Magnús Þór Geirsson fæddist í Steinum undir Eyjafjöllum 9. maí 1961. Hann lést á líknardeild Landspítalans 29. janúar 2022.

Foreldrar hans voru Geir Tryggvason frá Steinum, f. 1917, d. 2001, og Þóranna Finnbogadóttir frá Neðri Presthúsum í Mýrdal, f. 1927, d. 2006. Þau hófu búskap í Steinum 1951 og eignuðust alls 12 börn. Systkini Magnúsar Þórs: Eyjólfur Torfi, f. 6.1. 1949, d. 18.1. 1950; Eyjólfur Torfi, f. 22.12. 1949; Kristín Guðrún, f. 1951; Tryggvi Einar, f. 1952; Kolbrún, f. 1954; Magnús, f. 4.12. 1955, d. 18.11. 1960; drengur, f. 13.12. 1957, d. 13.12. 1957; Þórhildur Ragna, f. 1958; Jóhann Axel, f. 1962; Finnbogi, f. 1963; Guðlaug, f. 1965.


Eiginkona Magnúsar Þórs er Margrét Erna Þorgeirsdóttir frá Borgarnesi, f. 1967. Foreldrar hennar eru Þorgeir Guðmundsson, f. 1949, og Rebekka Benjamínsdóttir, f. 1950. Börn Magnúsar og Margrétar eru: 1) Tinna Ósk, blikksmiður og vélstjóri, f. 1989. Börn hennar og Victors Guerra eru Rebekka Sól, f. 2007, og Margrét Þórhildur, f. 2009. Eiginmaður Tinnu er Andri Már Jóhannsson, f. 1975. Börn hans eru Ólöf Birna, Andri Björn og Ívar Breki. 2) Vilborg Inga viðskiptafræðingur, f. 1993. Maður hennar er Marteinn Gauti Kárason, f. 1994, barn þeirra er Bjartey Vaka, f. 21.5. 2021. 3) Margeir nemi, f. 1996. 4) Kolbrún Sóley nemi, f. 1998. 5) Þorgeir nemi, f. 2003.


Magnús ólst upp í Steinum 4 og gekk í skóla í Skógum. Hann stundaði síðan ýmis störf, var m.a. háseti á Bylgjunni VE þrjár vetrarvertíðir í Vestmannaeyjum. Hann lét ævinlega til sín taka í sveitastörfum á sumrin. Lífsstarf Magnúsar varð blikk- og málmsmíði. Hann starfaði um árabil hjá Blikki og stáli, en gekk til liðs við Finnboga bróður sinn í Stjörnublikki árið 1991. Með dugnaði og áræði byggðu þeir bræður upp eina stærstu blikksmiðju landsins. Magnús varð verkstjóri og lagði hart að sér í blikksmíðavinnu, málefnum starfsmanna og stjórnun fyrirtækisins. Honum var auðvelt að hvetja starfsmenn til dáða, ekki síður unglinga í sumarvinnu. Mál starfsmanna hans er að þrátt fyrir miklar kröfur hafi hann alltaf verið sanngjarn og þakkað þeim dagsverkið. Magnús hafði forystu um að ráða til Stjörnublikks starfsmenn frá Portúgal og ræktaði þar traust vinabönd. Hann var áhugamaður um knattspyrnu, spilaði með liðum í sveitinni og síðar með Þrótti í Reykjavík. Tengsl hans við Portúgal gerðu hann að stuðningsmanni Porto og hann fór gjarnan á völlinn þar. Hann studdi líka Liverpool í Englandi eins og margir í kringum hann og fór þangað til að upplifa magnaða stemningu.


Í hjarta sínu var Magnús þó fyrst og síðast fjölskyldumaður og bóndi. Hann unni fjölskyldu sinni, lét sig miklu varða framtíð barna sinna og vildi hafa þau með sér. Ekki síst við búskap og ræktun á fjölskyldujörðinni Fornusöndum, þar sem hann var í fararbroddi í ræktun lands, sauðfjár og hrossa.


Magnús verður jarðsunginn í Grafarvogskirkju í dag, 11. febrúar 2022, klukkan 15. Allir eru velkomnir. Streymi má finna á streyma.is og mbl.is/andlat. Magnús verður jarðsettur í Eyvindarhólum undir Eyjafjöllum.

Það er eitthvað svo óraunverulegt að elsku bróðir sé farinn aðeins sextugur að aldri. Glíma hans við krabbamein hefur verið löng og ströng, en nú síðasta árið hafa hindranirnar orðið hærri og hærri að komast yfir. Bróðir ætlaði alltaf að sigra veikindin með æðruleysi og ótakmarkaðri lífslöngun. Hann átti svo margt eftir ógert og einnig að njóta þegar styttist í starfslok. Maggi var einn af okkur 9 systkinum sem komumst til fullorðinsára, en áður höfðum við misst þrjá bræður á barnsaldri. Það rifjast upp fyrir mér nú að fyrir rúmum sextíu árum dó bróðir okkar Magnús eldri úr hvítblæði aðeins 4 ára gamall, en Magnús var síðan skírður í höfuðið á honum 1961. Á þessum tíma voru foreldrar okkar að byggja nýtt íbúðarhús að Steinum undir Eyjafjöllum og ólumst við upp þar við gott atlæti. Í minningunni fannst mér bróðir verða strax ákveðinn og sjálfstæður og það voru kostir sem fylgdu honum alla tíð. Hann gat jú verið dómharður um menn og málefni sem var þá oftast tengt því að hann taldi menn ekki leggja sig fram, en undir niðri var hann mannvinur og mikill vinur vina sinna.
Árin líða og það er svo þegar bræður mínir Magnús og Finnbogi stofnuðu blikksmiðjuna Stjörnublikk ehf. sem samgangur og samfylgd jókst og síðan í framhaldi af því að við keyptum jörðina Fornusanda undir Eyjafjöllum. Það má segja að Finnbogi hafi verið höfuð fyrirtækisins, Magnús hjarta þess og allt það frábæra fólk sem starfar og hefur starfað hjá félaginu er auðvitað sál þess. Með dugnaði og áræði byggðu þeir upp eina stærstu blikksmiðju landsins. Maggi lagði oft hart að sér í blikksmíðavinnu og stjórnun fyrirtækisins, dagarnir langir og álagið mikið. Það var oft orðatiltæki hjá honum það gerir sig ekki sjálft eða það var búið að lofa þessu, þegar maður nefndi við hann að hann ætti að hægja á sér. Hann átti mjög auðvelt með að hvetja starfsmenn til dáða, sérstaklega unglinga sem komu til vinnu á sumrin í smiðjunni. Margir þeirra hafa sagt mér að þrátt fyrir kröfur sem bróðir gerði þá var hann alltaf sanngjarn og þakkaði þeim dagsverkið. Mál þróuðust þannig til heilla fyrir Stjörnublikk að hafa ætíð marga Portúgala í vinnu og margar ferðir fór Maggi einmitt til Porto í Portúgal til að ráða starfsmenn í samráði við vin sinn þar, en þessi borg varð honum einkar kær. Þá náði Maggi góðu sambandi við marga af stærstu viðskiptavinum Stjörnublikks og þá var ekki vílað fyrir sér að keyra landshorna á milli að hitta stjórnendur sem skiptu við smiðjuna og að fylgjast með verkefnum.
Þegar við hófum okkar hobbíbúskap á Fornusöndum varð bróðir allt í öllu þar. Hann stjórnaði og ekki þýddi að gera neinar athugasemdir, en oft fékk hann vingjarnlegt samþykki eftir á. Hrossarækt tengdi okkur sérstaklega saman og margur var hittingurinn og símtöl um það áhugamál okkar. Hann náði góðum árangri í ræktuninni og ekki má gleyma þætti bróður í stórátaki Eyfellinga í uppræktun á Almenningum í Þórsmörk. Hjálpsemi hans var einstök og smitaðist kraftur og dugnaður Magga út til okkar sem í samvistum vorum í sveitinni. Hans góða fjölskylda stóð með honum í þessu eins og öðru.
Maggi var mikill áhugamaður um knattspyrnu. Hann spilaði sjálfur með liðum í sveitinni sem unglingur og um tíma æfði hann og keppti með Þrótti í Reykjavík og spilaði með 1. flokki félagsins. Tengsl hans við Porto gerðu hann að fylgismanni knattspyrnufélags borgarinnar og fór hann á völlinn ef hann var þar á leikdegi. Einnig var bróðir mikill aðdáandi Liverpool í Englandi eins og margir í kringum hann og fór hann þangað fyrir nokkrum árum að upplifa magnaða stemningu.
Þegar Covid kom til landsins í febrúar 2020 fór Maggi í sveitina og dvaldi þar fram á haustið 2021. Það var honum mikil lífsfylling að dvelja þar með Möggu sinni og börnum þegar þau komu því við. Ég fór austur í sauðburð sl. vor, en þá var elsku bróðir farinn að veikjast meira, en áhuginn á sauðfénu leyndi sér ekki. Það var einmitt í maí sem Maggi varð sextugur og í morgunsárið þann dag fórum við ásamt fjölskyldu hans upp á Eyjafjallajökul í björtu og stilltu veðri. Það var ógleymanlegt útsýni af toppi jökulsins í allar áttir. Ég varð svo ánægður að Maggi skyldi ná þessum áfanga þrátt fyrir mikil veikindi. Það urðu síðan fagnaðarfundir og veisla þegar við komum til baka þar sem fjölskyldur okkar fögnuðu með honum þessum stóra áfanga.
Það er ekki annað hægt en að nefna hjálpsemi margra vina bróður í sveitinni, sem hafa ræktað vináttu við hann í veikindum hans og hjálpað til þegar til þeirra hefur verið leitað. Sérstaklega vil ég nefna heimilisfólkið á Fitjamýri, Skálakoti, Varmahlíð, Seli og vin okkar Guðna á Rauðafelli og alla aðra vini þar um slóðir. Hafið miklar þakkir, kæru vinir í sveitinni. Að öllum öðrum ólöstuðum vil ég og við öll þakka sérstaklega Guðmundi í Skálakoti sem heimsótti bróður mikið og hringdi reglulega í hann til að létta honum lífið í hans miklu veikindum.
Maggi bróðir var mikill gæfumaður í einkalífi sínu þegar hann kynntist konu sinni Margréti, sem hefur ætíð staðið með honum sem klettur sem og börnin þeirra. Það hefur mikið mætt á ykkur, kæra fjölskylda, í veikindum Magga og ég veit að sorgin og missirinn er mikill og það mun taka tíma að komast yfir þetta mikla áfall.
Bróðir var ætíð mikill fjölskyldumaður, bæði að því er snýr að hans nánustu og svo einnig að okkur systkinunum og ætíð mættur í öll samkvæmi og hittinga. Hann var í raun mikill miðpunktur allrar stórfjölskyldu okkar og fráfall hans er mikill harmur fyrir hana. Systkini mín hafa beðið mig um að færa þér þakkir fyrir allt og allt. Elsku bróðir, lífið heldur áfram, en lífið verður aldrei eins án þín, þú varst ekki bara bróðir, þú varst einstakur vinur.
Elsku Magga, Tinna, Vilborg, Kolbrún, Margeir, Þorgeir og fjölskylda, megi Guð gefa ykkur styrk til að takast á við þennan mikla missi, minningin um einstakan mann mun lifa með okkur öllum. Samúðarkveðjur til ykkar allra frá okkur Dagnýju, Davíð Þór, Ingu Huld og fjölskyldu.

Tryggvi bróðir.