Dóra Ólafsdóttir lést að morgni 4. febrúar, á 110. aldursári. Dóra fæddist í Sigtúnum á Kljáströnd í Grýtubakkahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu 6. júlí 1912. Foreldrar hennar voru Ólafur Gunnarsson útgerðarmaður og Anna María Vigfúsdóttir húsfreyja. Að loknu gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri, síðar MA, fór Dóra til Kaupmannahafnar. Eftir það var hún talsímavörður hjá Landsímanum á Akureyri í rúm 40 ár, á árunum 1936 til 1978. Hún bjó lengst af í Norðurgötu 53 þar í bæ. Dóra var orðin 100 ára þegar hún hætti að sjá um sig sjálf í Norðurgötunni og fluttist í hjúkrunarheimilið Skjól í Reykjavík. Eiginmaður Dóru var Þórir Áskelsson, sjómaður og seglasaumari. Hann lést árið 2000. Sonur Dóru og Þóris er Áskell blaðamaður og dóttir Dóru er Ása Drexler sem búsett er í Bandaríkjunum. Dóru verður sungin sálumessa í Péturskirkjunni á Akureyri í dag, 18. febrúar 2022, klukkan 13. Jarðsett verður í Grenivíkurkirkjugarði síðdegis.
Dóra ólst upp í Sigtúnum á Kljáströnd við austanverðan Eyjafjörð. Í Sigtúnarhúsinu bjuggu tvær fjölskyldur, foreldrar Dóru, þau Ólafur Gunnarsson og Anna María Vigfúsdóttir, ásamt systur Ólafs, Guðríði, og manni hennar, Sigurði Ringsted. Samtals voru börnin 13 og má ætla að oft hafi verið líf og fjör á heimilinu. Á fyrstu áratugum 20. aldar var stunduð útgerð frá Kljáströnd og þurftu allir, ungir sem aldnir að leggja sitt af mörkum við heimilshald og störf tengd útgerðinni börnin lærðu snemma að vinna.
Dóra gekk í barnaskóla á Grenivík, börnin á Kljáströnd gengu fyrir Þengilhöfðann til Grenivíkur hvernig sem viðraði. Dóra lauk síðan gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri. Þá lá leið hennar til Kaupmannahafnar þar sem hún starfaði í tvö ár. Fljótlega eftir heimkomu hóf Dóra störf sem talsímakona hjá Landsímanum á Akureyri þar sem hún vann í fjörutíu ár.
Dóra lifði öld mikilla breytinga, öld tækni og framfara, heimsstyrjalda og heimsfaraldra. Hún átti yfir hundrað ára gamlar minningar mundi til dæmis eftir bjarma yfir Vaðlaheiði frá Kötlugosi 1918 og frostavetursins mikla, sama ár, minntist hún að hætti barnsins, þ.e. að þau krakkarnir léku sér á ísjökum í fjöruborðinu á Kljáströnd.
Dóra var sterkur perónuleiki, hún var jafnlynd, glaðlynd, hlý og gefandi og líka ákveðin og föst fyrir, sjálfstæð, stolt og bar tilfinningar sínar ekki á torg. Hún tók því sem að höndum bar af æðruleysi. Í æsku held ég að hafi verið lagður grunnur að iðjusemi sem fylgdi Dóru alla tíð. Hún lét sér ekki verk úr hendi falla og þegar hún átti lausa stund, las hún eða prjónaði. Dóra var verðugur fulltrúi þeirrar kynslóðar sem lagði grunn að velferðarsamfélagi okkar.
Dóra hélt heimili við Norðurgötu 53 á Akureyri á sjöunda áratug en brá búi 100 ára er hún flutti suður. Það var bæði gott og gefandi að koma til Dóru, hún tók fólki fagnandi, var gestrisin og alltaf var eitthvað áhugavert að tala um því hún fylgdist með og hafði skoðanir á hlutunum.
Dóra var virt af sínu fólki. Síðustu hálfa öldina, eftir að foreldrar hennar féllu frá og hún elst eftirlifandi sjö systkina, var litið til hennar sem höfuðs stórfjölskyldunnar. Þau systkinin voru einstaklega samheldin alla tíð, einkum minnist ég þeirra styrku banda sem tengdu þær systur, Dóru og mömmu mína, Guðríði. Síðar þegar þau voru eftir þrjú systkinin fyrir norðan, Dóra nálægt tíræðu, Baldvin rúmlega níræður og Vigfús litlu yngri, höfðu þau góðan stuðning hvert af öðru. Þeir bræður mættu gjarnan til Dóru á morgnana og ræddu landsins gagn og nauðsynjar. Dóra sá um kaffið og meðlætið og benti þeim bræðrum gjarnan á áhugavert lesefni, Balli, léttur á fæti, skaust í búð fyrir hana og Viggi tók stundum stóru stykkin í þvott þar sem Dóra átti þá orðið erfitt með jafnvægið sem þurfti til að hengja upp á háar snúrurnar.
Seigla er eiginleiki sem einkenndi Dóru. Þessi eiginleiki fannst mér koma sterklega fram síðustu árin en það var ekki bara tekið út með sældinni að ná 109 ára aldri þrátt fyrir að Dóra bæri aldurinn vel. Þegar erfiðleika bar að garði, t.d. að hún fór oft úr mjaðmarlið, þá sagði hún bara: En ég kvarta ekki guð ræður. Og eins og Dóra var föst fyrir þá var hún staðráðin í því að halda sínu sjálfstæði eins og kostur var hún ætlaði sér að standa í fæturna þar til yfir lyki. Hún hafði sín ráð til að ganga stöðug við göngugrindina og til þess að viðhalda virkni til hugar og handa prjónaði hún og las sér til fróðleiks og ánægju og til þess að fylgjast með landsmálum.
Elsku Dóra, margs er að minnast í gegnum tíðina. Við kveðjum þig með söknuði, við Gunna Sif dóttir mín, bræður mínir Mummi, Gunni og Óli og mágkona Inga Lára. Nú ert þú komin yfir í handanlandið, þú hlakkaðir til samfunda við ástvini sem voru farnir á undan þér og sem þú eflaust dvelur nú hjá í góðu yfirlæti.
Ég votta nánustu fjölskyldu Dóru dóttur hennar Ásu og fjölskyldu í Kaliforníu og Áskeli syni hennar og fjölskyldu mína dýpstu samúð.
Halldóra Haraldsdóttir.