Unnur S. Káradóttir fæddist 26. apríl 1948 á Hóli á Tjörnesi. Hún lést á Heilbrigðisstofnuninni á Húsavík 16. mars 2022.

Foreldrar hennar voru Sveinbjörg Kristjánsdóttir, f. 26. desember 1019, og Kári Leifsson, f. 28. maí 1922. Systkini Unnar eru: Kristján Friðgeir, f. 9. september 1944; Guðný Heiðveig, f. 18. maí 1946, d. 9. nóvember 2014; Smári, f. 30. september 1951; Pálína, f. 13. mars 1953, d. í mars 1953.

Eftirlifandi eiginmaður Unnar er Jón Helgi Jóhannsson, f. 5. febrúar 1944 á Kambi í Aðaldal, sonur Jóhanns Jóns Jóhannessonar og Guðrúnar Helgu Sörensdóttur.

Unnur og Jón kynntust ung og hófu snemma búskap. Þau giftust 1. október 1967. Börn Unnar og Jóns eru: 1) Sören, f. 16. júlí 1966, kvæntur Berglindi Sigtryggsdóttur, f. 15. janúar 1964. Börn þeirra eru Heiðar Berg, f. 2004, og Guðrún Helga, f. 2006. 2) Tómas Örn, f. 2. febrúar 1968, kvæntur Svanhildi Jónsdóttur, f. 27. september 1976. Börn þeirra eru Thelma Dögg, f. 2000, unnusti hennar er Jóhann Bragi, f. 2000, og Sigrún Högna, f. 2003. Fyrir átti Tómas soninn Jón Helga, f. 1996, sambýliskona hans er Karen Eva, f. 1994, og saman eiga þau soninn Arnór Helga, f. 2021.

Unnur og Jón Helgi bjuggu alla tíð í Víðiholti í Reykjahverfi þar sem þau stunduðu búskap nær eingöngu með kýr og að síðustu skógrækt.

Útför Unnar verður gerð frá Húsavíkurkirkju í dag, 26. mars 2022, klukkan 14.

Sárt er að hugsa til þess að fá ekki að sjá þig aftur elsku amma, í dag minnumst við ekki bara ömmu okkar heldur okkar bestu vinkonu og ráðgjafa. Frá upphafi hefur þú staðið okkur við hlið í gegnum súrt og sætt og viljum við þakka þér fyrir allt saman. Erfitt er að hugsa til þess hve lífið getur verið ósanngjarnt, en þú vissir það þegar elsku Guðný systir þín lést og við vitum að hún tekur vel á móti þér og líklega sitjið þið saman að spila akkúrat þessa stundina. Amma var engin venjuleg kona, hún var harðjaxl, gjafmild, góð og ljómaði alltaf af gleði þegar við vorum allar saman, enda ekki annað hægt þar sem var alltaf fjör hjá okkur. Amma gerði allt fyrir okkur og með okkur, það var alveg sama hvaða fíflaskapur var í gangi hjá okkur systrum, amma tók alltaf þátt og hló mikið. Oft flugu þó nokkur ljót orð en það var henni líkt. Amma var skemmtilega orðljót en þegar við vorum yngri ýttum við oft undir það með að hvísla í eyrað á afa og láta hann berja í borðið, svo glös fóru á flug, þá varð amma alveg óð. Amma var okkar fyrsti og stærsti aðdáandi og auðvitað sá allra besti. Fylgdi okkur alltaf alla leið í hestamennskunni, mætti alltaf á mót þegar hún gat og ef það vantaði hjálp í hesthúsinu að moka var hún fljót að taka upp skófluna. Þegar við komum í heimsókn var alltaf kaffi og ekki hvaða kaffi sem var heldur var öllu tjaldað til og oftast búið að baka týgl sem var uppáhaldskakan okkar. Eitt sem amma kenndi okkur var að virða alla í kringum okkur, hún þoldi ekki stríðni og einelti og lagði hún mikla áherslu á að við værum góð við annað fólk. Þegar við fluttum suður var erfitt að flytja í burtu frá þér elsku amma en auðvitað fundum við okkar leiðir til að tala saman. Þá keypti þú þér ipad og fékkst þér snapchat og klikkaðir sko ekki á því að senda á hverjum degi og spyrja hvernig staðan væri hérna hinum megin og hversu vitlaus okkur fyndist nýi Bold and the beautiful-þátturinn. Amma og afi voru miklir ferðalangar og ferðuðust mikið svo að þrátt fyrir að við flyttum suður sáum við þau mikið og voru þau dugleg að birtast óvænt. Auðvitað var farið í góðan bíltúr í hvert skipti til að skoða eitthvað skemmtilegt. Við munum aldrei gleyma haustinu 2020, þá bjuggum við hjá ykkur í nærri þrjár vikur og þá var sko gaman, spilað öll kvöld langt fram eftir, oft farið út að borða og amma tók ekki annað í mál en að hún myndi borga. Einn daginn ákváðum við að fara í bíltúr, fórum langan hring sem átti að enda með að skoða Dettifoss og var það aðalmál ferðarinnar. Leiðin var eitthvað óvenjulöng og endaði með að við keyrðum marga kílómetra fram hjá afleggjaranum, þá fékk afi að heyra nokkur ljót orð frá henni ömmu en í staðinn stoppuðum við á kaffihúsi og fengum okkur heitt kakó. Spilakvöldin voru bestu kvöldin, þá spiluðum við fram á nótt og spjölluðum um allt í heiminum, það var svo gott að tala við þig elsku amma, allt gat maður sagt og alltaf fékk maður hlý og góð svör, já eða nokkur orð fengu að fjúka því eins og hefur komið fram varst þú skemmtilega orðljót, en alltaf skildir þú okkur. Sigrún gleymir því aldrei þegar þú og afi komuð eitt sinn hingað suður. Þá fór hún að sýna þér nýja plötuspilarann sinn og síðar um daginn lögðust þær saman upp í rúm og settu Villa Vill á fóninn. Næst þegar Sigrún kom norður var amma auðvitað búin að fá sér glænýjan plötuspilara og að sjálfsögðu varð Sigrún að gefa henni Villa Vill-plötuna sína. Við eigum óteljandi minningar saman en áttum þó eftir að gera margt fleira saman, en við höfum þig með okkur í hjartanu og vitum að þú fylgist með okkur. Elsku amma, það verður erfitt að geta ekki leitað til þín því alltaf náðir þú að hughreysta okkur sama hvert vandamálið var. Erfitt er að hugsa og sætta sig við að þú sem varst svo full af lífi sért farin okkur frá en eitt mátt þú vita, að þú og okkar minningar saman munu lifa með okkur, við munum alltaf minnast þín og okkar tíma saman og erum þér þakklátar. Þín verður sárt saknað, elsku amma.
Ávallt þínar,

Thelma og Sigrún.