Sigurður Jens Benjamínsson fæddist í Reykjavík 19. febrúar árið 1943. Hann lést á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut þann 11. febrúar 2022. Foreldrar Sigurðar voru Fanney Jónasdóttir frá Súðavík, fædd 8. ágúst 1925, látin 21. október 1988, og Benjamin Grundy frá Manchester á Englandi fæddur í júní 1921, lést í seinni heimsstyrjöldinni. Systir Sigurðar var Fanney Bettý Benjamínsdóttir, fædd 9. janúar 1942, látin 8. júní 2016. Sigurður ólst upp í Reykjavík fyrsta ár ævi sinnar en fór í fóstur til móðurforeldra sinna, Karítasar og Jónasar, í Súðavík þegar hann var á öðru ári. Sigurður fór ungur að árum til sjós eins og tíðkaðist á þeim tímum og var sjómaður lengst af, bæði sem stýrimaður og skipstjóri. Hann kom í land í kringum 1985 og hóf þá störf hjá Smjörlíki-Sól sem seinna fór undir Vífilfell, þar sem hann vann allt þar til hann lét af störfum sjötugur að aldri árið 2013.

Fyrri kona Sigurðar var Guðlaug Ingibjörg Albertsdóttir, alltaf kölluð Inga Lauga, fædd 19. september 1942, látin 3. nóvember 1964. Seinni kona Sigurðar er Guðný Ingunn Jónasdóttir, fædd 26. mars 1942. Sigurður og Guðný skildu árið 1992. Börn Sigurðar og Guðlaugar eru a) Albert Geir, fæddur 21. júlí 1961. Fyrri kona hans er Hrafnhildur Brekkan og þeirra dætur eru Guðlaug Ingibjörg og Sædís Harpa. Seinni kona Alberts er Kristín Sædal, fædd 24. desember 1962, og dóttir hennar af fyrra hjónabandi er Guðrún Sædal Björgvinsdóttir. Barnabörn Alberts og Kristínar eru sjö. b) Jónas Karl, fyrrum eiginkona hans er Eiríka Ólafsdóttur, fædd 9. mars 1963. Börn þeirra eru Sigurður Ingi, Fanney og Arna Steinunn. Barnabörn Jónasar og Eiríku eru þrjú. Börn Sigurðar og Guðnýjar eru c) Hlynur Örn, fæddur 7. janúar 1969, kona hans er Ragnheiður Sigurðardóttir, fædd 16. nóvember 1974. Þeirra börn eru Jón Bjarki og Linda Björk. Hlynur og Ragnheiður eiga eitt barnabarn. d) Inga Berglind, fædd 13. nóvember 1972, eiginmaður hennar er Gestur Þór Arnarson, fæddur 19. apríl 1971. Þeirra synir eru Hlynur Örn og Ernir Ben. Inga Berglind og Gestur eiga eitt barnabarn.



Útför Sigurðar fór fram 23. febrúar 2022 í kyrrþey.

Pabbi okkar ólst upp fyrsta æviár sitt hjá móður sinni Fanneyju hér í Reykjavík en var sendur í fóstur til móðurforeldra sinna, Karítasar og Jónasar, í Súðavík þegar hann var á öðru ári. Móðir hans var þá 19 ára, einstæð móðir með tvö ung börn þar sem barnsfaðir hennar, sem var breskur hermaður, hafði verið sendur héðan til Frakklands í hernaðarskyni. Hann lést síðar í stríðinu. Pabbi ólst upp við það að vera sem þá var kallað ástandsbarn. Það var ekki alltaf auðvelt fyrir hann. Í Súðavík sleit hann barnsskónum og fór ungur til sjós eins og tíðkaðist á þeim tíma. Þar kynntist hann fyrri konu sinni Ingu Laugu, sem lést langt um aldur fram eftir erfið veikindi árið 1964. Eftir andlát hennar flutti pabbi suður til Reykjavíkur og bjó um tíma hjá móður sinni og stjúpföður, Magnúsi Þorsteinssyni. Bæði erfið uppvaxtarár og veikindi og andlát Ingu Laugu, frá Alla og Jónasi kornungum, reyndust pabba þá aðeins rúmlega tvítugum, mjög erfið. Í þá daga voru ekki mikil úrræði í boði fyrir fólk til að takast á við slík áföll og þar af leiðandi lokaði fólk á erfiðleikana og harkaðist áfram í lífsins ólgusjó. Pabbi bar þess merki alla tíð að hafa gengið í gegnum mörg áföll, án þess þó að hafa orð á því sjálfur. Hann kynntist seinni konu sinni, Guðnýju, árið 1968 og átti með henni tvö börn. Eftir að þau skildu árið 1992 héldu þau alla tíð góðum vinskap. Við systkinin erum foreldrum okkar mjög þakklát fyrir það fallega samband sem þau áttu eftir skilnaðinn. Þau héldu sambandi, gáfu allar gjafir saman og voru góðir félagar. Við erum afar stolt af þeim fyrir það. Barnabörnin þekkja ekkert annað en að amma og afi mæti saman í afmæli, jólaboð og önnur tilefni, gefi saman gjafir og séu hvort öðru góð. Fyrir þeim var ekkert annað en eðlilegt að þau ættu ekki heima á sama staðnum, það var einhvern veginn alltaf samasem merki á milli þeirra í hugum barnanna.

Lengst af starfaði pabbi sem sjómaður, stýrimaður og skipstjóri, en fór að vinna í landi um 1985. Þá vann hann hjá Smjörlíki-Sól sem seinna fór undir Vífilfell og þar endaði hann sinn feril, sjötugur að aldri. Hann var harðduglegur og samviskusamur í vinnu og almennt vel liðinn. Hann var eins og hann sagði sjálfur orðinn ,gamli karlinn á vinnustaðnum hjá Vífilfelli, stundum svolítið pirraður en hann gerði sér grein fyrir því og hafði alveg húmor fyrir sjálfum sér. Við höfum heyrt að samstarfsfólkið minnist hans endrum og sinnum og hefði honum þótt vænt um það.

Pabbi var mikill Manchester United-aðdáandi og var alltaf með derhúfu merkta liðinu á höfðinu. Það kom aldrei neitt annað til greina en að húfan góða færi með honum í sumarlandið. Sennilega hefur það byrjað vegna þess að faðir hans var frá Manchester í Englandi. Pabba langaði alltaf að vita meira föður sinn og ættfólk í Englandi og við reyndum að hafa upp á þeim en komum að lokuðum dyrum, því miður. Pabbi fylgdist alltaf með öllum leikjum og lifði sig mikið inn í þá. Hlynur spurði hann daginn fyrir andlátið hvernig honum litist á stöðu sinna manna í ensku deildinni þá svarði hann: ,,minnstu ekki á það maður og sveiflaði hnefanum til eins og hann átti til að gera þegar hann var að leggja áherslu á orð sín. Það gat verið mjög gaman þegar Gestur tengdasonur hans, sem er mikill Liverpool-maður, var að stríða honum þegar gengi liðsins var ekki gott. Þá gengu skotin þeirra á milli en alltaf í góðu með tilheyrandi hlátrasköllum viðstaddra.

Pabbi var alltaf með allt á hreinu og allir hlutir á sínum stað hjá honum. Hann skrifaði alla tíð dagbækur þar sem allt sem gerðist þann daginn var skráð. Við erum nú aðeins búin að kíkja í dagbækurnar systkinin og höfum brosað út í annað yfir þeim, en eigum mikið eftir. Þar er allt skráð niður með fallegu rithöndinni hans pabba. Hann var svo einstaklega þolinmóður og vandvirkur og minnumst við hans iðulega þar sem hann sat við eldhúsborðið og tjaslaði saman jólaseríum og eldhúsútvarpinu. Þetta gat tekið heljarinnar tíma en með þolinmæði og að sjálfsögðu góðu teipi þá hafði hann það yfirleitt alltaf. Það var ekkert rokið út í búð að kaupa nýtt fyrr en í fulla hnefana. Pabbi var nægjusamur en aldrei nískur. Þessi þolinmæði hjálpaði líka mikið til þegar hann fékk sér tölvu því hann var ótrúlega duglegur að finna út úr hlutunum sjálfur. Við fundum skráð í einni dagbókinni að þann daginn hefði Inga Berglind komið og hjálpað honum að setja Facebook upp í tölvunni. Þá var skráð í dagbókina ,,gerðist meðlimur á Facebook. En vanalega bað pabbi ekki um aðstoð. Það mátti alls ekki hafa of mikið fyrir honum. Að gefa honum gjafir var alltaf svo dásamlegt því hann var svo þakklátur og kunni svo vel að meta allt sem fyrir hann var gert. Þó það væri ekki nema bara að bjóða honum í mat.

Pabbi sótti ekki mikið eftir félagsskap og var í raun sjálfum sér nógur, en hann spilaði alla tíð á hljómborð og samdi tónlist. Hann gat gleymt sér í því langt fram á nótt. Það var oft gaman að fylgjast með honum við hljómborðið með heyrnartólin á sér, iðandi í takt við tónlistina. Sem ungur maður spilaði hann líka á harmonikku og var í hljómsveit sem hét Berkir. Einnig var hann sýningastjóri í félagsheimilinu í Súðavík þar sem hann sá um að sýna kvikmyndir. Hann átti alltaf kvikmyndavél sjálfur og það var mikið fjör þegar hann útbjó sýningatjald á veggjum heima og sýndi okkur kvikmyndirnar sem hann hafði tekið af okkur fjölskyldunni. Þetta er allt saman ennþá til og munum við varðveita það um ókomin ár. Það er ómetanlegt að við skyldum geta notið tónlistarinnar hans pabba í jarðarförinni hans. Hún hljómaði svo vel í kirkjunni og yljaði okkur um hjartarætur. Þó svo að pabbi sækti ekki sjálfur í félagsskapinn þá var það ekki vegna þess að hann vildi hann ekki. Hann var einfaldlega hæglátur maður og ekkert fyrir að trana sér fram. Honum þótti mjög gaman að fá heimsóknir og gat spjallað mikið með tilheyrandi handahreyfingum. Við gerðum oft góðlátlegt grín að honum þegar hann var að lýsa einhverju með miklu látbragði. Hann hafði bara gaman af því. Pabbi fylgdist alltaf vel með því sem var að gerast í heiminum og hafði sínar skoðanir á hlutunum.

Á sínum yngri árum var pabbi hraustur en um miðjan aldur fór hjartað að segja til sín. Hann fékk tvö minniháttar áföll í kringum fimmtugt og gekkst undir stóra hjáveituaðgerð fyrir 15 árum. Hann náði sér ágætlega á strik eftir hana en síðustu ár hafði hann látið mikið á sjá. Eins mikið áfall og það var fyrir okkur að þetta skyldi gerast svona skyndilega þá erum við óendanlega þakklát fyrir að hann hafi ekki fundið til eða þurft að liggja fyrir veikur til lengri tíma. Pabbi var okkur mjög kær og við vissum alltaf hvar við höfðum hann í gegnum lífið. Minning hans lifir áfram í hjörtum okkar.

Elsku pabbi við þökkum þér fyrir allt sem þú varst okkur í lifandi lífi. Hvíldu í friði.





Albert (Alli), Jónas, Hlynur og Inga Berglind.