Egill Skúli Ingibergsson fæddist 23. mars 1926. Hann lést 22. desember 2021. Foreldrar hans voru Ingibergur Jónsson, f. 12.7. 1897, d. 15.4. 1960, og Margrét Guðlaug Þorsteinsdóttir, f. 1.5. 1898, d. 5.8. 1960.
Egill Skúli kvæntist 2. ágúst 1952 Ólöfu Elínu Davíðsdóttur, f. 6.8. 1930, d. 11.9. 2019. Þau bjuggu í Skerjafirði og síðan í Kringlunni.
Foreldrar hennar voru Davíð Guðjónsson, f. 16.9. 1902, d. 12.5. 1984, og Kristjana Margrét Árnadóttir, f. 22.1. 1908, d. 21.9. 1970.
Börn: Kristjana kennari, f. 1955, gift Þórólfi Óskarssyni byggingafræðingi og eiga þau fjögur börn, Egil Skúla, Elínu, Margréti og Bryndísi.
Valgerður, f. 1956, gift Gunnari Helga Sigurðssyni tæknifræðingi og eiga þau fjögur börn, Hildi Pálu, Ingu Rán, Atla Frey og Illuga Þór.
Inga Margrét félagsráðgjafi, f. 1960, gift Ólafi Björnssyni lögfræðingi og eiga þau fjögur börn, Andra Björn, Ólöfu Sif, Skúla Geir og Ágústu Margréti.
Davíð viðskiptafræðingur, f. 1964, sambýliskona Fanney Hrafnkelsdóttir sjúkraliðanemi. Davíð á tvö börn, Sóley og Soffíu Elínu, með fyrrverandi eiginkonu sinni, og Fanney á tvö börn, Ásdísi og Ásgeir, með fyrrverandi manni sínum. Barnabarnabörnin eru 22.
Egill Skúli átti hálfsystur, Hlíf Sigurjónsdóttur, f. 16.8. 1920, d. 8.7. 2011, og foreldrar hans ólu síðar upp Erling Sigurðarson og Ebbu Unni Jakobsdóttur.
Egill Skúli fæddist í Vestmannaeyjum og ólst þar upp til 18 ára aldurs. Fór í Verslunarskólann í Reykjavík, stúdent þaðan og úr stærðfræðideild MR. Lauk BS-gráðu í verkfræði úr HÍ og mastersgráðu í rafmagnsverkfræði 1954 úr DTH í Kaupmannahöfn.
Starfsferill: Vann hjá Orkumálastofnun og Rafmagnsveitum ríkisins til loka árs 1958. Árið 1958 við Reiðhjallavirkjun og Bolungarvík 1959. Síðan í Mjólkárvirkjun við gangsetningu véla og rafveitustjóri Rafmagnsveitna ríkisins á Vestfjörðum. Árið 1964 stofnaði hann ásamt Guðmundi Jónssyni verkfræðistofuna Rafteikningu. Var yfirverkfræðingur hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Árið 1968 var hann aðstoðarrekstrarstjóri Landsvirkjunar. Árin 1969 – 1975 hjá Búrfellsvirkjun, staðarverkfræðingur Landsvirkjunar við Sigölduvirkjun. Árin 1975 – 1978 hjá Rafteikningu. Frá 1978 – 1982 borgarstjóri í Reykjavík. Frá 1982 – 1983 framkvæmdastjóri Kísilmálmverksmiðjunnar. 1983 Rafteikning. Kenndi verkefnastjórnun og skipulag á vegum Stjórnunarfélags Íslands. Árið 1990 varð hann framkvæmdastjóri bygginganefndar Þjóðarbókhlöðunnar og formaður samstarfsnefndar um nýtt Landsbókasafn-Háskólabókasafn Íslands.
Hann var í stjórn og formaður Verkfræðingafélagsins. Formaður Ljóstæknifélags Ísland 1990-1994 og Velunnarafélags Borgarspítalans 1983-2008. Var í nefnd hjá Lagnafélagi Íslands 1993-2015 og var í Lionsklúbbi Fjölnis. Þýddi staðla og tæknirit fyrir Ljóstæknifélagið. Heiðursfélagi í Verkfræðingafélaginu 1992, í Verkefnastjórnunarfélagi Íslands 1999, í Lagnafélagi Íslands 2002, í Ljóstæknifélagi Íslands 2006.
Útför hans fer fram frá Neskirkju í dag, 10. janúar 2022, kl. 13.
Egill Skúli Ingibergsson tengdafaðir minn lést á vetrarsólstöðum aðfaranótt 22. des. sl. 95 ára að aldri. Hann hafði átt við veikindi að stríða síðustu mánuði, en var þó heima allt þar til tveimur mánuðum fyrir andlát sitt, og vel ern allt undir það síðasta.

Skúli, eins og hann var alltaf kallaður, var fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum, þar sem foreldrar hans bjuggu. Hann var Rangæingur í föðurætt, en móðir hans var af austfirskum ættum. Þau munu hafa kynnst fyrir austan þegar Ingibergur var á vertíð hjá Vilhjálmi á Hánefsstöðum, en Margrét móðir hans var þá að vinna þar. Þau fluttu svo til Eyja og hófu búskap þar, en Margrét hafði þá eignast dóttur, Hlíf, hálfsystur Skúla, f. 1920, d. 2011.

Hann sagði mér stundum frá uppvaxtarárum sínum í Eyjum, sem voru honum jafnan eftirminnileg. Hann fór ungur að vinna við fisk, m.a. breiða út saltfisk til söltunar, munu það hafa verið hans fyrstu laun sem hann fékk, þeir aurar sem hann, þá um 10 ára aldur, fékk fyrir þá vinnu. Það var alltaf líf og fjör í Eyjum og Þjóðhátíðirnar eftirminnilegar, en þar keppti Skúli í íþróttum, en hann var góður íþróttamaður á yngri árum bæði í glímu og frjálsum íþróttum en einnig keppti hann í handbolta.

Hugurinn stefndi til sjós, enda voru allir alvöru menn þá sjómenn, en hann sjóaðist ekki og vegna þess að honum gekk vel í skóla var ákveðið að hann gengi menntaveginn. Hann fór í Verslunarskólann í Rvík, en tók jafnframt stærðfræði við Menntaskólann í Rvík, og fór í rafmagnsverkfræði í Háskóla Íslands fyrstu 2 árin, og kláraði hana svo, seinni hlutann, í Kaupmannahöfn, 1954 eins og venja var þá. Með honum í Danmörku var þá kona hans Ólöf Elín Davíðsdóttir, en þau giftu sig 1952. Þau eignuðust 4 börn og voru samferða í tæp 70 ár, en Ólöf lést 2019.

Heim kominn frá Danmörku fór Skúli að vinna við sitt fag, fyrst hjá Rafmagnsveitum ríkisins, en seinna hjá Landsvirkjun. Einnig vann hann sjálfstætt hjá fyrirtækinu Rafteikningu sem hann og félagar hans stofnuðu, en var stundum lánaður frá því til annarra verkefna í lengri eða skemmri tíma. Á þessum árum kom hann að byggingu fjölmargra virkjana og verkefnastjórnun sem því tengdist á árunum 1954-1978, en á þeim tíma var hann einnig rafveitustjóri á Ísafirði um tíma. M.a. kom hann að byggingu Mjólkárvirkjunar og Reiðhjallavirkjunar auk Smyrlabjargavirkjunar, en langstærsta verkefnið var Búrfellsvirkjun 1968-1970, og svo Sigölduvirkjun í framhaldinu.

Með ráðningu Skúla sem yfirverkfræðings við Búrfellsvirkjun var brotið blað í framkvæmdasögu Íslands, en hann var fyrstur íslenskra verkfræðinga til að vera trúað fyrir verkefnastjórn í svo stóru verki, sem unnið var undir eftirliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og af erlendum eftirlitsaðilum og verktökum að stórum hluta. Var hann ætíð stoltur af þessu verkefni og þakklátur þeim sem fólu honum að stjórna þessu verki, en í raun ruddi þetta brautina fyrir íslenska verkfræðinga til að fá að taka að sér verkefni á jafnræðisgrunni við erlenda kollega sína. Minntist hann oft á Eirík Briem, forstjóra Landsvirkjunar, í þessu sambandi, sem lærimeistara og velgjörðarmanns.

1978 er Skúli svo ráðinn borgarstjóri í Reykjavík af vinstri meirihlutanum, m.a. vegna reynslu sinnar af verkefnastjórn stórra verkefna. Hann sagði mér síðar að þetta hefði verið erfitt við að eiga, enda ólík sjónarmið uppi af hálfu borgarfulltrúanna, en lærdómsríkt og eftirminnilegt. Hann var hinsvegar alltaf ópólitískur og tók aldrei þátt í flokksstarfi hjá neinum flokki. Þessu starfi hjá borginni lauk svo 1982, og þá fer Skúli aftur að vinna hjá Rafteikningu við margskonar verk. Eitt af þeim mörgu sem hann kom að undir lok starfsferils síns var vinna við Þjóðarbókhlöðuna. Þá starfaði hann mikið í Ljóstæknifélaginu, Stjórnunarfélaginu, formaður Velunnarafélags Borgarspítalans, Lions og mörgum fleiri félögum. Starfsþrekið var gífurlegt og var hann sívinnandi allt fram undir nírætt, m.a. sem matsmaður í gerðardómum.

Þegar ég kom inn í fjölskylduna árið 1985, er við Inga fórum að vera saman, tóku foreldar hennar sveitastráknum afar vel. Við Skúli urðum fljótt góðir vinir, og við bjuggum í sama húsi og tengdaforeldar mínir um tíma, á ættarreitnum við Fáfnisnes í Skerjafirði, en þar byggðu tengdaforeldrar Skúla fyrst hús 1930, nr. 11, og þeir tengdafeðgar Skúli og Davíð Guðjónsson byggingarmeistari svo annað hús 1960, nr. 8.

Skúli studdi vel við bakið á sínu fólki og leiðbeindi og ráðlagði og hvatti fólk til dáða. Það var fastur liður ef við áttum leið suður að koma við hjá þeim hjónum í Kringlunni 43, en þangað fluttu þau úr Skerjafirðinum fyrir um 25 árum og bjuggu alla tíð síðan. Við fórum einnig nokkrum sinnum með þeim til útlanda í frí, og þá var Skúli hrókur alls fagnaðar og skemmti sér á ströndinni með barnabörnunum.

Það var ætíð gaman að ræða við Skúla um fortíð og framtíð, hann var geysi- vel lesinn og fróður - fylgdist vel með allri umræðu. Ég leitaði mikið til hans með ráð í mörgum málum sem ég var með, og gjarnan kom ég við eftir að hafa flutt mál í Hæstarétti og þá vildi hann fá fréttir hvernig hefði gengið. Hann var mikill fjölskyldumaður og þau hjón mjög samrýmd alla tíð. Eftir að heilsu Ólafar tók að hraka fyrir um áratug annaðist hann hana með einstökum hætti, og saman áttu þau mjög góð efri ár og gátu búið heima allt til enda.

Genginn er góður og eftirminnilegur maður sem átti langt og farsælt líf. Ég þakka samfylgdina og kveð með söknuði, en í einlægri trú á að nú séu þau Ólöf sameinuð á ný. Minningin lifir að eilífu.

Ólafur Björnsson.