Guðrún Steingrímsdóttir var fædd á Snæringsstöðum í Svínadal 16. ágúst 1943. Hún lést 27. febrúar 2022 á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki.
Foreldrar hennar voru Steingrímur Guðmannsson, f. 5. ágúst 1912, d. 19. desember 1992, og Auður Þorbjarnardóttir, f. 3. desember 1923, d. 26. apríl 1998.
Bræður Guðrúnar eru; Benedikt Sveinberg, f. 1947, d. 2016, Guðmann, f. 1953, og Þorbjörn Ragnar, f. 1965.
Fyrri eiginmaður (gift 16. ágúst 1973) Guðrúnar var Grétar Sveinbergsson, f. 13. október 1938, d. 2. október 1992, þau eignuðust þrjú börn.
Steingrímur Albert, f. 26. júlí 1971, búsettur í Svíþjóð, eiginkona hans er Joanna Hägerström, f. 9. apríl 1973, þeirra börn eru Samuel Albert, f. 2. desember 1995, Emmy Felicia, f. 11. apríl 2001, og Tilda Nathalie, f. 25. mars 2003, áður átti Steingrímur Grétar Braga, f. 21. desember 1989.
2) Guðlaug, f. 18. maí 1973, búsett á Skagaströnd, eiginmaður hennar er Hjalti Viðar Reynisson, f. 28. mars 1969, þeirra dætur eru; Guðrún Rós, f. 27. nóvember 1998, hún er í sambúð með Elmari J. Grétarssyni, f. 5. apríl 1998, og eiga þau tvo syni; Gabríel Viðar, f. 18. jan. 2018, og Rafael Reyni, f. 21. ágúst 2019, og Lilja Dögg, f. 24. júní 2000.
3) Auður Sandra, f. 28. maí 1977, búsett í Reykjavík, eiginmaður hennar er Óli Hjörvar Kristmundsson, f. 16. október 1970, og eiga þau tvö börn, Daníel Tý, f. 6. október 1999, í sambúð með Katrínu Ósk Axelsdóttur, f. 1. október 2000, og Tinnu Rögn, f. 12. desember 2007.
Seinni eiginmaður (gift 12. október 2013) Guðrúnar er Bjarni Hólm Jónsson, f. 10. júní 1937, frá Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði.
Barnaskólanám stundaði Guðrún í þess tíma sveitaskóla, veturinn 1962-1963 stundaði hún nám í Kvennaskólanum á Blönduósi.
Guðrún vann ýmis störf á Blönduósi, lengst af í þvottahúsi sjúkrahússins á Blönduósi eða þar til hún flutti á Sauðárkrók í ársbyrjun 1999. Síðustu starfsárin vann hún á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki.
Guðrún helgaði líf sitt fjölskyldu sinni og heimili og hún var mikil blómaáhugakona, hún saumaði lengi vel jólafötin á börnin og endursaumaði upphlutinn sinn fyrir nokkrum árum.
Síðustu árin sem hún bjó á Blönduósi var hún í Kvenfélaginu Vöku.
Útförin fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 11. mars 2022, klukkan 14. Hlekkur á streymi:
https://www.mbl.is/andlat

Síðustu dagar hafa verið erfiðir en það er svo sárt að þurfa að kveðja þig elsku mamma mín. Við heyrðumst alltaf á hverjum degi og stundum oft á dag en þú vildir fylgjast vel með okkur og alltaf spurðir þú um krakkana, hvort allt gengi ekki örugglega vel hjá þeim en þér var mikið umhugað um velferð þeirra, að þeim gengi og liði vel, tómleikinn að heyra ekki í þér á hverjum degi er mjög erfiður. Það var sterkur strengur á milli okkar alla tíð, við þurftum snemma að standa ansi þétt saman mæðgurnar en þegar pabbi kvaddi okkur skyndilega fyrir tæpum 30 árum þá stóðum við eftir einar í mikilli sorg á Skúlabrautinni og tókumst á við ansi erfið verkefni sem við reyndum að leysa í sameiningu og ég held okkur hafi bara tekist nokkuð vel til. Ég flutti svo að heiman 18 ára og hóf búskap með honum Óla mínum, ég hafði nú smá áhyggjur af þér að vera ein eftir í kotinu en þær áhyggjur voru óþarfar því nokkru seinna varst þú þeirrar gæfu aðnjótandi að að hitta hann Bjarna þinn aftur en sagt er að hin gömlu kynni gleymist ei. Þú fluttir svo á Sauðárkrók þar sem þið Bjarni hófuð saman búskap og bjugguð ykkur fallegt heimili. Hann tók okkur börnunum þínum og tengdabörnum opnum örmum og þegar barnabörnin bættust í hópinn nutu þau mikillar ástríðu og dekurs frá ykkur. En við foreldrarnir vorum reglulega minnt á það frá þér að í þínum húsum væru allt aðrar reglur en heima hjá okkur því að hjá þér myndi sko amma ráða og við það stóð. Börnin mín Daníel Týr og Tinna Rögn elskuðu að koma á Krókinn en þar var heldur betur tekið vel á móti þeim og ýmislegt brallað, allar ferðirnar í Skaffó, bakaríið og svo fengu þau heldur betur að spreyta sig í eldhúsinu hjá þér. Þú kenndir þeim að baka þínar frægu pönnukökur, kleinurnar og laufabrauðið, alltaf fengu þau að vera með þér í einu og öllu, mæla í deigið eða bara slumpa, dass af þessu og dass af hinu en þér fannst ekkert svo nauið að vera að mæla eitthvað nákvæmlega og alltaf tókst þetta fullkomnlega og börnin skælbrosandi með afraksturinn sem rann svo ljúft niður. Einnig kenndir þú þeim að prjóna, sauma út og svo var ómissandi að fá að spreyta sig á saumavélinni og hún stigin áfram af krafti, já hjá ömmu var allt leyft og ekki mikið um reglur. Tinna Rögn var rétt orðin þriggja ára þegar hún var búin að læra símanúmerið hjá ömmu og afa á Króknum og var sú stutta ansi dugleg að hringja norður í þig. Ef henni var eitthvað misboðið heima hjá sér, að henni fannst, hringdi hún hiklaust í þig og klagaði. Einn morguninn klukkan rúmlega 7 á virkum degi heyri ég að sú stutta er að hringja í þig, hún hafði tekið heimasímann og laumast með hann inn í herbergið sitt meðan ég var að hafa mig til fyrir vinnu að sjálfsögðu vakti hún þig en þér fannst nú ekkert leiðinlegt að sofa út, en þú sagðir við Tinnu Rögn að þér fyndist bara notalegt að heyra í henni og hún mætti alltaf hringja í þig og þannig var það. Þið voruð miklar vinkonur og heyrðust oft á dag þegar hún labbaði heim úr skólanum, var ein heima eða vantaði einhvern til að tala við hringdi hún í þig, svo var alltaf hringt á kvöldin til að bjóða góða nótt og til að fara yfir hvað þið hefðuð fengið að borða og alltaf varstu til í spjalla við hana alveg fram á síðustu stundu. Síðustu tvö ár hafa verið erfið eftir að þú veiktist en þú tókst þessu af miklu æðruleysi og kvartaðir ekki, þótt hvert áfallið af öðru tæki við. Við grínuðumst oft með það að það hefði engin ferðast eins mikið í þessum Covid-faraldri eins og þú. Guðlaug systir á heiður skilið fyrir allar bílferðirnar sem hún fór með þig í, bæði suður og norður á Akureyri í öllum veðrum og alls konar færð, allt til þess að þú gætir verið heima hjá honum Bjarna þínum sem stóð svo þétt þér við hlið og annaðist þig af mikilli ást og hlýju en án hans og hans þrautseigju hefðir þú ekki getað verið svona mikið og lengi heima. Bjarna verður seint fullþakkað allt sem hann lagði á sig, lærði og gerði til að þið gætuð verið saman heima en þar leið ykkur best. Síðustu dagana þína vorum við systkinin og Bjarni hjá þér nótt sem dag á sjúkrahúsinu og eitt máttu eiga elsku mamma að það var alltaf stutt í húmorinn og fallega brosið þitt allt fram á síðustu stundu.

Elsku mamma mín, hafðu þökk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig, Óla og krakkana mína. Þín verður sárt saknað en minning þín er ljós í lífi okkar og munum við minnast þín með ást og þakklæti.

Þín Auður Sandra

Auður Sandra Grétarsdóttir