Steingrímur Þorleifsson fæddist í Sólheimum í Svínavatnshreppi í A-Húnavatnssýslu 27. apríl 1932. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Grund 3. mars 2022.
Foreldrar hans voru Þorleifur Ingvarsson, bóndi í Sólheimum, f. 9.10. 1900, d. 27.8. 1982, og kona hans, Sigurlaug Hansdóttir, f. 6.6. 1889, d. 16.3. 1980. Hálfsystir Ingvars var Lára Sigríður Guðmundsdóttir, f. 4.4. 1912 (látin). Alsystkinin eru Fjóla, f. 20.8. 1928 (látin), Ingvar Þorleifsson, f. 17.3. 1930 (látinn), Svanhildur Sóley, f. 9.9. 1934 (látin) og Sigurður, f. 11.7. 1937, en hann lést í bernsku. Uppeldissystir er Sjöfn Ingólfsdóttir, f. 17.7. 1939, en hún er dóttir Láru Sigríðar.
Steingrímur giftist í Svíþjóð eftirlifandi eiginkonu sinni, Ethel Maritu Thorleifsson, hinn 23. apríl 1961. Ethel fæddist í Finnlandi 17. febrúar 1934. Foreldrar hennar voru Leonard Sigfrid Jederholm, f. 1910, og Agnes Serafina Jederholm, f. 4.9. 1900.
Börn Steingríms og Ethel eru: 1) Sigurður Þór, f. 21.3. 1961, eiginkona Fjóla Karlsdóttir. Börn þeirra eru: Brynjar Karl, unnusta Inga Lóa Peterson, Birkir Þorri og Hinrik Steingrímur. 2) Birgir Örn, f. 18.1. 1963, unnusta Inhee Park. 3) Eva Matthildur, f. 20.1. 1964, eiginmaður Ágúst Ólafsson. Börn þeirra eru: Elfa Marita, eiginmaður Hilmar Ólafsson. Börn þeirra eru Emilía Mist, Alexander Logi og Aldís Eva. Steingrímur Þór, unnusta Ásrún María Óttarsdóttir, barn þeirra er Andrea Ósk, f. 20.9. 2021. Arnar Logi. 4) Einar Már, 1.8. 1966, maki Sigþrúður Friðriksdóttir. Börn þeirra eru Lilja, Finnur Mauritz og Hilmar. Eiginkona Hilmars er Kristjana Kristjánsdóttir. Börn þeirra eru Þórhildur Malin og Ragnar Marínó.
Steingrímur kom til Reykjavíkur sem ungur maður árið 1950. Hann lærði húsgagnasmíði við Iðnskólann í Reykjavík og í framhaldinu húsasmíði auk þess sem hann vann samhliða námi. Hann hóf nám í byggingartæknifræði við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi 1956 og útskrifaðist þaðan 1960.
Á námstímanum í Svíþjóð kynntist hann Ethel og bjuggu þau í Svíþjóð um tíma eftir að hann lauk námi. Þar fæddist elsti sonurinn, Sigurður Þór. Steingrímur og Ethel fluttust til Íslands 1962. Hann vann sem byggingafulltrúi á Sauðárkróki 1964 en fluttist til Reykjavíkur 1965 þar sem hann stofnaði stuttu seinna Teiknistofu Steingríms Th. Þorleifssonar, sem síðast var starfrækt í Ármúla 5.
Útförin fer fram í Guðríðarkirkju í Grafarholti 24. mars klukkan 15.
Meira á www.mbl.is/andlat
Þar með eru þau öll farin til annarra heima, Sólheimasystkinin, börn Sigurlaugar og Þorleifs, sem upphaflega voru fimm, þau Fjóla, Ingvar, Steingrímur, Svanhildur og Sigurður, sem lést kornungur. Fyrir átti Sigurlaug eina dóttur, Láru Sigríði, móður mína. Þegar við mæðgur komum að sunnan vorið 1940, ég þá níu mánaða gömul, voru þau systkin á aldrinum 5-11 ára. Okkur var tekið opnum örmum, ég var komin til að vera. Þegar ég nú horfi til baka og minnist Steingríms minnist ég þeirra allra. Svo virðist sem eldri systkinin hafi fengið hvert sitt hlutverk við að gæta mín. Ég var látin sofa hjá Fjólu, þá 11 ára, í innsta rúminu í baðstofunni í mörg ár. Ingvar, níu ára, nennti endalaust að halda á mér og gæta mín, en margar voru hætturnar fyrir lítið barn, hann hafði þolinmæðina og ljúfmennskuna. Steingrímur, sjö ára, var kannski ekki þolinmóðasta barnapía sögunnar, en hann var fjörugur og fullur af góðum hugmyndum og fann upp á ýmsu skemmtilegu fyrir barnið. Hann mátti dragnast með mig úti fyrstu árin þegar gott var veður og hafði mig því með sér í alls kyns svaðilfarir, sem mæltust víst misvel fyrir hjá fullorðna fólkinu, en ég skemmti mér alltaf vel. Hann sagði mér líka hræðilegar sögur af draugum og forynjum, mér fannst þær allar skemmtilegar og hræddist ekkert. Svana var fimm ára og henni því ekki ætlað sérstakt hlutverk fyrstu árin, ég eyðilagði bara allt dótið hennar, reif og tætti. En hún Svana mín gætti mín síðar og var ávallt til taks fyrir mig og mína eins og hvert eitt þeirra systkina alla tíð.
Steingrímur var mikill dugnaðarforkur, verklaginn, fljótur að hugsa, fljótur að hlaupa, hugmyndaríkur og laghentur, alltaf eitthvað að bardúsa úti í skemmu, átti mjög forvitnilegt spennandi dót, t.d. hníf sem enginn mátti snerta. Sá var ætíð notaður við laufabrauðsskurðinn og auðvitað voru hans kökur alltaf fallegastar. Á berjamó fann hann alltaf bestu og sætustu berin, bláberin og hrútaberin virtust bara spretta þar sem hann fór um, en ekki við hin. Hann skrifaði allra best, teiknaði fallegar myndir, örvhentur sem hann var. Hann átti líka reiðhjól, mikið rarítet. Ekki veit ég hvar hann fékk það upphaflega, varla fengust reiðhjól í KH á þeim tíma. Hjólið var sett saman úr hlutum sem ekki áttu endilega neitt skylt við reiðhjól og endalaust þurfti eitthvað að dytta að og hjólið var ekki fyrir börn. Ég mátti fá hjólið lánað jú, ef ég bara hlypi nógu hratt en aldrei hljóp ég nógu hratt. Hann smíðaði undir mig kerru og dró mig í henni um allar jarðir, lét mig gossa frítt niður túnið þar til hjólin duttu undan. Slík tiltæki voru víst ekki vel séð af þeim fullorðnu, en gaman var það. Það var aldrei dauð stund þar sem Steingrímur var, hann var alltaf skemmtilegur, hrókur alls fagnaðar, gat verið stríðinn og hafði gaman af að skrafa og þræta við heimilisfólkið, gesti og gangandi að ég tali ekki um skólafélaga og jafnaldra, en farskóli sveitarinnar var alloft í Sólheimum og þar naut Steingrímur sín sannarlega, enda á heimavelli.
Hann fór ungur að heiman, rétt á 17. ári, og hóf nám í húsgagnasmíði, hjá Birni Þorsteinssyni frá Geithömrum. Náminu lauk hann auðvitað með góðum vitnisburði, sveinsstykkið, útskorið fallegt saumaborð, kom hann með og færði mömmu. Og áfram hélt hann ótrauður, bætti við sig húsasmíðinni, vann þá m.a. með Arnljóti Guðmundssyni frá Auðkúlu við byggingu Álfheimablokkanna svo eitthvað sé nefnt og þar voru sko ekki slegin vindhöggin. Að því námi loknu var haldið til Stokkhólms þar sem hann lærði byggingatæknifræði. Eftir nokkurra ára dvöl þar kom hann heim með skírteinið upp á vasann og það sem meira var um vert, hann kom með Ethel Maritu, eiginkonuna sína góðu, og elsta soninn Sigurð Þór, það var nú ekki svo lítið, þeim fæddust svo þrjú börn til viðbótar á nokkrum næstu árum. Steingrímur byggði, ásamt fleirum, blokk í Fellsmúla og þangað flutti stækkandi fjölskyldan í stóra íbúð, en nokkru síðar var flutt í fallega nýja húsið í Gilsárstekk, þar sem fjölskyldan bjó í allmörg ár, þaðan eiga börnin sínar æskuminningar. Þangað fluttu líka pabbi og mamma á jarðhæðina, og bjuggu nokkurn tíma. Ethel hélt utan um heimilið og börnin af umhyggju og myndarbrag. Steingrímur afkastaði miklu á langri og góðri ævi. Áhugamálin voru mörg og hann vann mikið alla tíð. Hann var vandaður fagmaður, vinmargur og bóngóður með afbrigðum, lagði sig fram um að leysa vanda þeirra fjölmörgu sem til hans leituðu.
Römm er sú taug sem rekka dregur ... átti sannarlega við um Steingrím, því þrátt fyrir að vera lengst af mjög störfum hlaðinn gaf hann sér þó tíma til að skreppa í Sólheima. Á námsárunum í Reykjavík kom hann t.d. oftast heim um jól. Væru þær ferðasögur skráðar væri það efni í heila bók, ferðir farnar um hávetur, farartækin ekki alltaf í besta lagi hvað þá vegirnir og válynd veður. Steingrímur byggði vandað og fallegt heilsárshús fyrir ofan túnið í Sólheimum, pabbi hafði grætt þar upp góðan blett og komið fyrir litlum skúr (með hjálp Steingríms). Þessi tvö hús standa þarna enn; ég og mín fjölskylda höfum átt þar sælustundir og Steingrímsbörn dvelja oft í sínu húsi, glatt er á hjalla, alltaf nóg að spjalla, svo sem um vatnið. Þau hjónin dvöldu gjarnan lengi í senn fyrir norðan. Að vetrinum skundaði hann á skíðum um sveitina, á sumrum var gengið á fjöll og alltaf var farið í Auðkúlurétt að hausti. Þau skruppu oft til Finnlands og bjuggu þá í íbúð sem Ethel á þar og fjölskyldan notar mikið, þaðan komu þau ávallt endurnærð eftir sund og sólböð.
Hin allra síðustu ár voru Steingrími erfið. Hann missti heilsuna og getuna til flestra hluta, sat mikið í gamla ruggustólnum hans afa síns, með hendur í kjöltu sér. Aldrei kvartaði hann þó. Ég átti nokkrar ljúfar stundir með honum þegar svo var komið, þar sem við skoðuðum gamla ljósmynd af Sólheimabænum, og þar var nú ekki komið að tómum kofunum. Við gátum rakið okkur inn og fram um alla ganga, kompur og kames, og oftast sammála.
Ethel og börnin hugsuðu einstaklega vel um hann og gættu að öllum hans þörfum daga og nætur svo lengi sem stætt var. Ég tel á engan hallað þótt ég nefni Birgi son hans sérstaklega, sem alltaf stóð vaktina ásamt mömmu sinni og, eftir að á Grund var komið, heimsótti pabba sinn nær daglega, eftir því sem leyfilegt var. Steingrímur lést hinn 3. mars sl. og átti þá aðeins stuttan spöl eftir í nírætt. Elsku besta Ethel mín, Siggi og Fjóla, Birgir og Ihnee, Eva og Gústi, Einar og Sigga, já stórfjölskyldan öll. Genginn er eiginmaðurinn góði, faðirinn, afinn og langafinn. Eftir sitja allar góðu minningarnar sem enginn tekur frá okkur.
Ég þakka langa, góða samfylgd. Farðu vel kæri, hafðu þökk fyrir allt og allt.
Bráðum er brotinn
bærinn minn á heiði. -
Hlýtt var þar stundum,
- hann er nú í eyði.
Man ég þá daga.
Margt var þá á seyði.
Ungur ég undi
úti í varpa grænum. -
Horfði á reykinn
hverfa fyrir blænum.
- Þar heyrði ég forðum
þytinn yfir bænum.
Handan af hafi,
heim í auðnir fjalla,
vordægrin snemma
villta hópinn kalla. -
Þá er nú sungið,
sungið fyrir alla.
Margs er að minnast.
Margt er enn á seyði. -
Bleikur er varpinn,
- bærinn minn í eyði.
Syngja þó enn þá
svanir frammi á heiði.
(Jóhannes úr Kötlum)
Sjöfn Ingólfsdóttir.