Magnús Einar Sigurðsson fæddist 24. apríl 1949. Hann lést 1. febrúar 2022.

Útför hans fór fram 24. febrúar 2022.

Magnús Einar Sigurðsson prentari, fyrsti formaður Félags bókagerðarmanna, lést 1. febrúar sl. í Svíþjóð, en þar var hann búsettur undanfarin ár ásamt konu sinni Kicki Borhammar og börnum. Hann hafði átt við illvígan sjúkdóm að stríða að undanförnu og þess vegna kom þetta okkur, sem þekktum hann, ekki alveg að óvörum, en samt er þetta mikil harmafregn í okkar hópi og okkur finnst við hafa misst kæran vin og félaga, allt of fljótt. Magnús var mikill félagsmálamaður strax frá unga aldri og byrjaði sína verkalýðsbaráttu í iðnnemahreyfingunni á Hverfisgötu 21. Þar var hans félag til húsa og hann varð fljótlega formaður í því félagi og síðar formaður Iðnnemasambands Íslands. Hann er því orðinn áhrifamaður innan allrar verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi um það leyti sem hann útskrifast sem prentsveinn 1972. Þá var hann strax kosinn í stjórn síns stéttarfélags, Hins íslenska prentarafélags. Það hefur verið á þessum árum, líklega um 1974, sem vegir okkar Magnúsar fara að skerast. Það var fyrst í mikilli deilu í verkalýðshreyfingunni þetta ár og Magnús er búinn að taka forystu í Prentarafélaginu eftir að stjórnin hafði þríklofnað vegna ágreinings um baráttuaðferðir. Ég býst við því að í þessari miklu deilu hafi margir komist á þá skoðun að best væri að sameina alla bókagerðarmenn í einu félagi. Ég tel að þar hafi Magnús átt drjúgan hlut að máli því hann var alltaf mikill sameiningarmaður innan stéttarinnar. Það var heldur ekki langt undan að það gerðist, því það var svo árið 1980 að Félag bókagerðarmanna var stofnað þar sem hann var kosinn formaður og ég ritari og eftir það urðum við samstarfsmenn á skrifstofu félagsins í tæpan áratug. Það er margs að minnast frá þessum árum. Við Magnús áttum mjög gott með að starfa saman og skoðanir okkar voru svipaðar í mörgum málum. Hann var alltaf svo ljúfur í lund, hann Maggi, að manni leið vel í návist hans. Þetta gerði það líka að verkum að það gekk betur að halda hópnum saman þótt iðngreinarnar væru fleiri en ein. Helstu áhugamál Magnúsar voru mörg en þar bar hæst kjaramálin, að jafna launin og að þeir sem væru með lægri laun fengju meira í sinn hlut og það voru helst konur í okkar félagi. Kvenfrelsismálin voru honum líka ofarlega í huga og hann skrifaði greinar í málgagn okkar um hvernig konur væru beittar ofbeldi út um allan heim. Í fræðslumálunum lét hann líka til sín taka og beitti sér fyrir réttindanámskeiðum í bókbandi og setningu og að þessu unnum við mikið saman. Hér var verið að koma á fót nýjung í menntunarmálum. Skilyrði var að hafa unnið sex ár í iðninni, sem aðstoðarmaður. Þessi námskeið voru í anda laga um fullorðinsfræðslu og líka jafnréttislaga, þar eð hér áttu í hlut nær eingöngu konur sem af ýmsum ástæðum höfðu ekki haft sömu möguleika til náms og karlar. Þá starfaði hann mikið að vinnuverndarmálum í okkar greinum og þar unnum við líka saman um skeið í einni fyrstu öryggisnefnd sem stofnuð var samkvæmt nýju Vinnuverndarlögunum frá maí 1980. Þetta varð m.a. til þess að teknar voru upp nýjar heilsusamlegri aðferðir í prentun, en norræn samvinna átti hér mikinn hlut að máli. En það sem átti hug hans allan var málgagnið okkar Prentarinn. Hann var ritstjóri hans allan tímann sem hann vann hjá Félagi bókagerðarmanna 1981-1988 og lagði mikinn metnað í að hafa hann sem fjölbreyttastan og best útlítandi. Á þessum tíma var tæknin þannig að hann gat unnið við umbrotið á skrifstofunni og það var ótrúleg elja sem hann sýndi í að framkvæma þetta starf meðfram allri annarri vinnu sem þurfti að sinna. En þetta var skemmtilegt, það sá maður á honum. Magnús Einar Sigurðsson var mjög menningarlega sinnaður maður, hafði gaman af ljóðum og orti sjálfur. Það sást líka á blaðinu okkar Prentaranum, því þar birti hann oft myndir á kápu blaðsins eftir vin sinn Sigurð Þóri listmálara og þeir gáfu saman út ljóðabók 1971. Um leið og við Ragna sendum Kicki Borhammar konu hans, börnum og allri fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur vil ég leyfa mér að birta eitt ljóð úr bókinni hans, Ljóð, sem heitir:

Barátta

Áfram, áfram
verkamaður
stígðu skref, þangað og hingað.
Ætlirðu að frelsa
þá skaltu vita
að ef til vill deyrð þú eða
barnið þitt eða allir,
en það gildir einu
því eina lífsvon þín er
að berjast.

Svanur Jóhannesson.