Valgeir Sighvatsson fæddist 3. apríl 1928 á Höfða í Dýrafirði. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, HSS, 29. mars 2022.
Foreldrar hans voru Sigríður Jóna Jónsdóttir, f. 24. október 1901, d. 1994, og Sighvatur Jónsson, f. 8. nóvember 1891, d. 1981.
Systkini Valgeirs eru: 1) Þórarinn, f. 21. desember 1922, d. júlí 2006, maki Karlotta J. Rist, f. 13. nóvember 1919, d. janúar 1992. Þau áttu tvö börn, Þóru Margréti og Sighvat Jón. 2) Jóna Margrét, f. 13. apríl 1947, maki Sigurður Örn Bergsson, f. 5. desember 1944, þeirra börn eru Sigríður Hafdís, Bergur Páll og Arnar Már.
Eftirlifandi kona Valgeirs er Ingibjörg Einarsdóttir frá Stokkseyrarseli, Flóa, f. 28. febrúar 1936, þau gengu í hjónaband 25. desember 1964. Foreldrar Ingibjargar voru Einar Einarsson frá Berjanesi V-Landeyjum, f. 4. október 1894, d. 18. október 1971, og Stefanía Guðmundsdóttir frá Sigluvík V-Landeyjum, f. 8. mars 1903, d. 9. ágúst 1957. Dóttir Valgeirs og Ingibjargar er Stefanía, f. 3. nóvember 1964, maki Kristmundur Ármann Jónsson, f. 14. mars 1964. Börn þeirra eru: a) Ingibjörg Árný, f. 11. júlí 1993, maki Ólafur Sigurgeirsson, sonur þeirra er Emil Orri, þau eru búsett í Noregi. b) Einar Ingi, f. 22. október 1996, unnusta Karen Rós Brynjarsdóttir.
Valgeir var tvíkvæntur, fyrri kona hans var Stella Elsa Gunnarsdóttir frá Morastöðum í Kjós, f. 30. júní 1935, þau slitu samvistum 1958. Dætur þeirra eru: 1) Guðrún Margrét, f. 18. júní 1954, maki Hilmar Guðmundsson, f. 3. mars 1953. Synir þeirra eru: a) Valgeir Elíasson, f. 8. júlí 1971, maki Hrefna Kristín Þorbjörnsdóttir, börn þeirra eru Sara Dröfn, unnusti Ingimundur Guðjónsson, Guðrún Margrét og Atli og á hann soninn Karel Frey. b) Guðmundur Hilmarsson, f. 16. desember 1981, maki Ana Stina Hellebö, dætur þeirra eru María Anisia og Paula Angelica, þau eru búsett á Spáni. 2) Aðalheiður Valgeirsdóttir, f. 19. október 1955, maki J. Helgi Bjarnason, f. 22. mars 1953. Börn þeirra eru a) Linda, f. 6. janúar 1976, maki Sigmar B. Scheving, þeirra börn eru Andri, unnusta Sandra Dögg Björnsdóttir, og Birgitta, unnusti Óskar Jónsson. b) Bjarni, f. 8. júní 1979, maki Kristín Björg Halldórsdóttir, synir þeirra eru Helgi og Brynjar Logi, þau eru búsett í Noregi.
Valgeir fluttist ungur til Reykjavíkur, vann almenn störf, s.s. við byggingar- og vegavinnu, en eftir það sem atvinnubílstjóri. Í fyrstu sem leigubílstjóri, en árið 1954 hóf hann störf sem rútubílstjóri hjá Steindóri Einarssyni Reykjavík. Árið 1968 flutti fjölskyldan til Keflavíkur og hóf Valgeir þá störf hjá Sérleyfisbifreiðum Keflavíkur (SBK), þar sem hann vann til starfsloka.
Útför Valgeirs fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 12. apríl 2022, klukkan 13.
Læt ég nú hugann reika yfir liðna tíð og leyfi því að koma sem koma vill og kem því á prent elsku pabbi.
Ein af mínum fyrstu minningum af pabba og mér er við búðarglugga leikfangaverslunar í Reykjavík, þar var þetta líka forláta leikfangastrauborð, hvítt með rauðum borða á hliðunum. Mig langaði mjög mikið í þetta strauborð og sagði pabba að ég myndi strauja alla tóbaksklútana hans ef ég bara ætti svona borð. Ég fékk að mig minnir strauborðið góða í afmælisgjöf, en man ekkert sérstaklega eftir að hafa staðið við að strauja vasaklúta nema kannski fyrsta daginn. Þegar ég horfi til baka sé ég að ég hef snemma náð tækni við að sannfæra pabba um eitt og annað sem hefur komið sér vel við hinar ýmsu aðstæður, t.d. við að fá hann til að ferðast með okkur á efri árum til Los Angeles, Las Vegas, Norður-Noregs og Ungverjalands svo eitthvað sé nefnt. Pabbi þurfti ekkert að fara á þessa staði, hann sagði með sínum einstaka hætti ég hef séð þetta allt áður en lét þó undan þrýstingi fyrir okkur, krakkana okkar og hana mömmu. Síðasta ferðalag okkar var til Noregs árið 2019 þar sem við systurnar þrjár ásamt mökum og hluta af okkar börnum héldum jólaboð í Haugasundi hjá Ingibjörgu minni og Óla. Áttum við sem þar vorum saman góð og gleðileg jól. Að þessari ferð lokinni sagði pabbi nú fer ég ekki meira til útlanda. Eins mikill suðari og ég er þá virti ég þessa afstöðu pabba og lét ógert að nuða í honum um fleiri ferðir enda hann búinn að gera meira en margur kominn á hans aldur hefði látið hafa sig út í. Ég segi því takk elsku pabbi fyrir að hafa farið með okkur í allar þessar ferðir, minningarnar sem við eigum úr þeim eru dýrmætur fjársjóður sem við getum yljað okkur við þegar söknuður og sorg nístir hjarta okkar.
Eins hugsa ég með hlýju og stolti af pabba mínum um allar rútuferðirnar sem ég fór með þér. Áætlunarferðir SBK: Keflavík Reykjavík, Garður Sandgerði, að ógleymdum Vellinum, það var einmitt í þeim ferðum sem ég lærði mín fyrstu orð í ensku hjá pabba sem talaði þó ekki ensku. Það var nefnilega þannig á þessum árum að það bjuggu þó nokkrar Amerískar fjölskyldur í Keflavík/Njarðvík. Börnum þeirra var ekið í skóla sem var á herstöðinni sem í daglegu tali var kölluð Völlurinn. Ég fékk stundum að fara með pabba að sækja krakkana á Völlinn að skóladegi loknum. Amerísku kakkarnir sem höfðu sennilega setið stilltir og prúðir í skólanum allan daginn og vantaði örugglega að fá útrás, voru vægast sagt snargalnir í rútunni margir af þessum krökkum voru á mínum aldri og ég hafði bara aldrei séð aðra eins óþekktarorma. Þau stóðu í sætum og létu öllum illum látum, þegar allt virtist um koll að keyra stoppaði pabbi stundum rútuna út í vegkanti, stóð upp og hrópaði eins hátt og hann gat "shut up and sit down!" sem útleggst á góðri íslensku: Haldið kjafti og setjist niður! Já, þetta var það fyrsta sem ég lærði í ensku og hann pabbi minn kenndi mér það. Af farþegunum var það oftast að frétta að þeir þögðu í smá stund og svo hófust lætin aftur af fullum krafti. Þetta var áður en aðstoðarmenn í skólarútur voru fundnir upp. Vá, hvað ég var stolt af honum pabba mínum og í sumum af þessum ferðum áður en krakkarnir voru sóttir í skólann var stoppað í byggingu á Vellinum þar sem sælgætissjálfsalar voru með amerísku gotti. Pabbi lumaði oftar en ekki á dollurum og sentum sem notað var til að kaupa M&M-kúlur eða annað góðgæti sem ekki var á boðstólnum utan Vallar. Þetta voru góðar stundir með pabba, takk pabbi fyrir að hafa leyft mér að fara þessar ferðir með þér.
Mundi minn kom inn í líf mitt þegar ég var 16 ára. Pabbi og mamma buðu honum að flytja til okkar í Miðtúnið og bjuggum við hjá þeim til 19 ára aldurs. Takk elsku pabbi og mamma fyrir að hafa leyft okkur að búa hjá ykkur þennan tíma. Þegar við vorum búin að kaupa okkur íbúð þá stóð nú ekki á honum pabba mínum að hjálpa okkur við að mála og standsetja nýja heimilið okkar og kenndir þú okkur svo ótalmargt í þeim efnum elsku pabbi.
Fyrsta barnið okkar var svart, loðið með fjóra fætur og hét Perla. Með tilkomu hennar fóru pabbi og mamma alveg í hundana, komu þau daglega til okkar og fóru í göngutúra með ferfætlinginn.
Mesta gæfa lífs okkar var að eignast Ingibjörgu og Einar Inga, pabbi og mamma hafa hjálpað okkur endalaust við að hugsa um þessa gullmola okkar. Takk elsku pabbi og mamma fyrir alla pössunina á börnunum okkar og ég veit að þau þakka líka fyrir allar stundirnar sem þau dvöldu í góðu yfirlæti hjá ömmu og afa.
Svo var það litla geltimaskínan hún Lucy okkar sem var hjá okkur í 14 ár og hann pabbi og hún mamma sóttu niður í Suðurgarð alla daga svo hún gæti dvalið hjá þeim á daginn í Norðurgarðinum. Einnig verð ég að minnast á hreinræktaða villiköttinn hann Snúlla Einarsson sem líka var í dagdvöl hjá afa og ömmu í Norðurgarði.
Um tíma vorum við Mundi að gera út smábát og þá kom hann pabbi minn ósjaldan niður á bryggju til að hjálpa Munda að landa og dytta að bátunum. Við sögðum svona í gamni, okkar á milli að pabbi væri landformaður á Bjarma KE 3. Hann stóð sig með sóma í því eins og öllu sem hann tók sér fyrir hendur.
Þegar ég skrifa þetta sem hér er komið á blað get ég ekki annað enn sagt VÁ! Hvað ég og við öll erum heppin að hafa átt besta pabba, tengdapabba og afa sem hægt er að hugsa sér. Já og svo ekki sé minnst á hana mömmu sem er besta mamma, tengdamamma og amma í heimi, sem af einstakri natni hugsaði svo vel um hann pabba sem gerði það að verkum að við fengum að hafa hann svona lengi hjá okkur. Nú verð ég að hætta þessu því mamma má aldrei heyra á þetta minnst.
Elsku pabbi, komið er að kveðjustund. Þú ókst í burtu á Gullvagninum þann 29. mars 2022 frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og vil ég þakka því góða fólki sem annaðist þig þar fyrir að hafa hugsað vel um hann pabba minn. Ég vil enda þessar hugrenningar mínar með einni af bænunum sem þú kenndir mér.
Vertu Guð faðir faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni.
Hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.
Guð geymi þig, elsku pabbi, tengdapabbi og afi.
Fjölskyldan Suðurgarði 3,Stefanía Valgeirsdóttir