Ingveldur Guðmundsdóttir, Inga, fæddist á Sæbóli í Aðalvík 13. október 1926. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum 28. febrúar 2022.
Foreldrar hennar voru hjónin Guðmundur Sigurjón Lúther Hermannsson frá Læk, f. 17. mars 1890, d. 12. ágúst 1973, og Margrét Halldóra Þorbergsdóttir frá Efri-Miðvík, f. 3. desember 1896, d. 23. júlí 1973.
Ingveldur var fimmta í röðinni af sjö systkinum en þau eru nú öll látin. Systkin Ingveldar voru: Guðrún Herdís, f. 1917, d. 2003, Bergþóra Oddný Ólöf, f. 1918, d. 2000, Sigríður Ingibjörg, f. 1921, d. 2019, Þorbjörg, f. 1924, d. 1925, Finnbjörn Ásgeir, f. 1929, d. 2010, Hansína Ásta, f. 1931, d. 2009. Uppeldissonur Guðmundar og Margrétar er Sveinn Þráinn Jóhannesson, f. 1944.
Eiginmaður Ingveldar var Hafsteinn Böðvarsson, f. 25. júlí 1930, d. 25. desember 1986. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Hafsteinn, f. 17. október 1953, börn Inga Dís og Vignir. 2) Guðmundur Lúther, f. 24. maí 1955, synir Leó Alexander og Ísleifur Örn. 3) Þorbjörg, f. 20. ágúst 1959, dætur Ásta Lea, Ída Björk og Telma Píl, og 4) Margrét Rögn, f. 2. september 1962, dóttir Hafdís Maríanna. Barnabarnabörnin er orðin 17.
Ingveldur ólst upp á Sæbóli í Aðalvík á tímum mikilla breytinga í íslensku þjóðlífi og fylgdist vel með þeim og naut hins náttúrulega umhverfis sveitar sinnar. Haustið 1945 flutti hún til Hafnarfjarðar og stundaði nám í hárgreiðslu við Iðnskólann þar og var þá eina stúlkan í skólanum. Hún lauk námi 1947 og vann síðan við iðn sína allt þar til að hún lét af störfum árið 1996. Árið 1950 flutti hún til Danmerkur og vann og jók þekkingu sína í iðninni. Hún kom aftur heim árið 1952 og þá um haustið giftist hún Hafsteini og þau fluttu til Bandaríkjanna þar sem Ingveldur vann við hárgreiðslustörf. Þau fluttu heim þremur árum síðar, tveimur börnum ríkari. Árið 1962 hóf hún rekstur á Hárgreiðslustofunni Ingu á Skólavörðustíg 2, sem varð ein stærsta hárgreiðslustofan í Reykjavík á þeim tíma. Árið 1974 flutti hún stofuna á Týsgötu 1 og rak hana þar til hún lauk störfum árið 1996 eftir 49 ára farsælt ævistarf.
Útivist var mikið áhugamál hjá Ingveldi og eru ótaldar ferðirnar sem hún fór með Ferðafélagi Íslands og Útivist. Árið 1992 byrjaði hún að lesa fornsögur í tengslum við námskeið, sem haldin voru í Háskóla Íslands. Ferðaðist hún mikið næstu 20 árin á slóðir sagnanna, bæði innanlands og utan. Hún hefur ef til vill fengið einhverja útrás fyrir þau fræði sem hún hefur haft hvað mestan áhuga á frá unga aldri en það var fornleifafræði. Áhugamálin voru fleiri því auk fornsagnanna var hún á smíða-, myndlistar- og frásagnarnámskeiðum. Eftir hana liggur mikill fróðleikur sem hún hefur skrifað um meðal annars æskuslóðir sínar. Þá eru þau mörg listaverkin sem hún hefur teiknað og málað.
Útför hennar fer fram í dag, 10. mars 2022, frá Hafnarfjarðarkirkju klukkan 13. Athöfninni verður einnig streymt á streyma.is.
Virkan hlekk á streymið má finna á:
www.mbl.is/andlat/.

Ættmóðir er lögð af stað til Grænlands. Hún hafði lesið að í fyrndinni þegar gamalt fólk á Grænlandi sæi fram á endalokin þá færi það á ísjaka og léti sig fljóta í burtu. Hún sagðist vel geta hugsað sér þau örlög þegar þar að kæmi. Síðan þá hefur hún talað um lokaferðina sína sem Grænlandsför.

Ævi þessarar ótrúlegu konu hefur vægast sagt verið viðburðarrík. Hún ólst upp sem Hornstrendingur á hjara veraldrar við óblíð náttúröflin á tímum rafmagnsleysis, þar sem vatn var sótt út í læk, þar sem ekki var vitað hvort heimilisfaðirinn kæmist heim eftir að sækja fisk þegar veður til sjávar voru válynd. Hún var óþreyjufull sem lítil stúlka að fá að byrja í skóla, skólastofan var þá lítið herbergi í Steinhúsinu en hún var síðan með fyrstu nemendum í nýja Skólahúsinu þegar það var byggt og opnað árið 1933. Hana þyrsti í sögur frá unga aldri og fékk aldrei nóg af að heyra sömu sögurnar aftur og aftur.

Seigla og þrautseigja eru þau orð sem koma fyrst upp í hugann þegar hugsað er til lífshlaups hennar. En einnig ævintýramennska, listhneigð í ritun texta og endurminninga og listmálun, fjallgöngur, náttúrudýrkun, ferðalög, fróðleiksfíkn, það er endalaust hægt að telja upp hin fjölmörgu áhugamál sem hún hefur stundað um ævina. Mér er minnisstætt þegar hún fór á öll sögunámskeiðin í Endurmenntun Háskólans m.a. um Vesturfarana og lagðist síðan í kjölfarið í víking og heimsótti Vesturfaraslóðir. Hluti af námskeiðunum voru ferðalög á söguslóðirnar sem verið var að fjalla um. Þannig ferðaðist hún á söguslóðir, ekki bara til Vesturheims Kanada og Bandaríkjanna, heldur líka til Orkneyja, Grænlands, Ítalíu og fleiri staða.

Eftir að mamma hætti að vinna árið 1996, þá var afar ánægjulegt að fá hana til okkar Hafdísar bæði þegar við dvöldum löng sumur á Spáni þar sem ég var vann og eins í Ameríkunni okkar þar sem ég var í nokkur ár við nám og störf.

Spánn var það land helst sem hún heimsótti öðru hvoru til að hlaða batteríin og kúpla sig frá krefjandi vinnu og börnum þegar við vorum að alast upp. Hún hafði því orðið sterk tengsl við landið þegar ég fór að fararstýrast þar og við deildum áhuga okkar á nýjum stöðum með sögu allt frá tímum Mára. Þá vílaði hún ekki fyrir sér að skella upp páskaveislu ef við vorum þar um páska, var svo forsjál að taka með sér hluta af páskaskrautinu að heiman til að gera páskadagsmorgunn hefðbundinn ásamt hennar frægu amerísku pönnukökum og heitu súkkulaði. Það var henni að þakka, eins og svo margt annað, að ég fór í fararstjórn 23ja ára gömul. Samvinnuferðir Landsýn voru nýbyrjuð með ferðir til Ródos. Hún vippaði sér niður á Austurstræti og hitti Helga heitinn Jóhannsson forstjóra og sagði honum að hún ætti dóttur sem væri nýgift og byggi þarna á Ródos og væri því kjörið að ráða mig í vinnu. Ég veit ekki hvað þeim fór nákvæmlega á milli en Helgi sendi nafna sinn þá um vorið út af örkinni til Ródos til að skoða hótel og kanna aðstæður og tók við mig viðtal í leiðinni. Seinna heyrði ég að Helgi hefði sagt við nafna sinn sem tók við mig viðtalið, ef dóttirin hefur, þó ekki væri nema helmingur af persónuleika móðurinnar, þá er hún ráðin. Og það hafði ég greinilega því ég var ráðin.

Þegar við Hafdís dóttir mín fluttum til Bandaríkjanna var það ómetanlegt að fá hana í heimsókn á hennar fornu slóðir í Washington og Virginíu, finna staðina þar sem þau pabbi bjuggu og strákarnir þegar þeir fæddust. Þræða Georgetown og Wisconsin Avenue og leita uppi það sem áður var hárgreiðslustofan þar sem hún starfaði og greiddi m.a. Kennedy frú. Sjá staðinn þar sem pabbi vann og staðinn þ.s. hún fékk að lokum uppskriftina að frægu amerísku pönnukökunum sem urðu hluti af uppvexti okkar krakkanna og barnabarna, lungnamjúkar með smjöri og sírópi. Og fleiri hefðir flutti hún með sér frá Ameríkunni, s.s. hinn fræga Thanksgiving kalkún sem við fengum alltaf á aðfangadagskvöld. Það þótti mjög undarlegt þegar ég var lítil þegar ég sagði frá jólamatnum okkar, hefðin hér á Íslandi var ekki kalkúnn og ég man að hún hafði ýmis ráð með að fá kalkún til landsins og stundum spennandi hvort það myndi yfir höfðuð takast fyrir jólin.
Það er í raun sama hvar drepið er niður, það er auðvelt að byrja að segja frá einhverju en erfitt að hætta.

Mamma setti sér það markmið að vera búin að kaupa sér íbúð fyrir fertugt. Að sjálfsögðu náði hún því markmiði eins og öðrum sem hún setti sér. Rétt fyrir fertugsafmælið fluttum við úr lítilli íbúð á Freyjugötu 1 í stóra og bjarta útsýnisíbúð á Týsgötu 1. Þar bjó hún næstu 16 árin áður en hún flutti á Tjarnargötuna þar sem hún bjó næstu 30 árin. Þaðan eiga öll barnabörnin hennar mestu minningarnar um hana. Þegar hún sá fram á að geta ekki hlaupið lengur upp og niður stigana á Tjarnargötunni, flutti hún sig um set í hentugra húsnæði á Sléttuveginum.
Hún kenndi mér það að við flutning væri alltaf langmikilvægast að fyrst af öllu gera rúmin í stand svo hægt væri að koma sér í rúmið þegar þreytan bæri mann ofurliði eftir langan flutningsdag. Þetta er góð regla sem hefur fylgt mér í öllum mínum flutningum.

Mamma varð einstæð móðir þegar ég var enn í móðurkviði, ég er yngst fjögurra systkina. Það ber vott um sterka konu að gefast ekki upp þegar á móti blæs. Hún var orðin ein með okkur fjögur. Hún sá alltaf til þess að við værum í öruggu húsnæði, vel klædd og með nægjan, hollan mat á borðum. Sterkar hefðir réðu ríkjum á heimilinu, t.d. borðuðum við öll saman kvöldmat, alltaf. Alltaf var farið til kirkju á aðfangadagskvöld og páskadagsmorgun. Hægt er rétt að ímynda sér álagið að hafa til jólamatinn áður en farið var til kirkju, hún að vinna á hárgreiðslustofunni fram til miðnættis á Þorláksmessu og til hádegis á aðfangadag. Hún saumaði á okkur systur kjóla og saumaði á okkur öll búninga fyrir grímuböll. Ég held að þær hafi verið margar andvökunæturnar hjá henni því hún vildi standa sig á öllum sviðum. Hún hefur sjálfsagt verið að sauma langt fram á nótt og síðan átt krefjandi vinnudag næsta dag.

Ég var 10 vikna gömul þegar mamma opnaði Hárgreiðslustofuna Ingu á Skólavörðustíg 2, þann 16. nóvember 1962. Þetta var stór, glæsileg og umsvifamikil hárgreiðslustofa og var mitt annað heimili. Ég lærði hjá stelpunum sem unnu hjá henni að drekka kaffi með sykri og mjólk og dýfa kringlu ofan í. Um leið og ég náði upp í vaskinn var ég farin að skola háralit og permanett rúllur og síðar að þvo hár. Ég fékk að setja hárnet þegar hún var búin að setja rúllur í hár, eftir að hafa staðið til hliðar og rétt henni hverja rúlluna á fætur annarri og hárnál til að festa. Þegar konurnar voru búnar í hárþurrkunni tók ég varlega rúllurnar úr hárinu, allt eftir settum reglum. Mamma var mjög nákvæm og vandvirk. Hún þoldi ekki að hlutirnir væru ekki almennilega gerðir. Maður fékk sjaldan hrós í æsku en þegar það kom þá var það mikils virði fyrir vikið og manni fannst manni vera rifna af stolti.

Hún sagði mér söguna af því þegar haft var samband við hana til að koma og greiða fínum frúm, forsetafrúm erlendis frá og öðrum hefðarfrúm sem komu til landsins í opinberum erindagjörðum. Þá var hringt í hana frá ráðuneytum og sendiráðum. Hún var jú þekkt fyrir að vera besta hárgreiðslukonan í bænum. Mamma var þó ekki á þeim buxunum að stökkva frá, það var alltaf fullbókað hjá henni langt fram í tímann og hún ætlaði nú ekki að fara að svíkja sína eigin kúnna.

Hún hafði sterkar skoðanir á málefnum líðandi stundar og fylgdist vel með fréttum innan lands sem utan. Hún missti ekki af landsleikjum í fótbolta eða handbolta.

Hún var eins og opin ættfræðibók, hún hafði algjöran límheila, hún mundi allt, allar sögur frá því hún var lítil stelpa á Sæbóli, allt sem hún las, allar frásagnir festust í minni hennar og hurfu ekki. Allt fram á andlátsstund var minni hennar óskert, persónuleiki hennar hélst óbreyttur fram á síðasta andardrátt. Þvílíkur karakter sem hún móðir mín var.

Elsku mamma, ég færi þér þakkir fyrir allt sem þú hefur verið fyrir mig og Hafdísi. Við erum enn að átta okkur á því að þú ert lögð af stað til Grænlands en við munum ilja okkur við allar þær góðu minningar sem við eigum af samveru okkar, um ókomna tíð.

Hvíl í friði,

þín

Margrét.