Esther Britta Vagnsdóttir fæddist í Reykjavík 10. ágúst 1936. Foreldrar hennar voru Vagn Egill Jónsson hæstaréttarlögmaður, f. 5. júlí 1914, d. 5. apríl 1976, og Laufey Hólm Sigurgarðsdóttir húsmóðir, f. 21. apríl 1911, d. 2. maí 1988. Bróðir hennar, Atli Vagnsson hdl., er fæddur 18. júní 1946.
Árið 1956, hinn 6. október, giftist hún Braga Skarphéðinssyni, f. 24. nóvember 1933, d. 20. október 2007, járnsmíðameistara. Foreldrar hans voru Skarphéðinn Vemundsson, f. 18. ágúst 1911, d. 31, desember 1979, verkamaður, bóndi og sjómaður, og Jórunn Einarsdóttir, f. 23. febrúar 1905, d. 23. september 1978, húsmóðir og iðnverkakona í Reykjavík. Börn þeirra eru:
1) Egill Héðinn, f. 8. mars 1957. Kona: Anna Lára Þorsteinsdóttir, f. 28. júlí 1956. Skildu 2002. Börn: Adda Laufey, f. 1. maí 1978. Maður: Sigurður Hallmann Egilsson, f. 4. júlí 1974. Þeirra börn: Egill Vagn, f. 3. apríl 1998. Ásdís Magnea, f. 25. júní 1999. Skúli Þór, f. 3. febrúar 2004. Kristófer Örn, f. 3. desember 2007. Margrét Dögg, f. 22. febrúar 2010. Sigurður Bjarki Hólm Ödduson, f. 8. mars 2012. Þorsteinn Marinó, f. 2. júní 1987. Kona: Kristjana Mekkín Sævarsdóttir, f. 29. janúar 1993. Barn: Sævar Marinó, f. 19. mars 2018. Skildu 2019. Þorsteinn Bragi, f. 28. nóvember 1985, d. 2. desember 1985.
2) Skúli Þór, f. 13. maí 1959. Kona 1. Bryndís María Davíðsdóttir, f. 7. apríl 1960. Barn: Pascale Elísabet, f. 16. nóvember 1980. Skildu. Kona 2: Natalie Laurette Francoise, f. 6. september 1962. Barn: Davíð Bragi, f. 19. júní 1992. Skildu. Kona 3: Nuanchawee Wijanarong, f. 17. janúar 1968. Börn: Ása María, f. 5. september 1998. Jasmín, f. 7. maí 2004.
3. Snorri Ragnar, f. 25. desember 1963. Sambýliskona og barnsmóðir Margrét Jónína Þorsteinsdóttir, f. 25. febrúar 1967, d. 25. apríl 2021. Börn: Daníel Ágúst, f. 25. júní 1989. Kona: Giada Visalli, f. 5. ágúst 1988. Börn: Dante, f. 5. september 2017. Máni, f. 27. september 2019. Snorri Ágúst, f. 23. desember 1990. Sambýliskona; Sóley Rós Guðmundsdóttir, f. 2. maí 1990. Barn: Bylgja Sól, f. 19. febrúar 2021. Snorri og Margrét slitu sambúð. Seinni sambýliskona og barnsmóðir Snorra Ragnars Bragasonar er Auðbjörg María Ólafsdóttir, f. 12. desember 1971. Börn: María Elísabet, f. 15. desember 2006. Baltasar Bragi, f. 3. október 2008. Haukur Arnar, f. 18. ágúst 2011. Þau slitu sambúð.
Útför hennar fer fram frá Glerárkirkju í dag, 4. janúar 2021, klukkan 13.
Hver dagur líður að kvöldi og nóttin tekur við. Bjartasti sumardagur felur einnig í sér andstæðuna, vissuna um dimma vetrarnóttina sem mun koma. Lífið er endalaus breyting, því lýkur óhjákvæmilega. Þegar þessi umskipti lífs og dauða komu til tals minnti mamma á að dauðinn væri aðeins skammvinnt ástand; lífið héldi áfram á öðrum tilverustigum. Þetta var meira en trú, þetta var staðföst fullvissa hennar.
Í Reykjavík ólst mamma upp á heimili foreldra sinna þar sem listir, einkum tónlist og hannyrðir, voru í hávegum hafðar. Gott bókasafn var á heimilinu, enda varð hún ákaflega bókhneigð ung að árum. Nám var henni auðvelt, hún hafði góða hæfileika og áhuga á að nema erlend mál og fleiri fræði.
Þegar hún var tólf ára kom í ljós að hún þurfti að gangast undir skurðagerð á skjaldkirtli, en slíka aðgerð var ekki unnt að gera á Íslandi á þeim tíma og fór hún til Skodsborg í Danmörku til lækninga. Eftir þessa aðgerð var hún aldrei fullkomlega heil heilsu og það var ekki fyrr en löngu seinna, eða árið 1974, að Inga Björnsdóttir, heimilislæknir okkar á Akureyri, sá það sem sérfræðingum hafði yfirsést, að stærri hluti skjaldkirtilsins hafði verið fjarlægður en áður var talið og dagleg inntaka hormónalyfs væri eina meðferðin sem skilaði árangri. Við þetta batnaði henni að fullu og naut hún góðrar heilsu eftir það, ef frá er skilin slitgigt sem þjáði hana á efri árum, en talsverðan bata fékk hún eftir bæklunaraðgerðir á FSA.
Eftir landspróf settist mamma í Menntaskólann í Reykjavík og útskrifaðist stúdent þaðan frá máladeild. Hlé varð á formlegu námi hennar og útskrift um nokkurt árabil, því við bræðurnir vorum rétt að komast á legg og starf móður og húsmóður hafði forgang. Hún notaði tómstundir til lestrar og til að stækka sjóndeildarhringinn. Á fyrstu hjónabandsárum sínum stundaði hún frönskunám af kappi, mest í einkatímum hjá Gerard Chinotti. Hún las bækur á frönsku sér til ánægju og var vel heima í bókmenntum Frakka og Rússa. Hún lærði ung að árum að leika á píanó og átti slíkt hljóðfæri mestalla sína tíð. Hún hafði góða söngrödd og var mikill tónlistaraðdáandi.
Árið 1969 lauk hún prófi frá Kennaraskóla Íslands og kenndi einn vetur við Heyrnleysingjaskólann. Árið 1972 urðu þáttaskil í lífi fjölskyldunnar við að flytja til Akureyrar. Þetta var heillaspor. Fyrstu árin bjó fjölskyldan í raðhúsi við Einholt eða til 1979, að foreldrar okkar eignuðust Melgerði 1 við Háhlíð. Haustið 1972 gerðist mamma kennari við Glerárskóla á Akureyri þar sem hún starfaði síðan um árabil, eða til 1984. Pabbi og mamma skildu um þetta leyti. Það kemur að þeim tímapunkti í lífi margra að gömlu hlutverkunum lýkur og ný taka við. Svo var einnig hér.
Það voru jákvæð umskipti að flytja norður, Akureyri var á þessum tíma og næstu árum í miklum vexti. Það var því meira en nóg fyrir foreldra okkar að starfa. Rétt við Einholtið er fallegt umhverfi, holt og hólar, sjórinn, Sílabás, Sandgerðisbót, Krossanes og margir aðrir staðir sem við kynntumst voru uppsprettur margra ævintýra. Útiveran, stangveiði í sjónum, langir göngutúrar, stutt ferðalög. Við vorum líka heppin með mjög góða nágranna í Einholti 4. Pabbi og mamma blómstruðu þarna. Mamma fann fljótlega fólk sem hafði áþekk áhugamál og hún sjálf. Hún átti eftir að finna sér góðan farveg í félagsmálum og skólamálum í nýju umhverfi. Hún bjó í bænum í tólf ár, flutti burt um tíma en átti eftir að koma aftur og vera á Akureyri allan síðari hluta ævinnar. Í huga hennar togaðist mjög á að hún átti góða vini á Akureyri, en í Reykjavík var margt sem heillaði hana, einkum félög og fyrirlestrar. Það átti þó ekki fyrir henni að liggja að flytja nema tímabundið til baka á gamlar slóðir í Reykjavík, þótt stundum ræddi hún um þann möguleika.
Mamma flutti til Reykjavíkur 1984, bjó þar nokkur ár og starfaði fyrst sem grunnskólakennari og síðar læknaritari við Borgarspítalann. Á árunum í Reykjavík sótti hún nám í rússnesku og bókmenntafræði meðfram kennslustörfunum og einn vetur, 1979 til 1980, var hún í heimspekideild Háskóla Íslands við nám í málvísindum og bókmenntafræði. Sýnir þetta áhuga hennar á menntun og að bæta þekkingu sína, en bókmenntafræði mat hún mikils.
Hún flutti aftur til Akureyrar haustið 1988 og bjó í Melgerði 1 sem mamma keypti í annað sinn, en húsið hafði verið selt þegar hún og pabbi skildu. Umhverfið og útsýnið frá Melgerði 1 er einstakt, þar sér yfir fjörðinn og stóran hluta bæjarins frá klöppunum. Mamma starfaði sem læknaritari á heilsugæslustöðinni um árabil á þessum tíma. Hún tók að sér einkakennslu í ensku, dönsku og íslensku fyrir útlendinga, starfi sem hún sinnti allt til ársins 2016. Þróaði hún námsefni sem hún bjó sjálf til þar til úr varð heildstætt kerfi sem hún notaði með góðum árangri. Hún var vinsæll kennari, bæði í grunnskóla og sem einkakennari, og minnast margir nemendur, erlendir sem innlendir, hennar með hlýjum hug. Sumir nemendur sótti tíma hjá henni árum saman og ræktuðu vináttu við hana.
Þegar talað er um vini mömmu á Akureyri þá kemur Sjöfn Óskarsdóttir frá Dvergasteini (f. 25. mars 1937, d. 3. september 2008) upp í hugann sem ein besta vinkona hennar. Sjöfn var gamall nágranni okkar í Einholtinu og var töluverður samgangur milli fjölskyldanna um árabil. Það gladdi mömmu og hún mat það mikils þegar Sjöfn tók upp gamlan þráð vináttu eftir að hafa búið í Reykjavík um tíma, en flutti aftur norður, og sátu þær oft að spjalli og heimsóttu hvor aðra reglulega. Oft var Bergþóra, dóttir Sjafnar, með í þessum heimsóknum. Sjöfn féll óvænt og skyndilega frá aðeins 71 árs að aldri og saknaði mamma hennar mikið, því Sjöfn var yndisleg kona og góður vinur.
Önnur góð vinkona mömmu var Ingibjörg Þorgeirsdóttir kennari frá Höllustöðum í Reykhólasveit, f. 19. ágúst 1903, d. 28. mars 2003. Ingibjörg var lengi í Guðspekifélaginu og hafði m.a. unnið að útbreiðslu fræða Martinusar á Íslandi og einnig að endurútgáfu á ræðum séra Haraldar Níelssonar. Ingibjörg og mamma áttu það sameiginlegt að skrifa blaðagreinar um málefni sem þeim þótti til framfara horfa. Þær áttu töluvert samstarf um árabil, og taldi mamma Ingibjörgu vera með merkustu persónum sem hún hafði kynnst. Hún skrifaði fallega minningargrein um vinkonu sína þegar hún lést.
Eitt af áhugaefnum mömmu var að þýða erlendar bækur sem fjölluðu um áhugamál hennar á íslensku. Fyrstu bókina, Nýjar víddir í mannlegri skynjun eftir dr. Shafica Caragulla, þýddi hún og kom bókin út árið 1975 hjá bókaútgáfunni Þjóðsögu. Mamma var góður þýðandi og ritaði og þýddi einnig greinar í nokkur tímarit um árabil til hliðar við fullt starf. Notaði hún kvöld og helgar til þýðingarstarfsins. Aðrar bækur sem hún þýddi voru þessar: Draumar: Svör næturinnar við spurningum morgundagsins, eftir Mark Thurston, Prenthúsið 1989. Áran - orkublik mannsins eftir Birgit Stephensen. Úlfur Ragnarsson læknir veitti fræðilega ráðgjöf. Örn og Örlygur 1990. Eftir dauðann - hvað þá? eftir George W. Meek. Nýaldarbækur 1991. Lifandi eftirmyndir eftir Coral Polge og Kay Hunter, Skjaldorg 1993. Viska Tarotspilanna eftir Elizabetu Haich. Bræðraútgáfan 2016.
Eina frumsamda sögu sem kom út sl. haust skrifaði hún. Bókin heitir Töfrahattarnir - saga. Þessa barnabók skrifaði hún fyrir nokkrum árum. Þorsteinn Antonsson rithöfundur, gamall vinur hennar, hafði útgáfuna með höndum. Útgáfa þessarar bókar er gleðiefni og minnisvarði um bókmenntastarf hennar.
Fyrir utan þær þýðingar sem hér eru upp taldar skrifaði mamma og þýddi á þriðja tug greina í ýmis tímarit og dagblöð. Nokkrar greinar skrifaði hún og þýddi í Lesbók Morgunblaðsins, einnig þýddi hún greinar í tímaritið Úrval. Fjalla þær um ýmis efni, til dæmis tarotspilin, aðrar um líf eftir dauðann og önnur tilverustig, andleg viðhorf og strauma, þjóðkirkjuna, þjóðfélagsmál og margt fleira. Stundum fór hún á ráðstefnur erlendis og skrifaði greinar um efni þeirra. T.d. um þetta er greinin: Er líf eftir dauðann? sem birtist í Morgni, tímariti Sálarrannsóknarfélags Íslands, árið 1998. En mamma ritaði þá grein eftir að hafa sótt stóra alþjóðlega ráðstefnu í nóvember 1997 í Basel í Sviss, þar sem margir þekktir vísindamenn fluttu erindi um framhaldslífið og leiðir til að rannsaka það. Á ýmsar aðrar erlendar ráðstefnur fór hún, en ekki verður það talið hér.
Mamma var sístarfandi að áhugamálum sínum. Á skrifborðinu hennar var ritvél, seinna tölva og prentari, skrifblokkir, pennar og blýantar. Í hillunum voru bækurnar sem hún hafði þýtt, margar aðrar bækur um ólíkustu efni, möppur með handritum og kennsluefni. Allt var þetta í röð og reglu og vel aðgengilegt. Að koma inn í vinnuherbergi mömmu var eins og að stíga inn í annan heim. Daufur ilmur af reykelsi og blómum, litlar styttur af ýmsu tagi sem minntu á áhugamál hennar, ljósmyndir á veggjum af þeim sem henni þótti vænt um.
Af miklu er að taka þegar lýsa á ævistarfi mömmu því hún var starfsöm og átti mörg áhugamál. Bóklegar menntir, andleg mál og sálarfræði voru þar fremst í flokki. Bókasafn átti hún stórt sem bar þessum áhugamálum gott vitni. Þekking hennar í mörgu slíku efni var djúp og víðfeðm, og má segja að hún sótti í fróðleiksbrunn bókanna alla sína ævi. Ung að árum eignaðist hún og las ritsafn C.G. Jung og bækur Pauls Bruntons um jóga, indverska og tíbeska dulspeki og austræna heimspeki. Meðal bóka hennar voru rit margra helstu andlegra meistara og fræðimanna undanfarinnar aldar og eldri. Þessi áhugi hennar var brennandi og leiddi hana snemma til Guðspekifélags Íslands þar sem hún sótti fundi og starfaði lengi. Hún gekk í guðspekistúkuna Systkinabandið á Akureyri 1972 og starfaði þar með Jóni Sigurgeirssyni, skólastjóra og formanni stúkunnar, og fleira fólki. Ólöf Friðriksdóttir, hjúkrunarfræðingur og gjaldkeri stúkunnar, var góð vinkona hennar. Sumarskóla Guðspekifélagsins sótti hún þegar því varð við komið. Mamma hélt erindi á fundum Systkinabandsins, sat í stjórn stúkunnar og var formaður í nokkur ár. Kirkju sótti hún reglulega alla sína ævi. Fyrir henni var engin mótsögn í því að fylgja kristinni trú og að kynna sér og sækja fróðleik til annarra og ólíkra trúarbragða og kenninga, því allt snerist þetta um að gera gott og þróa mannssálina. Einkum var búddismi ofarlega á baugi hjá henni. Fjallræða Krists var eftirlætiskafli hennar í Nýja testamentinu.
Í mörg ár hafði mamma stórt þýðingarverkefni með höndum. Það handrit fjallar um lífefnatengsl eða lífefnafræðilegan grundvöll alkóhólismans. Þetta er þýðing á ritverki eftir bandarískan lífefnafræðing sem hefur rannsakað þetta. Af ýmsum orsökum kom handritið ekki á prent og féll henni það miður, því mikla vinnu hafði hún í það lagt. Hafði hún vonað að bókin og sá fróðleikur sem þar er að finna yrði þáttur í að lækna ofdrykkju með réttum efnum sem líkamann skorti.
Af öðrum félögum og hreyfingum sem hún tók þátt í má nefna Félag nýalssinna. Bækur dr. Helga Pjeturss átti hún allar og sú heimspeki og lífssýn sem þar er að finna átti vel við hana. Um skeið var hún formaður Akureyrardeildar félagsins. Hjá Amnesty International var hún félagi um árabil og studdi starfið. Á áttunda áratugnum sótti hún árlega sumarnámskeið hjá Jötusystkinum, hreyfingu Þórs Þóroddssonar, og ástundaði jógaæfingar og lífsstíl þess hóps um langt skeið. Hún hafði áhuga fyrir stjörnufræði og möguleikanum á lífi á öðrum hnöttum. Slíkt heillaði hana og ræddi hún oft um þann möguleika að íbúar annarra stjarnkerfa hefðu heimsótt jörðina. Var hún áskrifandi að erlendum tímaritum um þessi og skyld málefni. Morgunblaðið var eftirlætisdagblað hennar. Hún studdi konur og samtök kvenna til framgöngu í menntun, þjóðfélagsmálum og öðru því sem vilji þeirra stóð til.
Í viðfangsefnum og áhugamálum hafði hún góðan félagsskap af vini sínum Michael Willcox, sem var gamall fjölskylduvinur okkar. Michael var Breti, fæddur í Southampton í Englandi en uppalinn í Kanada. Hann var vel lesinn og fróður og hafði mikinn áhuga fyrir andlegum málum, einkum dáleiðslu og huglækningum. Þessir tveir vinir hennar, Michael og Ólöf, létust fyrir allmörgum árum og vissum við að missir þeirra gekk á vissan hátt nærri henni, þótt hún talaði sjaldan um. En fátt gladdi hana meira en þegar góðir vinir, við synirnir eða barnabörnin komu í heimsókn. Mamma gladdist með okkur í sigrum lífsins og studdi við okkur á erfiðum stundum þannig að alltaf fór maður glaðari og betri maður af hennar fundi. Þá má ekki gleyma Gunnari Hjálmari Jónssyni, gítar- og tónlistarkennara, en hann var mikill vinur pabba og mömmu og fjölskyldunnar um áratuga skeið. Þau heimsóttu hvort annað um langt árabil til að hlusta á tónlist og spjalla.
Hugurinn leitar til baka. Mamma í eldhúsinu í Einholti og Melgerði að undirbúa jól og áramót. Klassísk tónlist og bökunarilmur og síðan var sest að kaffi og kökum á nýársnótt. Sumardagar í Melgerði með börnum og barnabörnum og oft vinum í heimsókn. Grillað úti á palli, veitingar á litlum borðum í garðinum. Mamma að spila krokket í garðinum, eða leika við barnabörnin. Mamma á hvíta jeppanum, keyrandi óhrædd og furðulega örugg svo framarlega að götur væru opnar að vetrinum. Mamma að þýða sínu fyrstu bók í Einholtinu. Mamma að stjórna leikritum og atriðum á árshátíð Glerárskóla í gamla Gefjunarsalnum á Akureyri, en margt af því efni sem þar var flutt samdi hún sjálf, meðal annars leikrit um Helga magra og Þórunni hyrnu, landnámsmenn í Eyjafirði. Mamma á leiðinni á sumarskóla Guðspekifélagsins á Suðurlandi á rauða Opel Rekord-skutbílnum sínum, nýlega búin að fá bílpróf og eignast sinn fyrsta bíl, 38 ára að aldri. Mamma á fundum hjá Guðspekifélaginu í gamla KEA-húsinu við Hafnarstræti að flytja erindi sem hún hafði þýtt eða samið, í starfsmannasalnum. Mamma í Klettaborginni á góðum dögum, en líka stundum einmana því bestu vinirnir voru farnir úr þessum heimi. Mamma í Kristnesi við endurhæfingu, seinna á Hlíð, að mestu þrotin að kröftum en oftast hress og gladdist ætíð við heimsóknir.
Hún gat horft yfir langa og starfsama ævi þar sem henni tókst að vinna að áhugamálum sínum og verkefnum með ótrúlega góðum árangri. Hún fylgdist vel með okkur sonunum og okkar börnum, og barnabörnum hjálpaði hún með aukakennslu þegar á þurfti að halda. Í hennar huga var aldur afstætt fyrirbæri og hún varð aldrei gömul í venjulegum skilningi þess orðs. Umtalsgóð var hún og valdi fremur að þegja en tala niðrandi um aðra.
Síðustu árin bjó mamma í Klettaborg 10 á Akureyri. Þar er sumarfagurt og naut hún þess á margan hátt. Íbúðin hennar var smekkleg, málverk á veggjum, gömul og vönduð húsgögn, mörg blóm, plöntur og kaktusar, öllu smekklega fyrir komið. Í stofunni var stóra viðarborðið þar sem hún kenndi nemenduum, þakið bókum og möppum. Seinustu árin var heilsan farin að gefa sig svo mikið að hún þáði nokkra heimilisaðstoð, en það var henni þó þvert um geð því hún var ákaflega sjálfstæð. Árið 2020 fór hún á dvalarheimilið Hlíð þegar hún gat ekki lengur búið ein. Það var ekki spor sem hana langaði til að taka, en engin önnur úrræði voru.
„Ég batt þér minn fegursta söngvasveig, en samt var það dýrast sem aldrei var talað“ orti Einar Benediktsson. Þessi ljóðlína á vel við hér. Það er auðvelt að skrá helstu ytri æviatriði, en erfitt að skapa heildstæða mynd af mömmu. Ef ætti að lýsa henni þá var velvild, trú, bjartsýni og fróðleiksfýsn það sem einkenndi hana. Líka víðsýni og réttlætiskennd, hún var tilbúin til að hlusta á röksemdir þeirra sem ekki voru henni sammála. Mamma var oftast léttlynd og í góðu skapi. Hún hafði góða og saklausa kímnigáfu. Hún var næm á tilfinningar og líðan annarra. Hún trúði á sigur sannleikans og réttlætisins. Hún var ákaflega gjafmild, bæði á tíma sinn og hluti sem hún vildi gleðja aðra með. Gjafir hennar voru vel valdar og sýna mikla umhyggju. Hugurinn sem fylgdi gjöfunum var einlægur. Lífið var henni ekki alltaf auðvelt, en hin ytri gæði þess skiptu hana minna máli en andleg verðmæti, þekking og viska. Þetta, ásamt fjölskyldunni, voru mestu verðmæti hennar. Í heimi bóka og fræða og tónlistar leið henni vel og þar dvaldi hún oft. Við bræðurnir þökkum mömmu fyrir allt sem hún var okkur, fyrir að styðja okkur í því sem við gerðum, og fyrir að hafa verið einstaklega góð móðir og amma barnanna okkar. Mamma trúði á ljósið og kærleikann og að gera sitt besta. Sá mikli söknuður, sem við upplifum nú, sýnir hversu mikilvægt hlutverk hennar var og hversu vænt okkur þykir um hana.
Það fer vel á því að birta hér ljóð sem hún orti árið 2005, og birtist í Lesbók Morgunblaðsins 25. júní það ár. Ljóðið er án titils, og hljóðar svo:
Í dag eru sumarsólstöður
án sólar
því í dag faldi sólin sig
svo að enginn sæi
að hún grét bak við skýin.
Því að ekkert er eins og áður
þegar sólin var glöð
gerði mennina góða
og gaf allar sínar gjafir
með blessun Guðs.
Við höfum sagt sólinni
að hún sé ekki heilög
heimurinn sé ekki heilagur
Jörðin sé ekki heilög.
Höfum við fyrirgert öllu heilögu?
Þannig hefur sólin misst blessun sína
Jörðin misst blessun sólarinnar
Himnarnir hafa bifast
Höfin brátt lífvana
Mennirnir heillum horfnir ...
Biðjum Guð að blessa sólina,
Biðjum Guð að blessa jörðina
Biðjum Hann að blessa himnana og höfin
Biðjum Hann að blessa hugsanir okkar
svo að við getum lært að blessa lífið.
Far þú í friði mamma mín, og hafðu þökk fyrir allt sem þú gerðir, allt sem þú varst og ert okkur. Þú lifir áfram þrátt fyrir tímabundin umskipti dauðans. Áhrif þín eru djúp og sterk og minning þín björt eins og fegursti vordagur. Þú varst alltaf tilbúin til að hjálpa og aðstoða hvað sem á gekk, og þú fannst lausnir á vanda þegar aðrir sáu þær ekki. Við erum innilega þakklátir og gæfusamir að þú varst móðir okkar.
Við færum starfsfólki á Hlíð og í Kristnesi innilegar þakkir fyrir frábæra umönnun og aðhlynningu.
Egill Héðinn, Skúli Þór, Snorri Ragnar.