Ingibergur Þór Kristinsson fæddist í Keflavík 18. desember 1949. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á heimili sínu 24. mars 2022.

Foreldrar Ingibergs voru hjónin Kristinn Jónsson, f. 3. febrúar 1897, d. 11. október 1982, og Kamilla Jónsdóttir, f. 11. október 1904, d. 17. október 1958. Systkini Ingibergs eru: Jóhanna, f. 11. október 1929, d. 21. janúar 2013; Jón Marinó, f. 21. september 1930, d. 1. apríl 2012; Júlíus Friðrik, f. 26. september 1932, d. 7. apríl 1986; stúlka, f. 16. maí 1938, d. 16. maí 1938; Sigurður Birgir, f. 28. nóvember 1939; Eggert Valur, f. 7. ágúst 1942; Sólveig María, f. 28. maí 1947.

Ingibergur giftist Guðrúnu Júlíusdóttur 25. ágúst 1975. Foreldrar Guðrúnar eru Júlíus Rafnkell Einarsson, f. 6. júlí 1930, d. 2. mars 2008, og María Guðrún Ögmundsdóttir, f. 7. janúar 1935.

Börn Ingibergs og Guðrúnar eru Kamilla, f. 22. apríl 1979, og Ingi Þór, f. 5. október 1981, giftur Önnu Margréti Ólafsdóttur, f. 30. desember 1981. Börn þeirra eru Bergrún Björk, f. 2007, Skarphéðinn Óli, f. 2009, og Rannveig Guðrún, f. 2018. Fyrir átti Ingibergur Lárus Kristján, f. 7. janúar 1971, með Guðrúnu Kristínu Ívarsdóttur, f. 16. desember 1953. Lárus er giftur Amal Quadi El Idrissi, f. 18. mars 1978. Börn þeirra eru Ingibergur Karim, f. 2003, og Ísabella Sara, f. 2006.

Ingibergur var fæddur og uppalinn í Keflavík. Hann lauk meistaraprófi í húsasmíðum frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og starfaði við smíðar auk þess sem hann spilaði á trommur í hljómsveitum frá unglingsaldri.

Útför fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 7. apríl 2022.


Nú þegar minn guðdómlegi bróðir Ingibergur hefur kvatt þessa jarðvist, er ekki laust við að minningarnar streymi fram. Ég kynntist Inga þegar Hinir Demónísku Neanderdalsmenn leituðu að trommuleikara ljósum logum. En sú leit hafði lítinn árangur borið, vegna mjög svo framúrstefnulegra hugmynda okkar félaganna um tónlistarstefnu sem vafalítið leiddi til þess að þeir, sem þó þorðu að reyna sig, voru snöggir að hypja sig og hafa ekki litið tónlist sömu augum eftirleiðis - og eru þeir hér með beðnir afsökunar. En Ingi birtist galvaskur eins og frelsandi lukkuriddari, einhverjum plús tuttugu árum eldri en við. Með gráa makkann tekinn saman í tagl, grásprengt skeggið og kringlóttu gleraugun. Og eftir að við höfðum útskýrt á allgóðu mannamáli fyrir Inga lagið, sem innihélt einhverja fimmtán kafla og ýmsar tóntegundir og taktafbrigði, sló Ingi fyrsta taktinn. Ég vildi að ég gæti sagt að hann hefði tekið með okkur flugið í einni svipan og gagnkvæmur skilningur hefði ríkt. En svo var aldeilis ekki. Skelfingarsvipurinn á honum var slíkur, að við engu öðru var að búast en hann ryki á dyr hið fyrsta og hyrfi eins og hinir trommuleikararnir. En Ingi var nú einu sinni þannig gerður, að ef hann stóð frammi fyrir jafn stórbrotnum lífgátum og tónlist Hinna Demonísku Neanderdalsmann var í upphafi, þá bretti hann upp ermar og fann leið út úr vandanum. Með bros á vör, oftast nær, en svo líka með spurnarsvip. Og hér skal engu logið um það að stundum þurfti margar atrennur og endalausar bollaleggingar til að ná svo mikið sem einhverjum tökum á viðfangefninu, en Inga tókst það ævinlega á endanum. Og þá var ekki að sökum að spyrja, framlag hans var engu líkt. Hrein og tær snilld. Enda var Ingi góður og æði sérstakur trommari og stíll hans var einstakur. Hæglyndið og ljúfmennskan settu síðan fljótt svip á störf hljómsveitarinnar og kannski má fullyrða að þessi öldungur (eins og við litum á hann í árdaga, ungu mennirnir), hafi náð að tempra sköpunargáfuna sem vall fram í svo ríkum mæli, að engan enda ætlaði að taka. Hljómsveitin tók upp á því að leika kannski sama stefið vikum, mánuðum jafnvel árum saman, og var mikið spáð og spekúlerað hvernig réttast væri nálgast hlutina. Ingi var öðrum mönnum fremri í því að dúkka upp með nýjar nálganir á lög. En tvennum sögum fer að því hvort hans ríka hugarflug hafi mestu um ráðið, eða bara hans gloppótta minni. Hvort heldur sem var öðluðust lögin nýjar víddir fyrir vikið og það var það sem mestu máli skipti. Von bráðar fór áhrifa þessa öldungs að gæta í öllu sem snerti hljómsveitina. Hinir Demonísku Neanderdalsmenn breyttust til dæmis í Hina Guðdómlegu Neanderdalsmenn, vegna draumfara hans. En Inga dreymdi meira en flesta menn, og voru draumar hans ljóslifandi og í háskerpu alla tíð. Draumurinn sem varð til þess að nafn hljómsveitarinnar breyttist var þó sá afdrifaríkasti og mátti Ingi vart við sig ráða, er hann greindi okkur félögunum frá draumnum. Í stuttu máli birtist honum hvítklædd vera, umlukin ljósi á flesta vegu, og uppástóð Ingi að þetta hlyti að vera Elvis, kominn til hans í draumi til að segja honum að skipta hið snarasta úr demonískum háttum yfir í guðdómlega. Greindi Ingi okkur frá draumnum með slíkum sannfæringarkrafti, að aldrei efaðist neinn af okkur um nauðsyn þess að breyta nafni hljómsveitarinnar og er ekki heldur úr vegi að ætla að lífssýn okkar félaganna hafi líka tekið stakkaskiptum eftir þessa uppákomu. En áhrif Inga eru ekki þar með upptalin, því annar eiginleiki hans og kannski sá merkasti var hvernig hann gat hugsað langt fram í tímann og gert áætlanir. Slíkt háttalag var framandi ungum mönnum, sem oftast nær gerðu sér augnablikið að góðu. Gott dæmi um þetta er draumsýn Inga um fallega húsið sem hann og elskuleg Rúna hans voru að endurgera um þessar mundir. En ekki einungis talaði Ingi í andtakt um hvernig hann hugðist breyta húsinu sjálfu, heldur bætti hann um betur og sagðist líka ætla að umbreyta skúrnum sem stóð úti á lóð. Skyldi þar innan skamms verða klárt æfingarhúsnæði, sem svo í fyllingu tímans skyldi umbreytast enn frekar í hljóðver. Til að bæta síðan gráu ofan á svart útlistaði Ingi nákvæmlega hvernig hann hugðist breyta lóðinni umhverfis húsið í lystigarð - með tilheyrandi tjörnum, garðálfum, óróum, vindhönum og styttum. Reyndar gekk Ingi svo langt í lýsingum sínum að um tíma efuðumst við hljómsveitarfélagarnir um geðheilsu hans - enda minntu þær óþægilega á orðræðu Bítlanna, þegar þeir voru á sínum verstu sýrutrippum, og létu hugann reika til hæstu hæða. En auðvitað reyndist ótti okkar með öllu ástæðulaus og draumsýnir Inga og skýjaborgir urðu að veruleika, beint fyrir framan nefið á okkur, hvar við mættum ósjaldan til æfinga og annarrar tónlistartengdrar iðju í skúrinn góða. Mig langar að lokum að þakka Inga rausnarskapinn, vináttuna, hlýjuna, húmorinn, hjálpsemina og elskulegheitin. Á slíku var aldrei skortur. Okkur var iðulega boðið inn í kaffi eða mat þegar þannig stóð á og fjölskyldan á Norðfjörðsgötunni var einstök. Rúna, Ingiþór, Kamilla, Lárus. Ykkur votta ég mína dýpstu samúð. Ást og friður, kæri bróðir, hvíl í friði. Bið að heilsa Elvis.




Þröstur Jóhannesson.