Kristján Albert Guðmundsson fæddist í Aðalvík á Hornströndum 29. apríl 1929. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík 14. mars 2022.
Foreldrar Kristjáns voru Guðmundur Halldórsson frá Rekavík og Margrét Bjarnadóttir frá Miðvík, og bjó fjölskyldan lengst af á bænum Sólvöllum, Látrum í Aðalvík þangað til byggð þar lagðist af.
Eldri systkini Kristjáns voru Laufey Jakobína, f. 27. maí 1914, d. 29. janúar 2013, Sigríður Kristjana, f. 22. apríl 1916, d. 15. desember 1990, Halldór, f. 10. júlí 1922, d. 28. febrúar 2003, Bjarnveig Jensey, f. 16. júní 1926, d. 23. júlí 2007, og yngri systir Ingibjörg Sólrún. f. 29. janúar 1936.
Kristján giftist árið 1962 Gurli Doltrup kennara, þau skildu. Synir þeirra eru Halldór, f. 22. október 1963, verkfræðingur, og ættleiddur Finnur, f. 1. febrúar 1965, verkamaður.
Árið 1988 giftist Kristján Sigríði G. Aðalsteinsdóttur, f. 17. janúar 1930 á Látrum í Aðalvík, d. 4. júlí 2020. Hún átti fyrir börnin Braga Má Baldursson, Jónu Kristínu Baldursdóttir, Hjálmtý Rúnar Baldursson og Friðrik Baldursson.
Kristján útskrifaðist úr Kennaraskólanum og kenndi víða um landið, þar á meðal í Skagafirði, í Austurbæjarskóla í Reykjavík, á Selfossi og á Varmalandi í Borgarfirði. Hann var skólastjóri Seljalandsskóla undir Eyjafjöllum og sérkennari í Digranesskóla í Kópavogi. Hann hætti kennslu vegna aldurs. Hann ritaði nokkrar kennslubækur til sérkennslu og eru þær enn í notkun.
Með öðrum úr ættinni endurbyggði Kristján bernskuheimili sitt í Aðalvík og dvaldi þar flest sumur.
Útför Kristjáns fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 30. mars 2022, og hefst athöfnin klukkan 13.
Okkur systkinum er ljúft að minnast Stjána eins hann var alltaf kallaður af
fjölskyldunni. Við vorum svo heppin að vaxa úr grasi í fjölskyldu sem náði
langt út fyrir foreldrana. Það voru mikil tengsl á milli systkina beggja
foreldra okkar og ætíð glatt á hjalla í eldhúsinu heima, því sífellt voru
ættingjar að koma í kaffi. Bræður mömmu, Dóri og Stjáni, voru þar
fastagestir og mikið erum við þakklát fyrir allar minningarnar. Bernskuár
Hemma bróður míns voru hjá móðurforeldrum í Aðalvík og síðar í Bolungarvík
svo hann ólst upp með Stjána og koma nokkrar minningar Hemma hér: Eitt sinn
áttum við að reka féð úr túninu í Tröð og vorum komnir nokkuð hátt upp í
hlíðina þegar Stjáni segir: Eigum við að fara upp á topp á Traðarhyrnu?
Ég var berfættur en Stjáni sagði að það væri allt í lagi og tók mig á
herðar sér og bar mig upp mestalla leiðina. Ég held ég sé sá eini sem hefur
farið berfættur upp á Traðarhyrnu, segir Hemmi. Og önnur minning Hemma er:
Eitt sinn vildi ég fá Stjána til að tefla við mig, en hann var kvöldsvæfur.
Ég tuðaði þar til hann lét undan en útafliggjandi. Ég varð að vekja hann í
hvert sinn sem hann átti leik. Ég sagði honum hver minn leikur hafði verið
og hann sagði mér sinn mótleik, hann horfði aldrei á taflborðið, hann hafði
það í huganum. Stjáni var kennari af lífi og sál og einstaklega góður í að
kenna börnum sem áttu erfitt með að læra. Honum fannst vanta bækur fyrir
þau börn, svo hann skrifaði litla sögu um Hemma og Grétar systurson sinn
sem er bráðfyndin bók og var notuð við lestur í barnaskólum, síðar bætti
hann annarri barnabók við, Sigga og álfkonan, báðar bækurnar voru gefnar
út af Námsgagnastofnun og hlaut sú síðari viðurkenningu Námsgagnastofnunar
í samkeppni fyrir bækur á léttu lesmáli. Fyrsta setning bókarinnar er
þessi: Sigga mín, þú skalt ekki skammast þín fyrir að gráta. Allir þurfa
að gráta þegar þeim líður illa. Þetta lýsir Stjána einstaklega vel, hve
næmur hann var á tilfinningar annarra og skilningsríkur. Hemmi minnist þess
er reikningssnillingurinn í fjölskyldunni hann Dóri var að reyna að kenna
honum að reikna þríliðu og gekk það illa, þá kom Stjáni og útskýrði
aðferðina fyrir honum og Hemmi skildi það strax, þetta sýnir hve góður
kennari Stjáni var. Eitt sinn fóru Hemmi og Stjáni út í Gróttu og svo
uppteknir voru þeir við að skoða og Stjáni að segja frá því sem þar var að
finna að þeir gleymdu að aðgæta aðfallið og urðu nær því að synda í land.
Ég get ímyndað mér að þá hafi Stjáni hlegið. Já, margar eru minningarnar,
eins og t.d. þegar þeir bræður Dóri og Stjáni björguðu jólunum hjá okkur
með því að hlaupa með logandi jólatréð út í snjóinn eftir að Hemmi hafði
blásið á kertið á trénu sem í þá daga var skreytt með logandi kertum. Ein
minning mín er þegar ég var stödd í Stakkadal og sé mann koma labbandi yfir
sandinn og er hann að búa sig undir að vaða yfir ána. Hann er með ameríska
derhúfu sem ekki var algengt í Aðalvíkinni í þá daga. Hann fer úr skónum
til að vaða yfir ána og brettir upp skálmarnar á buxunum, þá sé ég skína í
hvítar síðar nærbuxur og veit strax að þetta er Stjáni að koma í heimsókn.
Ekki þekktirðu mig með þessa amerísku húfu, segir hann sposkur á svip er
hann heilsar og ég lét sem satt væri. Svona viljum við systkinin minnast
elsku Stjána, eins og hann er í minningu okkar, yndislega góður,
skilningsríkur og skemmtilegur og fékk mann til að hlæja öllum stundum. Við
minnumst hans með gleði og þakklæti fyrir að hafa þekkt slíkt ljúfmenni og
leiðbeinanda sem hann var okkur og öðrum börnum. Blessuð sé minning hans og
njóti hann vel hvíldarinnar. Við vottum Halldóri syni hans og Ingu systur
hans og öðrum aðstandendum innilega samúð.
Margrét og Hermann Sölvabörn.