Brynjólfur Gísli Kristinsson sjó- og netagerðarmaður fæddist í Gröf á Rauðasandi 9. febrúar 1933. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Grund 31. janúar 2022.

Foreldrar hans voru þau Kristinn Jónasson, f. 12. október 1912, og Sigríður Halldórsdóttir, f. 30. desember 1915. Systkini Brynjólfs eru Hallfríður, f. 11. apríl 1935, d. 17. maí 1996; Kristrún, f. 26. september 1941, d. 14. apríl 2019; Valur, f. 19. september 1943, d. 2. nóvember 2019; Pétur, f. 2. desember 1946; Gunnar, f. 18. febrúar 1950.

Brynjólfur kvæntist árið 1983 Kristrúnu Grímsdóttur, f. 3. júlí 1931, d. 2. mars 2019.

Brynjólfur átti þrjú börn með fyrri eiginkonu sinni, Ásdísi Ingibergsdóttur, f. 17. júní 1931, d. 25. júlí 2007. Þau eru: 1) Arna Sigríður, f. 8. júlí 1958, eiginmaður hennar er Guðni Bjarnason og þau eiga börnin Bryndísi, Brynjar og Ásdísi. 2) Kristinn, f. 15. október 1959, eiginkona hans er Heiða Ósk Stefánsdóttir og þau eiga börnin Auði, Arnar og Elísu. 3) Sæunn, f. 31. júlí 1964, eiginmaður hennar er Peter Lommerse og þau eiga börnin Írisi og Björk. Brynjólfur átti fimm langafabörn. Fyrir átti Kristrún sjö börn en Brynjólfur tengdist þeim og barnabörnum Kristrúnar tilfinningaböndum.

Útför fór fram í kyrrþey 7. febrúar 2022 að ósk hins látna.

Mikið á ég erfitt með að trúa því að Binni afi sé farinn. Það er skrýtið að geta ekki slegið á þráðinn til hans og spjallað aðeins um daginn og veginn. Því þrátt fyrir að vera orðinn líkamlega hrumur var hugurinn sem betur fer alveg skýr. Það síðasta sem við ræddum um í síma tveimur dögum áður en hann veiktist var að við mamma ætluðum að heimsækja hann á Grund á næstu dögum. Það náðist því miður ekki, en síðasta heimsókn okkar mömmu til hans var þó mjög góð og eftirminnileg.

Fyrstu þrjú lýsingarorðin sem koma upp í hugann þegar ég hugsa um Binna afa eru: Raungóður, traustur, harðjaxl. Afi var alltaf duglegur og ósérhlífinn og kvartaði aldrei. Enda var hann ýmsu vanur eftir margra áratuga reynslu sem togarasjómaður, þar sem hann hann starfaði lengst af sem háseti eða bátsmaður. Þá fór hann oft í langa túra - jafnvel þriggja mánaða túra, meðal annars við afar erfið skilyrði á Grænlandsmiðum.

Fyrstu línurnar í texta Kristjáns frá Djúpalæk við Sjómannavalsinn eru því lýsandi fyrir Binna afa: Það gefur á bátinn við Grænland og gustar um sigluna kalt, en togarasjómanni tamast það er að tala sem minnst um það allt. Þegar maður spurði afa hvernig hann hefði það var svarið yfirleitt það er ekkert að mér. Þá sjaldan hann viðurkenndi heilsubresti vildi hann alls ekki að maður hefði áhyggjur af sér. Hann lagði þá áherslu á að hann væri orðinn gamall maður og því væri ekki nema eðlilegt að eitthvað færi að gefa sig. Þannig var hann alltaf æðrulaus og hafði frekar áhyggjur af öðrum en sjálfum sér. Til dæmis spurði hann mig iðulega þegar ég kom til hans á hjólinu eða rafmagnsvespunni hvort ég væri ekki örugglega með hjálm, nógu vel klædd og í endurskinsvesti þegar dimmt var. Einu sinni mat hann svo að ég væri ekki í nógu hlýjum vettlingum og lánaði mér þá sína til að hafa á heimleiðinni - sem ég man að komu sér vel í það skiptið.

Binni afi var afar duglegur hjólreiðamaður, en hann hjólaði um Reykjavík þvera og endilanga fram yfir áttrætt. Oft hjólaði hann til dæmis úr Furugerði út á Granda og heilsaði upp á gamla vinnufélaga sína í netagerðinni þar. Auk þess fór hann reglulega í ræktina og sund. Þar fór saman áhugi á líkamsrækt og spjall við vini og kunningja í pottinum. Ég hugsaði stundum til þess að leitt væri að hafa ekki náð að fara í hjólreiðatúr með afa, en á sama tíma hugsaði ég með mér að það hefði varla þýtt því ég hefði ekki náð að halda í við hann.

Ásamt því að vera algjör harðjaxl var afi alltaf svo hlýr og góður, hjálpsamur og sýndi væntumþykju í orðum og verki. Oft kvaddi hann mig með þeim fallegu orðum að honum þætti vænt um mig. Þessir mannkostir afa komu ekki síst fram í væntumþykju hans í garð Rúnu ömmu. Hann vildi allt fyrir ömmu gera og kallaði hana alltaf elsku stelpuna sína eða ástina sína. Afi var kletturinn hennar ömmu í veikindum hennar og duglegur í öllum heimilisstörfum. Eldaði, bakaði og þvoði þvotta sem ég held að óhætt sé að segja að ekki allir karlmenn af hans kynslóð hefðu gert af sama myndarskap.

Binni afi var ávallt stundvís, ákveðinn og drífandi. Allt sem hann ætlaði sér að gera gerði hann strax. Hann talaði ekki bara um að hann þyrfti að fara að gera hitt eða þetta, hann bara dreif í hlutunum.

Annað sem mér fannst mikill kostur í fari afa var hvað hann var raunsær og ráðagóður og sáttur. Til dæmis fann hann sjálfur hvenær borgaði sig fyrir hann að hætta að keyra. Þá fékk hann sér bara rafskutlu í staðinn, fór á henni í búðir og þangað sem hann þurfti og vildi fara. Að sama skapi var hann svo sáttur með þjónustuíbúðina sem hann flutti í úr Furugerði, þrátt fyrir að hafa liðið vel í Furugerði, og var svo ánægður með veru sína á Grund þegar kom að því að hann fór þangað. Sætti sig alltaf við það sem að höndum bar.

Afi hafði mjög gaman af að segja sögur og sagði skemmtilega frá, enda með góðan húmor og hafsjó af sögum af sjónum og að vestan í farteskinu. Skemmtilegast fannst mér að heyra hann segja söguna af því hvernig þau Rúna amma kynntust. Fyrst sem unglingar á balli fyrir vestan og hvernig tilviljanir réðu því að þau náðu svo saman nokkrum áratugum síðar, þá bæði fráskilin. Þegar afi sagði þessa og fleiri gamansamar sögur kom alveg sérstakur glampi í augu hans og prakkarasvipur á hann. Afi saknaði ömmu afar sárt eftir að hún féll frá fyrir þremur árum. Hann minntist oft á það að sér fyndist hún vera hjá sér og passa upp á sig.

Elsku afi. Takk fyrir allar góðu stundirnar, samræðurnar, lexíurnar sem þú kenndir mér og væntumþykjuna sem þú sýndir mér. Ég veit að Rúna amma tekur vel á móti þér og þrátt fyrir að þú hafir ekki náð að heimsækja mig í nýju íbúðina mína eins og þig langaði svo til að gera, þá veit ég að þið amma munuð bæði vera hjá mér í anda og passa upp á mig í Furugerði. Þín vegna mun ég reyna að vera sterk á þessum erfiða tíma, eins og ég veit að þú hefðir viljað.

Þín afastelpa,

Sesselja Hreggviðsdóttir.