María Aðalheiður Sigmundsdóttir fæddist í Reykjavík 3. október 1958. Hún lést á sjúkrahúsi á Spáni 22. desember 2021 í kjölfar alvarlegs umferðarslyss.
Foreldrar Maríu voru Vilborg Sveinsdóttir og Sigmundur Sigurbjörnsson bóndi á Brandagili í Hrútafirði. Þegar María var fimm ára flutti fjölskyldan í Lönguhlíð 19 í Reykjavík þar sem þau bjuggu alla tíð síðan. Hálfsystir Maríu er Sigfríður V. Ásbjörnsdóttir.
Eiginmaður Maríu var Gianpiero Venditto, f. 1954 í Eþíópíu, d. 3. september 2016 í Reykjavík.
María tók stúdentspróf frá Kvennaskólanum. Hún útskrifaðist sem landfræðingur frá Háskóla Íslands og stofnaði fyrirtækið Landkosti ehf. á Selfossi ásamt bekkjarsystkinum sínum úr landafræðinni. Hún starfaði þar um tíma við landmælingar og kortagerð, tók m.a. þátt í kortagerð vegna útgáfu upphaflegs Íslensks söguatlass.
María bjó í Danmörku á tveimur tímabilum ævinnar, þar sem hún fyrstu árin stundaði framhaldsnám, fyrst í landafræði og síðan í margmiðlunarfræðum. Seinna tímabilið í Kaupmannahöfn var hún virk í félagsmálum Íslendingafélagsins í Jónshúsi, var m.a. ritstjóri Íslandspóstsins í nokkur ár. Á Kaupmannahafnarárunum stundaði hún ýmis störf, t.d. hjá póstinum og við aðhlynningu. Eftir komuna til Íslands um 2008 vann María sem stuðningsfulltrúi í Háteigsskóla.
Frá 2018 bjó María á Spáni. María var listræn og samdi bæði ljóð og teiknaði. Hún var mikil baráttukona í orði og verki. Hún lagði mikið af mörkum í málefnum öryrkja en aðeins örfáum dögum fyrir útför hennar vannst sigur í baráttumáli hennar er dómur féll í Hæstarétti öryrkjum í vil.
Útför Maríu fer fram frá kirkju Óháða safnaðarins við Háteigsveg í dag, 11. apríl 2022, klukkan 15.
Við vorum báðar svolítið seinteknar, ólíkar um margt, enda fæddar inn í ólíkar aðstæður, hún í óöryggi sem fylgdi óumflýjanlegum andlegum veikindum móður. En Mæja hafði erft háa eðlislæga greind og víðsýni þessarar sömu móður, baráttuþrek föðurins og seiglu þeirra beggja, það varð aldrei frá henni tekið. Mæja átti eina systur sammæðra. Milli þeirra voru átta ár og einhvern veginn var þeim ekki ætluð mikil samvera í uppvextinum. Þær urðu því nánari sem árin færðust yfir, um það vitnaði gælunafnið sem Mæja notaði á systur sína sem ávarp. En oft var líka vík milli vina.
Samvinna okkar Mæju hófst á Háskólaárunum, þá lenti ég stundum í hópi með þeim Salvöru. Svo varð Einar Bogi smám saman sjálfsagður hlutur af þessu teymi, hvort sem var í verkefnavinnu eða í gamla Stúdentakjallaranum yfir kaffi, þetta var sko fyrir tíma bjórsins á Íslandi. Síðan skildi leiðir um sinn, hvert fór sína leið og Mæja til Kaupmannahafnar, en þar stefndi hún á að komast í nám. Sumarið 1986 þegar Mæja var í sumarheimsókn stofnuðum við fyrirtæki sem við kölluðum Landkosti, hin tvö, vinir okkar og bekkjarfélagar fylltu hópinn sem til þurfti á þeim tíma. Hin tvö fóru síðan sína leið, annað til Bandaríkjanna og hitt út á land. Einhver þrákelkni og löngun okkar Mæju til að fara eigin leiðir og ótroðnar slóðir var einlæg og rík. Vináttan efldist í gegnum sameiginlega sýn og það sem nú kallast átök við frábærar áskoranir. Ég bjó ein með lítinn son en hún var í Köben á veturna. Mæja var frábær samherji, hún var skipulögð, hugmyndarík og útsjónarsöm, auk þess kryddaði hún andrúmsloftið með frábæru skopskyni og hljóðlátri hlýju. Það var fyrir hennar eiginleika sem ég vogaði að semja um umfangsmikið verk, kortagerð í Íslenska söguatlasinn, en þar vissi ég að við Mæja bættum hvor aðra upp, vorum sterkar saman. Að þessu verki kom stór hópur alls konar skemmtilegra fræðinga, við nutum þess báðar í botn að stýra þessum verkhluta.
Síðan skildi leiðir, Mæja flutti til alfarin til Kaupmannahafnar en ég varð eftir hér heima með soninn minn litla, Helga Hauk, og verkefnin okkar Mæju urðu lifibrauð okkar. Samverustundir okkar vinkvenna urðu færri um sinn og nú minna nokkur handskrifuð bréf í kommóðuskúffu á þennan tíma. Net, heimilistölvur og farsímar voru enn langt undan.
Þegar við mæðgin heimsóttum Mæju til Köben 1989 var hún var farin að búa með Gianpiero, hjartahlýja eþíópíska Ítalanum með hrafnsvarta hrokkna hárið sem hún hafði kynnst á kollegíinu. Þau áttu vel saman, með sama skopskyn og lífssýn, málefnalegir bókaormar, pólitísk og áhugasöm um mannlífið og náttúruna, voru frábærir gestgjafar, barngóð og skemmtileg. Þau voru sálufélagar, veittu hvort öðru gagnkvæmt öryggi sem hafði verið hvikult í lífi þeirra beggja. Af kynnunum við þau varð maður sífellt fróðari og víðsýnni.
Mæja og Gianpiero fóru gjarnan suður á bóginn í fríum sínum, þau voru bæði frábærir sögumenn og leikarar sem höfðu gaman af að spegla sig í ólíkri menningu og umhverfi hins. Gianpiero kynntist Mæju fjölskyldu, íslensku alþýðufólki sem vann hörðum höndum til að koma börnunum sínum til manns. Honum fannst t.d. ómetanlegt að kynnast trillusjómennsku af eigin raun en hann reri frá Flateyri með mági sínum eitt bjart og fallegt sumar. Mæja kunni að meta ítalsk-eþíópísku fjölskylduna sem samanstóð af litríku fólki. Ég gleymi aldrei þegar þau lýstu með orðum og látbragði ömmunum tveimur sem mættu báðar í veglegt ítalskt í brúðkaup Cleopötru, systur Gianpieros. Báðar höfðu lifað tímana tvenna. Önnur var hæglát, eþíópísk, hin ör, ítölsk. Aðferðir þeirra við að laga gott morgunkaffi endurspegluðu lífstaktinn hjá hvorri um sig, og kannski líka þjóðerni. Sú ítalska vildi sterkt kaffi, strax, almennilegt þykkt espresso. Sú eþíópíska lagaði kaffi að sínum þjóðarsið, þetta var löng athöfn þar sem byrjað var að brenna baunir þannig að húsið og sálin fylltist höfgum ilmi. Passlega brenndar baunirnar voru síðan malaðar og kaffiduftið síðan sett í stóran ketil með sjóðandi vatni. Enn leið löng stund þar til kaffið varð tilbúið. Þetta var heilög stund, það lá aldrei á.
Önnur saga sem mér stendur enn lifandi fyrir hugskotssjónum var ferðasaga þeirra hjóna úr nokkurra vikna ferð til Indlands, en þangað fóru þau á eigin vegum. Þau féllu vel í hóp innfæddra, fíngerð, bæði dökkeyg og dökkhærð, hann hörundsdökkur og hún fljót að dökkna vel í sólinni. Þau nutu þess að vera innan um innfædda án þess að vekja athygli og soguðu til sín framandi menningu í fjölbreyttu landi og oft ótrúlegri mannmergð. Þar kom margt fyrir augu og eyru sem spannaði allan skalann frá mjög átakanlegu yfir í það sem var mjög spaugilegt í augum Evrópubúanna. Það var sama hvort var mannmergðin, mannvirkin, líkamleg nánd við náungann í yfirfullum strætóum og lestum, gestrisnin og sundurleit indversk þægindi eða matargerðin, betlandi stéttlausir eða forríkt forréttindafólk. En kyrrlát og tær náttúran á afskekktari stöðum var algjör andstæða. Ég er viss um að aldrei hefur verið hlustað eins opnum eyrum eða annað eins hlegið við eldhúsborðið hjá Mæju og Gianpiero eins og þegar þau sögðu þessa einstöku og ótrúlegu ferðasögu í góðra vina hópi.
Enn liðu ár, ég kynntist Bjarna og við eignuðumst Guðrúnu Heiðu og enn var farið milli landa. Bjarna mínum og Gianpiero varð vel til vina. Við hittumst yfirleitt árlega, ýmist í Köben eða á Kirkjubæjarklaustri. Þau sýndu okkur borgina. Við launuðum gestrisnina í Köben með hálendisferðum og sveitasamveru, þetta voru upplifunar- og sögustundir, gæðastundir þar sem börnin okkar voru líka borin á höndum. Síðar naut Helgi Haukur gestrisni þeirra á unglingsárum þegar hann ferðaðist einn til Danmerkur.
Þau hjón fluttu til Íslands rétt fyrir hrun. Þau fengu góða íbúð í Stigahlíð þar sem þau bjuggu með kisunum sínum tveimur, Móu og Sjarmi. Hann vann í matvælaiðnaði, hún sem stuðningsfulltrúi í Háaleitisskóla. Þar varð aðalskjólstæðingur Mæju drengur með ADHD, en þau náðu einstöku sambandi eins og henni var einni lagið þegar börn voru annars vegar. Þegar búsáhaldabyltingin varð, tók Mæja fullan þátt, enda þau hjón sömu fórnarlömb og aðrir sem þurftu að greiða af íbúðinni sinni af lágum launum. Hún naut þess að taka þátt í að skapa söguna og taka þátt í baráttu þar sem kallað var eftir siðbót. Nú minnir sérsaumuð Siðbót sem hún færði mér á byltingarkonuna Mæju. Mæja réð sig til okkar, sem þá vorum orðin frístundabændur á Sandlæk, á sauðburði þau árin sem við vorum með kindur. Ég minnist vorkvölda, þar sem við sátum úti á tröppum í blíðunni og spjölluðum, þar sem við horfðum saman á sólarlagið og hlustuðum á fuglasinfóníuna, svo fór ég á næturvaktina en hún tók við á morgunvaktinni. Hún var einstaklega natin og vökull fjárhirðir, þarna var sveitakona, sem hjúkraði veikburða lömbum og syrgði með kindum sem misstu lömb. Þar sá hún sig, sem hafði sjálf misst ófullburða barn á yngri árum.
Fyrstu árin í Stigahlíð voru þeim Mæju og Gianpiero góður tími, þau stunduðu sína vinnu og lifðu kyrrlátu lífi. En svo tók að halla undan fæti og smám saman varð Bakkus frekari förunautur minnar kæru vinkonu, með þeim andlegu veikindum sem sækja á við þannig aðstæður. Gianpiero var hennar fastastæða og það var sannarlega mikið áfall fyrir Mæju þegar hann veiktist af lungnakrabbameini sem dró hann til dauða á þremur mánuðum árið 2016.
Frá árinu 2018 hefur Mæja dvalið lengst af í þorpinu Cabo Roig á Spáni, þar fékk hún góða íbúð nálæg klettóttri strönd. Þarna var hún í raun að láta draum þeirra Gianpieros rætast, þau höfðu alltaf stefnt á búsetu í hlýrra landi þegar þau hættu að vinna. En þarna dugði lífeyririnn betur en á Íslandi, þar var veðráttan betri grannvaxinni lífsreyndri konu. Þar naut hún þess að ganga með stöndinni, heilsa þar upp á villikisurnar og spjalla við vini og vandamenn á Íslandi yfir netið á meðan hún og drakk morgunkaffið í sólinni á svölunum. Þarna var hún fjarri frosti, snjó og köldum vindi föðurlandsins. Þarna var hægt að vera á léttum sumarkjólum mestan hluta ársins, þarna var fólk úr öllum kimum heimsins, og eins og fyrr eignaðist Mæja ekki síður vini úr fjarlægum löngum. Hún kynntist líka góðum konum úr hópi þeirra Íslendinga sem þarna dvelja í lengri eða skemmri tíma. Fyrst var það Margrét og síðar Unnur sem voru henni mjög mikils virði, eins konar jarðtenging á því sem átti eftir að verða hennar síðasta tímabili lífsins. Þær eiga einnig þakkir skildar fyrir að hafa verið okkur fólkinu hennar Mæju innan handar síðan hún lenti í slysinu.
Við Bjarni heimsóttum Mæju vorið 2019, við áttum yndislega viku í sólinni á svölunum öll þrjú, ferðuðumst um sveitirnar, upp í fjöllin og niður að sjó, inn í þorp og bæi, borðuðum góðan mat, gengum, spjölluðum um lífið og tilveruna, hlógum og nutum samverunnar. Svo kom að því að Mæja varð mér ómetanlegur stuðningur þegar Bjarni minn lést fyrir rúmum tveimur árum, þá vissi ég að hún skildi betur en flestir aðrir hvernig var að missa sinn allra besta vin. Hún var mér sem systir úr fjarlægðinni. Allt það annað sem við deildum undir fjögur augu í gleði og sorgum öll þessi 40 ár sem báðar lifðu verður hins vegar aldrei sett á prent. Það eru og verða okkar vinkvennamál.
Nú, í byrjun apríl, féll dómur í Hæstarétti. Í máli sem baráttukonan Mæja bjó undir málsókn með starfsmönnum Öryrkjabandalagsins, en þar var hennar saga lögð til grundvallar. Þar kom eðlislæg greind og seigla Mæju til skjalanna, en málið var höfðaði gegn Tryggingastofnun vegna óréttmætrar skerðingar lífeyris vegna búsetu í öðru landi. Málið var háð með fulltingi Öryrkjabandalagsins sem prófmál fyrir þá ótalmörgu sem sæta lífeyrisskerðingum vegna búsetu erlendis einhvern hluta ævinnar. Síðustu mánuði lífsins beið Mæja óþreyjufull eftir þessum dómi, óhagstætt gengi gerði það að verkum að sífellt var erfiðara að lifa af lífeyrinum skerta. En örlögin höguðu því þannig að heiðurinn og sigurinn var ekki ætlaður henni í lifanda lífi. Aðrir njóta, fyrst og fremst samherjarnir, lífeyrisþegarnir. Það er sannarlega huggun harmi gegn, en hennar verður þó alltaf heiðurinn.
Tökur frá því 11. nóvember sl. úr eftirlitsmyndavél á þaki húss í götunni hennar Mæju vitna um atburð þar sem óvarkár ökumaður á miklum hraða keyrir niður konu sem er á heimleið úr matvörubúðinni með vatnsbrúsa og fleiri nauðsynjar í innkaupapoka. Þessi kona var Mæja. Hún slasaðist illa, var lengi meðvitundarlaus, mölbrotin á mjöðmum og fótum. Ég er forsjóninni afar þakklát fyrir að hafa getað skroppið til hennar ásamt fólki úr fjölskyldunni hennar og verið hjá henni örfáar stundir á sjúkrahúsinu þar sem hún barðist fyrir lífi sínu. Hugsunin var heil en líkamlegur skaði mikill. Hún lést af sárum sínum þegar allt virtist á batavegi, um sex vikum seinna, þann 22. desember. Ég sakna sárt góðrar vinkonu en er þakklát fyrir þann þroska sem ég öðlaðist af kynnunum við litríka trygglynda konu og líka góða drenginn sem var hennar maður, hann Gianpiero. Nú fær hún legstað við hlið hans í Sóllandi. Ég heyri sungið í fjarlægðinni ó leyf mér þig að leiða til landsins fjallaheiða... eins og Mæja raulaði svo gjarnan þegar móti blés nú á síðasta tímabili ævinnar. Hvíli Mæja mín hjá sínum í eilífum friði.
Innilegustu samúðarkveðjur frá mér og mínum til Siffu, systur Mæju, systursonanna góðu, Nóna, Svabba og Villa, og þeirra fjölskyldna. Blessuð sé minning Maríu Aðalheiðar Sigmundsdóttur.
Elín Erlingsdóttir