Anna Sólmundsdóttir fæddist á Mosum á Síðu þann 5. apríl 1947 og lést þann 12. mars 2022.

Foreldrar hennar voru Rannveig Jónsdóttir og Sólmundur Einarsson.

Systkini Önnu eru Bára, f. 1945, Einar, f. 1948, og Jóna, f. 1955.

Eftirlifandi eiginmaður Önnu er Geir Geirsson, f. 1946.

Foreldrar hans voru Málfríður Guðmundsdóttir og Geir Herbertsson.

Anna og Geir giftust í Dómkirkjunni 1970.

Börn Önnu og Geirs eru:

1.    Guðjón Geirsson, var kvæntur Dagmari Ziemann.

2.    Kjartan Orri Geirsson, kvæntur Kolbrúnu Indriðadóttur.

3.    Herbert Geirsson, kvæntur Þóru Rós Guðbjartsdóttur.

Barnabörn þeirra eru:

Lilja Sól Guðjónsdóttir, Kjaran Þór Guðjónsson, Anna Kristín Kjartansdóttir, Kormákur Jarl Kjartansson, Grímur Nói Einarsson, Sólmundur Herbertsson og Máni Herbertsson.

Anna fór sem ung kona og skoðaði heiminn, vann meðal annars á samyrkjubúi í Ísrael og á hótelinu d´Angleterre í Kaupmannahöfn.

Anna starfaði meðal annars á bæjarskrifstofu Kópavogs og hjá FÍB. Árið 1982 flutti hún með fjölskyldunni upp í Búrfellsvirkjun og þau bjuggu þar í fjögur yndisleg ár. Eftir það hefur heimili þeirra verið í Vesturási 43.

Mestan hluta starfsævinnar vann hún sem bókari og starfmannastjóri hjá Rekstrarvörum, þar sem henni líkaði vel í 30 ár.

Útförin fer fram í Dómkirkjunni í dag, 24. mars, kl. 15.


Það var í Seljabrekku fyrir 55 árum sem ég sá Önnu Sól fyrst.

Ég man hve mér fannst hún sæt, ljúf og viðkunnanleg, svo ég spurði Guggu, systur Geirsa: Hver er þessi stelpa? Gugga svaraði um hæl: Þetta er hún Anna Sól, kærastan hans Geirsa bróður.

Næstu árin hitti ég þau Önnu og Geirsa annað slagið þegar þau komu í Seljabrekku, oftast eitthvað að sinna hestum og aðstoða gömlu hjónin Guðmund og Bjarnveigu, afa og ömmu Geirsa.

Ég man líka að mér fannst þau alltaf vera svo flott par, en ég kynntist þeim báðum þeim mun betur 20 árum síðar þegar Anna Sól var ráðin til starfa hjá okkur í Rekstrarvörum.

Þannig var að við auglýstum eftir sölumanni til að selja Bossa-barnableiur til verslana, en RV hafði þá nýlega keypt bleiuverksmiðjuna Bossa. Anna Sól var ein af mörgum sem sóttu um starfið. Að sjálfsögðu bar Anna Sól, með öllum sínum þokka og prúðmennsku, af öllum öðrum umsækjendum og var ráðin í starfið. Anna Sól starfaði síðan alla tíð hjá RV þar til fyrir rúmu ári þegar hún fór á eftirlaun eða í 35 ár.

Ráðning Önnu Sól var og er eitthvert mesta heillaspor í sögu RV og ekki síður í lífi okkar eigenda RV því fljótlega myndaðist mikill samgangur og traust á milli fjölskyldna okkar.

Má þar meðal annars nefna að Sigga, Katrín dóttir okkar og Anna Sól fóru allar, fyrir tilstuðlan Önnu Sól, að æfa með Kvennakór Reykjavíkur þegar hann var stofnaður og höfðu mikla ánægju af.

Við Geirsi mættum á valdar skemmtanir hjá kórnum og höfðum líka okkar ánægju af.

Á tímabili vorum við með hesta í sama hesthúsi í Víðidal ásamt Guggu systur Geirsa og Hálfdáni manni hennar.

Og alltaf var gott að koma við í Vesturásnum hjá þeim Önnu Sól og Geirsa.

Þegar Anna Sól kom til starfa hjá RV fyrir 35 árum, sem þá var fámennur vinnustaður, kom strax í ljós að hún gat og var tilbúin að ganga í öll verk.

Fyrsta árið seldi Anna Sól Bossa-bleiur og ýmsar hjúkrunarvörur sem RV var þá að byrja með. Eftir það gerðist hún bókari RV og sá einnig lengi vel um öll helstu mál er tengdust starfsmönnum, ráðningum, samningum um laun, launaútreikningum o.fl.

Mörg þessara mála voru viðkvæm og persónuleg, en alltaf tókst Önnu Sól með sínum sjarma, sanngirni og ljúfu lund að leysa öll mál þannig að allir fóru sáttir frá borði.

Langur starfsaldur og mikil tryggð starfsmanna RV við fyrirtækið gegnum árin er ekki síst Önnu Sól að þakka.

Þegar á móti blés í rekstrinum, eins og við hrunið 2008, var það Anna Sól sem tók að sér óumbeðin að hafa áhyggjur. Því kallaði ég hana stundum Önnu áhyggjufullu. En Anna Sól hafði ekki bara áhyggjur heldur leitaði hún jafnan lausna og gerði okkur eigendunum hreinskilnislega grein fyrir því í hvað stefndi, ef ekki yrði gripið til aðgerða.

Minnist ég þar tölvupósts, sem Anna Sól skrifaði mér á jóladag árið 2008, þar sem hún fór yfir stöðuna og lagði til leiðir til lausna, sem við fylgdum síðan í megindráttum, fyrirtækinu, eigendum og starfsfólki RV til heilla.

Það er ekki öllum gefið að geta séð málin frá öllum þessum þremur hliðum, en það átti Anna Sól auðveldara með en flestir aðrir.

Eftir að Anna Sól lét formlega af störfum í RV, eftir að hafa smátt og smátt stytt vinnudaginn, hélt hún áfram að líta inn og fylgjast með. Netfangið hennar í RV er til dæmis enn virkt, því Anna Sól vildi áfram fylgjast með því sem væri að gerast innan fyrirtækisins, því fyrir henni var vinnan ekki bara vinna heldur ákveðin ástríða og hún bar hagsmuni fyrirtækisins og samstarfsmanna sinna ávallt fyrir brjósti, eins og um hennar eigin fyrirtæki væri að ræða.

Þegar endurskoðandinn okkar hann Kristján Jónasson hjá KPMG, sem unnið hafði með Önnu Sól frá því hún tók að sér bókhald RV, mætti með uppgjör fyrir árið 2020 mætti Anna Sól í kaffi og heilsaði upp á endurskoðandann og fagnaði með okkur góðum rekstrartölum.

Ég er þakklátur fyrir að hafa átt langt og skemmtilegt teams-samtal við þau Önnu Sól og Geirsa nú í byrjun janúar, þar sem farið var vel yfir heitustu málin jafnt innan lands sem utan.

Einnig er ég þakklátur Geirsa fyrir að hafa fengið fyrir mig leyfi til að heimsækja Önnu Sól á líknardeildina á Landakoti viku áður en hún lést. Þar rann það upp fyrir mér að þetta yrði okkar síðasta samtal, það var það mikið af henni dregið. Ég sýndi Önnu Sól fyrsta hlutann af myndbandi sem verið er að gera um 40 ára sögu RV, en mikið er þar byggt á myndum og öðrum gögnum sem Anna Sól hefur haldið saman og við köllum sögusafn RV.

Anna Sól gladdist við að sjá þennan fyrsta hluta myndbandsins og sýndi það mér að enn var hún með hugann við vinnuna.

Að lokum viljum við þakka fyrir þá gæfu að hafa átt þau hjónin Geirsa og Önnu Sól að vinum og félögum öll þessi ár.

Guð blessi Geirsa og synina ljúfu, sem misst hafa Sólina sína.

RV-fjölskyldan,

Kristján og Sigríður.