Anna Þórunn Geirsdóttir fæddist 3. september 1942 í Reykjavík. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík hinn 15. febrúar 2022.

Foreldrar Önnu voru Geir Stefánsson stórkaupmaður, f. 22. júní 1912 á Vopnafirði, d. 25. maí 2001, og kona hans Birna Hjaltested, f. 4. apríl 1905 í Reykjavík, d. 19. janúar 2002. Anna átti tvær systur, sú eldri þeirra var Guðrún Sigríður, f. 29. maí. 1938, d. 1. febrúar 2020, og sú yngri Birna, f. 11. október 1944, d. 21. maí 2018.

Haustið 1945 flutti fjölskyldan til Stokkhólms, þar sem Geir stundaði framhaldsnám í alþjóðarétti en starfaði jafnframt við sendiráð Íslands í Stokkhólmi og að lokum við eigin atvinnurekstur. Fjölskyldan bjó í Djursholm í níu ár og minntist þeirra ára alla tíð með miklum hlýhug. Árið 1954 fluttist fjölskyldan aftur til Reykjavíkur og bjó um skeið á Kvisthaga í Reykjavík en lengst af í Mýrarhúsum á Seltjarnarnesi. Þá undu þau sér vel í sumarbústaðnum Arnarbóli við Nátthagavatn í Elliðakotslandi.

Anna hóf almenna skólagöngu í Svíþjóð en síðan í Melaskólanum í Reykjavík og lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar í Reykjavík. Hún vann ýmis störf eftir það, m.a.  þrjú sumur í síld á Siglufirði og síðar verslunarstörf.

Árið 1962, þá 19 ára gömul, var hún kosin og hlaut titilinn ungfrú Reykjavík og fetaði í fótspor elstu systur sinnar sem var kosin Ungfrú Ísland árið 1959. Í júlí 1962 keppti hún í Miss Universe-keppninni í Flórída og varð þar í öðru sæti en stúlkur frá 51 landi tóku þátt í keppninni. Í kjölfarið urðu straumhvörf í lífi Önnu og hún settist að í Bandaríkjunum og starfaði við sýningar- og fyrirsætustörf. Hún ferðaðist víða um heim, m.a. með systrum sínum, en leiðin lá til að mynda til Austurlanda. Á Filippseyjum árið 1967 kynntist hún barnsföður sínum, Justiniano Ning de Jesus, f. 4. mars 1938, og dvaldist þar í landi í tæpt ár. Anna flutti aftur til Bandaríkjanna og þaðan aftur til Íslands árið 1970. Hún starfaði lengst af í fyrirtæki föður síns Transit Trading Company. Eftir að Ning kom til Íslands árið 1974 hófu þau búskap saman. Eftir að þau eignuðust seinni dóttur sína var Anna heimavinnandi en starfaði seinna á lífsleiðinni hjá Ísbirninum og Landspítalanum. Anna og Ning slitu síðar samvistir.

Börn Önnu og Nings eru: 1) Sigríður (Níní) Hjaltested, f. 1969, eiginmaður hennar er Valtýr Sigurðsson. Börn Sigríðar eru Helena Birna og Bjarni Geir. Helena Birna og sambýlismaður hennar Mikael Andri eiga einn son, Daníel Frey. 2) Anna María Dolores, f. 1980, sambýlismaður hennar er Sveinn Haukur en saman eiga þau synina Ívan Herbert og Ísak Darra en fyrir á Anna María soninn Filip Má.

Útför Önnu fór fram í kyrrþey frá Dómkirkjunni í Reykjavík.

Mamma eignaðist mig á sjúkrahúsi í Kaliforníu. Hún bjó þar ytra með systrum sínum þeim Sirrý og Birnu en þær hjálpuðust allar að við hið vandasama hlutverk að hugsa um hvítvoðunginn. Afi minn og amma sáu síðan til þess með hjálp systranna að við mamma flyttumst til Íslands þegar ég var átta mánaða gömul. Við mamma bjuggum í góðu yfirlæti hjá afa og ömmu allt þar til pabbi kom frá Filippseyjum.

Mamma var á ýmsan hátt frábrugðin öðrum mömmum sem ég þekkti, því tók ég snemma eftir. Hún fór ekki út úr húsi nema mikið máluð og vel til höfð. Hún notaði mjög oft stór sólgleraugu, jafnvel þó að ekki skini sól og stundum einnig innandyra. Það þótti mér skrýtið því ég vildi sjá augun sem hún hafði haft svo mikið fyrir að mála. Hún bakaði ekki afmælisköku á afmælisdögum heldur keypti risatertu frá Hressingarskálanum, það þótti mér merkilega mikil fyrirhöfn. Hún fór allra sinna ferða í leigubíl eða fékk að fljóta með öðrum því hún lærði aldrei að aka bíl. Hún fór líka í lagningu einu sinni í viku og þurfti allt frá því ég man eftir mér óvanalega mikinn fegurðarsvefn.

Mamma keppti aðeins 19 ára gömul, þá ungfrú Reykjavík, fyrir Íslands hönd, í Miss Universe í Flórída og lenti í öðru sæti. Sirrý, systir hennar, hafði kveikt áhuga mömmu þegar hún varð ungfrú Ísland. Allir vissu hverjar þær voru á litla Íslandi og það var ekki endilega gott. Mamma upplifði vissulega einstök ævintýri sem gaman var að hlusta á frásagnir af en hún sagði þó alltaf að þessi heimur hefði ekki verið fyrir hana til lengdar. Hann krefðist of mikils og athyglin hefði oft verið yfirþyrmandi. Hún naut þess sérstaklega að tala um tíma sinn á Filippseyjum en þar kynntist hún pabba. Þar naut hún óspilltrar náttúru á framandi eyjum og leið virkilega vel.

Það lá ekki fyrir mömmu að vera mamma. Vafalaust langaði hana til þess að standa sig vel en það sem fylgdi því hlutverki var henni ofviða. Hún glímdi nefnilega við lúmskan sjúkdóm sem var ekki sýnilegur en hafði hreiðrað um sig og ágerðist. Það er fyrst þegar litið er til baka að maður áttar sig á því hversu ung hún fór að veikjast.

Sennilega var besta gjöf mömmu til mín að fela afa og ömmu uppeldi mitt, þannig kýs ég að líta á það. Engu að síður á ég ljúfar og fallegar minningar um mömmu, sérstaklega frá æskuárum mínum. Hún var svo falleg þegar hún hló og hún gat hlegið svo dátt. Bestu minningarnar tengjast Arnarbóli, sumarbústað fjölskyldunnar, á árunum þegar afi og amma voru sameiningartákn fjölskyldunnar og við vorum þar öll saman. Systurnar og amma í sólbaði, karlarnir að brasa úti og við börnin að leik úti í náttúrunni. Mamma læddist svo út í mömmulaut þegar hún vildi draga sig til hlés. Það gerði hún nokkuð oft.

Þegar ég minnist mömmu er merkilegt hvað litlir hlutir verða minnisstæðir. Ég sat svo oft og horfði á hana mála sig við snyrtiborðið sitt. Ég man sérstaklega eftir því hvernig hún málaði augun. Ég man eftir því þegar hún vafði teygju með kúlu á báðum endum um sítt taglið sitt sem náði langt niður á bak. Ég man eftir freknunum efst á nefi hennar og hvað hún reyndi að fela þær með farða. Mér þótti þær svo fallegar og vildi hafa þær sýnilegar. Ég man líka þegar þær systur sungu sænsk lög, amma spilaði undir á píanóið og afi stjórnaði, það var líkt og þau öll hyrfu inn í annan heim. Allt eru þetta dásamleg minningabrot sem munu fylgja mér alla tíð og lifa í frásögnum mínum til barnabarna minna.

Það er svolítið afhjúpandi að skrifa svona um mömmu sína sem fékk svo fagrar vöggugjafir en gat ekki nýtt þær sem skyldi. Þó að samfélagið sé að þroskast þegar kemur að því sem viðvíkur andlegum veikindum eigum við enn langt í land með að grípa í tæka tíð inn í óheillaþróun. Það er flókið verkefni og vandasamt en afar mikilvægt. Mamma mín var fyrir margt löngu komin á þann stað að hún beið eftir frelsinu og þráði frið í sálinni. Ég óska mömmu góðrar ferðar og er nokkuð viss um hvert henni er heitið.

Sigríður (Níní)