Magnúsína Ellen Sigurðardóttir fæddist í Keflavík 7. október 1972. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 23. mars 2022.
Foreldrar hennar eru Sigurður Kristinn Jónsson húsasmiður, f. 1931, d. 2014, og Selma Jóhannesdóttir, f. 1939. Magnúsína Ellen var yngst af sex systkinum. Þau eru Guðrún Erna Sigurðardóttir, f. 1950, Jóhannes Sigurðsson, f. 1965, Jón Sigurðsson, f. 1967, Sigurður Kristinn Sigurðsson, f. 1969, Guðmunda Sigurðardóttir, f. 1970. Dætur Ellenar eru Emilía Magnúsdóttir, f. 1993, maki Örvar Ólafsson og þau eiga einn son: Aron Elí, og Sigrún Munda Magnúsdóttir, f. 1997, maki Logi Birgisson og eiga þau þrjú börn: Hera Kristín, Adam Óli og Birgir Hörður.
Eftirlifandi eiginmaður Magnúsínu Ellenar er Ólafur Eggertsson, f. 1970, saman eiga þau einn son, Ingimund Arnar Ólafsson, f. 2005.
Útför Magnúsínu Ellenar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 15. mars 2022, klukkan 13.
Streymi:
https://fb.me/utformagnusinaellen/.
Virkan hlekk má nálgast á:
https://www.mbl.is/andlat/.

Ég man þann dag þegar ég sá Ellen í fyrsta skiptið eins og það hafi verið í gær. Þó höfum við verið aðeins um fjögurra ára gamlar. Hún var lítil, eldrauðhærður villingur, og ég vissi um leið að við yrðum bestu vinkonur. Munda systir hennar var þarna líka. Annar rauðhærður villingur, aðeins eldri en við og ég síðan þriðji villingurinn. Löngu síðar frétti ég að gatan sem við ólumst upp í hafi verið kölluð Villingaholt á meðal bæjarbúa. Við urðum þríeykið Munda, Ellen og Steinunn. Löngu síðar dreymir mig þrjár litlar stelpur. Tvær eldrauðhærðar og ein dökkhærð á milli þeirra. Guð hvað þetta eru miklir villingar. Þær horfa allar kokhraustar á mig. Je minn eini, hvað eru þær eiginlega að fara að gera? Svo mikil endalaus orka. Ég verð bara dauðþreytt að horfa á þær. Ég og Ellen hófum skólagönguna í sama bekk í kálfi á lóð núverandi Myllubakkaskóla í Keflavík. Þegar skóladegi lýkur höldum við saman heim á leið og komum við á nokkrum stöðum á leiðinni. Einstaka sinnum eigum við sand af peningum og getum komið við í sjoppunni og gætt okkur á nammi. Ellen er besta og gjafmildasta manneskjan sem ég þekki. Pabbi vinkonu minnar gefur henni stundum pening. Hann drekkur örsjaldan en þá notfærir Ellen sér tækifærið: Pabbi áttu pening? Elskan mín, en var ég ekki búinn að gefa þér pening? Nei, og hann dregur upp 1.000 kall og síðan annan og annan. Því næst stoppum við í húsinu þar sem óreiðufólkið býr. Við opnum dyrnar að stigaganginum varlega og læðumst hljóðlega upp á aðra hæð. Þar má sjá tanngarð á gólfinu fyrir utan eina hurðina. Við höldum fyrir munninn og hlæjum okkur máttlausar. Á þessum tíma dags virðast allir í húsinu sofa. Dagurinn er alveg ónýtur ef við getum ekki gefið okkur tíma til að koma við að sjá tennurnar á gólfinu og hlæja okkur máttlausar. Síðan er haldið í garðinn hjá Bigga Guðna og rólurnar nýttar. Við rólum okkur dágóða stund. Þegar konan hans kemur heim horfum við á hana eins og hún sé boðflennan en ekki við. Það er ekkert í heiminum sem ég og Ellen óttumst meira en fyllibyttur. Vinkona mín er mjög góð í að spotta þær út. Hún öskrar skyndilega fyllibytta, tekur í höndina á mér og við hlaupum eins og sjálfur skrattinn sé á hælunum á okkur. Við eyðum allri æskunni saman. Og svo skyndilega erum við að stolkera karlmann á Vatnsleysuströndinni. Ellen er ástfangin. Við leggjum bílnum fyrir utan húsið í dálítilli fjarlægð og spilum angurværa ástarsöngva í græjunum. Skyndilega koma þrír stórir og stæðilegir karlmenn hlaupandi út úr húsinu og upp í bíl. Þetta er sjálfur Rómeó, bróðir hans og frændi. Vinkona mín kemur þó bílnum okkar einhvern veginn skjálfandi höndum í gang. Við keyrum eftir mjóum sveitaveginum og reynum að stinga þá af. Hvað er eiginlega að okkur? Ef allt væri með felldu værum við á þessari stundu á fylleríi niðri í bæ eins og annað ungt fólk en ekki að stolkera eitthvert manngrey á Vatnsleysuströndinni. Mennirnir ná okkur hins vegar og koma upp að bílnum. Vinkona mín liggur eins og dauð fram á stýrið og svei mér þá ég held að við séum báðar farnar að grenja. Við erum greinilega ekki jafn miklir harðjaxlar og við virðumst vera. Karlmennirnir vita ekki hvað gera skal í slíkum aðstæðum og láta sig fljótlega hverfa. Þó endar þessi saga með hjónabandi Ellenar og mannsins á Vatnsleysuströndinni. Hún endaði jafnframt með tveimur gullfallegum yndislegum stúlkubörnum og geri aðrir stolkerar betur. Sögurnar eru svo ótal margar að þær kæmust auðveldlega fyrir í heilli bók. Elsku vinkona, án þín og Mundu hefði barnæskan aldrei orðið svona litrík og skemmtileg. Þið gerðuð gráan hversdagsleikann að dásemd. Heimspekingurinn Bertrand Russell sagði: Kynslóð sem ekki þolir leiðindi verður kynslóð lítilmenna. Kynslóð óhæfilega slitin úr tengslum við hina hægu hringrás náttúrunnar. Eins og afskorin blóm í vasa. Með þér lifði ég hins vegar bernskuna eins og villt blóm í haga. Í huga mínum hljóma allar heimsins kirkjuklukkur af því að þú ert farin.

Elsku fjölskylda, ég sendi ykkur mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Þín vinkona að eilífu,

Steinunn Björk.