Sigríður Guðrún Sigurðardóttir fæddist á Ísafirði 26. október 1943. Hún lést 16. desember 2021 á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Foreldrar hennar voru hjónin Þórunn Gyða Árnadóttir, f. 2. desember 1915, d. 6. desember 1999, og Sigurður Stefán Baldvinsson, f. 6. ágúst 1914, d. 31. maí 1984.
Systkini Sigríðar eru: Ingibjörg Margrét, f. 2. júní 1947, Þórunn Anna, f. 8. mars 1950, d. 20. nóvember 2014, Málfríður Sólveig, f. 30. júní 1952, d. 24. nóvember 1956, og Árni Baldvin, f. 9. apríl 1955, d. 28. júlí 2006.
Sigríður Guðrún giftist hinn 8. júní 1963 eftirlifandi eiginmanni sínum, Guðmundi Hólm Kristjánssyni, f. 12. ágúst 1943. Börn þeirra eru: Sigurður Kristján, f. 8. júlí 1964; Sólveig, f. 19. júlí 1968; Katrín, f. 1. janúar 1973, og Steinunn Gyða, f. 14. september 1976. Barnabörn Sigríðar og Guðmundar eru níu og langömmu- og langafabörnin fjögur.
Jarðsett verður í kyrrþey að ósk hinnar látnu en athöfninni verður streymt á facebooksíðunni Jarðarfarir í Akureyrarkirkju – beinar útsendingar kl. 13.
Hlekkur á streymi:
Meira á www.mbl.is/andlat
Eftir hetjulega baráttu við skyndileg, alvarleg og erfið veikindi hefur elsku hjartans móðir mín lagt aftur augun sín í hinsta sinn. Hennar lokabarátta fyrir lífinu var hetjuleg og vakti eftirtekt fyrir ótrúlega þrautseigju en þessar síðustu þrjár vikur sem lífsins baráttan tók yfir eru lýsandi fyrir mömmu.
Mamma var mjög ákveðin og mikill dugnaðarforkur og bjó yfir óbilandi stolti og sjálfstæði fyrir sig og sína. Hún vildi sem minnst láta nokkurn mann hafa fyrir sér, fannst það óþarfi og kallaði það vesen að þurfa að liggja inni á sjúkrahúsi. En baráttan var hörð, erfið og að lokum varð ekkert við ráðið. Allt þrek búið og endalokin óumflýjanleg.
Hún andaðist 16. desember umvafin elskandi ástvinum og hvarf í faðm
horfinna ástvina sem vafalaust hafa tekið vel á móti henni í sumarlandinu
fagra.
Mamma óttaðist ekki að deyja, hún var þess fullviss að okkar jarðneska líf
væri einungis einn hlekkur í keðjunni og við tæki æðra tilverustig eftir
andlát þar sem gengnir ástvinir sameinuðust á ný.
Hún sagði jafnvel eitt sinn í léttum tón að hún vildi helst ekki verða
eldri en 75 ára! Mamma varð 78 ára en þarna birtist bæði óttaleysið við að
deyja og einnig stoltið að vilja ekki verða of gömul til að þurfa mögulega
að þiggja aðstoð með daglegt líf.
Mamma var hamingjusöm með sínum heittelskaða til tæpra 60 ára, stússaði
daglega við fallega heimili þeirra og fullfær um að sinna sínu eins og
henni einni var lagið.
Mamma og pabbi voru samrýnd hjón, elskuðu heitt hvort annað, voru
sálufélagar og trygg og trú hvort öðru og eiga langa sameiginlega lífssögu
að baki. Missir pabba er mikill og mun fjölskyldan eftir fremsta megni
umvefja hann ást og stuðningi á þessum erfiðu tímum.
Mamma var mikill fagurkeri, elskaði fallega hluti og fallegar klæðilegar
flíkur en við mæðgur áttum okkur dag, miðvikudaga, þar sem kíkt var í
búðir, verslað og enduðum við oft á kaffihúsi þar sem spjallað var um heima
og geima. Þetta voru dásamlegar stundir náinna mæðgna sem við áttum til
fjölda ára.
Við mamma áttum mörg sameiginleg áhugamál sem við gátum gleymt okkur í að
ræða um. Báðar elskuðum við blómarækt og hvers kyns handavinnu og var mamma
hafsjór af fróðleik um þessi málefni en einnig var hún með græna fingur og
sérstaklega vandvirk og fær í handavinnunni. Hún hefur í gegnum tíðina
leiðbeint mér á þessum sviðum og er meira og minna öll mín viska komin frá
henni í þessum efnum. Það verður erfitt að geta ekki fengið góðar
ráðleggingar frá mömmu héðan í frá.
Fallegt heimili foreldra minna ber þess merki að þar var hugsað vel um
blómin og hvarvetna hægt að sjá fallegt handverk eftir húsmóðurina.
Þessi jól fengu fjórir ástvinir dásamlegar peysur sem mamma hafði lokið við
áður en áfallið og sorgin knúði dyra. Síðustu handverkin. Nú eru allar
peysurnar, hekluðu teppin og útsaumsdúkarnir, sem hún hefur nostrað við að
búa til í gegnum tíðina fyrir ástvini sína, okkar hjartfólgnasta djásn sem
við munum varðveita vel um ókomna tíð.
Þegar ég fullorðnaðist og eignaðist minn lífsförunaut og fór að búa urðu
til ákveðnar hefðir. Hefðir sem héldust alla tíð en mamma og pabbi voru
alltaf vanaföst og vildu hafa hlutina í föstum skorðum. Þannig var með
miðvikudagana en einnig varð til sú hefð að mamma og pabbi komu reglulega
til okkar í morgunkaffi á laugardögum. Það voru dýrmætar samverustundir þar
sem menn og málefni voru krufin og einnig grátið og hlegið.
Þessar samverustundir munu halda áfram, þær verða þó breyttar, allt verður
breytt en ég veit að faðir minn mun halda tryggð við hefðirnar og jafnvel
skapa nýjar í breyttum aðstæðum. Og mamma verður með okkur og hjá okkur á
sinn hátt.
Lífið er breytt, gjörbreytt, ekkert verður eins. Það verður erfitt að geta
ekki leitað til mömmu með vangaveltur um hitt og þetta, geta ekki deilt með
henni sorgum og sigrum, hlegið og grátið saman eins og við vorum vanar að
gera.
Nú gildir að ylja sér við hlýjar og góðar minningar en þær eigum við
fjölskyldan margar. Við Jóhann og börn áttum margar dásamlegar
samverustundir með mömmu og pabba. Margar þeirra urðu til þegar unnið var
að því að reisa sumarhúsið okkar, Rósakot, en þá var mikið hlegið og haft
gaman eftir góðan vinnudag, gott grill og góðan drykk.
Við ferðuðumst einnig mikið saman með hjólhýsið okkar Jóhanns, þar sem
borðkróknum var umsvifalaust breytt í fínasta hjónarúm fyrir mömmu og
pabba. Þessar stundir voru dásamlegar og gefandi fyrir okkur, börnin okkar
og ég veit einnig fyrir foreldra mína.
Mamma elskaði að ferðast og fórum við nokkrum sinnum vestur á hennar
æskuslóðir þar sem margs er að minnast og fræddi hún okkur með hlýhug um
sínar rætur og horfin ættmenni. Yndislegar stundir og góðar
minningar.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvort að á einhvern hátt hægt sé að skynja
eða finna í hjarta sér að komið sé að eigin vitjunartíma?
Ég hef hugsað þetta mikið undanfarið, vegna þess að mamma var næm á
einhvern hátt, dreymdi fyrir komu barna í fjölskyldunni, sagði meira að
segja til um kynið. Allt áður en væntanlegir foreldrar vissu að von væri á
litlu barni.
Í haust var hún búin að skipuleggja og ganga frá öllum jólagjöfum til
fjölskyldunnar, átti aðeins eftir að pakka inn, áður en áfallið dundi yfir.
Rétt eins og hún vissi að hún yrði að vera snemma tilbúin með gjafirnar í
ár!
Það komu líka augnablik á sjúkrahúsinu sem stutt geta þessa tilfinningu
mína að mamma hafi vitað sinn vitjunartíma þrátt fyrir hetjulega baráttu.
Ég elska þig, mátti skilja af hennar vörum við hvert og eitt okkar þegar
hún var enn í öndunarvél. Hún var að kveðja. Og síðar þegar öndunarvélinni
sleppti spurði hún pabba minn hvar hann ætlaði að vera um jólin! Mamma
vissi að hún yrði ekki veraldlega nálæg þessi jól og ég trúi því.
Þegar mamma verður til moldar borin fylgja henni Gosi kisi og Bella voffi
sem voru henni svo kær rétt eins og önnur gæludýr fjölskyldunnar.
Bella mín elskaði að fá að fara í pössun til ömmu og afa í Seljahlíð og
væntumþykja Bellu minnar var svo sannarlega endurgoldin en mamma var mikill
dýravinur og í uppvextinum heima í Kotárgerði var alltaf lítil kisa til
staðar til að elska.
Æskan og uppvöxturinn var notalegur í Kotárgerði, æskuheimilinu sem mamma
og pabbi byggðu sér ung af einskærum dugnaði fyrir sig og sína og eru
minningarnar þaðan margar góðar og hlýjar.
Mamma var natin við fjölskylduna, hlúði vel að okkur í einu og öllu.
Heimilið var öruggt, fallegt og sannkallaður griðastaður fyrir börnin
fjögur að alast upp á. Hún var mikil og myndarleg húsmóðir og átti alltaf
eitthvað heimabakað og gott með kaffinu. Úti í garði voru ræktaðar
kartöflur og rabarbari sem hún notaði til sultugerðar og í seinni tíð fórum
við ósjaldan heim með dýrindis sultukrukku í farteskinu.
Í gamla daga saumaði hún oft jólafötin á okkur krakkana og einnig
jólanáttkjóla á okkur stelpurnar.
Mamma var alltaf að, ótrúlega dugleg og vinnusöm og má kannski segja að hún
hefði átt að hægja aðeins á sér og huga betur að heilsunni en umhyggjan og
drifkrafturinn var mikill og réði för.
Nú er komið að leikslokum, lífsins ljós er slokknað. Það er erfitt að trúa
því og sætta sig við það en gott að ylja sér við það að við munum hittast á
ný. Mamma er komin í góðan faðm ástvina sem farið höfðu á undan og hún
saknaði mikið eins og foreldra sinna og flestra systkina. Þau eru núna
sameinuð og það yljar um hjartað þótt söknuðurinn sé mikill.
Sjáumst síðar elsku mamma.
Sólveig Guðmundsdóttir og fjölskylda.