Óttar Sveinbjörnsson fæddist í Hraunprýði á Hellissandi þann 14. nóvember 1942. Hann lést á dvalarheimilinu Jaðri í Ólafsvík 30. desember 2021.
Foreldrar hans voru Ástrós Friðbjarnardóttir, f. 29.10. 1918, d. 2.10. 1999, og Sveinbjörn Benediktsson, f. 6.10. 1918, d. 26.1. 2006, stöðvarstjóri Pósts og síma og útgerðarmaður.
Eftirlifandi bræður Óttars eru:
Friðbjörn Jón, f. 20.12. 1949, kvæntur Erlu Benediktsdóttur.
Benedikt Bjarni, f. 21.03. 1952.
Eggert Þór, f. 23.05. 1955, kvæntur Soffíu Dagmar Þórarinsdóttur.
Óttar kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðlaugu Írisi Tryggvadóttur, þann 20. desember 1963. Óttar og Íris áttu 60 ára trúlofunarafmæli þann 20. desember síðastliðinn.
Guðlaug Íris er fædd þann 14. ágúst 1941. Hún er dóttir hjónanna Gunnleifar Bárðardóttur og Tryggva Eðvarðssonar og er elst af sjö systkinum.
Börn Írisar og Óttars eru:
1)   Ásbjörn, f. 14.11. 1962, kvæntur Margréti Scheving og eiga þau þrjá syni, Friðbjörn, Gylfa og Óttar, og eru barnabörnin fjögur.
Ásbjörn og Margrét eru búsett á Sauðárkróki.
2)   Tryggvi Leifur, f. 17.5. 1964, kvæntur Kristinu Andersson og eiga þau fjórar dætur, Sögu, Teklu, Idu Anitu og Írisi Linneu, sem er látin, barnabörnin eru tvö.
Tryggvi Leifur og Kristina eru búsett í Svíþjóð
3)   Brynja, fædd og dáin 1.7. 1965.
4)   Júníana Björg, f. 8.2. 1973, gift Jóhanni Péturssyni og eiga þau þrjú börn, Guðlaugu Írisi, Pétur Steinar og Brynjar Óttar, áður átti Jóhann Sigrúnu sem búsett er í Bandaríkjunum. Barnarbörnin eru fjögur.
Júníana og Jóhann eru búsett í Ólafsvík.
Þau Íris og Óttar bjuggu alla sína búskapartíð á Hellissandi þar sem þau eru bæði uppalin fyrir utan þrjú ár sem þau bjuggu í Keflavík þar sem Óttar lærði rafvirkjun hjá frænda sínum Guðbirni Guðmundsssyni. Þau fluttust aftur heim árið 1966 og hóf Óttar sjálfstæðan rekstur sem rafverktaki og starfaði sem slíkur til ársins 1991.
Árið 1968 stofnuðu þau Raftækjaverslun Óttars Sveinbjörnssonar í bílskúrnum heima á Munaðarhólnum, festu svo kaup á húsi móðurömmu og afa Óttars, Blómsturvöllum, árið 1979 og hét verslunin upp frá því Blómsturvellir. Árið 1986 byggðu þau svo nýbyggingu undir verslunina sem hafði vaxið og dafnað og árið 2019 lauk verslunarreksti þeirra eftir rúmlega 50 ára farsælan rekstur. Síðustu 25 árin ráku þau verslunina ásamt dóttur sinni Júníönu. Óttar var mikill áhugamaður um sauðfé og notaði hverja aflögustund til þess að sinna fjárbúskapnum á Kjalvegi. Hann hafði mikinn metnað fyrir að ná árangri í ræktuninni og átti hann marga verðlaunahrútana og einstaklega gott fé. Óttar var lengi í hreppsnefnd Neshrepps utan Ennis og sinnti ýmsum trúnaðarstörfum í þágu sveitarfélagsins.


Útför Óttars fer fram frá Ingjaldshólskirkju í dag, 6. janúar, kl. 14.
Streymt er frá útförinni á:
https://kirkjanokkar.is/

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Pabbarós og dýrlingur, já það var sko ekkert minna.
Pabbi lagði sig fram við að þetta yrðu ein af mínum fyrstu orðum og stoltur hlustaði hann á mig segja þetta hvar sem var og hvenær sem var þegar ég var nýorðin talandi og fram eftir aldri.
Það var gott að alast upp á Hellissandi. Við bjuggum í næsta húsi við ömmu Leifu og afa Tryggva og svo hinum megin við túnið bjuggu Ásta amma og Bubbi afi í Hraunprýði og Júna amma og Fribbi afi á milli okkar á Blómsturvöllum. Þetta voru kjöraðstæður til þess að vera dekraður úr öllum áttum og þannig er æskuminningin. Á túninu á milli húsanna var svo pabbi með rollurnar sínar og það var dýrmætt að alast upp í nánum tengslum við rollubúskapinn sem var pabba einkar hjartfólginn alla tíð.
Mér fannst gaman að vera í kringum pabba, var svona strákastelpa eins og sagt var og sóttist eftir að fara með honum í veiðitúra og fátt fannst mér skemmtilegra en að stússast með honum í rollunum. Ég var ansi ung þegar ég fór með honum að veiða í Hólmkelsánni til þess að fá að keyra bílinn niður með ánni og fá að kasta fyrir fisk. Veiðitúrarnir í Flekkudalsá með Kristófer og Svanhildi á Hellu og fjölskyldu þeirra voru líka ætíð tilhlökkunarefni. Eins man ég eftir mér í heyskap að keyra Land Roverinn um túnið löngu fyrir bílprófsaldurinn, enda var ég þrælvön að keyra þegar loksins kom að bílprófinu en þar átti Tryggvi bróðir líka stóran þátt þar sem hann var óþreytandi að fara með mig út á gamla flugvöll að keyra.
Ég ólst nánast upp í búðinni hjá mömmu og pabba. Þegar ég var 6 ára afgreiddi ég fyrsta viðskiptavininn. Þegar ég var í kringum 10 ára aldurinn var búðin á gömlu Blómsturvöllum opin milli kl. 16 og 18 þegar mamma var búin að vinna á pósthúsinu hjá Bubba afa en oft plataði ég æskuvinkonurnar til þess að vinna með mér þegar ég var á vaktinni. Við vorum með Barbie- kassann á loftinu og stukkum svo niður þegar viðskiptavinurinn kom inn og afgreiddum, dásamlegar minningar.
Ein fallegasta minningin af Blómsturvöllum er að um hver jól fórum við með gjafir og fallega skrifað kort til nokkurra einstaklinga í bænum sem annaðhvort voru einstæðingar, minna máttu sín eða pabba og mömmu langaði hreinlega bara til að gleðja. Að gleðja aðra var mikilvægt fyrir pabba. Einnig var það árlegt að pabbi fór á Dvalarheimilið Jaðar á aðventunni og færði öllu heimilisfólki þar jólagjöf og átti með þeim notalega stund.

Pabbi gat verið hrjúfur á yfirborðinu, beinskeyttur og sagði nákvæmlega það sem hann hugsaði og fór aldrei í manngreinarálit með það. Undir var hann einstaklega mjúkur og umhyggjusamur og sá ekki sólina fyrir barnabörnunum sínum og eru börnin mín svo heppin að hafa alist upp við svipaðar aðstæður og ég, umkringd ömmum og öfum og miklu ástríki. Ég man til dæmis ekki eftir því að hafa verið skömmuð af mömmu og pabba um ævina.
Við Jói höfum ávallt búið hér í Snæfellsbæ í nálægð við mömmu og pabba og höfum alltaf verið mjög náin þeim og samvistum við þau. Jói og pabbi hafa ávallt átt gott samband og ekki síst í kringum rollurnar en þeir Pétur Steinar sáu nær alfarið um rollurnar þegar heilsu pabba var farið að hraka og þótti honum vænt um geta haldið áfram búskapnum með þeirra aðstoð. Hann sagði til og þeir sáu um að framkvæma og allir voru sáttir við það.

Mér er minnisstætt þegar Guðlaug Íris var 3 ára og við vorum nýbúin að festa kaup á húsi í næstu götu við mömmu og pabba. Hún var ekki sátt við mömmu sína og tilkynnti mér að hún ætlaði að pakka niður i tösku og flytja til ömmu og afa, sem hún gerði, arkaði niður götuna og flutti að heiman í 3 klukkustundir að mig minnir og fékk að sjálfsögðu góðar móttökur hjá ömmu og afa.

Pétur Steinar var mesti rollukallinn og var alltaf boðinn og búinn til þess að hjálpa afa sínum, hvort sem var í fjárhúsunum eða að stilla sjónvarpið þegar afi var búinn að setja allt í kerfi með fiktinu eins og Pétur Steinar orðaði það. Alltaf heyrðist í símanum: Já ekkert mál, afi minn, ég kem. Fátt fannst honum skemmtilegra en að elta afa sinn á hrútasýningar um allar sveitir og oftar en ekki komu þeir félagarnir heim með verðlaun í farteskinu.

Brynjar Óttar var augasteinn afa síns enda bæði yngstur barnabarnanna og nafni hans og Brynju systur minnar sem lést í fæðingu. Þeir áttu einstakt samband og dýrmætt fyrir þá báða að hann hafi haldið í höndina á afa sínum þegar hann hélt yfir í sumarlandið.

Haustið er búið að reynast erfitt, sjúkrahúslega til margra vikna en sem betur fer komst hann að á Dvalarheimilinu á Sauðárkróki þar sem hann fékk einstakar móttökur og var ávallt mætt með hlýju. Þar dvaldist hann þó einungis í mánuð en þar gat mamma verið nálægt pabba alla daga og Ási og Magga gátu einnig hlúð að mömmu á þessum erfiðu tímum.

Það var ótrúlega dýrmætt fyrir pabba og okkur öll að hann komst heim til þess að kveðja þessa jarðvist sem hafði verið honum frekar erfið síðustu misserin sökum hrakandi heilsu. Vil ég þakka einstaka hlýju og nærgætni sem tók á móti okkur á Jaðri þar sem pabbi dvaldi síðustu dagana.

Elsku hjartans pabbi minn, það var erfitt að sleppa af þér takinu en líkaminn var búinn og þú tilbúinn til brottfarar. Við systkinin og fjölskyldur pössum upp á mömmu sem er búin að standa þér við hlið alla tíð, hún er einstök.

Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum í trú
á að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni
veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós
lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert mín lífsins rós
tak burt minn myrkva kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.
Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól
lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta
vekja hann með sól að morgni
vekja hann með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)


Elska þig, þín pabbarós (og dýrlingur),

Júníana Björg.

Ástkær faðir minn lést á Dvalarheimilinu Jaðri í Ólafsvík þann 30. desember og langar mig að minnast hans í nokkrum orðum. Foreldrar mínir koma bæði úr mjög samhentum fjölskyldum og hefur það alla tíð verið þeim mikils virði. Þau hafa brýnt fyrir okkur afkomendum sínum mikilvægi þess að standa saman, hefur það svo sannarlega skilað sér. Ekki síst finnur maður verðmæti þess á stundum sem þessum, þegar hann er kvaddur hinstu kveðju. Síðustu mánuðir hafa verið pabba erfiðir, heilsu hans hrakaði mjög og má segja að frá því í október hefi verið ljóst að hverju stefndi, þó ekki hafi maður endilega gert sér grein fyrir því hversu skammur tími var til stefnu. Þar sem ég er búsettur erlendis þá hef ég að mestu fylgst með veikindastríðinu úr fjarlægð og umönnun hans meira lent á móður minni og systkinum. Ég er því afar þakklátur fyrir að ég náði tveimur góðum dögum með honum á Landspítalanum á meðan hann var með fullri rænu og þeim tveimur dögum sem hann náði á Dvalarheimilinu Jaðri áður en hann lést þar umvafinn fjölskyldunni. Þegar ég kom til pabba á Landspítalann á öðrum degi jóla sagði hann mér að hann hefði verið að bíða eftir mér til að geta skýrt frá því að hann vildi að læknismeðferð yrði hætt og hann settur í lífslokameðferð. Nýrun voru orðin óstarfhæf og hann sá engan tilgang í að láta halda sér gangandi, eins og hann orðaði það sjálfur. Hugurinn var þó skýr og hann fullmeðvitaður um stöðu mála. Bað hann mig að ræða þessa ákvörðun við foreldra mína og móður og óska síðan eftir fundi með læknum og hjúkrunarteymi deildarinnar til að ræða lífslokameðferðina. Hann kom því einnig á framfæri að hann vildi gjarnan komast á heimslóðir svo að hann gæti verið nær fjölskyldunni, en allar heimsóknir eru bannaðar á Landspítalanum um þessar mundir. Fékk hann þessar óskir sínar uppfylltar, enda framtíðarhorfur um heilsu hans ekki bjartar.

Ég á margar góðar minningar úr uppeldi mínu á Hellissandi. Við systkinin nutum þess að alast upp í miklu ástríki og frelsi umvafin stórfjölskyldunni. Móðurforeldrar okkar, Gunnleif og Tryggvi, bjuggu í húsinu við hliðina á okkar og föðurforeldrarnir, Ástrós og Sveinbjörn, einungis nokkur hundruð metrum frá í næstu götu. Og við hlið þeirra bjuggu síðan Friðbjörn langafi og Júníana langamma. Þar að auki dvaldi Guðlaug langamma okkar oft á heimili okkar, jafnvel sumarlangt. Þetta voru einstakar og ómetanlegar aðstæður að alast upp við af þremur kynslóðum. Pabbi var mikið náttúrubarn, stundaði veiðar í ám og vötnum, gerði út trillu til margra ára og síðast en ekki síst hélt hann kindur frá því að hann var unglingur og þar til fyrir um tveimur árum. Honum var mikið í mun að við systkinin tækju þátt í þessum störfum hans og leið best umvafinn fjölskyldunni. Pabbi var einstaklega ættrækinn og var mikið í mun að sýna forfeðrum og ættingjum virðingu og umhyggju. Honum var mikils virði að standa við orð sín og brýndi oft fyrir okkur mikilvægi þess, ekki síst að standa skil á skuldbindingum og helst ekki skulda neinum neitt. Að afla áður en eytt er. Hann var mjög félagslyndur, starfaði mikið innan Lionshreyfingarinnar, sat í hreppsnefnd og í sóknarnefnd Ingjaldshólskirkju svo nokkuð sé nefnt. Fyrst og fremst unni hann þó sinni heimabyggð og vildi veg hennar sem mestan. Pabbi var mikil tilfinningavera, ástríkur og umhyggjusamur þó að yfirborðið væri oft hrjúft. Missir dóttur og síðar barnabarns tók mjög á hann en eins og svo margir af hans kynslóð bar hann ekki tilfinningar sínar á torg. Móðir mín, Guðlaug Íris Tryggvadóttir, er einnig alin upp hér á Hellissandi. Þau bæði nánast á sömu þúfunni og hafa því þekkst frá blautri barnæsku. Þau hófu ung sambúð og áttu 60 ára trúlofunarafmæli nú í desember síðastliðnum. Móðir mín hefur staðið þétt við hlið föður míns í starfi og leik. Meðal annars ráku þau verslun saman í rúm 50 ár. Mamma hefur annast pabba af einstakri fórnfýsi í veikindum hans undanfarin ár. Hún er kletturinn okkar og það munu verða mikil viðbrigði fyrir hana að pabbi sé dáinn, við í fjölskyldunni munum standa með henni og styðja eins og hún hefur stutt okkur alla tíð. Að lokum vil ég af alúð þakka öllum sem önnuðust pabba í veikindum hans.






Tryggvi Leifur, Kristina og dætur.