Þórunn Haraldsdóttir fæddist á Patreksfirði 26. apríl 1957. Hún lést 28. febrúar 2022 á Landspítalanum eftir stutt veikindi.
Foreldrar hennar voru Haraldur Ólafsson, f. 25. maí 1931 í Reykjavík. d. 14. ágúst 2005, og Gróa Ólafsdóttir, f. 9. nóvember 1934 í Litla-Laugardal, Tálknafirði, d. 2. ágúst 2016. Börn þeirra eru: Hrafnhildur, Aðalheiður Hagar, Þórunn, Sesselja, Ólafur, Oddur, Orri, Heimir og Bylgja.
Þórunn giftist Kristni Eiðssyni 22. október 1983. Synir Þórunnar og Kristins eru: 1) Róbert Már, kvæntur Helgu Dóru Magnadóttur, börn þeirra eru Lilja Rut, Rakel Bína og Bjarki Már. 2) Aron Björn, unnusta hans er Karitas Ósk Björgvinsdóttir, börn þeirra eru Baldur Týr og nýfædd óskírð stúlka. Fyrir eignaðist Þórunn Harald Hlíðar, f. 12. október 1975, d. 4. nóvember 1976.
Útförin fer fram frá Guðríðarkirkju í Grafarholti í dag, 8. mars 2022, kl. 13. Erfidrykkja verður í Smárakirkju í Grafarvogi eftir útför.
.
Það fyrsta sem manni dettur í hug þegar þín er minnst er ást þín til okkar. Það var ekkert sem þú hefðir ekki gert fyrir fjölskylduna þína og það var augljóst frá fyrstu minningu að við vorum númer 1, 2 og 3. Ef eitthvað bjátaði á varst þú alltaf fyrst til að hugga mann og hughreysta. Fyrsta minning mín hvað það varðar er þegar þú fórst í grunnskólann minn og talaðir fyrir framan allan bekkinn minn við krakkana eftir að ég hafi orðið fyrir einelti og var hættur að vilja mæta í skólann. Ég man hvað það tók á og var erfitt en þú gerðir það samt og það bar sannarlega árangur. Þau voru einnig ófá símtölin sem ég fékk frá þér eftir að ég fékk bílprófið þar sem þú varst bara að hringja til að athuga hvort ekki væri allt í lagi með mig því stuttu áður hafðir þú heyrt sírenur í sjúkrabíl og þú hafðir áhyggjur af því að eitthvað hefði komið fyrir. Það verður að viðurkennast að á þeim stundum fannst manni þau símtöl óttalega tilgangslaus og þreytandi en í dag, eftir að vera sjálfur orðinn foreldri, skilur maður það betur. Þú hafðir sífelldar áhyggjur af því að við bræðurnir værum í einhverri hættu. Líklega spilaði inn í þær áhyggjur gömul sár eftir að þú misstir frumburð þinn, hann Harald heitinn, rétt rúmlega eins árs gamlan eftir óvænt og alvarleg veikindi þegar þú varst rétt 19 ára gömul sjálf.
Það er svo óraunverulegt að eiga ekki eftir að fá fleiri símtöl frá þér þar sem þú hringir bara til þess að tala um allt og ekkert. Þegar þú hringdir vissi maður að símtalið gat leikandi farið yfir hálftíma og oft yfir klukkutíma enda hafðir þú alltaf nóg að tala um. Ef mann hefði grunað að þau yrðu ekki fleiri hefði maður klárlega metið þau betur en það er aldrei hægt að segja það nógu oft að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Að taka hlutum og/eða atburðum sem sjálfsögðum hlut er nokkuð sem enginn á nokkurn tímann að gera því enginn veit sína ævina fyrr en öll er.
Þú varst með eindæmum góð amma. Það er vægt til orða tekið þegar sagt er að barnabörnin hafi dýrkað þig. Það var allt leyfilegt þegar farið var í heimsókn til ömmu og afa og mikil ofdekrun í gangi. Það var alltaf til tími hjá þér til að sinna barnabörnunum og sóttu þau sjálf mikið í það að gista hjá ömmu og afa og oft marga daga í röð og aldrei leiddist þeim enda var alltaf prógramm í gangi, sundferðir voru afar vinsælar og má þakka þér að miklu leyti hvað þau náðu fljótt tökum á sundfiminni því það klikkaði eiginlega aldrei að það væri farið í sund. Eftir sundferðirnar varð að dekra aðeins við barnabörnin með því að fara í ísbúð, kaupa mikið af nammi og haft kósíkvöld. Einnig fórstu mikið í heimsóknir með þau og svo var mikið sport að fá að fara með þér hring í strætó með afa undir stýri enda mikil upplifun fyrir krakkana að fara í slíkar ferðir. Orðið nei var bara ekki til í þinni orðabók þegar kom að barnabörnunum og ávallt mikil gleði þegar þið voruð saman. Missir þeirra er gífurlegur enda varst þú dýrkuð af þeim.
Handavinna var þér í blóð borin og varstu án efa í efstu deild í prjónaskap. Þú varst ekki bara vandvirk heldur eldsnögg enda eru eflaust mörg hundruð prjónaflíkur til eftir þig á hinum ýmsu heimilum. Það var leitað til þín til að aðstoða þegar aðrar í kringum þig lentu í ógöngum með sín prjónastykki og þú varst ekki í vandræðum með að redda því.
Þú varst ávallt vinmörg enda varstu alltaf viðkunnanleg og almennileg við allt og alla. Þú gerðir aldrei mannamun og tókst öllum eins. Þú máttir aldrei neitt aumt sjá og ef einhver þarfnaðist hjálpar varstu ávallt boðin og búin að aðstoða. Gott dæmi um manngæsku þína er að þegar þú vannst í söluturninum King Kong í Breiðholtinu þá hafðir þú fullkomin tök á öllum þeim kúnnum sem þar komu inn. Margir krakkar höfðu vanið komur sínar í sjoppuna við mismikla gleði starfsfólksins og eiganda sjoppunnar enda gátu lætin verið mikil í þeim og oft verið að skemma eitthvað eða rífa kjaft við starfsfólkið. En þegar þú varst að vinna þá var aldrei vesen. Það var meira að segja þannig að verstu ólátabelgirnir voru eins og lömb þegar þú varst annars vegar því þú sýndir þeim alltaf góðmennsku og talaðir við þau á jafningjagrundvelli svo þau sýndu þér öll ómælda virðingu. Það var meira að segja þannig að fullt af fólki og krökkum þekktu okkur bræður þrátt fyrir að við vissum ekki hver þau væru því mamma var óspör að tala um okkur við alla með stolti og ólíklegasta fólk vissi t.d. þegar mitt fyrsta barn fæddist og að Aron hefði verið í Palestínu og svo lengi má telja.
Þín verður sárt saknað af okkur öllum og það er enn svo óraunverulegt að þú sért búin að kveðja þennan heim allt of snemma. Þegar hugur minn leitar til þín er eins og steinn hafi lent í maganum og yfirþyrmandi söknuður hellist yfir. Einn daginn munu þessar minningar kæta mig og hlýja mér um hjartarætur og aldrei mun ég gleyma þér. Minningu þinni verður haldið uppi og barnabörnum þínum sagðar skemmtilegar sögur um þig.
Við kveðjum þig með söknuði elsku mamma og við munum standa þétt upp við pabba, þinn elskulega eiginmann sem kvatt hefur ástina í lífi sínu, og munum varðveita minningu þína. Hvíldu í friði.
Þinn sonur,
Róbert Már Kristinsson og fjölskylda.