Sigurður Sigfússon fæddist 15. desember 1931 á Þórunúpi í Rangárþingi eystra. Hann lést 1. janúar 2022 á hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi. Foreldrar hans voru Sigfús Sigurðsson (1892-1950), skólastjóri í Hvolsskóla, og Sigríður Anna Elísabet Nikulásdóttir (1897-1963) húsfreyja. Systkini Sigurðar eru Kristín Guðríður (1919-1982), Ragna Valgerður (1920-1998), Sigríður Hrefna (1923-1991), Nikulás Þórir (1929-2019), Eggert (1939).
Þann 7. júlí 1956 kvæntist Sigurður eftirlifandi eiginkonu sinni Önnu Maríu Þórisdóttur, f. á Húsavík 24. október 1929. Dætur þeirra eru: 1) Arnfríður Sigurðardóttir, f. 1956, gift Guðbjarti Páli Guðbjartssyni, f. 1956, börn þeirra eru a) Sigurður Páll, f. 1979, kvæntur Ásdísi Eir Símonardóttur, f. 1984, synir þeirra eru Styrmir Freyr, f. 2013, og Kári Hrafn, f. 2015 b) Unnur Vala, f. 1983, dætur hennar með Sergio Bjarna Magnússyni eru Írena Ósk, f. 2006, og Aríanna Björk, f. 2007. 2) Sigríður, f. 1958, gift Guðmundi Ágústssyni, f. 1958, börn þeirra eru a) Anna Huld, f. 1979, gift Þorleifi Þorleifssyni, f. 1979, dætur þeirra eru Harpa Eir, f. 1998, Tinna María, f. 2004, Karen Embla, f. 2010, b) Ólöf Heiða, f. 1984, gift Þorsteini Eggertssyni f. 1983, börn þeirra eru Hildur Lilja, f. 2012, og Kári Fannar, f. 2017, c) Auður Ösp, f. 1986, d) Andri Steinn, f. 1990, kvæntur Halldóru Fanneyju Jónsdóttur, f. 1992, sonur þeirra er Tryggvi Steinn, f. 2019, e) Haukur, f. 1995, 3) Ragnheiður, f. 1962, gift Hilmari Erni Hilmarssyni, f. 1958, dætur þeirra eru Sólveig Hrönn, f. 1997, í sambúð með Oddi Snorrasyni, f. 1995, og Erna María, f. 2003. Synir Hilmars eru Hafsteinn Logi, f. 1985, og Óðinn Örn, f. 1989.
Þegar Sigurður var um þriggja ára flutti fjölskyldan frá Þórunúpi í nýbyggt hús á Stórólfshvoli við Hvolsvöll, en áður hafði faðir hans gengið daglega 5 km leið til kennslu. Eftir fermingu fór Sigurður í Flensborgarskólann í Hafnarfirði og tók þaðan landspróf. Hóf síðan nám við Menntaskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan 1951. Hann lauk BA-prófi í ensku og eðlisfræði frá Háskóla Íslands 1953 ásamt því að sinna kennslu. Síðan kenndi hann einn vetur á Reykjaskóla í Hrútafirði, en haustið 1954 lét hann draum sinn rætast og hóf nám í vélaverkfræði í Háskóla Íslands. Hann lauk fyrri hluta prófi 1957 og hóf sama ár nám í DTH í Kaupmannahöfn og lauk prófi þaðan 1960. Sigurður vann í Vélsmiðjunni Héðni árin 1960-1967. Árið 1968 hóf hann störf á Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, nú Verkís, og vann þar allan sinn starfsaldur til ársins 2003. Þar kom hann að hönnun margra virkjana svo sem Búrfellsvirkjunar, Kröfluvirkjunar, Blönduvirkjunar og síðast Kárahnjúkavirkjunar. Sigurður fór í margar utanlandsferðir í tengslum við störf sín, aðallega til Noregs, Þýskalands, Bandaríkjanna og Japans. Aðaláhugamál hans í gegnum lífið hafa verið útivist, trjárækt, ljósmyndun og skák.
Útförin fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 20. janúar 2022, kl. 15.
Hlekkur á streymi:
https://youtu.be/rb87bN627OM
https://www.mbl.is/andlat
Við systkinin eigum góðar minningar frá heimili ömmu og afa í Ofanleiti. Þau áttu svo skemmtilegt og skrýtið dót inni í geymslu. Þar máttum við gramsa og skoða eins og við vildum og með lokaða hurð ef við vildum. Í geymslunni var t.d. gamalt veski stútfullt af Matador-peningum sem vakti alltaf lukku. Allt í einu heyrðist svo kannski í klinki og þá vissum við að þetta var afi að hrista vasann á jakkanum sínum til að gefa okkur alvörupening eins og hann gerði svo oft. Við fórum líka oft í mat til þeirra og fengum þá svikinn héra og Svala. Eftir matinn bauð afi svo upp á slides-myndasýningar. Hann fór þá inn í litla herbergi og dró fram tjaldið og sýningarvélina og stillti upp í stofunni.
Fyrir jólin bakaði afi alltaf enska jólaköku og skreytti jólatréð með eldgamalli kerta-ljósaseríu. Við skárum líka út laufabrauð saman og afi var sérstaklega góður í því enda skar hann svo fínlega. Á jóladag var alltaf jólaboð hjá ömmu og afa þar sem við borðuðum hangikjöt, oftast tvær tegundir og annað þeirra Húsavíkurhangikjöt og svo áttu allir að giska á hvort var hvað. Í eftirmat var svo ananasfrómas og möndlugrautur en hann bragðaðist samt alltaf öðruvísi en hjá mömmu þótt uppskriftin væri sú sama.
Skemmtilegast fannst okkur hins vegar að fara í Ljósaland, sumarbústaðinn þeirra ömmu og afa. Stundum fórum við ein með ömmu og afa á hvíta Citroen-bílnum þeirra sem afi keyrði að sjálfsögðu. Á leiðinni austur ókum við fram hjá álfasteinum sem amma og afi sögðu sögur af og svo var keppni hver væri fyrstur til þess að sjá bústaðinn. Afi var endalaust að sinna viðhaldi á bústaðnum og landinu í kring og var Andri sérstaklega áhugasamur um að fá að vera með í því. Andri fylgdist ekki bara með heldur var hann duglegur að hjálpa afa og hafði Andri alltaf nóg að gera og elskaði það. Ýtti það mikið undir vinnusemi Andra. Afi kenndi honum útsjónarsemi, t.d. þegar sláttutraktorinn fór ekki í gang því að þyngdarnemi sagði Andra of léttan til að keyra, þá skellti afi bara sandpoka undir hann og traktorinn fór af stað. Landið var stórt í kringum bústaðinn og í minningunni er afi alltaf að slá grasið. Að sjálfsögðu með flugnanet á hausnum. Við fórum svo á eftir og rökuðum. Afi brá hins vegar líka oft á leik með okkur krökkunum og faldi sig í háu grasinu. Stundum fengum við líka teppi og nesti og fórum í lautarferð á landinu. Þá voru ófáar drullukökurnar bakaðar í búinu úti og skreyttar með blómum og steinum og þá kom sér vel að hafa lækinn við hliðina til að ná í vatn og þvo sér um hendur. Anna man líka eftir því þegar hún var lítil og bústaðurinn var enn í byggingu, þá var útikamar og hendurnar þvegnar í læknum.
Eftir vinnuna úti fannst afa gott að koma inn og sitja í stólnum sínum og hlusta á hádegisfréttirnar, jafnvel á meðan hann gæddi sér á kúmenbrauði eða brauði með kavíar. Oft greip hann líka í kíkinn og var skemmtilegur leikur að horfa á Búrfellið með kíkinum og reyna að sjá steinafígúrur. Á kvöldin var mesta sportið þegar hann kveikti upp í kamínunni í litlu stofunni. Þá kom alltaf svo góð lykt. Stundum fór afi líka með okkur í kvöldgöngu til að gefa hestunum á Efri-Brú brauð. Við vorum hrædd um að hestarnir myndu óvart bíta okkur og vorum rög við að gefa þeim á meðan afi reyndi að sannfæra okkur um annað. Afi fór líka oft með okkur í sund í Ljósafosslaug.
Við systkinin kveðjum elsku afa Sigga með miklu þakklæti og söknuði og biðjum honum Guðs blessunar á þeim stað sem við eigum öll vísan.
Anna Huld, Ólöf Heiða, Auður Ösp, Andri Steinn og Haukur.