Ögmundur Brynjar Sigurðsson var fæddur á Sólbakka í Vestmannaeyjum 1. nóvember 1955. Hann lést á Piedmont Coliseum-sjúkrahúsinu í Macon í Georgíu í Bandaríkjunum 29.12. 2021 eftir skamma baráttu við krabbamein.
Brynjar var sonur hjónanna Sigurðar Ögmundssonar, f. 18.12. 1928, d. 1987 og Þórunnar Margrétar Traustadóttur, f. 13.3. 1931, d. 1999. Systur hans eru Inga Dóra Sigurðardóttir, f. 1954, maki Friðrik Karlsson og Anna Linda Sigurðardóttir, f. 1960, maki Magnús Hermannsson.
Brynjar kvæntist Elsu Karin Thune 25. júlí 1981, þau slitu samvistum 2003. Börn þeirra eru: Benjamin Seindal Thune, f. 21.11. 1987, dætur hans eru Freja og Alva; Miriam Sigurdsson, f. 15.12. 1989, dóttir hennar er Eleni.
Brynjar gekk að eiga eftirlifandi eiginkonu sína, Judy Sigurdsson, 7. júní 2019 og áttu þau heimili í Forsyth í Georgíu.
Brynjar, eða Binni eins og hann var alltaf kallaður, ólst upp í Vestmannaeyjum. Hann var dugnaðarforkur og snemma fór hann til sjós með föður sínum. Einnig áttu skátarnir og björgunarsveitin hug hans allan. Hann lauk vélstjóraprófi ungur að árum og 18 ára flutti hann til Reykjavíkur þar sem hann lauk námi frá lögregluskólanum og starfaði um hríð sem lögregluþjónn. Upp úr tvítugu flutti Brynjar til Danmerkur þar sem hann fékkst við fjölbreytt verkefni og stofnaði fyrirtæki. Brynjar gekk í danska herinn og starfaði þar í áratugi, síðast sem lautinant í heimavarnarliðinu. Árið 2007 réðst hann til starfa hjá alþjóðafyrirtækinu Howden sem tæknimaður og stjórnandi við uppsetningu og endurnýjun á hreinsivirkjum iðn- og orkufyrirtækja. Starfsins vegna ferðaðist Brynjar víða og sagðist stundum hafa komið til allra landa heims nema Mongólíu. Hann lét af störfum hjá Howden í apríl 2020.
Útför Brynjars verður gerð frá Williams-Westbury Funeral Home í Barnesville í Georgíu 10. janúar 2022 kl. 12 að staðartíma, 17 að íslenskum tíma. Jarðsett verður í kirkjugarði Rock Springs Church í Macon í Georgíu.
Það er með þakklæti í hjarta sem ég kveð yndislegan bróður sem var mér svo kær. Það voru ófáar gæðastundirnar sem við áttum saman og sýndi hann mér, litlu systur eins og hann kallaði mig alltaf, ómælda ástúð og umhyggju. Hann var grallari, skapmikill en blíður, uppátækjasamur og harðduglegur. Hann hafði gaman af því að koma fólki á óvart og gerði það oft á mjög skemmtilegan hátt. Hann gat verið óútreiknanlegur og fór gjarnan sínar leiðir. Hann kvaddi snögglega og það var kannski svolítið í hans anda. Ekkert að vera að eyða of miklum tíma í slíkt vafstur. Hann einfaldlega hafði sinn háttinn á. Þetta var komið, hann var þakklátur fyrir það sem lífið hafði gefið honum og óþarfi við hans aðstæður að dvelja lengur við það.
Það er margs að minnast og svo ótal margt sem gaman væri að rifja upp. Hann var fjörugur sem barn, ákveðinn og fylginn sér. Mér var hann alltaf góður og þær voru óteljandi sögurnar sem hann sagði mér af mínum uppátækjum í æsku. Hann hafði gaman af því að segja hvernig hann margsinnis kom mér til bjargar þar sem ég var horfin út í buskann á þríhjólinu og hann stóri bróðir reddaði málum. Hvort þær voru allar sannar skal ósagt látið en það var ómæld umhyggja fyrir mér í hans frásögnum.
Þegar ég byrjaði í framhaldsnámi 1976 kom ekki annað til greina en að ég flytti til hans þar sem hann bjó í Miðstræti í Reykjavík. Steig ég því mín fyrstu spor fjarri heimili undir hans verndarvæng og verð honum ávallt þakklát fyrir það. Ástin kom bæði inn í líf hans og mitt og því flutti ég út frá honum í apríl árið eftir og hófum við bæði búskap, hann með Kristínu Steinarsdóttur þáverandi unnustu sinni og ég með mínum manni Magnúsi. Það var alltaf gott á milli okkar Brynjars og ég bar mikla virðingu fyrir stóra bróður mínum. Mér fannst hann ótrúlega svalur og flottur og leit upp til hans.
Ungur flutti hann til Danmerkur sem varð þess valdandi að við hittumst sjaldan ekki síst fyrstu árin eftir að hann flutti. Þótt mér alltaf erfitt að hafa hann svona langt í burtu og stutt í söknuðinn. Þegar ég varð fertug ákváðum að fara með öll börnin okkar til Danmerkur og fagna tugunum með Brynjari og fjölskyldu. Ég var nýlent hjá Brynjari og Elsu þáverandi eiginkonu hans þegar mér var tilkynnt að þau sæju um afmælið. Ég ætti bara að mæta. Gamall draumur okkar Elsu varð að veruleika. Ég var, á afmælisdaginn leidd út í garð hjá þeim þar sem Spánverji stóð við grill og snéri heilum grís á teini. Þetta þótti mínum manni skemmtilegt. Sjá svipinn á litlu systur, fanga augnablikið og njóta þess með mér.
Ferðir okkar til Danmerkur og hans til Íslands urðu margar. Hann eyddi hjá okkur jólum og áramótum og fagnaði með okkur fimmtugsafmælinu sínu. Hann eyddi með okkur hluta af sumarleyfum, tók þátt í ýmsum tímamótum í lífi barnanna okkar og svo mætti lengi telja. Við áttum saman stundir inni á hans heimili, í sumarhúsum sem við leigðum og börnin okkar kynntust frænda sínum betur. Þeim þótti alltaf mikið til hans koma og undir yfirborði sem stundum virtist hrjúft var blíður og góður maður sem öllum þótti vænt um. Það var alltaf ákveðin virðing í orðunum þegar talað var um Binna frænda. Hann var nefnilega svolítið flottur karl.
Þegar hann varð sextugur fórum við ásamt börnum og tengdabörnum til Danmerkur og fögnuðum með honum. Gestrisni hans var ómæld og hann var höfðingi heim að sækja. Það er ferð sem ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa farið og í afmælinu kynntumst við Judy eiginkonu hans.
Það fer margt öðruvísi en ætlað er og það sést best á því hvernig hans lífslok urðu. Það stóð til að hann og Judy myndu verja bæði jólum og áramótum hjá okkur en skyndileg veikindi nokkrum vikum fyrir jól breyttu þeirri áætlun. Hann sagði mér að þau myndu bara fresta, koma í janúar eða febrúar en því miður þá verður ekkert af því. Elsku bróðir. Kveðjustundin er mér erfið. Það er með djúpri sorg í hjarta og trega sem ég kveð þig. Mikið hefði ég viljað eiga lengri tíma með þér. Heimsækja ykkur til Forsyth og eiga tíma með ykkur bæði þar og heima á Íslandi. Samt er ég skaparanum þakklát fyrir að teygja ekki lopann þín vegna því þetta var orðið svo erfitt. Ég hefði þó svo sannarlega þurft aðeins meiri tíma. Tíma til að segja þér svo margt, tíma til að þakka þér fyrir svo margt, tíma til að segja þér hversu mikils virði þú varst mér. Hafðu þökk fyrir allt og allt elsku bróðir. Megi guð styrkja okkur öll í sorginni þar til síðar.
Anna Linda Sigurðardóttir.