Sigríður Jóhannsdóttir, Sissý, fæddist í Reykjavík 20. júní 1952. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 2. janúar 2022.


Foreldrar hennar voru Jóhann Finnsson tannlæknir frá Hvilft í Önundarfirði, f. 23.11. 1920, d. 2.6. 1973, og Kristveig Björnsdóttir frá Víkingavatni í Kelduhverfi, f. 29.3. 1926, d. 29.8. 2009. Systkini Sissýjar eru: Björn, f. 1950, maki Guðrún Rannveig Daníelsdóttir, f. 1954; Sveinn, f. 1954, maki Jóna Þorsteinsdóttir f. 1954; Guðrún, f. 1957, maki Þorvaldur Bragason, f. 1956.


Árið 1970 kynnist Sissý Baldvini Má Frederiksen málarameistara, f. 1952. Foreldrar hans voru Gunnar V. Frederiksen, f. 25.7. 1922, d. 5.5. 2013, og María Elísabet Árnadóttir Frederiksen, f. 26.1. 1924, d. 21.6. 2019. Sissý og Balli gengu í hjónaband 28. desember 1974. Börn þeirra eru: 1) Bryndís, f. 28.2. 1974, eiginmaður hennar er Rúnar Berg Guðleifsson, f. 3.11. 1971. Þeirra börn eru: a) Bjartur, f. 27.7. 2000, b) Bergdís, f. 16.4. 2003, og c) Kolbeinn, f. 14.1. 2007. 2) Jóhann Gunnar, f. 30.6. 1977. 3) Baldvin Már, f. 25.4. 1985, eiginkona hans er Fríða Kristbjörg Steinarsdóttir, f. 11.10. 1985. Þeirra börn eru a) Harpa Guðrún, f. 2.3. 2011, og b) Jóhann Kári, f. 3.6. 2014.


Sissý ólst upp í Reykjavík, lengst af í Hvassaleiti en á sumrin flutti fjölskyldan í sumarhús þeirra, Skóga í Mosfellssveit. Ef frá eru talin árin 1962-1963 þar sem fjölskyldan bjó í Birmingham, Alabama í Bandaríkjunum.

Hún útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1974 og hóf um leið störf á Landspítalanum við Hringbraut þar sem hún starfaði allt til starfsloka 2019. Árið 1996 útskrifaðist hún frá háskólanum í Gautaborg sem uroterapeut ásamt samstarfskonu sinni, fyrstar Íslendinga. Sissý vann lengi á 13D en að námi loknu í Gautaborg hóf hún, ásamt samstarfsfólki, undirbúning þvagfæradeildar sem seinna varð 11A þar sem hún var fyrsti deildarstjóri.


Árið 2019 fluttu Sissý og Balli í hús sem þau byggðu á æskuslóðum Sissýjar í Mosfellssveitinni þar sem hún undi sér best við ræktun matjurta og umhirðu garðsins í návist Balla og fjölskyldunnar.


Útför Sigríðar fer fram frá Langholtskirkju í dag, 21. janúar 2022, klukkan 15.
Hlekkir á streymi: https://youtu.be/kna56eNg-HY

https://www.mbl.is/andlat

Mikið skelfilega er heimurinn tómlegur án þín elsku mamma og óhætt að segja að hjarta mitt sé gjörsamlega brostið af harmi. Erfitt að hugsa til þess að maður fái aldrei aftur mömmuknús.

Hvar byrjar maður á að ná hugsunum sínum saman eftir svona áfall til að geta sett saman á prenti einhverja hugmynd um hver þú varst, hverju þú áorkaðir, hvaða áhrif þú hafðir á umheiminn og hvað þú gerðir í mínu lífi frá lífsgjöfinni þangað til þú dróst þinn síðasta andardrátt svo óhugnanlega óvænt og alltof snemma.

Þú varst einfaldlega stórkostleg manneskja. Ástrík, umhyggjusöm, glaðlynd, ósérhlífin, örlát, félagslynd, harðdugleg og eiturklár. Gullfalleg, ungleg og liðug. Bara núna seinast í desember varstu að sýna mér að þú gætir enn sett löppina aftur fyrir haus, þrátt fyrir aldur og veikindi. Þú náðir þér í mjög góða menntun og stöðu, og lagðir alltaf mikla áherslu á að við systkinin gerðum það sama.

Þú kenndir mér að labba og hjóla, lesa og skrifa, elda og bera fram, yrkja jörðina og hlúa að blómum. Þú hugsaðir mikið um tannhirðu, útlit og framkomu, og varst alltaf til reiðu með bursta eða greiðu að ógleymdum varalitnum góða. Þú, amma Kristveig og Ásta frænka höfðu mikil áhrif á hvernig ég lít á konur og af hvernig virðingu manni ber að koma fram við menn og málleysingja. Þú ástundaðir góða mannasiði og kurteisi. Vertu sjálfum þér og fjölskyldu þinni til sóma voru stöðluð kveðjuorð þegar ég sem barn byrja að fara í bekkjarpartí eða keppnisferðir í fótboltanum, sem þú svo oft fylgdir mér í, ein fárra foreldra. Allt það sem þú gerðir fyrir elsku Þrótt maður lifandi. Þvoðir keppnisbúninga, stóðst vaktina, bakaðir fyrir basara, mættir á alla leiki og alltaf fyrst inn á völlinn ef einhver meiddi sig. Lifir í minningu margra þegar greyið Stjörnustrákurinn sneri af sér hnéskelina. Þú raukst inn á völlinn þótt leikurinn væri enn í gangi og þar kraupstu með honum, hughreystir og straukst um ennið þangað til sjúkrabíllinn kom.

Svona var þetta, alltaf að annast aðra, hlúa að þeim og hugsa um þarfir þeirra. Sönn fyrirmynd fyrir stétt hjúkrunarfræðinga. En fyrir vikið gat lífið verið þér erfitt á löngum köflum. Þú tókst svo marga að þér, bæði fjölskyldumeðlimi, vini og skjólstæðinga af spítalanum, og þjáðist með þeim og vegna þeirra, því þú máttir ekkert aumt sjá. Þú hafðir nefnilega einstakt lag á að setja aðra í fyrsta sætið, jafnvel annað og þriðja. Þú gafst og gafst og gafst, en fékkst ekki eins mikið til baka.

Þú varst einstakur gestgjafi og gast rúllað fram kökum, tertum, brauðtertum og öllu því sem til þarf á óeðlilega stuttum tíma. Alltaf til með allt. Mömmumatur er uppáhaldsmaturinn minn en þú varst meistarakokkur, þótt þú talaðir alltaf um að allar veitingar væru bara lítilræði, ekkert merkilegar eða bara eitthvað sem þú tókst til í flýti. Þú dróst okkur um landið þvert og endilangt í tjaldútilegur, fjallgöngur og skíðaferðir, og alltaf varstu vel undirbúin. Maður var varla búinn að leggja bílnum þá var frú Sigríður komin með dúk, smurt nesti, heitt kakó og kaffi, ávexti, ber og breitt úrval kaldra drykkja. Ósjaldan fylgdu einhver sætindi eins og Freyju-karamellur og lakkrís. Rauður Opal var heldur aldrei langt undan.

Höfuð fjölskyldunnar eða ættmóðir hefur maður ósjaldan heyrt. Þú ræktaðir frændgarðinn af þvílíkri elju að tengslanetið þitt var óvenju stórt og virkt. Hringdir í alla á afmælisdögum, sem þú svo ótrúlega mundir eins og stafrófið, heimsóttir með gjafir eða skrifaðist á við. Það var því engin tilviljun að þér skyldi hafa verið afhent nammisvuntan hans Hjálmars frænda.

Við áttum einstaklega gott samband og tíð samskipti, sem ég verð ævinlega þakklátur fyrir. Það var alltaf hægt að leita til þín og vera alinn upp sem barn hjúkrunarfræðings setur á mann mark sem aðeins þau skilja. Þú áttir í mér trúnaðarmann og ég í þér, og við ræddum oft okkar dýpstu hugsanir og tilfinningar. En stundum bara konungsfjölskylduna. Þú áttir stóran þátt í að ég skyldi hætta að drekka og ég veit hversu stolt þú varst af því og að ég skyldi aldrei byrja aftur.

Það er ekki hægt að skrifa svona pistil öðruvísi en að nefna alþekkta stjórnsemi þína, en henni voru engin mörk sett. Í dag veit ég að það var vegna ástar og umhyggju, og oft til að vernda okkur börnin. Fáir einstaklingar sem staðið hafa þriðju vaktina eins hart og þú.

Þú varst alltaf smá spíritisti þótt gamla barnstrúin væri sterk í þér og þú héldir mikið upp á kristnina. Hvor leiðin sem það var sem þú fórst, þá óska ég mér þess heitt að þú farir í friði elsku hjartans mamma mín. Ég skal hugsa vel um hann pabba eins og ég var búinn að lofa þér, elsku ljósberinn okkar.

Þinn

Jóhann Gunnar.