Davíð Benedikt Gíslason fæddist í Reykjavík 30. desember 1969. Hann lést á heimili sínu á Seltjarnarnesi 29. janúar 2022.
Foreldrar hans eru Gísli Benediktsson, f. 1947, d. 2016, og Eva María Gunnarsdóttir, f. 1949. Systir hans er María, f. 1974. Eiginmaður hennar er Einar Kristinn Hjaltested, þau eiga fimm börn.
Eiginkona Davíðs er Brynhildur Þorgeirsdóttir, f. 23. mars 1970. Börn þeirra eru: 1) Eva Björk, f. 1994. 2) Þorgeir Bjarki, f. 1996, unnusta hans er Guðrún Ásgeirsdóttir og dóttir þeirra Brynhildur Ýr, f. 2021. 3) Anna Lára, f. 2000, unnusti hennar er Viðar Snær Viðarsson. 4) Benedikt Arnar, f. 2003.
Foreldrar Brynhildar eru Þorgeir Pálsson, f. 1941, og Anna S. Haraldsdóttir, f. 1942. Systur Brynhildar eru Sigrún, f. 1964, eiginmaður hennar er Þór Heiðar Ásgeirsson, þau eiga tvær dætur, og Elísabet, f. 1970, hún á tvö börn.
Davíð bjó í Hlíðunum og stundaði nám við Æfingadeild Kennaraháskóla Íslands en hóf nám í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi þegar fjölskyldan flutti þangað. Hann brautskráðist frá eðlisfræðideild Menntaskólans í Reykjavík 1989, lauk námi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1995 og hlaut lögmannsréttindin 1996. Meðan á námi stóð vann Davíð ýmis sumarstörf, m.a. í verksmiðju Péturs Snælands, Hagvirki og sem fangavörður m.a. í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg og Kvennafangelsinu í Kópavogi.
Eftir laganám hóf Davíð störf hjá Almennu málflutningsstofunni en 2003 var hann einn af stofnendum löginnheimtufyrirtækisins Gjaldheimtunnar. Árið 2006 keypti Gjaldheimtan innheimtufyrirtækið Momentum og var Davíð framkvæmdastjóri þeirra beggja til æviloka.
Davíð var skipaður af Héraðsdómi Reykjavíkur í slitastjórn Kaupþingsbanka í maí 2009 og starfaði í slitastjórninni til ársloka 2013. Davíð var 2018 kosinn af bæjarstjórn Seltjarnarnes formaður yfirkjörstjórnar til fjögurra ára. Áður hafði hann komið inn sem varamaður yfirkjörstjórnar 2014.
Davíð var mikill handboltaunnandi. Hann lék allan sinn feril með meistaraflokki Gróttu, utan tveggja ára þar sem hann lék með Fram. Þá lék hann með öllum yngri landsliðum íslands. Um tíma sat hann í stjórn handknattleiksdeildar Gróttu. Davíð gegndi trúnaðarstörfum fyrir Handknattleikssamband Íslands frá 2007, var formaður laganefndar HSÍ, sat í stjórn sambandsins og var varaformaður þess frá 2013. Einnig sat hann í laganefnd ÍSÍ frá 2017 og var formaður þeirrar nefndar frá 2019.
Útför Davíðs fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 11. febrúar 2022, klukkan 13.

Hlekkir á streymi:

https://hljodx.is/index.php/streymi2

https://www.mbl.is/andlat

Grein um minningar. Hvernig er mögulegt að koma minningum 40 ára niður á blað? Minningum um minn besta vin sem nú er fallinn frá langt fyrir aldur fram og mér þykir svo óendanlega vænt um. Hefðum við Davíð verið samtímamenn Gísla Súrssonar sem við lásum saman um í menntó efast ég ekki um að við hefðum gengið í fóstbræðralag eins og þeir Gísli og Vésteinn. Við hefðum svarið að hefna hvor annars yrði hinn veginn. Illvígur sjúkdómur lagði Davíð. Svo ósanngjarn, svo óáþreifanlegur og svífst einskis. Gengur bara í skrokk á manni og vegur hann. Manni sem fyrir einu ári var fullfrískur í blóma lífsins, holdgervingur heilbrigðs lífernis, dansandi í gegnum lífið.

Sumarið 1982 flutti Davíð 12 ára gamall ásamt foreldrum sínum og systur úr Bólstaðarhlíðinni á Sævargarða á Seltjarnarnesi. Ég hafði dvalið í sveit um sumarið en þegar ég kom til baka frétti ég að nýr strákur væri fluttur í götuna, Davíð. Hann væri mjög góður í fótbolta og ansi efnilegur í handbolta þótt hann hefði aldrei æft þá mætu íþrótt. Það átti eftir að breytast. Hann væri líka örvhentur. Þetta var of gott til að geta verið satt. Ég man enn eftir fyrstu kynnum okkar, aðeins varfærnisleg í fyrstu en ekki leið á löngu áður en við urðum miklir mátar. Ekki hefði mig þó geta órað fyrir því þá að líf okkar myndi fléttast saman í ótal fléttur næstu fjóra áratugina.

Við byrjuðum í gaggó, Valhúsaskóla, þá um haustið og þó að við hefðum aldrei lent saman í bekk, hvorki þar né síðar í Menntaskólanum í Reykjavík, vorum við mikið saman utan skólastofunnar. Það varð okkur kannski til happs. Saman í bekk hefði líklega bara verið too much. Gönguferðirnar í skólann urðu að skemmtiferðum saman. Davíð var mikill húmoristi, hann gat verið stríðinn og kaldhæðinn en alltaf á góðlátlegan hátt, glotti út í annað eða skellti upp úr eftir að hafa sagt eitthvað mjög fyndið og hreif þannig alla með sér. Það tók suma stundum smá tíma að átta sig á kímnigáfu Davíðs, gat oft verið mjög lúmskt fyndinn. Ekki ólíkt Gísla, pabba hans, og saman gátu þeir verið óborganlegir. Bílferðirnar með Gísla og Davíð í bláum Volvo 240 í skólann gátu því stundum orðið hin mesta skemmtun þótt snemma morguns væri.

Davíð var mjög traustur vinur vina sinna. Honum gat ég treyst fyrir öllu og hann var sjálfur mjög opinn og hreinskilinn. Sagði hlutina eins og þeir voru og dró ekkert undan. Úthverfur og þá um leið hrókur alls fagnaðar og gaf mikið af sér. Hann var því fljótur að kynnast fólki og eignaðist ógrynni góðra vina.

Eitt af því mikilvægasta á þessum mótandi unglingsárum er að eiga góða og trausta vini og Davíð var minn traustasti vinur. Við æfðum handbolta saman í Gróttu og fljótlega kom í ljós að Davíð var meira en efnilegur. Ekki leið á löngu þar til hann var orðinn einn af máttarstólpum liðsins og sama átti við þegar hann síðar fór að spila með meistaraflokki liðsins. Unglingalandslið HSÍ nutu svo einnig krafta hans þegar fram í sótti. Við fluttum okkur um set úr Való í MR og eins og margir upplifa urðu menntaskólaárin afskaplega viðburðarík og minningarnar óteljandi. Davíð var námsmaður góður, fluggáfaður og stálminnugur og þurfti ekki mikinn tíma til að tileinka sér námsefnið. Hann lét því oft nægja að læra hæfilega mikið en átti þá nægan tíma aflögu til að sinna áhugamálum sínum. Síðar þegar svo lögfræðin tók við hækkaði hann flugið enda komið að alvörunni. Á menntaskólaárunum er hjarðhegðun ekki óalgeng og félagsþrýstingur líklega á engu öðru lífsskeiði meiri. Hann hafði hins vegar lítil áhrif á Davíð sem fór oft sínar eigin leiðir. Á þessum árum byrjuðu margir að drekka áfengi en Davíð lét það ógert, sá bara ekki nokkurn einasta tilgang í því.

Ekki var það gott á bragðið og ekki þurfti hann að losa um hömlur eða leitast við að skynja heiminn í öðru ljósi. Hann var alltaf hressasti maðurinn á ballinu og við sem fylgdum honum í gegnum menntaskólann munum vel hvernig hann gat smitað okkur á dansgólfinu með taktföstum hreyfingum rétt eins og hann hefði æft dans í mörg ár. Það kom því ekki á óvart þegar hann á fullorðinsárum heillaðist af zumba-dansi sem hann stundaði af kappi ásamt Brynhildi. Hann lærði sporin á núll einni. Saman tóku þau zumba-danskennarapróf í London og kenndu af og til sér til skemmtunar. Þar áttu þau sviðið og Davíð naut sín vel leiðandi fólk með bendingum til hægri, vinstri, aftur á bak og áfram í taumlausri gleði, algjörlega laus við amstur og áhyggjur líðandi stundar.

Þær voru líka ófáar ferðirnar á dansgólfið á Broadway á þessum menntaskólaárum. Þær dansæfingar urðu oft eins og góð þrekæfing í handboltanum. Þannig var tekið á því. Erfiðleikastigið fór þá eftir því hversu marga boli við höfðum notað því aukabolir voru algjörlega nauðsynlegir... eða reyndar stundum bara alls ekki.

Menntaskólaárin tóku enda og við hófum nám hvor í sinni deild Háskóla Íslands. Oft er það á þessum tímamótum sem leiðir skilur en í okkar tilfelli átti vinskapurinn eftir að styrkjast enn frekar. Handbolti sameinaði okkur á hverjum degi bæði í Gróttu og síðar í Fram og meira að segja handboltadómgæsla í öllum deildum HSÍ. Við kynntumst mökum okkar, Brynhildi og Hrönn, sem ekki síður náðu vel saman og bundust líka miklum vinaböndum og fjölskyldur okkar tóku að stækka. Við héldum áfram að búa til einstakar minningar saman en æsku- og unglingsárin voru að baki. (JÖK)

Við tók alvara lífsins. Nám í lögfræði sem Davíð að sjálfsögðu dansaði í gegnum eins og hans var von og vísa. Við urðum saman vitni að hverju kraftaverkinu á fætur öðru þegar börn okkar komu í heiminn heilbrigð og sterk. Davíð naut sín til fulls í föðurhlutverkinu, svo umhyggjusamur og hlýr.

Einstakur æskuvinskapur fjölskyldufeðranna, Davíðs og Jóns Örvars, þróaðist í mikil og dýrmæt tengsl fjölskyldna okkar. Þótt það hafi verið fyrir rúmum 28 árum þá er samt svo stutt síðan þeir æskuvinirnir deildu með hvor öðrum að von væri á frumburði þeirra beggja á einni handboltaæfingunni. Í kjölfarið stækkuðu báðar fjölskyldurnar og með ótrúlegum hætti fylgdust vinirnir að þar til börnin urðu átta, fjögur í hvorri fjölskyldu. Samveran var mikil. Við fórum í ótal ferðalög og unnum nánast alla stórviðburði saman enda fylgdumst við að í fermingum, útskriftum og stórafmælum. Gleðin og samvinnan var krydduð með dansi í gegnum lífið sem Davíð stjórnaði en hann kom öllum af stað á sinn einstaka hátt.

Davíð var varkár og anaði ekki að hlutunum. Hugsaði áður en hann framkvæmdi og sóttist ekkert sérsaklega eftir spennu. Það síðasta sem Davíð hefði tekið sér fyrir hendur í lífinu væri að stökkva í fallhlíf eða fara í teygjustökk. Tívolígarðar með börnunum var því ekki hans uppáhald og að því leyti vorum við aðeins ólíkir. Hann eftirlét mér, Hrönn og Brynhildi því oft ferðirnar í rússíbanana en fylgdist frekar öruggur með af bekkjunum og naut þess að horfa á brosmild börnin úr fjarlægð. Fyrsti bíllinn hans var líka í hans anda, fasteign á hjólum, Volvo 240 eins og Gísli faðir hans átti. Öruggur, laus við spennu.

Fyrir utan ferðalag lífsins mun ferðalag okkar frá austurströnd Bandaríkjanna til strandar í vestri sumarið 2011, tólf saman á einum bíl, standa upp úr. Allar þessar minningar um glaða og skemmtilega Davíð munu ylja okkur í sorginni og söknuði. Davíð lifir áfram í hjörtum okkar en hvernig lífið verður án hans vitum við ekki.

Fallinn er frá merkur maður, einstakur vinur. Minningin mun lifa í hjörtum okkar um ókomna tíð. Elsku Brynhildur, Eva Björk, Þorgeir Bjarki, Anna Lára og Benedikt Arnar, megi þið finna styrk til að takast á við þessa miklu sorg.

Jón Örvar, Hrönn, Helena Rut, Hörður Kristinn, Hilmar Snær og Örvar Logi