Hólmfríður fæddist í Reykjavík 7. desember 1930. Hún lést á Landakotsspítala 26. mars 2022.
Foreldrar hennar voru hjónin Árni Jónasson, f. 1897, d. 1983, húsasmíðameistari og Þorbjörg Agnarsdóttir, f. 1905, d. 1998, húsmóðir.
Eiginmaður Hólmfríðar var Bjarni Jónsson, f. 1927, d. 2014, fv. verslunarskólakennari. Foreldrar hans voru hjónin Jón Bjarnason, f. 1892, d. 1929, héraðslæknir í Borgarfirði, og Anna Þorgrímsdóttir, f. 1894, d. 1994, húsmóðir.
Synir Hólmfríðar og Bjarna eru: 1) Brjánn Árni, f. 1954, læknir í Reykjavík, eiginkona hans er Steinunn Gunnlaugsdóttir, f. 1959, geðhjúkrunarfr. Dætur þeirra eru Unnur Hólmfríður, f. 1990, lögfr., í sambúð með Gauta Þormóðssyni, f. 1987, verktaka. Sonur Unnar er Baldur Snorri Hafsteinsson, f. 2014; Elva Bergþóra, f. 1992, talmeinafr., í sambúð með Degi Hilmarssyni, f. 1986, rafiðnfr. 2) Bolli, f. 1957, læknir í Reykjavík, eiginkona hans er Ellen Flosadóttir, f. 1967, tannlæknir. Synir þeirra eru Fannar, f. 1996, læknanemi og Fjalar, f. 2001, sálfræðinemi. Sonur Bolla er Gunnlaugur, f. 1982, tölvunarfr. Eiginkona Gunnlaugs er Unnur Þorgeirsdóttir, f. 1972, tónlistarkennari, synir þeirra eru Þorgeir, f. 2007, Bjarni, f. 2009 og Eyjólfur, f. 2014.
Hólmfríður ólst upp í Reykjavík og útskrifaðist frá Handíða- og myndlistaskóla Íslands 1951. Við tók víðtæk þekkingaröflun, m.a. með námsdvöl í hönnun og véltækni hjá Bernina í Kaupmannahöfn. Hún sinnti kennslutengdum störfum allan starfsferilinn. Hún hvatti til frelsis við listsköpun í takt við framþróun nútímans oft gegn ríkjandi hefðum. Hún var brautryðjandi í kennslu textílgreina og kenndi á öllum skólastigum, m.a. við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Listaháskóla Íslands en við Kennaraháskóla Íslands frá 1976 þar sem hún var skipuð prófessor í textílmennt árið 1997, þá fyrsti sjónmenntakennarinn sem hlaut þann titil á Íslandi. Hún skrifaði í fræðirit og sat í ritnefndum. Hún gegndi trúnaðarstörfum hjá skólarannsóknadeild og þróunardeild menntamálaráðuneytisins á vegum KHÍ, m.a. við endurmenntun kennara, tilraunakennslu og umbyltingu námskrárgerðar í mynd- og handmenntakennslu. Hún var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 2009 fyrir framlag sitt til listgreinakennslu í íslensku skólakerfi.
Hólmfríður var virkur myndlistarmaður. Hún hélt fyrstu einkasýninguna í pappírslist hérlendis og var einn frumkvöðla pappírslistar í Evrópu á 8. áratugnum. Hún var félagi í fjölda samtaka myndlistarmanna um allan heim, m.a. British Crafts Centre sem var deild innan British Council sem stóð fyrir skapandi framþróun handverks og lista í tengslum við Royal College of Art í London. Hún hélt einkasýningar hérlendis og erlendis og tók þátt í samsýningum, mörgum alþjóðlegum. Mörg verka hennar eru í eigu listasafna, m.a. Listasafns Íslands. Hún hannaði altarisbúnað og hökla í eigu Hönnunarsafns Íslands. Hún var heiðursfélagi FÍM og hlaut fjölda styrkja og alþjóðlegar viðurkenningar.
Útförin fer fram í Bústaðakirkju í dag, 7. apríl, kl. 15.
Hólmfríður Árnadóttir hafði mikil áhrif á líf okkar systranna. Það mætti segja að Hólmfríður hafi verið guðmóðir okkar, ekki síst eftir að móðir okkar, Ingigerður Þórey Guðnadóttir, lést árið 1982. Þær höfðu verið nánar vinkonur alla tíð eftir að Hólmfríður kenndi henni í handavinnukennaradeild Kennaraháskóla Íslands. Hólmfríður hvatti mömmu til að mennta sig sem handavinnukennari og starfaði hún við það þar til hún lést. Textíláhugann fengum við systurnar frá móður okkar og Hólmfríði. Það voru ófáar stundirnar sem við eyddum með þeim að lita batík í litlum skúr á lóð Kennaraháskólans. Þar fengum við systurnar að teikna með vaxi á léreft sem var dýft í litabað og vaxið síðan straujað úr. Ég man vel eftir nákvæmri leiðsögn Hólmfríðar í því hvernig átti að krumpa vaxið í efninu til að ná fram fínum línum þegar efninu væri dýft í litabaðið. Henni var það eðlislægt að leiðbeina og kenna. Seinna heimsóttum við Hólmfríði oft í risið í Kennaraháskólanum þar sem hún hafði skapað ævintýraheim í kennslustofunni sinni. Hólmfríður var ávallt á undan sinni samtíð og fór sínar eigin leiðir í mörgu sem hún tók sér fyrir hendur. Eitt sinn fóru mamma og Hólmfríður saman á kvöldnámskeið í hugleiðslu, líklega árið 1978. Ég var þá níu ára og fannst þetta uppátæki hálfundarlegt og vissi ekki hvað mér ætti að finnast um þetta. Hólmfríður tók okkur systurnar oft út að borða og gjarnan á framandi veitingastaði, eins og Náttúrulækningafélagið og Krákuna á Laugavegi 22. Það voru einnig ófá sýningarröltin sem við fórum á með henni og móður okkar. Í seinni tíð höfðum við Hólmfríður mikið samband og þá snerust samtölin oft um myndlist, skólamál og textíl. Við gátum endalaust talað saman og á þeim árum sem ég bjó erlendis vorum við í símasambandi. Í einu slíku símtali snerist umræðuefnið um ákveðið vandamál við að stytta ermi á flókinni prjónaðri peysu. Ég lýsti vandanum fyrir Hólmfríði í gegnum símann, hún skildi fullkomlega út á hvað málið gekk og lýsti fyrir mér hvernig ég gæti leyst þessa flóknu prjónaglímu. Í þessu samtali fann ég sterkt fyrir hennar djúpu þekkingu á öllu tengdu textíl og hæfileika hennar til að miðla sinni reynslu. Menntamál voru stór hluti af hennar ævistarfi samhliða myndlistinni þar sem hún gegndi stöðu prófessors við Kennaraháskóla Íslands. Þessi áhugi hennar til að miðla þekkingu sinni hafði djúp áhrif á okkur systurnar því við höfum allar komið mikið að kennslu.
Það var greinilegt að heimur Hólmfríðar var ekki afmarkaður við stofuna í Hvassaleitinu, því það voru mörg málefni sem lágu henni á hjarta. Jafnframt því að pæla í verkum fyrir sýninguna framundan ræddi hún um kennslumál og stöðu kvenna á þeim vettvangi og á vettvangi myndlistar í gegnum tíðina. Þetta var mikil barátta og sýningin mikilvæg til að hnýta saman marga lausa enda. Ég vil þakka Hólmfríði fyrir það sem hún hefur gert fyrir okkar fjölskyldu og allan hennar stuðning í gegnum tíðina, betri fyrirmynd í lífinu er vart hægt að hugsa sér. Það var leitt að hún náði ekki að sjá dætur mínar vegna covid- ástandsins en hún hitti Ingigerði Úllu hennar Gerðar og hafði mjög gaman af því að hitta nöfnu gömlu vinkonu sinnar. Ætli þær séu ekki komnar aftur saman á sýningarrölt og gott spjall.
Hildur, Gerður og Guðrún Bjarnadætur.
Hildur, Gerður og Guðrún Bjarnadætur