Tryggvi Eiríksson fæddist í Seljabrekku í Mosfellssveit 9. apríl 1947. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu, Kjartansgötu 7 í Reykjavík, 9. febrúar 2022.
Tryggvi var elsta barn foreldra sinna, Guðrúnar Guðmundsdóttur og Eiríks Tryggvasonar. Systkini Trygga eru: Guðmundur, f. 1949, Flosi, f. 1953, Jón, f. 1955, Þórunn, f. 1958, Guðjón, f. 1961, Helga, f. 1968 á 21 árs afmælisdegi Tryggva. Fyrir átti Guðrún soninn Guðjón Bjarnason, f. 1944, sem er látinn.
Sambýliskona Tryggva og lífsförunautur er Mildríður Hulda Kay sjúkraliði, f. 11.12. 1954 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Auður Haraldsdóttir og Harry Lee Kay.
Tryggvi ólst upp til unglingsára í Selholti í Mosfellssveit en fjölskyldan flutti vorið 1962 og tók við búinu á Búrfelli í Miðfirði, Húnaþingi vestra. Tryggvi ólst upp við hefðbundin sveitastörf og hugur hans hneigðist að námi i búfræðum. Stundaði hann nám í Bændaskólanum á Hólum, síðar Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og lauk þaðan námi sem búfræðikandídat. Eftir það fór hann í framhaldsnám í fóðurfræði til Reading í Bretlandi, sem styrkþegi IAEA, Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar, landbúnaðardeildar. Hann sótti einnig samnorræn námskeið í fóðurfræði. Tryggvi vann allan sinn starfsferil sem sérfræðingur við fóðurefnagreiningar á Rannsóknarstöð landbúnaðarins á Keldnaholti, seinna Landbúnaðarháskóla Íslands.
Þó að Tryggvi hafi hætt störfum fyrir nokkrum árum var hann með annan fótinn uppi á Keldnaholti fram á síðasta dag og vann, ásamt Guðna Þorvaldssyni, að stóru verkefni um greiningar á efnainnihaldi og fóðurgildi mismunandi tegunda túngrasa.
Útförin fer fram frá Háteigskirkju í dag, 23. febrúar 2022, kl. 13.
Tryggvi, okkar elsti bróðir, 74 ára, hefur skyndilega kvatt þessa jarðvist. Viljum við systkini hans rifja upp nokkrar góðar minningar sem eru ofarlega í huga okkar núna.
Rólegheitamaður sem fannst best að fara með engum asa af stað á morgnana en gat svo vakað fram á rauðanótt og var í essinu sínu þegar langt var liðið á kvöldið.
Mestu og bestu minningarnar eigum við frá Búrfelli þar sem við bjuggum frá 1962 og fram á fullorðinsár þegar við fórum að heiman hvert í sína áttina til náms og starfa.
Okkur fannst Tryggvi alltaf vera ákaflega nægjusamur, hann notaði ekki peninga að óþörfu á sjálfan sig. Við hristum stundum höfuðið yfir honum og fannst hann svolítið sérvitur sem hann eflaust var en í raun var hann bara svona hagsýnn og kunni að fara vel með aurinn. Í þau fáu skipti sem hann keypti sér nýjan bíl þá hafði hann plastið á sætunum í fleiri mánuði og hann var ekkert að eyða í ný dekk fyrr en þau gömlu voru gjörnýtt. Hann gat alveg skroppið í jólafrí norður til fjölskyldunnar á nánast sléttum sumardekkjum. Yngri systkini minnast bílferða með Tryggva á túttunum þar sem hann keyrði mjög hratt og bíllinn dansaði í beygjum.
Ófáar ferðir skrapp hann norður í Búrfell til að aðstoða við búskapinn, sauðburð, heyskap, smölun, byggingarvinnu og annað sem þurfti aðstoð við. Þreyttur á leið suður seint á kvöldi eða komið fram á nótt eftir þessar ferðir norður í Búrfell, þá átti hann það til að dotta undir stýri. Þá var gott að hafa einhvern farþega með til að ýta við honum áður en illa færi. Kannski hafði hann vanið sig á að keyra svona hratt af því að hann var oftast nær á síðustu stundu. Þó óskiljanlegt sé þá lenti hann aldrei í óhappi með þennan akstursstíl sinn og alltaf komst hann heill heim og hans samferðafólk.
Þó okkur fyndist Tryggvi oftast vera með sitt á hreinu var það kannski ekki alltaf alveg á réttum tíma því hann var svo oft annars hugar. Við vissum að hann væri sá sem alltaf kom síðastur ef verið var að hittast og sem dæmi á aðfangadagskvöld, þegar átti að fara að opna jólapakkana, þá átti Tryggvi svo til alltaf eftir að pakka sínum gjöfum inn. Seint koma sumir en koma þó var svolítið hans stíll.
Þegar kom að því að gefa gjafir þá var hann mjög stórtækur og við hin áttum oft erfitt með að fylgja honum eftir ef allir áttu að leggja saman í gjöf. Helga gleymir aldrei að hún þá smástelpa fékk afmælispakka frá honum þegar hann var við nám í Reading á Bretlandi. Það var í fyrsta sinn sem hún fékk sendingu frá útlöndum. Hún naut þess að hún var fædd á afmælisdegi Tryggva og sérstaklega seinni árin var hann duglegur að hafa samband við hana í tilefni dagsins.
Á yngri árum var oft stuttur á Tryggva kveikurinn og Guðjón, yngsti bróðir hans, ásamt frændum sem voru í sveit höfðu ákaflega gaman af því að stríða honum. Alltaf í góðu en þeir náðu stundum að gera hann svo pirraðan að hann hljóp á eftir þeim og þeir flýðu sem fætur toguðu. Góð minning er enn ljóslifandi er einhverju sinni ætluðu þeir að láta Tryggva hlaupa 1. apríl. Þeir vissu að það þýddi ekkert fyrir þá að kalla á hann í símann því hann þekkti sitt fólk og hann myndi strax sjá í gegnum þá. Fengu þeir þá Þórunni í lið með sér og fór hún út á tröppur og kallaði á Tryggva og sagði að það væri sími til hans. Þegar hann kom upp á tröppurnar gat hún ekki haldið aftur af sér lengur og sagði: 1. apríl. Strákarnir lágu á gægjum og nú var um að gera að taka sprettinn, þeir hentust af stað og Tryggvi á eftir þeim. Þeir hafa víst verið heppnir að hafa forskot og komast undan á hlaupum. Það hefur oft verið hlegið að þessu atviki í gegnum árin.
Tryggvi var kannski engin sérstök barnagæla en á fullorðinsárum hafði hann lúmskt gaman af krökkunum í stórfjölskyldunni og eigum við skemmtilegar minningar t.d. frá því þegar systurdóttir hans, 5 ára hnáta, var að reyna að kenna honum að dansa. Það voru nú tilburðir sem allir höfðu gaman af sem sáu.
Tryggvi gat verið ansi orðheppinn og komið með hnyttin tilsvör. Þegar Helga nefndi við hann að hún væri að hugsa um að flytja til Danmerkur eins og Gummi og Anna, spurði hann Helgu hvort hún ætlaði virkilega að búa á sama stað og þau? Það væri steindauður bær og þar gerðist ekki neitt. Svo klykkti hann út með að segja: Ef þú vilt endilega flytja út á land, af hverju flytur þú þá ekki til Raufarhafnar? Mörg sumrin þegar Danirnir hafa setið úti langt fram á kvöld í yfir 20 stiga hita þá segja þau hvert við annað: Jæja, hvenær skyldi lestin fara til Raufarhafnar?
Þegar Tryggvi vann sem háseti á fraktskipinu Mælifelli hlustaði Búrfellsfólkið áhyggjufullt á veður- og skipafréttir og leist þeim yngri ekki á lýsingar á stormi og ölduhæð á við tvö Búrfellshús. Hvernig skyldi Tryggva líða í þessum stórsjó? Þá var rokið til og smíðað módel af Mælifellinu en tréskipið lét illa í vatni og þegar Tryggvi heimkominn var spurður hver ástæðan væri: Það vantar kjölfestuna en það er einmitt það sem Tryggvi var okkur í bernsku og æ síðar. Kjölfestan.
Við erum ákaflega þakklát fyrir að Tryggvi skyldi komast í sjötugsafmælið hans Gumma til Danmerkur og þá sá hann líka í fyrsta og eina sinn dönsku sveitina hennar Helgu. Það varð líka síðasta skiptið sem meirihluti okkar systkina hittist og áttum við þar góðan tíma saman.
Við þökkum kærlega fyrir samfylgdina öll árin og að lokum viljum við senda Millu sambýliskonu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur og megi allar góðar vættir vaka yfir henni. Tryggvi var hennar stoð og stytta alla tíð.
Guðmundur, Flosi, Jón, Þórunn, Guðjón og Helga.