Anna Kristine Magnúsdóttir Mikulcáková fæddist í Reykjavík 7. mars 1953. Foreldrar hennar voru Elín Kristjánsdóttir, fyrrv. deildarritari á Landakotsspítala, f. 30. desember 1931, d. 1. júní 2020, og Miroslav R. Mikulcák sem eftir að hann fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 1958 tók upp skv. lögum nafnið Magnús Rafn Magnússon, f. 10. september 1927, d. 23. febrúar 1998.
Systur Önnu eru Ingunn Magnúsdóttir, f. 23. september 1955, og Elísabet Magnúsdóttir, f. 28. desember 1958.
Dóttir Önnu Kristine og Úlfs H. Bergmann, f. 1953, er Elísabet Elín Úlfsdóttir (Lízella), f. 13. mars 1975.
Anna Kristine ólst upp á Smáragötu í Reykjavík, auk þess sem hún dvaldi flest sumur á æskuárunum við Straumfjarðará á Snæfellsnesi. Hún gekk í Ísaksskóla, Æfingadeild KÍ, Hagaskóla og lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands vorið 1971. Hún starfaði hjá Eimskip á árunum 1969-1973 en hóf feril sinn í blaðamennsku árið 1977. Hún starfaði m.a. hjá Vikunni, Frjálsu framtaki, Helgarpóstinum, Pressunni, helgarblaði DV og síðar hjá DV. Hún ritstýrði nokkrum tímaritum og eftir hana liggur óteljandi fjöldi viðtala og greina. Anna Kristine hlaut verðlaun Blaðamannafélags Íslands árið 2007 í flokki rannsóknarblaðamennsku. Var hún þá hluti af teymi blaðamanna sem fjölluðu um illan aðbúnað og meðferð barna á vistheimilum hins opinbera. Hún hóf störf hjá RÚV haustið 1991, í Dægurmálaútvarpi Rásar 2 til 1996. Frá árinu 1996 og til 1999 stjórnaði hún vinsælum þætti á sunnudagsmorgnum á Rás 2, Milli mjalta og messu. Þaðan fluttist hún með sama þátt yfir á Bylgjuna og starfaði þar til 2003. Einnig starfaði hún í lausamennsku fyrir Fréttatímann, GayIceland, Lifðu núna og sérblöð stéttarfélaga og annarra samtaka.
Hún gegndi fjölmörgum öðrum störfum, s.s. læknaritari, var formaður Kattavinafélagsins um tíma og var fararstjóri í Prag. Hún skrifaði fjórar bækur í flokki ævisagna; Litróf lífsins I og II, Milli mjalta og messu og Með létt skap og liðugan talanda: Ævisaga Margrétar í Dalsmynni.
Útför Önnu Kristine fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík kl. 15 í dag. Henni er
youtu.be/3iDRSDgDTEw
Hlekkur á streymi:
Elsku hjartans mamma mín. Þú varst lífið mitt, kletturinn minn og
klappstýran, huggaðir og samfagnaðir, studdir og styrktir. Eftir því sem ég
eldist hef ég séð betur og betur hversu lánsöm ég var að fá þig fyrir móður
og uppeldið og gildin sem þú innrættir mér. Þú varst allt sem ég vil vera;
glæsileg, greind, fyndin, skemmtileg, hugrökk, blíð, einstaklega ráðagóð og
útsjónarsöm, sterk og viðkvæm og með stóran skammt af samkennd. Þér tókst
að sameina alla þessa eiginleika í einhverja skemmtilegustu manneskju sem
fyrirfinnst. Ástin þín var skilyrðislaus og alger. Þú gerðir allt lífið svo
fyndið og skemmtilegt, ferðalögin okkar hefðu auðveldlega getað orðið að
geggjuðum gamanmyndum. Þegar eitthvað fór úrskeiðis, eins og gerist stundum
í lífinu, sástu húmorinn eða lærdóminn í því, frekar en að láta uppákomuna
stuða þig. Við lentum ítrekað í því að fara inn í röng lönd á ferðalögum um
Evrópu; óvart inn í Pólland á leiðinni til Tékklands, vorum komin í röðina
til Þýskalands á leið til Austurríkis (sem þú reddaðir með því að taka
u-beygju á landamærunum!), auk þess sem við læstumst inni í La
Scala-safninu og þurftum að ræsa þjófavarnarkerfið til að vera hleypt út
(við lítinn fögnuð ítalskra öryggisvarða!). Þú eignaðist vini alls staðar
og þú varðst heimavön alls staðar á engum tíma. Það var jafn eðlilegt að
sjá þig drekka kampavín á snekkju með olíufursta í Monte Carlo (sem þú
gerðir - ekki myndlíking) og að bruna í gegnum fátækrahverfin í Detroit á
bílaleigubíl (sem þú fórst létt með)! Þú heillaðir fólk hvar sem þú komst,
með lífsgleði þinni, samkennd, áhuga og sagnagleði. Þú varst ekki afkomandi
sr. Árna Þórarinssonar prófasts fyrir ekki neitt! Það var ekki óvanalegt að
við stigjum út úr leigubíl í erlendri borg og þú kveddir bílstjórann með:
Gangi þér vel hjá tannlækninum á þriðjudaginn!
Æskan sem þið amma gáfuð mér á Ránargötunni var eins og í lygasögu. Ástin
og öryggið og skilyrðislaust samþykkið og stuðningurinn er eitthvað sem ég
hélt að öll börn byggju við. Og eiga að búa við. Ég hef verið að tala við
Obbu, Völu, Ásu og Ínu síðustu daga og við munum þetta allar eins, svo
þetta er ekki ímyndun í mér. Samgangurinn og vináttan á milli húsanna nr.
19 og 29 í áratugi var engu lík. Þegar ég kom heim úr skólanum með vini
voru oft litlar þríhyrningslaga eggjasalatssamlokur í ísskápnum ef ég tæki
einhvern með mér heim eftir skóla. Vinir mínir sakna þín sem vinkonu, ekki
bara sem mömmu vinkonu sinnar. Það lýsir þér vel. Það var mjög vinsælt að
gista á Ránargötu 29 þegar við vorum litlar og þú sagðir okkur vinkonunum
sögur af ykkur Öddu að svindla ykkur inn í Glaumbæ! Svo sagðirðu okkur
gæsahúðarútgáfuna af því þegar Glaumbær brann! Þú vannst oft tvö eða þrjú
störf en aldrei heyrði ég þig andvarpa eins og svo margir gera í dag ohh,
það er bara svo brjálað að gera. Þú talaðir aldrei um hvað þú ynnir mikið
eða hvað það væri mikið að gera en þú talaðir hins vegar mikið um hvað það
væri gaman í vinnunni og sagðir frá einhverju skemmtilegu eða áhugaverðu
sem gerðist þann daginn.
Margir minnast helst þáttanna þinna Milli mjalta og messu sem slógu í
gegn, en færri vita að þú hélst að enginn myndi hlusta á þá. Vinnuheiti
þáttanna var lengi vel Ein ég vaki því þér datt ekki í hug að fólk
vaknaði á sunnudagsmorgnum til að hlusta á þig taka viðtöl. En það er
einmitt það sem tugir þúsunda gerðu. Það var vegna einlægs áhuga þíns á
sögu fólks, lífsreynslu þess, lærdómi og sjálfsbjargarviðleitni sem
þátturinn náði þessum vinsældum. Í þáttunum þínum voru sjaldnast frægt
fólk eða stjórnmálamenn, heldur það sem við myndum kalla venjulegt fólk sem
hafði lent í óvenjulegum aðstæðum í lífinu og lært dýrmæta lexíu. Mörg af
viðtalsefnum þínum höfðu aldrei farið í viðtal áður og flestir fóru ekki
aftur í viðtal. Þú skrifaðir líka fjórar bækur þar sem þetta
eftirlætisáhugamál þitt - annað fólk og líf þess - var í aðalhlutverki. Ég
held að þennan eiginleika, þennan einlæga áhuga á fólki, sé ekki hægt að
kenna. En, eins stórkostleg fjölmiðlamanneskja og mannvinur og þú varst, þá
var það hvernig þú tókst á við móðurhlutverkið og lífið sem ég er stoltust
af. Hvað þú elskaðir mig og vini mína skilyrðislaust; okkar sorgir voru
þínar og okkar sigrum samfagnaðir þú af öllu hjarta. Það var ekki í þér að
finna græðgi, snobb, fordóma eða öfund og þú komst alltaf hreint fram. Þú
hafðir mikla og djúpa réttlætiskennd og lagðir þitt af mörkum í
mannréttindabaráttu hinsegin fólks á tíma þegar ekki margir með
dagskrárvald, eins og þú hafðir sem fjölmiðlamanneskja, hættu sér út í
baráttuna. Þú lifðir eftir setningunni Fyrir Guði eru allir jafnir og það
voru ekki bara orð í þínum huga heldur mottó. Ein af fyndnari minningum sem
ég á er af þér og Möggu Pálma að selja regnbogafána í Gleðigöngunni. Það
var úrhelli og ég kom að ykkur að reyna að selja manni fána en í æsingnum
tókuð þið ekki eftir því að fánarnir höfðu blotnað svo mikið í úrhellinu að
þeir duttu af prikunum og þið voruð komnar á háa c-ið að fá fólk til að
kaupa þessa fána (hvít prik) til að styðja við mannréttindabaráttu.
Auðvitað endaði fólk á að kaupa prikið, enda ómögulegt að segja nei við þig
OG Möggu Pálma sameinaðar! Þú máttir aldrei sjá á neinn hallað,
lítillækkaðan eða smættaðan. Þú samsamaðir þig alltaf með þeim sem voru í
veikari stöðu. Sem dæmi hvernig þú endaðir sem formaður Kattavinafélagsins:
Þú varst alltaf logandi hrædd við ketti en þegar níu ára gömul ég grátbað
þig um kettling komstu yfir óttann þegar pínulítill svarthvítur hnoðri,
frk. Stjarna Mai, mætti á Ránargötuna. Síðar varðstu formaður
Kattavinafélagsins! Þetta lýsir þér svo algjörlega, þú fórst alltaf alla
leið! Þú máttir ekkert aumt sjá, styrktir föðurlandið Tékkland í þrígang
eftir flóð með góðgerðartónleikum sem þú settir upp, hélst tónleika fyrir
Parkinsonsamtökin og svo síðar fyrir Kattavinafélagið. Þú glímdir við
erfiðan sjálfsónæmissjúkdóm frá unga aldri, sjúkdóm sem stundum tók þig
alveg úr leik. Sjúkdóm sem einungis var hægt að halda niðri með stórum
steraskömmtum sem héldu þér vakandi dögum saman. En aldrei heyrði ég þig
kvarta eða vorkenna þér. Þú bara barðist áfram eins og ljón. Eftir að
veikindin ágerðust mikið upp úr 2014 með endurteknum innlögnum á sjúkrahús,
endurhæfingarstofnanir og þú þáðir heimaþjónustu og -hjúkrun frá borginni
léstu aldrei deigan síga. Ég sagði oft við þig að ég skildi ekki
þolinmæðina, hugrekkið og æðruleysið sem þú sýndir. Þú varst oft í
einangrun vikum saman og máttir ekki fá heimsóknir. En þú vingaðist við
hjúkrunarfólkið, fékkst auðvitað upp úr þeim ævisöguna, naust þess að lesa
bækur og fréttir og detta inn í plottið í sjónvarpsþáttum. Þú ræktaðir
sambandið við þinn stóra og trygga vinahóp með símtölum, FB-messenger,
tölvupóstum og sms-um. Eitthvert sinn þegar sjúkdómurinn sendi þig eina
ferðina enn á sjúkrahús sagði ég við þig: Jæja, nú þarftu að reima á þig
nýja karateskó fyrir þennan slag og þá sagðirðu: Ég er að verða svolítið
þreytt á að reima á mig ný og ný pör og fara í nýja og nýja slagi. Við
vorum orðin svo vön því að þú sigraðir dauðann að andlát þitt kom öllum í
opna skjöldu. Sú holskefla fallegra orða, korta, símtala og skilaboða sem
ég fékk frá fólki sem hreinlega trúði ekki að þú hefðir yfirgefið sviðið
sýndi mér að öllum öðrum fannst þú jafn stór og mikill sigurvegari og mér.
Allir vissu að þú hefðir verið mikið veik lengi en enginn átti samt von á
þessu. Sem segir mikið um hugrekki þitt og seiglu. En það er helst fallega
hjartalagið þitt sem ég mun geyma með mér og reyna að lifa eftir það sem
eftir er. Þú innrættir mér mannkærleika, ást á dýrum, heiðarleika,
sannsögli og virðingu fyrir öðrum skoðunum og lífsferlum. Það leið varla sá
dagur á tæplega 47 ára ævi minni sem við hittumst ekki eða töluðum saman.
Ég sakna þín svo hræðilega; símtalanna, sms-anna, knúsanna og góðu
lyktarinnar þinnar. Ég trúi ekki enn að þú sért farin, þarf að spyrja þig
svo margs og bera margt undir þig. Þú varst stærsta sál, stærsti karakter
og stærsta hjarta sem ég hef hitt. Og ég er svo þakklát fyrir að hafa
fengið að elska þig og vera elskuð af þér og fá að kalla þig mömmu. Guð
gefi þér góða nótt, ég elska þig út af lífinu. Miluji te (ég elska þig á
tékknesku).
Lízella.
Elísabet Elín.