Haraldur Sveinsson fæddist að Hrafnkelsstöðum 15. september 1941. Hann varð bráðkvaddur 23. febrúar 2022. Foreldrar hans voru hjónin Sveinn Sveinsson f. 15. janúar 1893, d. 27. maí 1954 og Sigríður Haraldsdóttir f. 30. desember 1900. Dáin 20.maí 1991, bændur á Hrafnkelsstöðum. Börn þeirra önnur en Haraldur: Þorgeir f. 16.6 1927. D.25.11 1997. Kristrún f.02.09 1930. D 24.09.1979. Sveinn Gunnar f.13.08 1932. Guðrún f. 24.05 1935. Haraldur kvæntist 30.12 1965, Jóhönnu Bríeti Ingólfsdóttur frá Iðu. Foreldrar hennar voru Ingólfur Jóhannsson, f.14.08 1919 d.20.06 2005 og Margrét Guðmundsdóttir f.19.10 1920 d. 30.04 2015, bændur á Iðu. Börn Haraldar og Jóhönnu Bríetar eru, Helgi Sigurður f. 09.07.67, maki Sigríður Anna Guðjónsdóttir, börn þeirra eru: Hjalti Snær og Jóhanna Bríet sambýlismaður hennar er Atli Geir Scheving og börn þeirra eru Hrafnhildur Anna og Hákon Orri. Barn Jóhönnu Bríetar með Oddi Ólafssyni er Helgi Fannar. Ingólfur f. 15.11 1968, maki Rutt Brattaberg Jacobsen, börn þeirra eru: Ása Bríet, Haraldur og Iða Dögg.
Haraldur gekk í barnaskólann á Flúðum, nam við Íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar í Haukadal og stundaði tveggja ára búfræðinám við Bændaskólanum á Hvanneyri og útskrifaðist þaðan árið 1961. Hann var virkur í félagsmálum alla tíð og gegndi formennsku í ýmsum félagasamtökum. Bóndinn Haraldur bjó alla ævi sína á Hrafnkelsstöðum og helgaði sig bústörfum og naut lífsgöngunnar með mönnum og málleysingjum.
Útförin fer fram frá Skálholtsdómkirkju laugardaginn 5.mars og hefst klukkan 13. Streymt verður á slóð www.skalholt.is/vidburdir.
Ég lærði það snemma af þér að það þarf að hafa fyrir hlutunum og það er ekkert gefið eða gefins. Það þarf að vinna sér inn fyrir því sem maður vill eignast og það þarf líka að vinna sér inn fyrir virðingu annarra og læra að umgangast aðra og virða skoðanir annarra. Þú varst snemma mikill félagsmálamaður og varst í gegnum ævina í stjórnum og í forsvari margra félagasamstaka. Mikilsvirtur og áttir gott með að leiða saman ólíkar skoðanir. Þér var sýnt traust, en það er ekki gert nema menn hafi unnið sér inn fyrir því. Þú varst líka alltaf tilbúinn að aðstoða og vera til staðar ef á þurfti að halda. Og allt meira og minna unnið í sjálfboðavinnu, fyrir samfélagið og samferðafólk. Þú varst traustur, staðfastur og réttsýnn. Þú þoldir ekki að þér eða öðrum væri sýnt óréttlæti og ef þér fannst að svo væri varstu tilbúinn að berjast fyrir því að það væri leiðrétt. Er mér minnistætt þegar við vorum sammála um það, að verið væri að beita óréttlæti og ekki verið að fara eftir lögum og reglugerðum, þegar ríkisvaldið var að gera upp við þig eftir seinna skiptið sem fjárstofninn var skorinn niður vegna riðuveiki , hjá ykkur mömmu. Við mættum á fund með forsvarsmönnum Matvælastofnunar, lögfræðingum ofl. og lögðum fram undirstrikaðar reglugerðir og lög og fluttum mál okkar eins og við værum komnir í dómssal að sækja rétt okkar, en áður hafði því öllu verið hafnað. Ég man hvað þú varst glaður þegar að endingu fallist var á öll okkar rök og ábendingar og fyrri niðurstöðu snúið við.
Elsku pabbi það var þér erfitt þegar þú fékkst áfallið fyrir 16 árum og varðst að ganga í gegnum allt það ferli, endurhæfingu og reyndir þitt besta til að ná fyrri styrk sem gekk þó ekki. En þú lærðir að lifa með þessu þrátt fyrir að færnin og orkan væri ekki sú sama. Gekkst til verka og sinntir því sem sinna þurfti eins og áður. Þá keyptir þú þér fyrsta fjórhjólið þitt og fékkst ákveðið frelsi til að komast um. Eftir það varð hjólið helsti fákurinn þinn og kom í stað hestsins sem hafði verið hann áður. En aldurinn færðist yfir og tímabært var að líta til framtíðar varðandi búskapinn. Þá kom Jóhanna Bríet afastelpan til. Elskaði sveitina og var öllum stundum í búskapnum með þér og mömmu frá því hún var smástelpa. Hún var orðinn búfræðingur og kominn með Atla sinn og börnin, í sveitina og vildi hvergi annarsstaðar vera en í búskapnum. Flutti svo hús fyrir litlu fjölskylduna sína á hólinn til ykkar og hóf búskap. Í framhaldi tóku þau við búskapnum ykkar mömmu fyrir ári síðan. Þú varst tilbúinn að láta af hendi, það sem þið mamma höfðuð í sameiningu byggt upp og starfað við í tæp 60 ár. Það hafa örugglega verið blendnar tilfinningar hjá þér. En þú fylgdist með, gafst góð ráð og hafðir gaman af því að ræða málin, framtíðina og fortíðina. Þú varst sáttur við að skila ævistarfinu til nýrra kynslóðar.
Nú er komið að leiðarlokum, elsku pabbi og erfitt í stuttri minningargrein að segja frá því öllu sem á daga okkar hefur drifið þessi ár okkar saman. En minningarnar eru margar og gott að eiga þær um samferð okkar. Ég kveð þig að sinni og við fjölskyldan munum sjá um að halda utan um og styðja mömmu í sorg hennar og halda minningu þinni á lofti. Afastrákurinn hann Hjalti Snær hefur misst góðan vin og afa, einnig Jóhanna Bríet, vin og læriföður og Sigga kæran tengdapabba. Hvíl í friði.
Þinn sonur
Helgi Sigurður Haraldsson og fjölskylda.