Brynhildur Benediktsdóttir Líndal fæddist á Efra-Núpi í Miðfirði í Vestur-Húnavatnssýslu 30. júní 1934. Hún lést 11. janúar 2022.

Foreldrar Brynhildar voru hjónin Benedikt H. Líndal, hreppstjóri og bóndi á Efra-Núpi, f. 1892, d. 1967 og Ingibjörg Guðmundsdóttir, húsfreyja frá Svertingsstöðum, f. 1907, d. 1993.

Systkini Brynhildar eru Pálína Ragnhildur, f. 1925, d. 2008, Guðmundur Skúli, f. 1927, d. 1986, Guðrún, f. 1928, d. 2015, Hjördís, f. 1930, Sigríður, f. 1937, d. 2021, Alda, f. 1942 og Ketilríður, f. 1947, d. 2021.

Brynhildur giftist Elísi Jónssyni, f. 3.4. 1931. Börn þeirra eru:

1. Benedikt Ingi, f. 27.3. 1957. Maki: Edda Jóhannsdóttir. Synir þeirra eru Elís Ingi og Birkir Páll.

2. Guðrún Alda, f. 11.2. 1971. Synir hennar og Magnúsar Freys Ólafssonar eru Benedikt Líndal og Freyr Líndal.

Brynhildur gekk í Reykjaskóla og Húsmæðraskólann á Varmalandi. Hún starfaði sem ráðskona í vegavinnu, við verslunarstörf, garðyrkju, ræstingar og sem umboðsmaður í Borgarnesi fyrir ferðaskrifstofurnar Sunnu og Samvinnuferðir-Landsýn. Brynhildur sat sem kjörinn fulltrúi í hreppsnefnd Borgarneshrepps, nú Borgarbyggð, og tók virkan þátt í pólitísku starfi í Borgarnesi, m.a. sem kosningastjóri.

Brynhildur og Elís hófu búskap í Reykjavík árið 1955 en byggðu sér hús á Kjartansgötu 20 í Borgarnesi og fluttu þangað árið 1964. Þar bjuggu þau allt til ársins 1995 þegar þau fluttu í Bröttuhlíð 6 í Mosfellsbæ. Brynhildur naut sín við garðyrkju og hannyrðir, stundaði hestamennsku og fór ótal hestaferðir um sveitir landsins og hálendið. Hún naut þess einnig að ferðast erlendis og fór víða strax sem ung kona, oft á slóðir sem þóttu framandi í þá daga.

Útför Brynhildar fer fram frá Lágafellskirkju í Mosfellsbæ 26. janúar kl. 13.

Hlekkur á streymi: https://www.mbl.is/andlat


Mamma, elsku mamma,
man ég augun þín.
Í þeim las ég alla,
elskuna til mín.

Mamma, elsku mamma,
man ég þína hönd.
Bar hún mig og benti,
björt á dýrðarlönd.

Mamma, elsku mamma,
man ég brosið þitt.
Gengu hlýir geislar,
gegnum hjarta mitt.

Mamma, elsku mamma,
mér í huga skín.
Bjarmi þinna bæna,
blessuð versin þín.

Mamma, elsku mamma,
man ég lengst og best.
Hjartað blíða, heita,
hjarta er ég sakna mest.
(Sumarliði Halldórsson.)


(Sumarliði Halldórsson)

Elsku mamma hefur kvatt og haldið á önnur mið. Hún átti langt og innihaldsríkt líf, var stór og mikill persónuleiki og að mörgu leyti á undan sinni samtíð. Hún var ekki dæmigerð húsmóðir síns tíma og mér fannst hún aldrei verða öldruð, jafnvel þó heilsan væri farin að láta undan og hún að nálgast nírætt. Allt fram á síðustu stund talaði hún tæpitungulaust, var hnyttin í tilsvörum, glettin og stríðnisglottið var sjaldnast langt undan. En umfram allt einstaklega trygg og traust. Þrátt fyrir létt fasið fór mamma ekki varhluta af áföllum og vonbrigðum lífsins, frekar en við flest. Hún bjó hins vegar yfir ótrúlegum styrk, seiglu og æðruleysi sem ég dáðist að - kom alltaf standandi niður. Sumir myndu segja að hún hafi verið nagli. En undir yfirborðinu átti hún eðlilega sínar viðkvæmu hliðar. Hún bjó yfir ríkri réttlætiskennd og tók iðulega málstað þeirra sem minna máttu sín, var hreinskiptin og gat verið gagnrýnin en fólk vissi sannarlega hvar það hafði hana.

Mamma ólst upp á Efra-Núpi í Miðfirði í Vestur-Húnavatnssýslu í hópi sjö systra og eins bróður. Hún átti hlýjar minningar frá æskuslóðum og það var ómetanlegt að fara með henni í ágúst síðastliðnum í messu í Efra-Núpskirkju. Hún vissi að þetta var síðasta ferðin á heimaslóðir og með sinni alkunnu reisn kvaddi hún staðinn sem var henni svo kær. Mömmu var í mun að við afkomendur hennar gleymdum ekki uppruna okkar og var hún dugleg að segja okkur sögur frá uppvaxtarárunum á Núpi. Svo ljóslifandi voru lýsingarnar að mér fannst ég geta gengið inn í suðurstofuna og fundið tóbakslyktina af afa.
Árið 1955 kynntist hún pabba og þau fetuðu lífsins veg alla tíð síðan í gegnum súrt og sætt. Ingi bróðir kom í heiminn árið 1957 og fjórtán árum síðar bættist undirrituð í hópinn. Fjölskyldulífið snerist mikið um hestamennsku og ferðalög tengd henni. Þær voru ófáar hestaferðirnar sem mamma og pabbi fóru um sveitir landsins og hálendið þar sem Ingi bróðir fylgdi með trússið og litlu systur í aftursætinu. Mamma sinnti ýmsum störfum meðfram heimilinu, engin verk voru minna virði en önnur. Hún var virk í pólitísku starfi, sat í hreppsnefnd, vann sem ráðskona í vegavinnu og við ræstingar og verslunarstörf. Hún var um árabil umboðsmaður fyrir ferðaskrifstofurnar Sunnu og Samvinnuferðir-Landsýn í Borgarnesi og þar fékk heimsborgarinn að njóta sín. Ung byrjaði hún að ferðast út fyrir landsteinana til áfangastaða sem þóttu framandi í þá daga. Hún hafði yndi af því að kanna heiminn og nýjar slóðir.
Mamma var alla tíð dugleg að rækta frændgarðinn og tók skyldum sem óskyldum opnum örmum til lengri eða skemmri dvalar á Kjartansgötunni. Þau voru ófá systkinabörnin sem dvöldu hjá okkur fjölskyldunni í Borgarnesi, okkur öllum til ánægju - ekki síst mömmu. Og ekki má gleyma hvernig hún annaðist ömmustrákana sína. Ég fæ henni seint fullþakkað enda mynduðust órjúfanleg bönd milli hennar, Benedikts og Freys sem þeir munu búa að alla ævi.
Minningar liðinna ára leita á hugann. Ég lítil stelpa í vegavinnuskúrunum með mömmu þar sem hlaupa þurfti á kamarinn sem var staðsettur úti í móa. Við mamma að spila marías langt fram yfir háttatíma 8 ára stelpu, því við þurftum að taka eitt spil enn. Mamma að útskýra söguþráðinn í æsispennandi kúrekamynd með John Wayne. Súkkulaðikaka með rabarbarasultu á milli, lambalæri í á sunnudögum og vanilluhringir bakaðir fyrir jólin. Mamma í stólnum sínum að prjóna, fæturnir krosslagðir og efri fætinum snúið í hringi. Mamma að selja sólarþyrstum viðskiptavinum ferðir til fjarlægra landa - við borðstofuborðið heima í Borgarnesi. Mamma kaffibrún með verkfærin á lofti í garðvinnu. Mamma að benda á það sem betur mátti fara; þú ert úfin í hnakkanum, greiddu þér elskan mín!
Í seinni tíð fann hún sér nýtt áhugamál. Íþróttir! Hún fylgdist með öllu sem fram fór á öldum ljósvakans; handbolti, fótbolti, Ólympíuleikar. Hún greindi leikina, hafði skoðanir á leikmönnum og þjálfurum og skemmti sér konunglega. Hún æstist upp úr öllu valdi og hringdi iðulega í Inga bróður í leikhléi til að fara yfir stöðu mála. Aðdáunarvert að fylgjast með baráttuandanum og gleðinni hjá konu á níræðisaldri. Hún hlakkaði mikið til að fylgjast með Evrópumótinu í handbolta sem nú stendur yfir og er ég handviss um að íslenska liðið hefur notið styrks hennar og leiðsagnar undanfarna daga með góðum árangri.
Elsku hjartans mamma mín. Hafðu þökk fyrir allt sem þú hefur verið mér og strákunum mínum. Við áttum í þér tryggan bandamann og umfram allt góða manneskju. Þú verður ætíð í huga okkar og hjörtum. Farðu í Guðs friði.
Þín elskandi dóttir,

Guðrún Alda.