund­in um­skipti dauðans. Áhrif þín eru djúp og sterk og minn­ing þín björt eins og feg­ursti vor­dag­ur. Þú varst alltaf til­bú­in til að hjálpa og aðstoða hvað sem á gekk, og þú fannst lausn­ir á vanda þegar aðrir sáu þær ekki. Við erum inni­lega þakk­lát­ir og gæfu­sam­ir að þú varst móðir okk­ar.
Við fær­um starfs­fólki á Hlíð og í Krist­nesi inni­leg­ar þakk­ir fyr­ir frá­bæra umönn­un og aðhlynn­ingu.

Egill Héðinn, Skúli Þór, Snorri Ragnar.